Stórar siðferðisspurningar hjá frábærum höfundi

tiundi-madurinnTíundi maðurinn eftir Graham Greene var skrifuð árið 1944 þótt hún væri ekki gefin út fyrr en árið 1983. Ástæðan var sú að handritið gleymdist og þegar það fannst fyrir tilviljun í skjalasafni Metro-Goldwyn-Mayer kom það öllum óvart, höfundinum sjálfum líka. Graham Greene var sjötíu og níu ára þegar þetta var og rámaði helst í að hafa verið að skrifa hjá sér nótur til undirbúnings sögu um þetta efni en minnist þess ekki að hafa klárað heilstæða sögu eins og var raunin. Þetta er áhugaverð bók sem veltir upp stórum spurningum um hvers virði mannslífið er og hvort einn maður geti verið verðmætari en annar.

Sagan gerist í stríðsfangabúðum Þjóðaverja. Þar situr fanginn meðal þrjátíu og tveggja annarra efnaður franskur lögfræðingur Louis Chavel að nafni. Dag nokkurn tilkynnir þýskur foringi þeim að hópurinn verði að velja úr þrjá menn sem síðan verði skotnir daginn eftir. Þeir ákveða að láta hendingu ráða. Búa til þrjátíu og tvo pappírsmiðja og teikna krossa á þrjá. Þeir sem draga krossana verða síðan að ganga fyrir aftökusveitina daginn eftir. Tveir þeirra taka örlögum sínum af æðruleysi en Louis Chavel fallast gersamlega hendur. Hann grætur og barmar sér og lofar klefafélaga sínum að hann muni gefa fjölskyldu hans auðævi sín ef hann taki við krossinum. Klefafélaginn Janvier samþykkir það. En ákvörðunin dregur dilk á eftir sér. Systir Janviers getur hvorki sætt sig við gerðir bróður síns né fyrirgefið Louis Chavel að hafa sett hann í þessi spor.

Graham Greene er frábær höfundur. Hans þekktustu bækur, Brighton Rock, The Power and the Glory, the End of the Affair, Our Man in Havana og the Quiet American eru klassískar og einkar vel skrifaðar. Tíundi maðurinn er ber öll höfundareinkenni þessa stílsnillings. Hér er engu orði ofaukið en höfundi tekst að skapa bæði spennu og hræra í tilfinningum lesenda. Hann dregur upp áhrifaríkar myndir og vekur spurningar. Senan þar sem Louis lýsir fyrir hinum dauðadæmda Janvier fegurð hússins og landareignarinnar sem hann hefur afsalað sér til félaga síns sem veit þó að hann mun aldrei njóta þessa er sérstaklega eftirminnileg.

Hið sama má segja um hvernig Thérèse, systur Janviers, er lýst. Hún er full haturs á manninum sem var valdur að dauða bróður hennar og getur ekki þess vegna iðkað trú sína. Hún er kaþólsk og svo brennandi hatur og skortur á fyrirgefningu er synd. Thérèse er því dæmd til að deyja án þess að njóta náðar guðs. Louis Chavel er lítið betur staddur því hann er eignalaus og í raun bjargarlaus. Og þarna er önnur mikilvæg og áhugaverð spurning. Geta menn byrjað upp á nýtt og aðlagast nýjum aðstæðum gerólíkum þeim sem þeir þekktu áður? Thérèse og móður hennar líður ekki vel í glæsihúsinu sem þær nú eiga og Louis þarf að villa á sér heimildir til að geta fundið vinnu og þak yfir höfuðið. Hér er stórar siðferðisspurningar undir og stundum eru fórnir færðar algjörlega að ástæðulausu og engum til gagns.


Bók handa skapandi börnum

Fyrir um það bil 500 árum var fólk læsara á myndir og tákn en texta og stundum finnst mér að Islensk_myndlist_72þeir tímar séu að renna upp að nýju með öllum þeim tjáknum, skammstöfunum og orðastyttingum sem farið er að nota í símaskilaboðum og tölvupóstum. Kannski er þetta til marks um að ritað mál sé á undanhaldi en þá ætti að felast í því tækifæri fyrir myndlist að ryðja sér fyrirferðarmeira rými í daglegu lífi. Ef svo er má segja að Margrét Tryggvadóttir hafi hitt á óskastund fyrir bók sína, Íslensk myndlist og fólkið sem ruddi brautina.

Það er frábærlega vel unnin bók. Umbrotið er fallegt, pappírinn veglegur, myndirnar vel valdar og textinn vandaður. Bókin er hugsuð sem inngangur að myndlist fyrir krakka og unglinga en er ekki síður áhugaverð fyrir fullorðið fólk. Hér er sagt í stuttu og skýru máli frá ýmsum aðferðum við að skapa list og fyrstu íslensku myndlistarmönnunum. Auðvitað var hér alla tíð fólk sem kaus að tjá sig í margvíslegri listsköpun, tréútskurði, smíðavinnu, myndskreytingum, vefnaði og útsaum og eflaust fleiri efni verið notuð til að skapa listfagra gripi. Þau sem sagt er frá í bókinni eru hins vegar fyrstu Íslendingarnir til að beinlínis mennta sig í myndlist og leitast við að gera hana að ævistarfi. 

Við þekkjum auðvitað þetta fólk, list þeirra er víða að finna í almannarýmum en hér er varpað ljósi á listsköpun þeirra og sagt stuttlega frá ævi þeirra. Þetta stórfín leið til að opna ungu fólki leið inn í listheiminn og gera þau læsari á myndmál, tákn, form og innihald myndverka. Margréti tekst einkar vel að gera hlutina aðgengilega og vekja til umhugsunar. Hún gerði þetta líka einstaklega vel í bók sinni um Kjarval og hér er komið frábært skref til að gefa skapandi börnum innsýn í sögu og möguleika myndlistar á Íslandi.


Kúvending á lífinu

imagesHafi einhver efast um að sá hópur útlendinga sem hingað flytja sé fjölbreyttur hópur er bókin, Þá breyttist allt, eftir þær Margréti Blöndal og Guðríði Haraldsdóttur nauðsynleg lesning. Ellefu manneskjur segja þar sögu sína og rekja ástæður þess að þær völdu að koma til Íslands og setjast að. Allt er þetta hæfileikafólk sem leggur mikið af mörkum til þess samfélags sem það býr í. Sum lögðu á flótta frá stríðsátökum, önnur komu af ævintýraþrá og enn önnur í leit að betra lífi og tækifærum sem ekki gáfust í heimalandinu. Þau eiga það hins vegar sameiginlegt að vera harðdugleg og tilbúin að leggja mikið á sig til að læra tungumálið og öðlast skilning á íslensku þjóðfélagi.

Það er gaman að sjá landið sitt og fólkið með augum nýbúa og stórkostlegt að vita að þau sem þarna tjá sig voru öll svo heppin að mæta velvilja og stuðningi frá þeim sem þau hittu fyrst við komuna hingað. Eiginlega er ekki hægt annað en verða snortinn og um leið hreykinn af því að enn séu svo margir á Íslandi tilbúnir að rétta ókunnugum hjálparhönd og taka vel á móti gestum hvaðan sem þeir koma. Bókin er veluppsett, vel skrifuð og athyglisverð. Þær Margrét og Guðríður eiga hrós skilið fyrir að finna þetta fólk og koma sögum þeirra á blað því þær eru fjölbreyttar og merkilega.


Er ofbeldishneigð ættgeng?

Bölvunin eftir Christoffer Carlsson er óvenjuleg sakamálasaga að því leyti að glæpurinn og Bolvuninlausn hans eru ekki þungamiðja sögunnar heldur hvaða áhrif það hefur á nákomna og samfélagið þegar voðaverk er framið. Óveðursnótt eina kviknar í bóndabýli og þegar menn taka að skoða rústirnar finnst lík ungrar konu og réttarkrufning leiðir í ljós að hún var látin áður en eldurinn braust út og hafði verið myrt.

Ísak á náið og gott samband við Edvard móðurbróður sinn. Drengurinn lítur upp til eldra mannsins en þegar Edvard er sakaður um morðið á kærustu sinni og dæmdur í fangelsi fer veröld Ísaks á hvolf. Hvað ef hann er eins og móðurafi hans og Edvard, ofbeldishneigður? Er það bölvunin sem hvílir á fjölskyldunni?

Á sama tíma og Ísak vex upp með skarlatsrauðan staf á bakinu vegna gerða afans sem barði konuna sína og móðurbróðurins sem hugsanlega sína lætur málið Viðar Jörgensen lögreglumann ekki í friði. Honum finnst eitthvað vanta og þegar hann rekst á svipaða atburðarás í öðrum bæ opnar hann málið að nýju án þess að tala við yfirmenn sína.

Christoffer Carlsson er afbrotafræðingur og rithöfundur og velþekktur á báðum sviðum í Svíþjóð. Hann skrifar af ótrúlegri næmni og persónur hans eru eftirminnilegar og lesandinn á auðvelt með að fá samúð með þeim. Bölvunin er frábær saga og góð lesning í lok sumars.


Eldar af ýmsum toga

Eldur er einn af fjórum náttúrulegum frumkröftum, óútreiknanlegur og óhaminn verður hann oft að eyðingarafli sem ekkert getur tafið. En það er líka til huglægir logar. Ófriðareldar eru af ýmsum gerðum og margvíslegum toga en víst er að þeir ýta oftar en ekki af stað ófyrirsjáanlegri atburðarás.

Eldur í bakgarðinum

eldarnir-kiljukapaJörð hefur skolfið og rofnað til skiptis á Reykjanesi síðastliðin þrjú ár og minnt okkur óþyrmilega á að við búum á eldfjallaeyju. En hvað ef neðansjávargos hæfist úti fyrir Keflavík og svo tæki að gjósa á sprungum í Krísuvík og víðar? Einmitt þessari spurningu svarar bók Sigríðar Hagalín Björnsdóttur Eldarnir.

Líkt og segir í sögunni eru Íslendingar merkilega óhræddir við eldgos og náttúruhamfarir. Einhver jarðvísindamaður sagði í viðtali eftir að nýjasta gossprungan opnaðist að ólíkt öðrum þjóðum sem hlypu frá eldgosum hlypu Íslendingar að þeim og það er rétt. Hér rjúka menn upp milli handa og fóta fari að gjósa og keyra á staðinn. Reyna að komast eins nálægt og nokkur kostur er og stökkva jafnvel upp á storknandi hraun rétt við glóandi eimyrjuna. Í bókinni Eldunum veltir Anna Arnardóttir forstöðumaður Jarðvísindastofnunar og aðalsöguhetjan því fyrir sér hvort það geti verið vegna þess að hingað til hafa eldfjöllin okkar verið mild og stillt. Hekla gosið ljúfum túristagosum, Katla varla bært á sér og Eyjafjallajökull truflaði tímabundið flugumferð og spúði ösku yfir nærliggjandi bæi. Enginn dó, engin sveit lagðist í eyði og búfénaði var hlíft. Það er helst í Vestmannaeyjagosinu að ógnin varð áþreifanleg en jafnvel þar fór betur en áhorfðist í fyrstu. 

Já, náttúra landsins er ógnvænleg og miskunnarlaus en það er ástin líka. Hún getur komið aftan að bestu mönnum og konum, ýtt óþyrmilega við þeim og hrundið af stað atburðarrás sem enginn sá fyrir eða ætlaði sér. Anna er vísindamaður, jarðbundin með tröllatrú á rannsóknum og sannreynanlegum staðreyndum. Þegar fréttasnápar, stjórnmálamenn og ljósmyndarar troða sér með henni í könnunarflug yfir neðansjávargosið horfist hún í augu við Tómas Adler í fyrsta sinn. Hann er kominn til að mynda hamfarirnar og þarna rétt við eldingarnar í gosmekkinum kvikna einhverjir neistar. Anna og Tómas verða ástfangin og tilvera Önnu umhverfist, rétt eins og þar hafi orðið hamfarir líka.

Sigríður Hagalín Björnsdóttir stimplaði sig rækilega inn í íslenska rithöfundastétt með bókinni Eyland. Í fyrra sendi hún svo frá sér sögulega skáldsögu, Hamingja þessa heims, áður voru komnar, Hið heilaga orð og Eyland. Bækur hennar eiga það sameiginlegt að vera framúrstefnulegar, nokkurs konar vísindaskáldsögur. Í Eyland veltir hún fyrir sér hvað muni gerast ef tengsl Íslands við umheiminn rofnuðu, ef eylandið stæði eitt í einangrun sinni úti í Atlantshafi. Hið heilaga orð á hinn bóginn fjallar um bróður í leit að systur sinni. Sú hafði horfið frá ungu barni sínu, farið sjálfviljug upp í flugvél og flogið til Bandaríkjanna. Til að finna hana þarf bróðirinn að gera upp ýmis mál tengd sambandi þeirra og fjölskyldusögu. Bækur Sigríðar eru frumlegar, vel skrifaðar og hverfast um áhugavert fólk. 

Að slökkva elda

Litlir-eldar-kapaÍ Bandaríkjunum tala foreldrar stundum um að uppeldi barna samanstandi af því að vera alltaf að slökkva litla elda. Celeste Ng hendir þennan frasa á lofti og nýtir hann sem umgjörð utan um þemað í bók sinni Litlir eldar alls staðar. Þetta er önnur bók hennar sem gerist í Shaker Hill-hverfinu. Fullkomnu úthverfi efnafólks þar sem reglur um umgengni og siði eru strangar og allir fara eftir þeim. Richardson-fjölskyldan er áreiðanlega sú fullkomnasta í þessari útópíu ef Izzy, yngsta barnið er undanskilin. Elena Richardson á fjögur börn, fullkomið hús, umhyggjusaman eiginmann, gegnir góðri stöðu og er sjálf sem næst sprungulaus, í það minnsta á yfirborðinu. Þegar einstæð móðir og listakona, Mia, flytur inn í leiguíbúð í eigu Elenu kynnist Moody, einn úr barnahópi hennar, Pearl dóttur Miu og það hefur óvænt áhrif á líf þeirra allra. Hér er fjallað um foreldrahlutverkið í víðum skilningi og spurt margra erfiðra spurning. Hvenær velja foreldrar raunverulega það sem er best fyrir börnin? Á einhver rétt á að eignast barn og hver á barn, sá býður því allsnægtir og ást eða hinn sem á ekkert nema ást? Í þessari einstaklega vel skrifuðu og hrífandi sögu er kafað ofan í þetta en einnig tengsl innan fjölskyldna, stöðu barna í systkinahópi og hvernig það er að passa alls ekki inn í hópinn sinn.

Aðrir eldar

26556Harry Potter og eldbikarinn, Eldar kvikna úr þríleiknum um Hungurleikana, Aska Angelu og Farhenheit 451 eru allt dæmi um bækur þar sem eldur leikur eða afleiðingar elda leika hlutverk. Eldurinn er iðulega táknrænn fyrir stríðsátök og illsku. En líka eins og í ösku Angelu fyrir þann hreinsunareld sem fátækt getur verið mannfólkinu. Harry Potter og Hungurleikarnir eru hins vegar frábærar ævintýrabækur, góð afþreying og vel skrifaðar. En á meðan jarðeldar geisa á Reykjanesi getur verið áhugavert að skemmta sér við að lesa um margvíslega aðra elda. 

 


Af kláðabókmenntum og annarri ertingu

9789979224129Nýlega hlustaði ég á útvarpsþátt þar sem var í viðtali karlmaður og hann viðhafði orðið kláðabókmenntir um tiltekna tegund ævisagna eða viðtalsbóka. Hann útskýrði hugtakið þannig að hárfín lína væri milli hins smekklega og ósmekklega þegar fjallað væri um erfiða hluti í ævi fólks og varlega yrði að stíga til jarðar til að fara ekki yfir hana. Þeir sem rynnu yfir þessa línu væru sem sé höfundar kláðabóka.

Ég taldi mig skilja nokkuð vel hvað þessi karlmaður átti við en hann er einn þriggja sem ég hef heyrt viðhafa þetta orð og líkja því við kláða þegar fólk tjáir tilfinningar sínar og rekur áföll af einlægni og hreinskiptni. Þessir þrír hafa allir verið karlar komnir af léttasta skeiði. Ég stend held ég á umferðareyju milli þeirrar kynslóðar sem taldi óþarfi að klóra hrúðrið af gömlum sárum og hinnar sem telur að meinið verði að viðra til að súrefnið lækni það. Ég var alin upp við að sumt talaði maður ekki um, einkum og sérílagi ef það kastaði rýrð á heimili manns eða fjölskyldu. Annað átti aðeins við bak við luktar dyr og þá hvíslað í eyru einhvers sem maður treysti vel. Öllum sárindum átti maður að kyngja og það bar vott um stolt og reisn að bera höfuðið hátt og láta engan bilbug á sér finna þótt erfið áföll dyndu yfir. 

En svo fóru fræðimenn að rannsaka áhrif sálrænna áfalla og í ljós kom að ef þeim var kyngt ollu þau meinsemdum jafnt í huga sem líkama og fólk var hvatt til að tala, vinna úr áföllunum. Og hugsanlega hafa karlarnir sem þola kláðann rétt fyrir sér. Það kann vel að vera ef menn klóra, klæji þá enn meir og endi með að klóra þar til undan blæðir. En það er eitthvað hrokafullt og ógeðfellt við að líkja tilfinningum og sárum annarra við kláða. Eitthvað sem slær mig illa, sérstaklega vegna þess að stílbrögð í frásögnum er alltaf spurning um smekk. Á tólftu og þrettándu öld var úrdráttur vinsæll, eins Íslendingasögur bera með sér, og þar var ekki verið að velta sér upp úr eða útskýra tilfinningar helstu persóna. Menn bitu á jaxlinn og þögðu hvort sem höggnir voru af þeim útlimir eða þeir sviknir í tryggðum.

BarnidIGardinum_72Nú er öldin önnur. Fólk telur sig hafa rétt á að segja sögu sína umbúðalaust og rekja að á þeim hafi verið brotið. Og já, þá dragast allajafna aðrir inn í og það getur valdið sárindum og vanlíðan. Enn stöndum við nefnilega á mörkum hins gamla og hins nýja viðhorfs. Ég hef starfað nægilega lengi í blaðamennsku til að þekkja að margt af því sem þykir sjálfsagt í dag hefði aldrei liðist þegar ég var að byrja minn feril. Ég man til að mynda vel að þegar ég skilaði einu af mínum fyrstu viðtölum hafði ég lýst umhverfi viðmælanda míns og sagt hversu vel mér þætti falleg stofan og postulínsbollarnir klæða þessa glæsilegu konu. Ritstjórinn strikaði þessar velorðuðu setningar sem ég hafði legið yfir út, leit upp og sagði við mig: „Don‘t be cute!“ Hann meinti, ekki blanda sjálfri þér og þínum skoðunum í viðtalið og reyna þannig að öðlast velvild lesenda þinna, sem sé vera krúttleg.

Nú er öldin önnur. Blaðamenn lýsa hiklaust skoðunum sínum á viðmælendum og hvaða áhrif þeir hafa á þá, tala um kaffibollana, meðlætið, mjúka sófann og allt hvað er. Útvarpsmenn leyfa okkur að heyra þegar þeir hringja dyrabjöllunni hjá viðmælandanum, murrið í kaffikönnunni þegar hellt er upp á og hlátrasköllin í sjálfum sér ef eitthvað skemmtilegt er sagt. Þegar ég gerði minn fyrsta útvarpsþátt eyddi tæknimaðurinn löngum tíma í að klippa út hláturinn í mér eftir brandara viðmælandans og skammaði mig fyrir að hafa ekki stillt mig um að hlæja þar til til ég var búin að slökkva á bandinu.

elspa-saga-konuÉg veit ekki hvort er réttara að vera tilbúinn að viðra óhreina þvottinn sinn í brakandi þerrinum eða laumast með hann í átt að snúrunni á kvöldin þegar enginn sér til. Hitt veit ég að við getum alltaf sleppt því að lesa, hlusta eða horfa á það sem okkur þykir óþægilegt. Það er rétt hjá yngri kynslóðinni og ég er með annan fótinn þar en hinn meðal karlanna sem fordæma kláðabókmenntirnar, að enginn annar getur borið ábyrgð á misgjörðum manns. Sá sem brýtur gegn öðrum á engan rétt á þögn eða tillitssemi. Bækur á borð við Manneskjusögu, Barnið í garðinum, Myndina af pabba; saga Thelmu, Elspu, Álfadal, Auðnu, Heimtur úr heljargreipum og fleiri gætu örugglega flokkast undir kláðabókmenntir en allar hafa þær varpað ljósi á ýmsar meinsemdir mannlegrar tilveru, opnað augu fólks fyrir margvíslegu óréttlæti og afleiðingum ofbeldis. Þær hafa hjálpað mörgum og skapað þarfa umræðu sem hefur skilað ýmsum áfram veginn. Er þá eitthvað athugavert að veita mönnum þá fró að klóra sér þar sem þá klæjar?


Leist vel á viskíflöskuna

FidrildarVera Stanhope yfirlögregluþjónn í Norðymbralandi er lágvaxin, feit en hnífskörp og ótrúlega fljót að sjá í gegnum flóknustu vefi sem morðingjar spinna. Í Fiðrildafangaranum þarf hún ekki bara að takast í við eitt morð heldur tvö. Fyrst finnst lík ungs manns í skurði en þegar farið er inn á dvalarstað hans finnst annar látinn maður og sá hefur verið stunginn.  Veru og samstarfsmanna hennar bíður það erfiða verkefni að finna út hver sá er. Þau Vera, Holly og Joe hafa hvert sína hæfileika og saman eru þau frábært teymi. 

Ann Cleeves er frábær rithöfundur. Henni er einkar lagið að skapa áhugaverðar persónur og að skapa trúverðugt umhverfi. Valley Farm er til að mynda lítið samfélag velstæðra eftirlaunaþega. Gamalt bóndabýli og útihús þess hafa verið gerð upp og þar hafa sest að þrenn hjón. Þau tala um eftirlaunasællífi sitt á þessum fallega stað og þótt hann sé svolítið út úr er ekki annað að sjá á yfirborðinu en að þeim líði öllum vel. En líkt og ævinlega þarf ekki að klóra lengi í yfirborðið til að í ljós komi að margt leynist undir niðri.

Að þessu sinni skiptir höfundur sjónarhorninu stöðugt á milli persóna. Lesandinn fær innsýn inn í líf hinna grunuðu, hinna látnu og rannsóknarlögreglumannanna. Þetta er mjög skemmtilegt og Vera, feitlagin, roskin og meinlaus að sjá er engu að síður bráðskörp, mikill mannþekkjari og frábær greinandi.

Kannski er hluti af því hversu frábærar bækurnar um Veru eru að Ann Cleeves þekkir vel það umhverfi sem hún endurskapar í sögum sínum. Hún er alin upp í sveit, í Herefordskíri og Norður-Devon. Pabbi hennar var kennari og móðirin húsmóðir. Ann gekk í háskóla en hætti áður en hún hafði klárað gráðu. Hún vann við ýmislegt, meðal annars barnavernd og á kvennaathvarfi og kláraði nám sem skilorðfulltrúi. Meðal annars vann hún sem kokkur í Fuglaskoðunarstöð á Fair Isle og þar hitti hún Tim. Hann er fuglafræðingur og var við rannsóknir á eyjunni og þau urðu ástfangin og giftust. Síðar sagði hún að hún hefði heillast af viskíflöskunni sem hún sá gægjast upp úr bakpokanum hans þegar hún vísaði hún til herbergis.

Skömmu eftir að þau giftust var Tim skipaður umsjónarmaður náttúrverndarsvæðis í Dee-óshólmanum. Þar bjuggu þau við mjög frumstæðar aðstæður, ekkert rafmagn, ekkert rennandi vatn í húsinu og aðeins fært upp á meginlandið á fjöru. Þar sem Ann hafði lítinn áhuga á fuglum var ekki margt við að vera þarna fyrir hana svo hún fór að skrifa sér til dægrastyttingar en náttúran sem Hector, faðir Veru, nýtti sér til framfærslu er byggð á þessu umhverfi. Í fyrstu seríunni sem hún skrifaði var rannsakandinn George Palmer-Jones, roskinn náttúrufræðingur en síðar komu þau Vera og Jimmy Perez. Tim, Ann og dætur þeirra tvær búa enn í Norðymbralandi en Ann hefur verið virk í að örva lestraráhuga fólks á Bretlandi með ýmsum hætti, hún hefur unnið með bóksöfnum og farið inn í fangelsi og talað um bækur sínar. Þess má einnig geta að hún og þýðandinn, Snjólaug Bragadóttir, hlutu Ísnálina, íslensku glæpasagnaverðlaunin árið 2017. Hún hefur hlotið fjölmörg önnur verðlaun fyrir bækur sínar og er heiðursdoktor við Háskólann í Sunderland.


Sumar-bækur

ArmannJakobs_Prestsetrid_FRONTAllir bókaormar vita hversu mikilvægt er að velja vel þær bækur sem fljóta með í fríið. Það er ekkert verra en að hafa nógan tíma en ekkert skemmtilegt að lesa. Þær tegundir bókmennta sem helst boða vor og sumar í bókbúðum eru ástarsögur eða krimmar. Talsvert er einnig um að út komi mannlegar, hlýjar skáldsögur þegar hlýna tekur í veðri. Gallinn er hins vegar sá að sumar slíkar eru fremur væmnar en aðrar of sorglegar. 

Svangur lestrarhestur getur þess vegna aldrei verið fyllilega fullviss um að finna einhverjar bækur falli akkúrat að hans smekk. Þá er gott að velja bækur eftir höfunda sem maður þekkir fyrir og veit hverju búast má við af. Sömuleiðis er gott ráð að grípa ofan í bókina á nokkrum stöðum og lesa tvær til þrjár málsgreinar. Ef þær lofa góðu er sjálfsagt að kippa henni með.

Ástarsögur vekja ævinlega áhuga fólks. Flestir geta sett sig í spor elskendanna og þekkja vel að stundum er ástin heit og hlý en stundum sár og köld. Ótal slíkar sögur hafa náð að fanga hugi fólks og eru löngu orðnar klassískar. Hér verða nefndar nokkrar þeirra og mælt með að enginn láti hjá líða að lesa sjálfur.

Hér á eftir fer listi yfir nokkrar nýlegar bækur sem eru fyrirtaks aumarbækur:

Sjaid_okkur_dansa_72pt

 

Læknir verður til eftir Henrik Geir Garcia

Sumarblóm og heimsins grjót eftir Sigrúnu Ölbu Sigurðardóttur 

Prestsetrið eftir Ármann Jakobsson

Fiðrildafangarinn eftir Anne Cleeves, raunar allt eftir Anne Cleeves. 

Aðskotadýr eftir Unni Lindell

Helköld illska eftir Quentin Bates

Sjáið okkur dansa eftir Leilu Slimani. 

 


Þarf að klára bókina?

madame-bovary-183Um daginn deildi Jónína Leósdóttir rithöfundur grein á facebook-síðu sinni þar sem fjallað var um þær fimmtán bækur sem flestir byrja á en klára ekki. Þetta varð til þess að ég fór að hugsa um það viðhorf sem var ríkjandi í mínu uppeldi að allt sem byrjað var á skildi klárað. Þá gilti einu hvort um var að ræða matinn á disknum, húsverk, bókalestur, námskeið eða göngutúr. Ef maður hóf eitthvert verk varð að fylgja því eftir til loka. Fleira varð að gera en gott þótti. Það var ekkert aðalatriði að hlutirnir væru skemmtilegir. Þeir gátu skilað miklu án þess.

Ég veit um ótal bækur sem ég las á unglingsárunum sem ég hefði aldrei klárað hefði ég hafið lesturinn núna. Get til dæmis nefnt Madame Bovary. Sú bók var til í bókasafni heimilisins og einhvern veginn fannst okkur systrum skylda okkar að lesa það allt saman. Ég viðurkenni að ég gerði margar tilraunir að Maddömunni og leiddist hún alltaf jafnmikið en tókst að þræla mér í gegnum hana. Mér fannst Emma og Charles álíka leiðinlegar persónur og var í raun nákvæmlega sama um örlög þeirra en þessu varð að ljúka, ég var jú byrjuð.

Nú veit ég ekki hvort þetta meistaraverk Flauberts myndi höfða til mín ef ég reyndi að lesa það í dag því þannig er það oft. Bók sem eitt sinn var gríðarlegt uppáhald veldur vonbrigðum þegar hún er tekin upp síðar og öfugt. Hið sama gildir án efa um svo ótalmargt annað. Nám sem maður píndi sig í gegnum í menntaskóla í þeim eina tilgangi að ná prófi og passaði sig að gleyma öllu um leið og það var staðið. Verk sem maður tók að sér til afla tekna en kastaði vafalaust höndum til við því það var svo ótrúlega óáhugavert.

MV5BOThlM2M3N2MtN2FjYy00MzUzLTkzNjQtNTlmMmRlM2RlYTM4XkEyXkFqcGdeQXVyNzg5OTk2OA@@._V1_FMjpg_UX1000_Í dag hikar fólk ekki við að leifa matnum sínum þegar það er orðið mett, hætta í námi vegna þess að það höfðar ekki til þeirra, kasta frá sér leiðinlegri bók og láta húsverkin vera ef annað skemmtilegra kallar. Ég veit ekki hvort kvöðin að klára er betri eða heppilegri til að öðlast lífshamingju. Ég man þegar ég las alla Önnu Kareninu að mér fannst Tolstoy ekki færa mér neitt sérstaklega hagnýtan boðskap um lífshamingjuna. Hann sagði jú að allar hamingjusamar fjölskyldur væru eins en um leið sýndi hann fram á að svo var alls ekki. Allar fjölskyldur höfðu sinn skammt af hamingju og óhamingju. En Önnu Kareninu las ég spjaldanna á milli en veit ekki hvort ég hefði mig í gegnum hana í dag svo kannski er ég of smituð af þeirri hugsun að allt þurfi að vera skemmtilegt til að það sé einhvers virði.


Ást, nánd og tilgangur lífsins

download-1Sally Rooney er án efa meðal athyglisverðastu rithöfunda vorra tíma. Fyrsta bók hennar Conversations With Friends, sem fékk titilinn Okkar á milli á íslensku var bráðfyndin en jafnframt skörp greining á tengslum eða tengslaleysi ungs fólks í dag. Næst fylgdi Normal People eða venjulegt fólk. Ljúfsár og raunsönn ástarsaga og sjónvarpsþættir gerðir eftir henni slógu áhorfsmet beggja vegna Atlantsála. Nýjasta bók hennar, Beautiful World, Where Are You? eða Fagri heimur hvar ert þú? ber öll höfundareinkenni þessa frábæra höfundar sem ótrúlegt en satt er aðeins þrjátíu og tveggja ára.

Bókin fjallar um verðlaunahöfundinn Alice og vinkonu hennar frá í háskóla Eileen. Ástalíf þeirra beggja  er flókið. Eileen er ástfangin af Simon en þorir ekki að gera kröfur til hans um skuldbindingu. Í það minnsta er hann ávallt í vafa um hvað hún vill, hvort í hennar huga séu þau vinir sem eigi í kynlíf af og til eða hvort hún ætlar sér meira. Eileen er blaðamaður og starfar hjá bókmenntatímariti í Dublin en Simon stjórnmálaráðgjafi. Þau búa bæði í Dublin.

downloadAlice býr hins vegar í litlum bæ við ströndina í um það bil þriggja klukkustunda ferðafjarlægð frá höfuðborginni. Hún er þreytt og finnur fyrir kulnun. Hún fékk taugaáfall og lagðist inn á geðsjúkrahús í kjölfar sambandsslita og hefur ekki fengið góða hugmynd í langan tíma. Í raun er hún að gefast upp á að skrifa. Henni finnst það tilgangslaust í heimi þar sem Internetið skiptir öllu máli og skrifin einhvers konar vitsmunalegur leikur þegar fólk ætti að taka alvarlega á loftslagsmálum og annarri hnignun í heiminum. Frægðin hefur einnig komið aftan að henni og það hvernig fólk telur sig vita hver hún er og krafan er að hún sé þakklát fyrir allt sem henni hefur hlotnast. Hún fellur fyrir manni sem hún kynnist á Tinder, Felix er starfsmaður í vöruhúsi.

Líkt og í fyrri bókum Sally Rooney er ástin ekki einföld og þótt tilfinningar séu sannarlega í spilinu hjá þeim öllum er eins og þau nái ekki að skapa hamingju eða hreina gleði í kringum ást sína. Á milli Felix og Alice ríkir gjá, hann virðist tortryggja menntun hennar og vitsmuni. Til að mynda skýtur hann því að henni að hún hafi sjálf skrifað umfjöllunina um sig á Wikipedíu. Hún svarar: „Nei, bara bækurnar.“ Hún býður honum með sér til Rómar í kynningarferð en samband þeirra er brokkgengt í byrjun. Þær vinkonurnar tala hins vegar saman af einlægni og reyna að styðja hvor aðra með tölvupóstum.

downloadHöfundurinn á margt sameiginlegt með Alice í bókinni. Hún er nýorðin þrjátíu og tveggja ára, fædd 20. febrúar 1991. Fagri heimur, hvar ert þú er þriðja bók hennar og fyrstu tvær eru margverðlaunaðar. Hún notar í þessari bók sendibréfaformið til að koma hugsunum og tilfinningum persónanna til skila. Hún er einnig kaldhæðin og skemmtileg en einmanaleiki persónanna, leit þeirra að tengslum og tilgangi með lífi sínu er augljós. Aðeins Simon hefur fundið leið til að fylla upp í tómið. Þetta er áhugaverð bók, vel skrifuð og merkingarrík.

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband