Fréttir sem aldrei birtust

Ég gekk á Úlfarsfellið með Freyju í gærkvöldi og líkt og venjulega þegar við tvær ferðumst um fjöll saman horfði ég með öfund á tíkina sem skondraði upp og niður brekkurnar skælbrosandi. Ég skreiddist á eftir másandi og blásandi eins og strandaður hvalur þess fullviss að mín síðasta stund myndi þá og þegar renna upp. Freyja lét svo lítið að kíkja á mig af og til og svipurinn á henni sagði: Ætlar þessi aumingi að verða til hér í brekkunni eða mun honum takast að dröslast upp? Aumingjanum tókst að klöngrast upp á topp og mikil var sigurvíman þegar ég loksins gat notið útsýnisins meðan hjartslátturinn og andardrátturinn jafnaði sig. Ég veit raunar ekki hvaða sjálfspyndingarhvöt rekur mig af stað upp á fjöll á vorin en þetta er árviss atburður og alltaf er það tilhugsunin um hinar ýmsu fréttafyrirsagnir sem kemur mér á toppinn nefni hér aðeins nokkur dæmi: Miðaldra kona borin niður af Úlfarsfelli í andnauð! Sprungin í miðjum hlíðum! Miðaldurskreppa í miðju fjalli!

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Ég sé alltaf fyrir mér fyrirsögn í Mogganum: "120 farast í þotu Icelandair á leið til...." og mynd af mér í þettskipuðum röðum (látinna) farþega - þegar ég lendi í kröppum dansi í háloftum.. Það alvarlegasta við þetta er sú staðreynd, að ég verð aldrei hrædd. Þetta er bara svona eins og þögul vitneskja.

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 28.2.2007 kl. 22:31

2 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Undarlegt að þú skulir ekki hræðast svona skelfilega sýn. Mamma er mjög flughrædd og þetta er einmitt það sem hún óttast mest.

Steingerður Steinarsdóttir, 1.3.2007 kl. 13:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband