Perlur fyrir svín eða hvað?

Ef það hefur farið framhjá einhverjum þá var ég að koma frá Tenerife á fimmtudaginn var. Við Guðmundur lentum í dýraævintýri eins og venjulega þegar við ferðumst en við lentum líka í annars konar ævintýri. Við heimsóttum síðasta daginn perlumiðstöð þeirra Tenerife-búa og fengum þar að sjá ostruperlur, ferskvatnsperlur og gerviperlur og lærðum að greina þarna á milli. Slíkt er auðvitað alveg nauðsynlegt fyrir eðalslekti eins og okkur. Hvur veit nema einhver Kolaportsfrekjan reyni ljúga inn á mann glerperlum fyrir fúlgur fjár og maður gleypti við því saklaus og eins og frumbyggi. En þetta var nú útúrdúr því ég ætlaði að segja ykkur frá ostrubrunninum góða. Hann var sem sé inn á verkstæði perlumiðstöðvarinnar þar sem starfsfólk var önnum kafið við að þræða perlur og dýra steina upp á band. Við brunninn lá töng og fyrir 20 evrur eða rétt innan við 2000 kr. máttum við veiða okkur ostru og fá perluna inni í henni metna. Mögulegt var að veiða perlu að verðmæti um 60 evrur mest þannig að þessum krónum var ekki illa varið í þessa tómstundaiðju. Ég greip töngina og heimtaði að fá að veiða og Guðmundur borgaði þegjandi eins og hann er vanur. Konan opnaði ostruna mína og tók til við að káfa á skelfisknum og viti menn allt í einu birtist lítil og óskaplega falleg hvít perla. Ég fékk að koma við hana fyrst allra og óska mér um leið en meðan ég var að skola hana í þar til gerðri skál sagði ostrukonan: Hér er önnur. Þetta er mjög sjaldgæft. Og viti menn, önnur alveg eins perla gægðist út úr ostrukjötinu og ég fékk að óska mér aftur og skola aðra perlu. Alma og Jóel, skipstjórinn hans Gumma og konan hans, voru þarna með okkur og við ákváðum strax að þetta væri til marks um að fyrstu barnabörnin mín yrðu tvíburar. Tvíburaperlurnar mínar lét ég svo setja í silfureyrnalokka og get trúað ykkur fyrir því að það allt annað að bera skartgripi sem maður hefur sjálfur veitt efnið í en aðra gripi. Alma veiddi líka og fékk eina stóra og fallega perlu sem hún lét setja í hálsmen. Guðmundur varð líka að reyna veiðinef sitt og veiddi sæta 7 mm perlu sem hann tók með sér heim.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta eru ljúfar minningar, er einmitt á leið í afmæli og mun að sjálfssögðu skarta perlunni MINNI og monta mig mjög af veiðinni

Alma (IP-tala skráð) 18.3.2007 kl. 13:45

2 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Vá, perlukafarar....

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 18.3.2007 kl. 23:06

3 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Vá, fyrstu barnabörnin tvíburar ... held reyndar að það gerist ef þig DREYMIR svona. Þetta er fyrir þríburum!

Guðríður Haraldsdóttir, 19.3.2007 kl. 10:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband