Svaðilfarir og Bjarmalandsferðir

Ég er lærður leiðsögumaður og kannski eins gott að þeir útlendingar sem ég leiðsegi um landið fái aldrei veður af þessu.

Ég var að koma heim úr sumarbústaðnum og tel að þetta hljóti að flokkast með styttri slíkum ferðum því hún varði í nákvæmlega fimm og hálfa klukkustund. Ástæðan fyrir þessari fljótaskrift var sú að þegar komið var að afleggjaranum upp að bústað Blaðamannafélagsins reyndist hann ótrúlega sundurgrafinn og illfær. Ég bað Guðmund að leggja ekki í afleggjarann og kvaðst ætla að labba upp að bústaðnum og kanna aðstæður. Hann hélt nú Santa Fe hefði sig yfir smáræði eins og fáeina skipaskurði og gryfjur á stærð við Miklagljúfur. Ég hleypti tíkinni samt sem áður út og ákvað að ganga af stað. Ég var komin nær upp að bústaðnum þegar ég uppgötvaði að ekkert bólaði á Guðmundi á sínum fjallabíl. Ég sneri því við og kom að honum þar sem hann sat fastur tveimur og hálfum metra frá beygjunni inn á afleggjarann og minn var kolfastur. Eftir klukkutíma puð með skóflu, plönkum og handafli okkar hjóna gáfumst við upp og hringdum eftir hjálp. Hálftíma síðar kom vingjarnlegur bóndi á sönnum fjallatrukk og dró okkur hjónin upp á veg. Tíkin skemmti sér konunglega í snjónum á meðan og gerði meira að segja tilraun til að bera plankana að bílnum. Ég býst við að þar með hafi vinnuhundurinn komið upp í henni. Við lögðum sem sé af stað úr bænum klukkan tólf og klukkan hálf sex renndum við Santa Fe inn í heimkeyrsluna heima. Þetta er næstum alveg jafnskemmtileg ferð og bíltúrinn með Möggu gömlu frænku til sællar minningar. Þá stóð til að renna með gömlu konuna austur á Þingvelli en bíllinn hans pabba bilaði við bílskúrana í Bólstaðarhlíð. Fyrir þá sem ekki þekkja til er þessi vegalengd um 300 m. Ég gekk aftur heim í kotið þeirra pabba og mömmu við hlið Möggu frænku. Gamla konan sneri sér að mér á leiðinni og sagði brosmild: Þetta var reglulega skemmtileg ferð. Stutt en skemmtileg.

Í gær vildi þannig til að Gummi þurfti að keyra Evu á leikæfingu klukkan fimm. Því lá fyrir að hann yrði seinn til að sækja mig upp á Höfða. Veður var hið besta í höfuðborginni og ég afréð að ganga af stað heim og hitta manninn minn einhvers staðar á leiðinni. Ég arkaði sem leið lá upp að Árbæjarsafni. Þegar þangað kom minntist ég þess að hafa einhvern tíma tekið þátt í göngu gegnum safnið niður í Elliðaárdal að skoða draugaslóðir. Ég vatt mér því inn fyrir hliðið og gekk rösklega í átt að árniðnum. Neðst í brekkunni varð ljóst að safnið er vandlega afgirt með ríflega mannhæðarhárri girðingu sem hvergi virtist nokkurt gat á. Ég gaf mig þó ekki og gekk meðfram girðingunní, óð mýrarfláka upp að hnjám og sökk þess á milli í drullusvað blautra göngustíga. Eftir ríflega tveggja kílómetra göngu sá ég hlið og stökk þangað. Auðvitað reyndist það læst en þegar þarna var komið sögu var ég orðin rennandi blaut í fæturna og ergileg. Meðfædd glæpahneigð mín kom mér til hjálpar og ég klifraði upp á hliðið og stökk niður hinum megin. Ég var ekki lítið ánægð með sjálfa mig allt þar til ég uppgötvaði að um Elliðaárdalinn var gersamlega ófært sökum hálku. Ég rann niður síðustu brekkuna, fetaði mig á hraða snigilsins eftir glerhálum göngustígum út í hólmann og yfir á hinn bakkann þar sem Guðmundur beið í bílnum. Ljóst er eftir þetta ævintýri að skórnir mínir munu líklega aldrei fá hrós fyrir útlitsfegurð framar, fætur mínir munu þurfa dálaglegt skrúbb til að ná af þeim svarta litnum sem þeir tóku úr skónum og næstu vikur mun ég lifa í ótta um að fá heimsókn frá lögreglunni vegna þess að lipurlegt klifur mitt á girðingunni við Árbæjarsafn kann að hafa verið tekið upp af öryggismyndavél.

Ég veit ekki af hverju það hefur loðað við mig frá barnæsku að koma mér alltaf og ævinlega í einhverjar ógöngur þar sem aðrir sjá ekki annað en greiðfærar leiðir og beina braut. Ég brá mér líkt og vani minn er í gönguferð með tíkina eftir vinnu í gær. Við vorum á gangi í Heiðmörkinni fyrir neðan Vífilsstaðahlíð þegar mér datt í hug að kjörið væri að auka áreynsluna með því að klifra upp hlíðina. Ég fór út af göngustígnum þar sem lyngivaxnar brekkur lágu óslitið upp á topp og uppgangan reyndist greiðfær. Þegar upp var komið ákvað ég að ganga spölkorn eftir hlíðinni og fara niður nokkuð utar þar sem mig minnti að væri göngustígur. Ég gekk og gekk en hvergi bólaði á stígnum og fljótlega fór ég að örvænta. Ef ég færi ekki að koma mér niður yrði ég sennilega enn á gangi um miðnættið svo ég beygði snarlega niður í brekkuna og æddi beint af augum niður á við. Ég var ekki komin langt þegar ég var komin í verstu sjálfheldu í miðjum kjarrgróðri og komst eiginlega hvorki aftur á bak né áfram. Það var alveg sama í hvaða átt ég leit allt var jafntorfært svo ég hélt bara áfram sömu leið. Í dag er ég blóðrisa frá klyftum og niður á ökkla og buxurnar mínar og skórnir hafa lifað sitt fegursta. Tíkin var hins vegar ósködduð og fullkomlega hamingjusöm. En af hverju ég lendi endilega í svona aðstæðum veit ég ekki. Ég hef til dæmis grun um að Magga systir hefði aldrei endað á einni þúfu í miðri brekku þar sem eina færa leiðin var raunverulega upp.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Er ekki einmitt gráupplagt að skemmta túristunum með þessum sögum? Einkum ef þú sýndir þeim líka mynd af skófatnaðinum ...?

Berglind Steinsdóttir, 1.4.2007 kl. 11:42

2 identicon

Næst þegar þú ferð i göngu , taktu mömmu með. Hún datt einu sinni í lækinn við tjörnina heima og skýringing var sú að hún hefði ekki séð hann af því að hún var í vitlausum skóm ,þið eruð svo sannarlega skyldar

Hildur Þöll

Hildur Þöll (IP-tala skráð) 2.4.2007 kl. 11:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband