Ævintýri á gönguför

Við Svava systir brugðum okkur í gönguferð um Elliðaárdalinn í gærkvöldi. Svava var með sína glæsilegu dóttur, Hildu, og ég með kjörbarnið mitt unga, Freyju. Veðrið var yndislegt og vinalegur árniðurinn barst okkur til eyrna gegnum gróðurinn. Við gengum meðfram mýrarfláka og við systur komum auga á þétta þúfu af því sem okkur sýndist vera reyrgresi. Að sjálfsögðu vildum við sannreyna hvort svo væri svo við lögðum af stað niður í mýrina. Okkur hafði hins vegar láðst að gera ráð fyrir smekk kjörbarns míns og fyrr en varði hafði gulur og hvítur hundur stungið sér ofan í illa lyktandi mýrarrauðann. Mýrin var ótrúlega blaut og við forðuðum okkur eins fljótt og við gátum með óhrjálegan moldarbrúnan og tætingslegan hund okkur við hlið. Auðvitað taldi tíkin sér skylt að flaðra upp um okkur til að gefa okkur hlutdeild í þessum fyrirtaks skít sem hún hafði orðið sér út um en mér hætti að finnast þetta fyndið þegar hún hóf að velta sér upp úr úldnu heyi í skógarbotninum. Hilda og Svava hlógu sig máttlausar en mér var ekki skemmt. Út úr skóginum birtist drullugt og illa lyktandi kvikindi með heyviska standandi út úr feldinum hér og þar. Já, gott fólk leið getur lyktin orðið. Þegar við komum í bílinn aftur reyndum við að koma óhreinindaburstanum fyrir í skottinu en tíkin veit hvað hún vill. Hún streittist á móti af öllum kröftum allt þar til við leyfðum henni að stökkva upp í fangið á Hildu Margréti í aftursætinu. Hilda af einstakri ást sinni á dýrum þoldi bílferðina með þetta í fanginu og gerði sitt besta til að hylja sig með teppi svo blautur, skítugur feldurinn kæmi hvergi við hana. Jamm, þetta var sannkallað ævintýri á gönguför.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Þetta er hundalíf, greinilega.  Til hamingju með daginn og ég er viss um að þú brillerar í því sem þú ert að fara að gera í dag.  Gangi þér vel.

Jenný Anna Baldursdóttir, 19.6.2007 kl. 12:39

2 Smámynd: Svava S. Steinars

Hehehe, já ekki gleyma pollinum sem hún fann þarna síðast.  Var orðin bráðmyndarleg þessi elska - eins og hún "mamma" sín

Svava S. Steinars, 19.6.2007 kl. 16:09

3 identicon

Ja hérna hún slær nú ferfætta drulluhalanum sem ég fóstra meira að segja við,-yakk-þú átt alla mína samúð Steingerður mín.-en þær eru skolli sniðugar

Alma (IP-tala skráð) 19.6.2007 kl. 16:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband