Ormur í fyrra lífi?

Ásgeir vinur minn Helgason lýsir trúarlegri upplifun sinni þegar hann var tuttugu og sex ára á bloggsíðu sinni. Mér finnst þessi frásögn sérlega flott og það er ekki laust við að ég öfundi Geira pínulítið af því að hafa upplifað eitthvað þessu líkt. Sjálf hef ég aldrei fundið fyrir neinu svona. Þegar ég var barn óskaði ég þess heitt og innilega að ég væri skyggn og þóttist meira segja stundum sjá eitthvað meira en aðrir þegar ég var í hópi trúgjarnra barna en mínar innri sjónir lukust aldrei upp fyrir neinu hvorki lifandi eða látnu. Einhverju sinni vorum við að ræða tilfinninguna „déja vu“ við matarborðið hér heima og í ljós kom að bæði börnin mín höfðu upplifað þetta margoft en ég aldrei. Þeim fannst þetta ótrúlegt og eftir nokkrar vangaveltur komst sonur minn að þeirri niðurstöðu að þetta lægi í þróunarstigum okkar sem persóna. „Déja vu“ á nefnilega, samkvæmt kenningunni, að vera afturhvarf til fyrri lífa. Andri taldi sem sé að móðir hans væri nýkomin í mannlega mynd og þar sem ég hefði verið ormur eða fluga í fyrri lífi fyndi ég ekki til þessarar tilfinningar. Flestir menn upplifa jú, sárasjaldan það sem skordýr og lindýr finna fyrir á hverjum degi. Þessi kenning hefur óþægilegan sannleikshljóm. En einu get ég þó státað af og það er innsæi. Ég er ágætur mannþekkjari og dómgreind mín í þeim efnum hefur sjaldan brugðist. Ég finn líka oft á mér hættu eða líðan minna nánustu. Stundum sest að mér óútskýranlegur kvíði og það bregst ekki að eitthvað slæmt gerist skömmu síðar. Þetta hefur gerst að kvöldi til og staðið fram á nótt og tvisvar hef ég vitað feigð einhvers sem mér hefur þótt vænt um. Í bæði skiptin var ég að heimsækja þetta fólk á sjúkrahúsi þar sem það lá en ekkert benti til annars en von væri á góðum bata. Á leiðinni eftir spítalaganginum og út laust þeirri hugsun niður í huga mér að viðkomandi ætti ekki afturkvæmt heim og það gekk eftir. Hvað þetta er veit ég ekki en sennilega hafa allir fundið fyrir þessu sama einhvern tíma á ævinni. Til allrar lukku virðast ánmaðkar og geitungar hafa ágætis innsæi og ég bý sennilega að því.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Ég þekki konu sem varð fyrir svona upplifun fyrir mörgum árum. Ég er líklega svona grunn eins og ánamaðkur, hef nú upplifað deja vu en pæli líklega allt of lítið í öllu svona. Börnin þín eru yndisleg ... en samt óþverraskepnur þegar þau taka sig til og stríða mömmu sinni ... hahahhaha! Ég veit um mann sem trúir því að hann hafi verið lækur í fyrra lífi. Hann náði að hugsa svo langt aftur ...

Guðríður Haraldsdóttir, 17.7.2007 kl. 23:31

2 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

Steingerður mín, þegar ég var að skrifa "klukk" færsluna var ég að hugsa hvort ég hafi ekki munaða rétt að þú lékst eina af gleðikonunum  í MH uppfærslunni á Túskildinsóperunni? Allar þessar leiksýningar á sokkabandsárunum eru aðeins farnar að renna saman í hausnum á mér. 

Ef það er ekki búið að klukka þig, þá geri ég það hér með:

Ásgeir Rúnar Helgason, 18.7.2007 kl. 06:55

3 identicon

Cornwall er búin að garga á mig í 30 ár, í hvert skipti sem ég sé myndir eða skrif um Cornwall þá kemur svo skrítin tilfinning yfir mig  svona  déja vu, nú er komið að því að rannsaka þetta, eins og þú veist þá er ég að fara til Cornwall á sun gaman verður að sjá hvað kemur út úr þessari ferð, færð ferðasöguna þegar ég kem til baka yfir kaffi , vildi að þú værir að koma með mér

Sigurveig Eysteins (IP-tala skráð) 19.7.2007 kl. 04:39

4 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Cornwall.....ég var einmitt að skrifa mjög dularfulla sögu sem gerist einmitt að hluta til í  Cornwall. Svona furðuleg upplifunarsaga og mjög merkileg finnst mér. And it really happend!!!!

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 20.7.2007 kl. 22:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband