Eðli ofbeldis

Þakka ykkur fyrir góð viðbrögð við pistlinum mínum um eftirminnilegasta viðtalið. Ég myndi gjarnan vilja taka þátt í að gera eitthvað fyrir Guðrúnu ef einhverjum dettur í hug góð leið til þess. Mér fannst líka merkilegt að Heiða segir mér að hún hafi hitt stúlkuna sem fór harðast fram í árásinni og líf hennar hafi ekki verið dans á rósum. Staðreyndin er reyndar sú að líf ofbeldismanna er sjaldnast gott. Þeir mála sig fljótt út í horn og fyrr eða síðar þurfa þeir að takast á við afleiðingar gerða sinna. En hvers vegna skyldi það vera að sum okkar eru ávallt tilbúin að reiða hnefa á loft og láta hann dynja á öðrum í stað þess að leysa málin á annan hátt? Það er erfitt að komast að niðurstöðu um það. Börn sem búa við ofbeldi beita ekki endilega ofbeldi. Sumir vinna úr erfiðri reynslu og sigrast á ótrúlegum erfiðleikum, aðrir eru sjálfum sér verstir og svo er þriðja gerðin sem tekur reiði sína og vanlíðan út á öðrum. Þeir láta stjórnast af hvatvísi og reyna ekki að staldra við og hugsa áður en þeir framkvæma. Vissulega eru þeir líka sjálfum sér verstir en ná líka iðulega að særa aðrar sálir nánast til ólífis. Ég vildi óska þess að hægt væri að skilgreina og skilja hvað skilur á milli þeirra sem lifa af og hinna sem særa aðra. Mér fannst athyglisvert þegar ég heyrði að í rannsókn sem gerð var á morðingjum og mönnum sem gerst höfðu sekir um grófar líkamsárásir í Bandaríkjunum kom í ljós að upp til hópa skorti þá hæfni til að finna til meðlíðunar með öðrum. Ég er ekki að dæma allt ofbeldisfólk með þessum orðum en ég velti því fyrir mér hvort þessi samúð og skilningur á tilfinningum annarra geti verið það sem kemur í veg fyrir að fleiri beiti ofbeldi.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Elsku frænka mikið er ég stoltur að eiga svona frænku eins og þig. Því miður hef ég ekki kíkt nógu oft á síðuna þína en það er ljóst að það verður breyting. Ég hef alltaf vitað að þú værir snillingur og gáfukona hin mesta, það virðist nú reyndar vera frekar algengur kækur í okkar ótrúlegu ætt. Mikið vildi ég að ég hefði smá snefil að þessum hæfileikum nú þegar ég er sestur á skólabekk og þarf að flytja mínu fyrstu ræðu á ensku. Kallinn er þokkalega stessaður og nagar neglur af sama krafti og Gunnsi frændi nagaði skyrtukraga í dentid við eldhúsborðið á Refstað. Kannski þið systur lumið á einni góðri ræðu á ensku sem þið gætuð lætt að gamla fjóshaugnum. Annars ætti ég alveg að geta þetta er það ekki, bara að kíla á þetta og bulla einhvern andskotann út í loftið. Þetta er flott síða  hjá þér frænka sæl og ég ætla að koma oftar í heimsókn. Bless í bili.

Palli litli frændi í Grindó (IP-tala skráð) 20.11.2007 kl. 20:25

2 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Takk fyrir flottan pistil Steingerður

Mér varð alltaf hugsað til þessarar stelpu reglulega frá þessum hræðilega atburði.. við erum nöfnur, millinafn og allt. Fannst alltaf soldið skrítið að heyra nafnið mitt þegar verið var að flytja fréttir af dómnum oþh... Og þetta var mér ofarlega í huga lengi á eftir.
Svo fór ég að hitta stelpuna mína þegar hún var í meðferð hjá þeim í Hlaðgerðarkoti og þar var þessi stelpa. Það var svo greinilegt að lífið hafði verið henni...vægast sagt erfitt.
Án þess að gera á nokkurn hátt lítið úr erfiðleikum fórnarlambsins þá held ég að það að burðast með að hafa gert svona í gegnum lífið sé nánast óbærilegt.. nema fólk sé algjörlega samviskulaust og ég held að það sé langt frá því að þessi ógæfusama stelpa sé þannig... 

EN... er vinnan þín í Akralind Steingerður? ...var að fjárfesta í þessari fínu auglýsingu í þessu líka fína blaði :) og fékk tölvupóst þar sem ég sá að við erum grannar! þeas ef þú ert líka staðsett þar :)  

Heiða B. Heiðars, 20.11.2007 kl. 20:31

3 Smámynd: Heidi Strand

Þetta er mikil sorgarsaga. Þessi atburður hefur örugglega ekki bætt líðan stúlkunnar sem framdi þetta voðaverk og þarf að burðast með það alla æfi.

Hvernig hægt er að koma í veg fyrir ofbeldi er stór spurning og ekki er til eitt svar. Aðalatriðið er þó að búa vel um börn og unglinga, vinna að annarri forgangsröðun í þjóðfélaginu og auka bæði íhlutun og meðferðarúrræði. Grípa þarf fyrr inn hjá börnum með áhættuhegðun og uppræta einelti. Auka þarf forvarnir og bæta samskipti og sýna hvort öðru meiri tillitssemi og kurteisi. Þetta eru langtímamarkmið sem öll byggjast á fjölskyldunni og stoðkerfum hennar. Og það kallar líka á pólitískar lausnir.

Heidi Strand, 20.11.2007 kl. 22:32

4 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Góður pistill Steingerður. Það er sannarlega margt til umhugsunar í þessu.

Marta B Helgadóttir, 21.11.2007 kl. 15:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband