Hvenær er stúlka fjórtán ára og hvenær ekki?

Að undanförnu hafa menn undrast dóm í máli kennara sem misnotaði fjórtán ára stúlku vegna þess að honum var talið til málsbóta að hann var ástfanginn af stúlkunni og hún af honum. Stóra spurningin hér er hins vegar er hægt að tala um ást þegar um börn er að ræða? Ég man sjálfa mig á þessum aldri. Ég var alltaf yfir mig ástfangin. Stundum vegna þess að það tilheyrði að vera skotin og ég varð að nefna eitthvert nafn við vinkonurnar til að vera gjaldgeng og stundum hafði einhver strákur sagt við mig hlýlegt orð eða komið mér til að hlæja og það var nóg. Ástarsorgin var einnig sár og djúp en varði yfirleitt ekki lengur en viku. Ég varð líka skotin í kennaranum mínum og starði á hann með hundslegri auðmýkt frá upphafi kennslustundar til loka. Ég held að honum hafi þótt þetta vandræðalegt. Til allrar lukku gerði hann ekkert vegna þessarar augljósu hrifningar minnar og hún leið hjá eins annað á þessum árum. Hefði hann hins vegar nálgast mig hefði ég verið auðveld bráð. Fáeinir gullhamrar og örlítil hlýja hefði nægt og til allrar ólukku þá er það staðreynd að fólk með svona hvatir kann að velja óörugga unglinga sem ekki hafa neitt sérlega sterka sjálfsmynd. Þetta finnst mér ekki eiga nokkurn skapaðan hlut skylt við ást.

Fyrir nokkrum árum skrifaði ég grein í Vikuna um þetta efni þ.e. statutory rape. Ég gerði yfirlit yfir sex mál þar sem eldri menn höfðu verið kærðir fyrir kynmök við stúlkur á aldrinum þrettán til fimmtán ára. Þeir fengu allir sýknudóma á þeirri forsendu að þeir hefðu ekki vitað hvað stúlkan var gömul. Einn átti hesthús með foreldrum þolandans og var boðinn í fermingarveisluna barnsins en hann vissi samt ekki hvað hún var gömul. Enn undarlegra „twist“ komst á eitt málið þegar fjölskylda hins kærða, 34 ára manns sem notfærði sér ölvun þrettán ára stúlku á útihátíð til að sofa hjá henni, krafðist þess að kærasti hennar 16 ára yrði kærður líka. Þetta fólk bjó allt í sömu sveit eldri maðurinn var að vísu nýlega brottfluttur en kærastinn fékk skilorðsbundinn dóm sá 34 ára slapp. Í tengslum við þessa grein var talað við lögfræðing sem var réttargæslumaður nokkurra þessara stúlkna og ég átti von á að greinin myndi vekja óskipta athygli en ekkert gerðis. Þegar ég nokkru áður skrifaði hins vegar um the office vodoo kit sem fékkst í Mál og menningu og samanstóð af gríndúkkum og pinnum til nota á skrifstofunni hringdu þó nokkrir á ritstjórn til kvarta undan að ég væri að kenna unglingum svarta galdur. Já, stundum velti ég fyrir mér hvort starf mitt þjóni einhverjum tilgangi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Takk fyrir þetta.

Jenný Anna Baldursdóttir, 12.12.2007 kl. 16:31

2 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Það væri mjög fróðlegt að fá að lesa þessa grein sem þú skrifaðir í Vikuna. Mér finnst atriði að sporna gegn því að þetta mál og önnur skyld séu þögguð niður. Ég skrifaði bloggið Eru niðurstöður fjölskipaðs héraðsdóms viðkvæmt feimnismál sem ekki má blogga um?

Getur þú ef til vill birt greinina á blogginu þínu? 

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 12.12.2007 kl. 16:33

3 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Mér varð síðast í dag einmitt hugsað til þessara endalausu skota og yfirgengilegrar ástar minnar á einum kennara mínum þegar ég var þrettán eða fjórtán............

Auðvitað er hún auðveld bráð!!! Það eru allar stúlkur - og drengir líka ef út í það er farið - á þessum aldri!

Hrönn Sigurðardóttir, 12.12.2007 kl. 16:35

4 identicon

Sæl Salvör og velkomin í tölu bloggvina minna. Ég skal gá hvort ég finn greinina. Ég á til allt það efni sem ég skrifaði í Vikuna en man ekki hvað ég kallaði greinina þegar ég vistaði hana svo það gæti verið erfitt að grafa þetta uppi.

Steingerður Steinarsdóttir (IP-tala skráð) 12.12.2007 kl. 17:16

5 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Sama hér, man eftir að hafa verið skotin í kennaranum mínum.
Unglingsstúlkur eru sérlega vulnerable á þessum aldri.
Þær líta upp til sumra kennara sinna, oft líka upp til þjálfara sinna og fleiri sem starfa með þeim í námi og tómstundum. Þetta eru oft helstu fyrirmyndir þeirra.
Sá hinn fullorðni sem misnotar sér ungan aldur þeirra hlýtur að vera illa staddur með eigin sjálfsmynd.

Kolbrún Baldursdóttir, 12.12.2007 kl. 23:04

6 identicon

Hæ hæ mamma mín mig langaði bara að vekja athygli á færslu sem ég rakst á síðunni b2 og mér blöskraði. Ég er búin að kommenta (undir nafninu Eva) og finnst mér ég hafa svarað bara mjög vel en mig langaði bara að sýna ykkur hvað strákar sem eru um 25 ára aldurinn eru að setja frá sér. http://www.b2.is/?sida=tengill&id=266558 mér þætti gaman að vita hver viðbröð þín mamma og bloggvina þinna eru. kv. dóttirin

Eva (IP-tala skráð) 13.12.2007 kl. 00:41

7 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Takk fyrir þetta Steingerður.

Ég tek undir með Salvör, langar til að lesa greinina þína í Vikunni.

Marta B Helgadóttir, 13.12.2007 kl. 00:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband