Viðburðir og viðburðaleysi

Árlega tek ég saman jólabréf og sendi frænku hans Gumma sem býr í Edinborg. Þetta er alveg stórskemmtilegt og oft stend ég mig að því að hugsa: Gerðist virkilega allt þetta. Það er nefnilega svo skrýtið að á meðan við kvörtum og kveinum dagsdaglega yfir önnum þá finnst okkur sjaldnast neitt mikið að gerast í lífi okkar. Þegar við erum spurð: „Eitthvað að frétta?“ Er svarið oftast: „Nei, nei, bara þetta venjulega.“ Í bandarískum bíómyndum er atburðum sem oftast nær gerðust á heilli mannsævi dengt saman í eina og hálfa klukkustund og svoleiðis hamfarir finnst okkur til marks um að eitthvað sé að gerast. Til allrar lukku kemur það sjaldan fyrir að menn skilji, missi fyrirtækið, móður sína og alla vinina á einu ári. Þeir fáu sem fara í gegnum slíkan hildarleik eru ekki öfundsverðir. Hins vegar gætu atburðir sem þeir sem að ofan er lýst gerst á einni mannsævi með margra ára millibili. Mér finnst líf mitt alltaf eins, vinna, sofa, ganga með hundinn og örsjaldan er skroppið í heimsókn, saumklúbb eða eitthvað skemmtilegt. Jólabréfin sýna mér á hinn bóginn alltaf fram á að ekki er tíðindalaust á vesturvígstöðvunum því einhver útskrifast, annar giftist, einn skilur, börn fæðast, hús eru keypt og seld og ótalmargt fleira sem gerir lífið skemmtilegt, erfitt, yndislegt og ömurlegt. Já, það er aldrei svo að maður upplifi algert viðburðaleysi.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Þetta þekki ég mjög vel. Það er svo skrýtið hvernig við upplifum tímann. 

Lára Hanna Einarsdóttir, 18.12.2007 kl. 11:53

2 Smámynd: Ingibjörg Gunnarsdóttir

Já - þetta er ágætis pæling.  Ef ég hugsa til baka yfir árið, þá er algjörlega óréttlætanlegt að svara spurningunni: Er eitthvað að frétta? - með svarinu: Nei - ekkert sérstakt!!   Takk fyrir áminninguna.......

Ingibjörg Gunnarsdóttir, 18.12.2007 kl. 13:22

3 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Þetta er svo rétt! Ég held nokkurskonar"dagbók" þar sem ég lími inn skemmtilega hluti sem hafa gerst á árinu. Flugmiða til útlanda, kvittanir fyrir sumarbústaðaferðum, kvittanir fyrir því þegar ég fer út að borða með skemmtilegu fólki og þessháttar og þvíumlíku. Síðan glugga ég í þessa bók þegar mér finnst ekkert vera að ske í lífi mínu og sé að margt hefur á dagana drifið. Það er nefnilega eins og þú segir svo auðvelt að festast í að ekkert sé um að vera, þegar dagarnir eru fullir af töfrum hversdagsins!

Hrönn Sigurðardóttir, 18.12.2007 kl. 13:59

4 Smámynd: Heidi Strand

Gott að setjast niður og hugleiða einu sinni á ári. Jólabréfin sem fara til útlanda eru hjá mér eins og stutt útgáfa af ársskýrslau. Ég sleppi úr sjúkdómum vegna þess að mér þykir ekki gaman að lesa jólabréf sem eru eins og stutt samantekt úr sjúkraskýrslu ættingja.

Heidi Strand, 18.12.2007 kl. 22:04

5 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Besta hugmynd sem ég hef heyrt lengi þetta sem Hrönn gerir...  en hvar finnurðu tíma, Hrönn? Ég er ekki viss um að ég gæti skrifað svona "ársyfirlit" sökum þess að ég er búin að gleyma svo miklu. Þá kæmi "ársdagbók" a la Hrönn að mjög góðum notum... 

Lára Hanna Einarsdóttir, 19.12.2007 kl. 01:09

6 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Ég skrifa ekkert. Lími bara inn, kvíttanir, miða eða eitthvað sem minnir mig á hvað var um að ske....

Hrönn Sigurðardóttir, 19.12.2007 kl. 18:24

7 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Mikið rétt, þetta er góð áminning. Takk fyrir mig.

Marta B Helgadóttir, 20.12.2007 kl. 23:42

8 Smámynd: Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir

Gleðileg jól, Steingerður mín. Kærar þakkir fyrir góð kynni í gegnum árin. Hafðu það gott um hátíðina.

Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir, 21.12.2007 kl. 11:22

9 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Langar til að óska þér gleðilegra jóla Steingerður. Takk fyrir frábæra "viðkynningu" á blogginu.

Marta B Helgadóttir, 21.12.2007 kl. 17:59

10 Smámynd: Valgerður Halldórsdóttir

Gleðileg jól

Valgerður Halldórsdóttir, 22.12.2007 kl. 13:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband