Af handlagni og miskunnsemi

Þórhildur Elínardóttir skrifar um það í góðum Bakþankapistli í Fréttablaðinu í dag að hún hafi einu sinni fengið 1 í handvinnu aðallega fyrir miskunsemi og gæsku kennarans. Við lesturinn rifjaðist upp fyrir mér ferill minn í handvinnu í skóla og sá var ekki glæstur. Í það sem þá var kallað annar bekkur í gaggó en er núna níundi fékk ég 5 í handvinnu. Verkefni vetrarins voru að prjóna skó með sauðskinnskólagi og rósaleppa inn í þá, sauma buxur á sjálfa sig og sauma út í dúk. Eftir veturinn skilaði ég skóm, annar mældist sennilega nr. 38 en hinn 48 ef haft hefði verið fyrir að slá venjulegu skómáli á sköpunina. Rósalepparnir voru teygðir og togaðir, mynstrið fremur óhrjálegt. Buxurnar voru með útvíðri skálm öðru megin og þröngar niður hinum megin. Ísetan var skökk og ekki nokkur leið að koma streng á óskapnaðinn. Mér tókst aldrei að byrja á dúknum þannig að ég skilaði bara þessu tvennu. Handavinnukennarinn minn var vel roskin óskaplega blíð kona. Hún horfði um stund á vetrarvinnuna mína og sagði: Steingerður mín, þú ert góð stúlka. Ég skal gefa þér fimm. Ertu ánægð með það? Ég var auðvitað himinsæl, enda verður að segjast eins og er að sjaldan hef nokkur einkunn sem ég hef fengið verið jafnóverðskulduð og þessi.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já handavinnuhæfileikum okkar tveggja hefur löngum verið við brugðið. Ég væri enn í barnaskóla ef Ólafía gamla hefði ekki iðulega gripið í handavinnuna mína þegar hún heimsótti mömmu.

Margrét Steinarsdóttir (IP-tala skráð) 12.3.2008 kl. 11:06

2 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Alltaf þurfti ég aðstoð mömmu við handavinnuna sem hún kláraði gjarnan fyrir mig. Bæði hún og handavinnukennararnir sýndu mínum tíu þumalfingrum mikinn skilning. Ég bað um að fá að vera í smíði með strákunum, sem mér fannst miklu meira spennandi, en það mátti ekki á þeim tíma.

Lára Hanna Einarsdóttir, 12.3.2008 kl. 11:17

3 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Ég hefði getað verið systir Láru Hönnu og ykkar allra kannski?

Hrönn Sigurðardóttir, 12.3.2008 kl. 11:56

4 identicon

Þú ert nú bara ekkert nema fyndin, þennan gjörning hefði ég viljað sjá....snillingur

Kveðja að norðan Alma

Alma Lilja (IP-tala skráð) 12.3.2008 kl. 13:13

5 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Veistu það, Hrönn... ég á eina systur sem er ári eldri en ég. Hún er snillingur í höndunum og lærði til handavinnukennara á sínum tíma. ALLT leikur í höndunum á henni þannig að ég get afsakað mig með því að hún fékk ÖLL handlagnigenin, sem og eldhúsgenin! 

Lára Hanna Einarsdóttir, 12.3.2008 kl. 18:24

6 Smámynd: Aðalheiður Magnúsdóttir

Þarna hefði ég léttilega getað hjálpað þér. Það er fátt sem ég læt mér fyrir brjósti brenna á handavinnu sviðinu.Enda mikið áhugamál hjá mér.

Aðalheiður Magnúsdóttir, 12.3.2008 kl. 20:48

7 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Lára Hanna, ég hefði þá getað verið hin systirin.....

Hrönn Sigurðardóttir, 12.3.2008 kl. 20:53

8 identicon

Sæl Steingerður og gaman að heyra frá þér - þú veist að við vorum einu sinni nágrannar kv. Kristín (mamma Magnúsar og Bassa)

kristin einarsdóttir (IP-tala skráð) 13.3.2008 kl. 16:19

9 Smámynd: Heidi Strand

Verkefnavalið í handmennt gat drepið áhugann hjá hverjum sem er.
Áður fyrr var 12 ára bekkur látinn sauma út kaffidúk fyrir tólf manns í Harðangurssaumi. Þá var gott að eiga góða mömmu til að bjarga málum.

Heidi Strand, 13.3.2008 kl. 19:01

10 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Þessi verkefni voru hreint ótrúlega tilgangslaus fannst manni, valin einsog prófa þyrfti þolinmæði manns fremur en hannyrðagetu.

Marta B Helgadóttir, 13.3.2008 kl. 19:37

11 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Dásamleg lýsing á furðulegum verkefnum!  Mamma mín fékk alltaf hátt í handavinnu, - en þann dag í dag finnst mér að ég þurfi að biðja handavinnukennarann afsökunar á því að allt væri alltaf klárað fyrir mig heima. Eins og það skipti máli í eilífðinni!

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 13.3.2008 kl. 21:16

12 identicon

Sæl Steingerður   Ég veit ekki hvort þú munir eftir mér. Við vorum saman í bekk hjá Svavari í gamla daga og ég bjó í Bólstaðarhlíð 60.  Handavinna var ekki alveg að gera sig. Ég skilaði einungis öðrum skónum með lepp, við áttum að sauma buxur en fyrirbrigðið sem kom út úr því hjá mér hefur enn ekki fengið nafn og enn er verið að reyna að finna út í hvað hún geti nýst. Ofsalega varð ég kát þegar handavinnuþrautum lauk. Mamma sá um alla hina vinnuna fyrir mig og bjargaði 5 fyrir mig. Gaman að hitta þig hér.

Bergrún (IP-tala skráð) 14.3.2008 kl. 10:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband