Dýragarðurinn skrautlegi

Gleðilegt sumar kæru bloggvinir og takk fyrir skemmtunina í vetur. Minn skrautlegi dýragarður hefur skemmt okkur hjónunum í allan dag. Týra tapaði stríðinu um nærfataskúffuna því þegar húsbóndinn kom heim herti hann svo á lömunum á hurðinni að kötturinn getur ekki opnað hana lengur. Húsmóðirin ekki heldur en mér skilst að það sé smáatriði miðað við hurðin er kattheld. Týra lætur ekki deigan síga þrátt fyrir þetta og í stað nærfata hefur hún nú kosið sér rúmföt. Hún opnar annan skáp klifrar upp eftir skúffunum í honum, vegur salt efst á hurðinni í dágóðan tíma meðan hún opnar efri skápinn og stingur sér svo inn í tandurhrein rúmfötin okkar. Blessað dýrið er bæði útsjónarsamt og nægilega skynsamt til að snúa sér á öðru þegar það sér að orrustan er töpuð. Freyja var í sumarskapi og tók til í garðinum með húsbóndanum. Hún gróf upp viðbjóðslegt bein og sat hróðug yfir því þegar ég kom heim úr verslunarleiðangri með heimasætunni. Mattinn minn ver heimilið með kjafti og klóm þrátt fyrir að vera steingeldur og ætti því að vera laus við alla árásargirni. Hann kom alblóðugur inn um daginn og hægra eyrað var ansi illa farið. Við fórum með hann til dýralæknis þegar stór bólguhnúður tók að myndast við það. Ekki var sýking í því en Matti fékk áburð, hreinsun á sárinu og fúkkalyf. Hann lét þetta ekki á sig fá og við sáum hann hvæsandi á helmingi stærri kött úti áðan.

En að sumarkomunni. Á mínu heimili var alltaf gert mikið úr sumardeginum fyrsta. Við systur fengum sumargjafir oftast skóflur og fötur eða strigaskó og stígvél fyrir sumarið. Við kunnum allar vísuna: Á sumardaginn fyrsta var mér gefin kista sokkaband og klútur mosóttur hrútur. Oftast voru svo bakaðar vöfflur með kaffinu og glaðst yfir sumarkomunni. Við fórum ekki í skrúðgöngur eða sinntum öðrum hátíðahöldum en það var alltaf hátíð í bæ. Ég hef alltaf gefið mínum börnum sumargjafir, enda er það mun eldri siður hér á landi en jólagjafir. Mér finnst sumardagurinn fyrsti dásamlegur frídagur og yndislegt allt standið í kringum hann. Og fyrst við minnumst á sumarið þá ætla ég að skipuleggja ásamt vinkonu minni þemaferðir í sumar. Um er að ræða gönguferðir með ákveðið þema svo sem grasafræðiferð, steinaskoðunar- og tínsluferð, söguferðir á ýmsar slóðir og kvennaferð þar sem við einbeitum okkur að sögu kvenna á hverjum stað. Þessar ferðir munu kosta mismikið eftir því hvort fólk fer á staðinn á eigin bílum eða ekki en við erum báðar lærðir leiðsögumenn og hin er hjúkrunarfræðingur að auki. Ef þið hafið áhuga á að bóka fyrir litla hópa hafið þá endilega samband við mig.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hugarfluga

Þemaferðir? Hljómar spennandi. Segð'okkur meira.

Já, og gleðilegt sumar!!!

Hugarfluga, 24.4.2008 kl. 18:22

2 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Já ég er sammála því að sumardagurinn fyrsti er mikill dásemdarfrídagur

Gleðilegt sumar.  

Hrönn Sigurðardóttir, 24.4.2008 kl. 18:30

3 Smámynd: Linda Lea Bogadóttir

Gleðilegt sumar

Linda Lea Bogadóttir, 24.4.2008 kl. 18:53

4 identicon

Sæl Steingerður, gleðilegt sumar og takk sömuleiðis fyrir veturinn. Mig langar aftur á móti soltið að bjóða þemaferðir fyrir karla - til einhvers staðar þar sem er þurrt að kalla eða eitthvað svoleiðs. kv. Kristín 

k.e. (IP-tala skráð) 24.4.2008 kl. 18:54

5 identicon

Eruð þið þá á leið á kvennafar? Hehe.

Andri (IP-tala skráð) 24.4.2008 kl. 21:01

6 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Gleðilegt sumar og takk fyrir frábær bloggsamskipti!

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 24.4.2008 kl. 21:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband