Hið dularfulla samband milli konu og töskunnar hennar

Konur og handtöskur, milli þessara tveggja liggja margir og flóknir þræðir. Það er langt síðan konur fóru að bera töskur svo langt reyndar að það skiptir öldum. Þessar kventöskur hafa síðan þróast með tímanum og nú eru þær svo margvíslegar og fjölbreyttar að við getum nánast bent á tegundina og skilgreint persónuleikann sem mun velja hana. Og svo er það innihald töskunnar, hver taska er nánast eins og askja Pandóru nema margt annað en vonin leynist á botninum. 

Lágstéttakonur báru til að byrja með grófgerða poka meðan yfirstéttin bar silkituðrur. Oft var aleigan í poka fátæku konunnar en danskortið, ástarbréf og blævængur í tuðru hinnar ríku. Síðar urðu þessar tuðrur ómissandi og oft hannaðar í stíl við kjólinn. Þá báru konur vasaklúta, ilmsöltin sín og ef til vill þurrkað blóm frá elskhuganum í tuðrunni. Konur þess tíma gengu ekki með peninga eða lykla á sér. Eiginmaðurinn sá um fjármálin og borgaði reikninga hennar í búðunum einu sinni í mánuði. Vinnukonan sá svo um að hleypa húsmóðurinni inn þegar hún sneri aftur að aflokinni bæjarferð.

Tuðrur urðu að töskum sem konur hengdu á úlnliðinn eða héldu á í hanskaklæddri hönd. Þá voru púðurdósir og varalitir farnir að slæðast ofan í þær líka þótt það væri ekki algilt. En axlataskan kom ekki fyrr en heimstyrjöld hafði skekið heiminn og hún varð til af illri nauðsyn. Konurnar þurftu að bera á milli sjúkragögn og hafa hendurnar lausar til að aka bíl eða sinna særðum og þá var gott að geta ýtt töskunni aftur á bakið. Þegar konur höfðu á annað borð uppgötvað hagræðið af því að hengja töskuna á öxlina var ekki aftur snúið. Og nú fór taskan að síga í. Auk vasaklútsins, varalitarins og púðurdósarinnar voru komnir lyklar, buddur, snyrtiveski,  minnisbækur, slæður, hanskar, ilmvatnsglös og ýmislegt fleira í töskuna.

Á fimmta og sjötta áratug síðustu aldar rann upp sannkallað vaxtar- og blómaskeið kventöskunnar. Ekki var nóg með að fleiri gerðir og stærðir væru til en nokkru sinni fyrr heldur fengu töskurnar fleiri og fleiri hlutverk. Þær urðu að skólatöskum, sundtöskum, barnatöskum og ótal önnur gervi tóku þær á sig. Konur sem ólust upp á þessum árum minnast þess að ömmur þeirra og mömmur tóku til í handtöskum sínum einu sinni á ári eða um það bil og iðulega leyndist hitt og þetta á botninum. Hver kona átti líka margar töskur og ef tekin var fram aftur taska sem ekki hafði verið notuð lengi kom hugsanlega upp úr henni ógild mynt, húslykill að fyrra heimili eigandans og þriggja ára gamall miði frá skósmiðnum. Ilmurinn upp úr þessum töskum var einnig allsérstæður en anganin af Chanel no: 5 eða Worth sat oft í fóðrinu. Það var líkt og að hitta á töfrastund að vera viðstaddur þegar mamma eða amma tóku til í töskunni sinni og stundum áskotnaðist barninu þá gamall varalitur, tóm púðurdós eða smáaurar fyrir nammi.

Hippastúlkan með risatöskuna (sem leit út eins og hún væri gerð úr gamaldags gólfteppi) gekk skökk því svo vel seig taskan í. Ef kíkt væri í tösku hennar kenndi þar án efa margra grasa. Við sæjum ábyggilega mussu til skiptanna, bók um sjálfbæra ræktun eða kommúnur, kommúnistaávarpið, hárband, blóm, hárbursta og eitthvað sem tengdist henni einni. Nútímakonan á margar töskur af ótal stærðum og engu er líkara en að sumar séu alltaf að flytja búferlum því töskurnar þeirra eru á stærð við þær sjálfar. Konur í dag bera dagbækur, snyrtiveski, hárgreiður, pappírsþurrkur, tölvur, farsíma, nafnspjöld, varasalva, hanska, húslykla, sólgleraugu og peningabuddur í handtöskum sínum. Sumum fylgja auk þess bleiur, Baby Wipes, hálstöflur, ofnæmislyf, naglsnyrtisett og fleira og fleira. Karlmenn skilja ekki til hvers konur þurfa allt þetta dót og eru á því að margt mætti skilja eftir heima. En karlmenn hafa heldur aldrei skilið það flókna og dularfulla samband sem er milli konu og töskunnar hennar.

Úr 4. tbl. hann/hún


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Frábær úttekt á helgu sambandi konu og töskunnar hennar... 

Lára Hanna Einarsdóttir, 13.6.2008 kl. 18:23

2 identicon

Æðislega skemmtileg grein, gaman þetta með hvernig töskurnar breyttust skyndilega í kring um stríðsárin, ég er alltaf með svoleiðis töskur, axlatöskur, enda ávalt stríðsástand í kring um mig

alva (IP-tala skráð) 13.6.2008 kl. 20:08

3 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Mikið lifandis skelfing er þessi grein á mínu áhugasviði. Vel skrifuð og hugsuð. - Égsjálf vex aldrei uppúr því að vera með hippatöskukjóðuna á vinstri öxlinni. Innihald: sokkar til skiptanna, símar, snyrtibuddur, naglasnyrtisett, sauma-neyðarsett, plástur, blautir klútar, svitapray, ilmvatn, myndavél, rissblokk, nokkrir pennar, kilja, hárband, hárspray, stress-dagbókin og tannbursti. Þið þekkið mig ef þið sjáið mig.

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 13.6.2008 kl. 20:52

4 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Í minni tösku? Símar - lyklar - varalitur og annar til skiptanna - snyrtidót, naglaklippur, myndavél, penni og..... rúsínan í pylsuendanum!!!!! Tómur plastpoki....

Hrönn Sigurðardóttir, 13.6.2008 kl. 22:04

5 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Taskan er mér lífsnauðsyn. Í henni er m.a. andlitið á mér.

Ég vil heyra um áspreyjuðu sokkarbuxurnar. Plís...

Jóna Á. Gísladóttir, 14.6.2008 kl. 11:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband