Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

Grunnskólabörn og trú

Að undanförnu hefur mikið verið um það rætt og margir stórhneykslaðir á því að prestum hafi verið úthýst úr leikskólum og grunnskólum borgarinnar. Menn supu líka hveljur og óttuðust að menntamálaráðaherra ætlaði að gera kristið siðgæði brottrækt úr skólunum. Ég var eiginlega alveg undrandi á þessu fjaðrafoki og hugsaði: „What's the Beef?“ Sjálf trúi ég ekki á guð í kristnum skilningi en tel mig siðlega manneskju í alla staði. Ég hef líka fundið í mörgum öðrum trúarbrögðum siðaboðskap sem mér finnst ekkert síðri en sá kristni og að vissu leyti betri. Búddismi er til að mynda heimspeki sem mikil skynsemi er í, hindúar bera mikla virðingu fyrir öllu lífi og í ásatrú felst virðing fyrir náttúrunni. Margir vestrænir heimspekingar hafa einnig lagt línurnar um hvernig lifa eigi með mannlegri reisn án stuðnings trúarbragða og mörgum mönnum ferst það bara ansi vel. Það er engin trygging fyrir manngæsku að menn beri hempu og líkt og skáldið sagði þá spretta kristilegu kærleiksblómin kringum hitt og þetta. Innan kirkjunnar er margt gæðafólk en þar er misjafn sauður sem víðar. Ég vil ekki að kristinni trú sé þröngvað upp á börnin mín eða barnabörn. Ég vil að þau fái sjálf að gera upp við sig hvaða manngildi þau telja eftirsóknarverðust og hvaða siðaboðskap þau telja heppilegastan í mannlegum samskiptum. Sjálf reyndi ég að innræta þeim virðingu fyrir öðrum, umburðarlyndi og ást á öðrum lifandi verum sem byggja jörðina með okkur. Þetta kann að hljóma kristilega en á rætur mjög víða annars staðar. Prestar hafa ekkert að gera út fyrir kirkjurnar. Allir vita hvar þá er að finna og þeir sem vilja geta sótt þjónustu þeirra. Að veita þeim aðgang umfram aðra að börnunum okkar er hreinn yfirgangur.

Undarlegar draumfarir

Ég hef talað um það áður að draumfarir í minni fjölskyldu eru iðulega með undarlegra móti. Ég held þó að nýlegur draumur minn sé með því furðulegra í því safni. Pabbi minn dó fyrir tveimur árum og mig hefur sjaldan dreymt hann síðan. Um daginn dreymdi mig þó að ég væri stödd í gamla húsinu sem föðurafi minn bjó í sem nú er búið að rífa og þar var í gangi miðisfundur. Pabbi var með mér og afi talaði í gegnum miðilinn og vildi koma mikilvægum skilaboðum á framfæri. Skyndilega barst draugaleg rödd afa úr öllum hornum stofunnar: „Gefðu honum vespuna.“ „Gefðu honum vespuna.“ Mér fannst ég skilja að þarna væri um að ræða litla vespu sem pabba hefði langað að eignast þegar hann var unglingur og ekki fengið. Afi var sem sagt að segja mér að láta draum pabba rætast. Ég sagði að sjálfsögðu: „Já.“ og kyssti pabba á kinnina og þar með var draumurinn búinn. En úr hvaða undirdjúpum undirmeðvitundar minnar þessi vespa og draugagangur kom er mér gersamlega fyrirmunað að ímynda mér í vöku.

Orðið mitt og orðið þitt

Ég var að hugsa um það um daginn að hver kynslóð á sér upp að vissu marki sinn eigin orðaforða sem síðan deyr út. Langafar og langömmur okkar slettu dönsku því það þótti fínt og töluðu um fortóf, altan og kames. Við vitum fæst hvað þessi orð þýða og myndi sennilega aldrei detta í hug að nota þau. Ömmur krakka í dag töluðu um að þetta og hitt væri lekkert og elegant en sennilega myndu fáar konur taka sér þessi orð í munn í dag. Hipparnir voru grúví og við sem nú eigum fullorðin börn vorum smart og töff en krakkar í dag eru hip og kúl. Ég hef verið að reyna að rifja upp fleiri af þessum kynslóðatengdu orðum en ekki tekist að grafa neitt meira upp. Bætiði endilega við.

Vandræðagangur og vesen

Ég var að reyna að koma hér að færslum um innsta eðli mitt og mannsins míns. Ég tók nefnilega persónuleikapróf inni á vefnum en ég rakst á link á blogginu hennar Nönnu Rögnvaldar www.nannar.blogspot.com. Í ljós kom að ég er velsteikt dramadrottning sem laðast að proskum. Proskar eru þeir karlmenn sem kunna all the moves í byrjun en eru fljótir að hætta riddaramennskunni þegar konan er komin í gildruna. Ég veit ekki hvort maðurinn minn samþykkir að hann sé þá minn týpíski draumaprins. Ef ég þekki hann rétt mun hann bregðast við þessum fréttum með að yppa öxlum og segja: „Akkúrat, eins og gott að mér tókst að blekkja þig í fyrstu.“

Eðli ofbeldis

Þakka ykkur fyrir góð viðbrögð við pistlinum mínum um eftirminnilegasta viðtalið. Ég myndi gjarnan vilja taka þátt í að gera eitthvað fyrir Guðrúnu ef einhverjum dettur í hug góð leið til þess. Mér fannst líka merkilegt að Heiða segir mér að hún hafi hitt stúlkuna sem fór harðast fram í árásinni og líf hennar hafi ekki verið dans á rósum. Staðreyndin er reyndar sú að líf ofbeldismanna er sjaldnast gott. Þeir mála sig fljótt út í horn og fyrr eða síðar þurfa þeir að takast á við afleiðingar gerða sinna. En hvers vegna skyldi það vera að sum okkar eru ávallt tilbúin að reiða hnefa á loft og láta hann dynja á öðrum í stað þess að leysa málin á annan hátt? Það er erfitt að komast að niðurstöðu um það. Börn sem búa við ofbeldi beita ekki endilega ofbeldi. Sumir vinna úr erfiðri reynslu og sigrast á ótrúlegum erfiðleikum, aðrir eru sjálfum sér verstir og svo er þriðja gerðin sem tekur reiði sína og vanlíðan út á öðrum. Þeir láta stjórnast af hvatvísi og reyna ekki að staldra við og hugsa áður en þeir framkvæma. Vissulega eru þeir líka sjálfum sér verstir en ná líka iðulega að særa aðrar sálir nánast til ólífis. Ég vildi óska þess að hægt væri að skilgreina og skilja hvað skilur á milli þeirra sem lifa af og hinna sem særa aðra. Mér fannst athyglisvert þegar ég heyrði að í rannsókn sem gerð var á morðingjum og mönnum sem gerst höfðu sekir um grófar líkamsárásir í Bandaríkjunum kom í ljós að upp til hópa skorti þá hæfni til að finna til meðlíðunar með öðrum. Ég er ekki að dæma allt ofbeldisfólk með þessum orðum en ég velti því fyrir mér hvort þessi samúð og skilningur á tilfinningum annarra geti verið það sem kemur í veg fyrir að fleiri beiti ofbeldi.

Eftirminnilegasta viðtalið

Ég var spurð að því um daginn hvað væri eftirminnilegasta viðtal sem ég hefði tekið. Eitt andartak hugsaði ég mig um en í raun vissi ég strax hvaða viðtal það væri. Ekki vegna þess að ég hafi ekki hitt margt merkilegt og eftirminnilegt fólk á ferlinum því svo sannarlega hafa margir viðmælenda minna veitt mér innblástur, gleði og kennt mér margt. Eftirminnilegasta viðtalið var við Guðrúnu Jónu Jónsdóttur unga stúlku sem varð fyrir fólskulegri árás kynsystra sinna niður í bæ í byrjun tíundfa áratugarins. Hún var aðeins sextán ára þegar þessi atburður varð og það blæddi inn á heilastofninn og hún hefur síðan verið bundin hjólastól og aðeins tjáð sig með hjálp tölvu. Þetta er dugleg stúlka sem hefur aðlagast aðstæðum sínum og gert það sem hún hefur getað til að auðga líf sitt. Ég spurði hana margra spurninga og við spjölluðum saman með aðstoð mömmu hennar. Undir lok viðtalsins spurði ég hana hvort hún hefði verið búin að ákveða hvað hún ætlaði að verða þegar hin örlagaríka árás var gerð. Hún svaraði: „Já, ég ætlaði að verða leikkona.“ Mér fannst eins og heitur fleinn hefði verið rekinn í gegnum kviðinn á mér og tárin fóru að svíða bak við augun. Ég beit á jaxlinn og tókst að halda öllum tilfinningum niðri og klára viðtalið. Í þessari einu setningu opnaðist mér nefnilega heimur sextán ára barns sem á framtíðardrauma, vonir og þrár sem á einu augnabliki eru lagðar í rúst. Í einu vetfangi gerði ég mér grein fyrir hversu mikið var frá henni tekið. Þegar ég kom út úr íbúð hennar byrjuðu tárin að streyma og ég flytti mér inn í bíl, lagði höfuðið á stýrið og grét nægju mína. Guðrúnu Jónu þykir óskaplega gaman að ferðast og reglulega síðan þetta var hef ég haft samband við góðgerðarsamtök og beðið þau að styrkja hana til ferðalaga. Ég vona að einhver þeirra hafi tekið tillit til þessa og gert eitthvað fyrir hana. Mér var að minnsta kosti tekið vel í símann.


Þrár um þráa til þráinns

Svona lauk símasamtali mínu við Helen systur mína núna áðan:

Ég: Ég verð að hætta. Ætla að fara að þráast við að lesa Þráinn (Bertelsson).
Helen: Ertu farinn að þrá að lesa Þráinn?
Ég: Já, ég hef þráláta þráhyggju gagnvart glæpasögum.
Helen: Bless og passaðu þig að þrána ekki við að lesa Þráinn.

Þetta finnst okkur systrum fyndið. Sorglegt en satt.


Kosmísk kraftaverk

Fyrir tilstuðlan kosmískra krafta hitti ég nokkrar afbragðskonur á veitingahúsi í gær. Þær glöddu mig ósegjanlega hver á sinn hátt en þessi ólíki og einstaki hópur vakti hjá mig til umhugsunar um fegurð íslenskra kvenna. Ekki það að þær voru allar einstaklega laglegar og kertaljósin gerðu það að verkum að húðin ljómaði og það kviknaði ljós í augunum á þeim. Sú fegurð sem heillaði mig meira var innri styrkur þessara kvenna og ótrúlegur sköpunarkraftur. Þær höfðu allar horfst í augu við erfiðleika í sínu lífi og í stað þess að sýta örlög sín skapað úr þeim orku og kraft til góðs fyrir þær sjálfur og fjölskyldur sínar. Ef það er ekki fegurð þá veit ég ekki hvað fegurð er. Ég fór heim full af einstakri gleði og sú tilfinning hefur enst mér í allan dag. Húrra fyrir ykkur stelpur og haldið áfram að vera þið sjálfar.

Ævintýri á gönguför

Við Freyja brugðum okkur í gönguferð við Rauðavatn í kvöld. Við höfum oft gengið þarna áður en þá oftast farið hringinn í kringum vatnið. Að þessu sinni uppgötvuðum við göngustíganet sem liggur upp í brekkurnar fyrir ofan vatnið og skemmtum okkkur konunglega þar. Freyja skondraðist við hliðina á mér kát og glöð í hálfrökkrinu og friðurinn var alger. Við heyrðum hvorki mannmál né umferðarnið og þess vegna brá mér illilega þegar ég tók skyndilega eftir því að gulu hundarnir voru orðnir tveir. Eitt augnablik datt flaug í gegnum hug mér að amöbur skiptu sér auðveldlega í tvennt og kannski hefði það hent þarna að tíkin mín hefði óvænt fjölgað sér á þennan nýstárlega hátt (þ.e. þegar spendýr á í hlut9. Það reyndist ekki vera því fyrr en varði birtist eigandi hins hundsins sem var íslenskur og kallaður Seifur. Við Freyja örkuðum áfram upp í hæðirnar en gríska hágoðið og eigandi þess héldu niður á við. Þegar kom að því að snúa til bak ákvað ég að prófa að ganga eftir öðrum stíg og sjá hvort það leiddi mig ekki niður að vatninu aftur. Ég arkaði af stað en stígurinn góði hlykkjaðist með undarlegum rykkjum og skrykkjum ýmist niður að vatninu eða aftur upp í hæðirnar. „Hafðu ekki áhyggjur Freyja mín, allar leiðir liggja til Rómar,“ sagði ég við tíkina en varð að játa skömmu síðar að ég hefði ratað á eina veginn í Evrópu sem ekki tæki fyrr eða síðar beygju að þeim áfangastað. Við gengum því rúmum tuttugu mínútum lengur en ætlunin var en Freyja var sko ekki að sýta það.

Heimsk sem bolabítur

Þessa dagana sankast að mér sannanir fyrir lélegu gáfnafari mínu. Fyrst trúði Jón Gnarr þjóðinni fyrir því að gáfaða fólkið kynni að meta Næturvaktina en heimskingjarnir skildu ekki húmorinn. Þar sem ég er ein þeirra örfáu sem ekki get hlegið að áníðslu yfirlætisfulls hrokagikks á einfaldri og hálfsaklausri sál verð ég víst að játa á mig gáfnaskort. Við bætist svo að Mogginn flytur frétt af nýrri rannsókn sem sýnir að mjaðma- og bosmamiklar konur eru bæði gáfaðri og fæða greindari börn en hinar. Ég á hinn bóginn er ákaflega grönn yfir mjaðmirnar og fitna helst framan á maganum en samkvæmt þessu geymir ístran aðeins omega 6 fitusýrur sem eru lélegt fóður fyrir heilann. Ekki lýgur Mogginn og ekki ljúga vísindinn svo ég verð víst að lifa við það að vera heimsk sem bolabítur.


mbl.is Stundaglasavöxtur til marks um gáfur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband