Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007

Stinningarlyf og sterar

Nýlega bárust af því fréttir að tollurinn náði að stöðva eitt mesta magn af sterum sem reynt hafði verið að smygla hingað og í gær var sagt frá því að stinningarlyf hafi verið stöðvuð á leið sinni bakdyramegin inn í landið. Það er alþekkt að steralyfjanotkun fylgja þær aukaverkanir að eistu karlmanna minnka og löngun þeirra til kynlífs sömuleiðis. Nú getur maður ekki annað en velt fyrir sér hvort stinningarlyfið hafi verið ætlað steratröllunum.

Byrgismaður

Eins og alþjóð veit (eða a.m.k. þeir sem þekkja mig) þá er ég sjúk í krossgátu Morgunblaðsins og bíð titrandi af spenningi alla laugardaga eftir að fá hana í hendurnar. Aumingja blaðburðarbarnið hefur iðulega þjáðst af óstöðvandi hiksta seinni part laugardags vegna þess að mér er farið að lengja eftir Mogganum og vanda því ekki kveðjurnar. Ég ber samt enga ábyrgð á ástandi stúlkubarnsins í Bandaríkjunum sem þjáðst hefur af hiksta í á þriðja mánuð. Jæja þá er þessum gersamlega tilgangslausa inngangi lokið og ég komin að kjarna málsins. Í krossgátunni var sem sagt spurt um orð yfir friðil og vísbendingin sagði að hann tengdist þekktu meðferðarheimili. Svarið var sem sé byrgismaður. Þetta vissi ég og gat svarað umsvifalaust því sonur minn, sá gáfumaður, hafði rekist á þetta og ekki bara það heldur að Al Qaeda þýðir byrgi á arabísku. Hann er alinn upp af móður sinni og var því viss um það þetta væri engin tilviljun heldur ein af þessum vísbendingum sem alls staðar leynast í heiminum og enginn er fær um að lesa fyrr en of seint. Hann skrifaði um þetta langa og lærða athugasemd en bloggerinn neitaði að birta hana þannig að ég er ekki sú eina sem verð að þola ritskoðun hér.

Neydd til dónaskapar

Ég gerði mitt besta til að svara athugasemd Guðnýjar Önnu við fyrri færslu en bloggerinn vildi ekki samþykkja þetta eða senda þannig að ég ákvað að reyna að fara þá leið að gera nýja færslu. Ef þetta tekst ekki þá hef ég orðið fyrir grófri ritskoðun eða að verið er að benda mér á að ég ætti að skammast mín fyrir sóðalegar ritsmíðar. En hér kemur þetta sem sé og ég hef verið neydd til að birta dónskapinn.

Já, svona geta nú meistaraverkin glatast. Eiginlega finnst mér að í tilfellum sem þessum eigi hringjandinn að vera skaðabótaskyldur. Mér datt hins vegar í hug vísa eftir að hafa endurraðað aðeins í fyrstu línunni. Hún er svona:
Allur vindur er úr mér
ekkert lengur gaman
Aðrir úti að skemmta sér
að aftan bæði og framan.
Síðasta línan er hins vegar svo tvíræð að maður birtir hana ekki á virðulegu bloggi.


Úr mér er allur vindur

Um leið og ég skrifaði þessa fyrirsögn þá datt mér í hug að þetta væri fyrirtaks byrjun á vísu en þar sem að úr mér er allur vindur og ég er búin að vera ákaflega andlaus í allan dag þá held ég að reyni ekki að berja saman einhverri vitleysu. Það bíður því betri tíma.


h-tímarit komið út

Nýja blaðið mitt er komið út. ForsidurÞetta er flottasta forsíðan mín til þessa. Æði. Kíkið inn á www.htimarit.is

Að hengja bakara fyrir smið

Fréttir berast nú af því um heimsbyggðina að sala á megrunarlyfjum hafi dregist saman eftir dauða Önnu Nicole Smith. Enn hefur dánarorsök ljóskunnar lánlausu ekki fengist upp gefin svo varla geta menn kennt megrunarlyfjum um dauða hennar nema þá óbeint. Einhvern veginn er líklegra að önnur lyf sem hún notaði víst í umtalsverðu magni hafi þar ráðið úrslitum fremur en brennslutöflurnar. Kannski ber samt að líta þetta jákvæðum augum og telja alla umræðu gegn megrunarsýki samfélagsins af hinu góða. Vonandi fylgir þá í líka í kjölfarið mikil flóðbylgja feðra sem vilja vera jafnábyrgir og þessir sem bíða nú í röðum eftir að færa fyrir því sönnur að þeir eigi Dannielynn litlu.

Ljóminn er ljómandi góður

Ég er á hugleiðslunámskeiði og í gærkvöldi hélt Anna Valdimarsdóttir sálfræðingur fyrirlestur um gjörhygli/íhugun og sálfræðileg áhrif hennar á manneskjuna. Fyrirlesturinn var óskaplega áhugaverður en af því að mannshugurinn hleypur sífellt út og suður týndi ég mér oft og iðulega í tungutaki Önnu og hlustaði þá ekki lengur á inntak orða hennar heldur orðin sjálf. Ég veit að þetta þarf ég að útskýra betur. Anna talar afskaplega fallega íslensku en stundum er tungutak hennar dálítið fornt. Einu hjó ég sérstaklega eftir og það var að hún notar oft lýsingarorðið ljómandi bæði til áherslu og eitt og sér. Þetta orð man ég ekki eftir að hafa heyrt nokkurn mann nota síðan í sveitinni hjá ömmu. Það var fyrir fjörutíu árum. En Anna talaði um að þetta væri ljómandi gott, ljómandi þægilegt eða bara ljómandi. Allt í einu rann upp fyrir mér þar sem ég sat á mínum púða í hugleiðslusalnum að þetta er bara alveg ljómandi orð og sjálfsagt að nota það. Alltaf leggst manni nú eitthvað til og nú er ég einu orði ríkari. Ljómandi!

Ójarðnesk birta

Hafið þið tekið eftir birtunni í ljósaskiptunum undanfarna daga? Ójarðnesk fegurð er lýsingin sem kemur upp í hugann þó ég skilji nú ekki alveg hvernig hægt er að tala um að jarðnesk fyrirbæri séu ójarðnesk. Kannski fannst fólki að sumir hlutir væru svo fallegir að þær ættu tæpast við hér í þessu guðsvolaða mannlífi og væru því meira skyldir sæluríkinu á himnum. En hvernig sem því er nú háttað þá er þessi birta svo heillandi að ég stend stokkfrosin uppi á Víghól á hverju kvöldi og stari á himininn. Neðst er eldrauður bekkur og þar fyrir ofan roðagyllt geislaflóð sem smátt og smátt deyr út í grábláma og stöku dimmblá ský sveima yfir öllu. Í fjarska stilla sér svo upp á aðra höndina Snæfellsjökull með hvítan topp en á hina grá og tignarleg Grindaskörðin. Já, svona lítur himininn áreiðanlega út allan sólarhringinn í ævintýralandinu.

Himnaríkisvist

Ég komst inn í Himnaríki í gær en hafði ef satt skal segja ekki gert mér neinar vonir um gullna hliðið lykist nokkru sinni upp fyrir mér. Ástæðan fyrir því hve leiðin var greið er sú að Gurrí mín, sem aldrei hefur mátt neitt aumt sjá án þess að vilja líkna, var við dyrnar en ekki hinn strangi Lykla-Pétur. Við Svava skelltum okkur sem sagt á Skagann og skemmtum okkur vel. Helen var með í för og varð sykurlaus á Kjalarnesi. Við keyrðum fullhratt það sem eftir var leiðarinnar við Svava til að komast í sjoppu og kaupa kók handa systur okkar sem datt út af og til í aftursætinu. En Gurrí var nú fljót að fá mann til að gleyma svoleiðis smáatriðum. Kaffið var frábært og félagsskapurinn fyrsta flokks en vinkona Gurrí kom einnig í heimsókn til að hleypa meira fjöri í umræðurnar. Við urðum líka meðal þeirra fyrstu sem heimsóttu nýtt kaffihús Skrúðgarðinn á Akranesi en þar er skemmtileg stemmning og innréttingarnar einmitt að mínum smekk. Það verður örugglega gaman að koma þarna í sumar því húsnæðið er svo bjart og skrúðgarður Akurnesinga fyrir aftan.

Armur laganna

Ég var að fletta Mogganum mínum í morgun þegar ég rakst á áhugaverðan uppslátt eða þá fullyrðingu að fólki sem þarf á gervilimum að halda er gert að skila vottorði frá geðlækni. Ah! Grundvallaratriði, hugsaði ég. Auðvitað verður að koma í veg fyrir að fólk sem haldið er óstöðvandi löngun til að hafa átta arma eins og kolkrabbi nái að svíkja út úr Tryggingastofnun hvern handlegginn á fætur öðrum. Svo eru örugglega til menn sem vilja svindla á ólympíuleikum fatlaðra og hlaupa ekki á tveimur jafnfljótum heldur tíu mismunandi löngum. Svo las ég greinina. Nei, geðlæknisvottorðið er ekki til að hindra svo augljóst svindl heldur til þess að fá fyrir því sönnur að félagsleg einangrun fylgi því að fólk fái ekki nýjustu og bestu gervilimi á markaðnum. Þannig að ef þú ert fótalaus en vinmörg er þér ekki ofgott að staulast um tréfótum rétt eins Long John Silver hér á árum áður. Hann var reyndar illmenni og átti fáa að svo TR hefði rétt honum tölvustýrðan fót án frekari málalenginga. Long John var hins vegar skáldsagnapersónu og því lítil hætta á að íslenska ríkið verði fátækara hans vegna. En hverslags eiginlega heimskuþvaður er þetta. Hverjir semja svona fíflareglur? Við erum ríkt samfélag og sjálfsagt að þeir sem búa við fötlun hér á landi njóti umsvifalaust góðs af tækninýungum. Það á ekki einu sinni að þurfa að ræða það hvað þá að afla einhverra vottorða umsókn þessara einstaklinga til stuðnings. Þetta er álíka heimskulegt og þegar Helen systir var gert það árum saman að mæta með vottorð um að hún væri með sykursýki I í hvert skipti sem hún sótti um endurgreiðslu á kostnaði vegna ýmislegs sem til féll vegna sjúkdómsins. Hún fékk lyfin sín frítt en það sem þurfti til að hún gæti mælt blóðsykur og sprautað sig var endurgreitt tvisvar á ári og þá þurfti læknisvottorð. Já, þeir ætluðu sko að sjá til þess að ef hún læknaðist fyrir tilstilli kraftaverks þá fengi hún ekki krónu umfram það sem henni bar frá íslenska ríkinu. Og ég sem hélt að læknar og sérfræðingar TR væru hámenntaðir og gáfaðir menn.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband