Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Alls staðar eru dýr

Við hjónin skreiddumst heim klukkan tíu mínútur fyrir fjögur í gærdag en höfðum þá verið á fótum frá hálffimm um morguninn. Við vorum því heldur framlág þegar heim kom en ferðin var frábær í alla staði. Það hefur löngum loðað við okkur hjónin að alls staðar þar sem við förum laðast að okkur dýr af öllum stærðum og gerðum og þessi ferð var engin undantekning. Við hittum kakadúa sem kolféll fyrir Guðmundi, dúfur sem átu hnetur af svölunum hjá okkur og furðfugl sem vildi endilega að ég klóraði sér í hausnum. Kakadúinn var í eigu hjóna sem við hittum í dýragarðinum Jungle Park. Þau stóðu við innganginn og tóku myndir af gestum með hann í fanginu. Mér gekk ekki vel að fá fuglinn til að kúra hjá mér en um leið og hann kom í fangið á Gumma byrjaði hann að kumra og nudda hausnum við hann. Hann greip líka með klónum og fingurna á Gumma sem eigandinn sagði að væri óbrigðult merki um að honum líkaði við viðkomandi. Auðvitað varð þetta til þess að við keyptum 800 kr. mynd af þeim félögum. Furðufuglinn sem klæjaði í hausnum var einnig í búri í garðinum og ég vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið þegar hann teygði gogginn út um rimlana og beit mig í puttann. Þegar hann svo lagði hausinn að rimlunum þóttist ég vita hvað klukkan sló og hóf að klóra honum af miklum móð hvar sem ég náði til. Þessi nýi vinur minn sýndi svo ánægju sína með klórið með því að kvaka og þrýsta sér eins nálægt og hann gat. Dúfurnar heimsóttu okkur á þriðja degi ferðar og gerðust svo heimakomnar á svölunum að ég lá ekki einu sinni armslengd frá þeim. Þær kunnu vel að meta þá gestrisni mína að dreifa hnetum á svalagólfið og tíndu þær upp af miklum móð. Myndir af þessum vinum mínum má svo finna hér á síðunni undir Dýrin mín stór og smá en mér hefur enn ekki tekist að finna leið til að setja myndir inn í færslur hjá mér.

Luxusgella

Her sit eg a fjogurra stjornu hoteli uti a Kanarieyjum i 25 stiga hita og lifid brosir vid mer. Eg er at bida eftir rutu sem mun fara med mig i dyragard tar sem taekifaeri gefst til at sja hvitt ljon og ranfugla leika ymsar listir. Ernir, uglur, falkar og haukar saekja hluti og sendast med ta at beidni tjalfara sins en mer tykir mest um vert at sja tessi fallegu kvikindi up close and personal. Jamm lifid er ljuft.

Dýrafræði eldsnemma að morgni

„Elsku músin mín, komdu hér,“ sagði ég við Freyju um sjöleytið í morgun.

„Skelfing ertu illa að þér í dýrafræði, fóstra mín,“ svaraði Freyja. „Ég er hundur, ekki mús.“


Pick-up línur

Þennan pistil skrifaði ég einu sinni fyrir Vikuna. Ótrúlega margir karlmenn virðast trúa því að allt sem þurfi til að heilla konur upp úr skónum sé ein snjöll setning. Þeir sem einhverja skynsemi hafa vita að valt er að treysta á pick-up línur en það er til í dæminu að pick up línur séu nægilega snjallar til að brjóta ísinn og verða upphafið að nýjum kynnum. Lítum á dæmi: Kysstu mig ef ég hef rangt fyrir mér en heitir þú ekki örugglega Kolrassa?

Konur sem hafa einhverja kímnigáfu á annað borð myndu alls ekki standast þessa línu og þótt þær færu ekki endilega að kyssa gæjann fyrir það eitt að hafa ekki giskað á akkúrat rétta nafnið þá vekur þetta a.m.k. nægan áhuga til að þær séu tilbúnar til að halda samræðunum áfram. Það má til að mynda alveg hugsa sér að upp úr þessu spretti fjörug umræða um störf mannanafnanefndar.

Ég er óhugnanlegur, ég er fölur, ég er þinn. Stundar þú annars ekki örugglega galdra?

Að sjálfsögðu er heppilegast að nota þessa línu á dökkhærða konu í svörtum kjól með illilegan kött á annarri öxlinni. Slysist menn til að nota hana á ljóshærðar, engilfríðar stúlkur mega menn ekki vera of bjartsýnir á að árangur náist.

Fyrirgefðu en þú líkist alveg óskaplega stelpu sem ég var rosalega skotinn í í átta ára bekk. Varstu nokkuð í Réttó?

Þessi er frekar gagnsæ en yfirleitt getur konan þó ekki stillt sig um að svara og þótt engin rómantík verði úr þessu veit karlinn a.m.k. hvar hún stundaði grunnskólanám. Við á Vikunni höfum líka frá áreiðanlegum heimildum að þetta virki rosalega vel á grunnskólakennara því spurning sem þessi gefi þeim tilefni til að segja skoðun sína á kostum og göllum íslenska skólakerfisins. Það er ekkert sem mælir gegn því að konur noti þessar línur til jafns við karla en þá mæli ég með því að þær noti mannsnafnið Jörmundrekur og kvengeri lýsingarorð og nafnorð. En á alvarlegri nótum má benda á að oft er erfitt að kynnast nýju fólki og skemmtilegt ávarp er stundum allt sem þarf til að byrja samræður. Þegar þær eru á annað borð komnar af stað er best að vera bara maður sjálfur, afslappaður og kurteis og reyna ekki að leika eitthvert hlutverk. Einhver vitur maður sagði einhverju sinni að þegar maður heilsaði væri best að segja halló því ef maður segði bless ruglaði það ótal marga í ríminu. Þetta er góð regla í samskiptum við ókunnuga, þ.e.a.s. fylgdu viðteknum umgengnisvenjum og reyndu ekki að brjóta reglurnar svona rétt í byrjun.


Einka Steinka

Ég velti því lengi fyrir mér eins og títt er um börn hvað ég ætlaði að verða þegar ég yrði stór. Lengi var ég sannfærð um að það myndi hentar mér einkar vel að verða spæjari eins vinkona mín Nancy Drew en hvarf frá því. Mig langaði ekkert til að verða hjúkrunarkona eins og Rósa Bennett og fann aldrei til löngunar að verða flugfreyja. Ég veit ekki af hverju það var því ríflega helmingur vinkvenna minna ætlaði að leggja fyrir sig annað hvort þessara starfa hins vegar fannst mér einhver ljómi yfir einkaritarastarfinu. Ég sá fyrir mér einhvern hjálparvana forstjóra sem treysti á mig í einu og öllu og að ég svifi tindilfætt inn á skrifstofu hans með hraðritunarblokkina í annarri hendi og kaffibolla í hinni. Ég óx upp úr þessu þótt hraðritunarblokkin hafi reyndar verið hluti af vinnu minni. Blaðamenn komast ekki langt án þess að geta skrifað mjög hratt. En núna dreymir mig um að verða forstjóri með einkaritara og ræstingakonu.

Dýr morgunblundur

í morgun var ég venju fremur syfjuð og stuggaði því hastarlega við tíkinni þegar hún reyndi að vekja mig klukkan hálfsjö. Ég hafði þó grun um að dýrið þyrfti að láta frá sér eitthvað svo ég skreiddist niður og opnaði útidyrnar. Drattaðist því næst hálfblind upp aftur og hélt áfram að sofa. Þegar ég vaknaði nærri þremur klukkustundum síðar blöstu fyrst af öllu við mér brúnir moldarblettir um allt rúmið mitt. Ég æpti upp yfir mig og flaug auðvitað fyrst í hug að viðbjóðslegur uppvakningur sendur af Svövu systur hefði spígsporað yfir rúmið mitt með þessum afleiðingum. Næst sá ég að rúmteppið mitt, sem lá snyrtilega samanbrotið á gólfinu, var allt út í svipuðum blettum, svefnherbergisgólfið sömuleiðis, teppið á stigapallinum og stiginn niður. Holið á neðri hæðinni var þakið í mold og forstofan eins og einhver hefði staðið þar í skurðgreftri. Í einu horni forstofunnar svaf engilfríður gulur hundur og ekki bar á mold á honum að ráði. Ég skyldi ekkert í þessu þar til ég fann upp í sófa í sjónvarpshorninu viðbjóðslega spýtu þakta mold, sniglum og sandi. Tíkin hafði sem sé sótt þetta einstaklega, aðlaðandi leikfang út í port þegar ég opnaði og afleiðingarnar voru þessi skemmtilegheit. Það tók mig þrjá og hálfan tíma að þrífa húsið eftir ævintýrið. Tíkinni reyndust sem sagt drjúg morgunverkin en morgunblundurinn var mér dýr.


Úað af hjartans lyst

Í gær fórum við Freyja í göngutúr og ákváðum að ganga út með Kársnesinu. Veðrið var ágætt og lítil skúta vaggaði úti á Fossvoginum. Einhverjir siglingaklúbbsmenn voru líka með börn í smábátum úti að róa og það var gaman að fylgjast með hópnum. Það eina sem spillti var að óskaplega margir hjólreiðamenn voru þarna á ferli og þeir sem þekkja Freyju vita að hún er ákveðin í að ná a.m.k. einum slíkum einhvern tíma á ævinni. Æðafuglar svömluðu í flæðarborðinu og úuðu á mig af fullkomnu miskunnarleysi. Þeir gáfu það berlega í skyn að ekki væri forsvaranlegt kona klædd flíspeysu löðrandi í hundahárum og leikfimisbuxum sem með reglulegu millibili sigu niður undir hné væri á ferli á þessum stað. Ég viðurkenndi svo sem að þeir hefðu nokkuð til síns máls en tók síðan upp á þeim skemmtilega sið að úa á móti. Það hefði svo sem ekki verið í frásögur færandi nema vegna þess að eitthvert hjólreiðamannsóféti laumaðist upp að mér á hljóðlausu hjóli og það varð til þess að síðasta úið kafnaði í hálsinum á mér og varð eiginlega bara máttleysislegt u. Ég gat hins vegar ekki betur séð en að eitthvert skítaglott breiddist yfir andlit hjólreiðamannsins um leið og hann renndi sér fram hjá.


Ættarfylgjur

Okkur systrum hefur stundum verið legið á hálsi fyrir það að vera ekki nægilega myndarlegar húsmæður. Það var nú reyndar aðallega hér áður fyrr að þetta kom fyrir og helst var það gömul frænka okkar sem hafði áhyggjur af bóklestri okkar sem var á kostnað handmennta sem hún taldi að við stunduðum alltof lítið af. Helen systir fyrtist við einhverju sinni þegar kvartað var undan lítilli leikni hennar með heklunálina og hvæsti á gömlu konuna að aðrar konur mættu kaupa sér stálull og prjóna sér ísskáp hún ætlaði að láta það vera. En okkur systrum er nokkur vorkunn því það lítur út fyrir að þetta sé ættgengur andskoti. Langamma okkar Guðlaug Pálsdóttir á Svínabökkum í Vopnafirði var þekkt fyrir að vera félagslynd og skemmtileg en fremur lítil húsmóðir. Svínabakkar voru í þjóðbraut á þeim tíma er hún var uppi þannig að jafnan var gestkvæmt á bænum. Langamma hafði sérlega gaman af að spila og var það venja hennar að draga þá sem duttu inn úr dyrunum í félagsvist og síðan var spilað þar til menn ultu út af sofandi. Bærinn á Svínabökkum var orðin nokkuð gamall og lélegur þegar þessi saga gerðist en þá fylltist allt af gangnamönnum sem orðið höfðu veðurtepptir á leið yfir Smjörvatnsheiði. Amma dreif alla í spilamennsku eins og venjulega en þegar minnst vonum varði hrundi baðstofuloftið niður á næstu hæð. Þeirri gömlu brá ekki meira en svo að hún stóð upp úr brakinu, hristi af sér versta gromsið og sagði svo: Hver á að gefa? Við systur myndum sennilega allar frekar spila vist en prjóna og sauma en scrabble er hins vegar uppáhaldsspilið og við spilum hver með aðra.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband