Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Samræður eða einræður

Ég er alveg skæð með það að tala við sjálfa mig í tíma og ótíma. Ef ég kvíði fyrir einhverju undirbý ég mig gjarnan í huganum undir þær samræður og svara eins mér þykir líklegast að viðmælendur muni svara. Ég verð oft svo niðursokkin í þessar samræður að ég átta mig ekkert á að ég er farin að tala upphátt. Á sama hátt ræði ég iðulega við fjölskyldu eða vini í huganum og það er alveg jafnt um jákvæða og góða hluti eins og erfiða. Auk þess á ég ákaflega auðvelt með að halda uppi samræðum við sjálfa mig og rökræði af mikilli snilld um hin ýmsu málefni, allt í huganum. Þegar ég svo slysast til að segja eitthvað upphátt getur það verið afskaplega vandræðalegt og það hefur iðulega komið mér í koll. Í morgun t.d. var ég stödd niður í Kópavogsdal og var búin að halda uppi hörkusamræðum við sjálfa mig um heimspeki á göngunni. Á leið fram hjá fótboltavellinum fullyrti ég fullum rómi: „Þetta er hin versta hugsanavilla og alger rökleysa." Einhver mannvesalingur sem átti leið þarna um rak upp stór augu og horfði hvasst á mig. Ég reyndi eftir bestu getu að klóra í bakkann og hvæsti á hundvesalinginn sem skondraðist í kringum mig: „Já, þetta gengur alls ekki upp hjá þér, Freyja mín." Maðurinn hljóp við fót eins langt í burtu frá mér og hann komst.

Sannaðir og afsannaðir hæfileikar

Um ævina hef ég kynnst ótrúlega mörgum misskildum listamönnum. Undantekningarlaust hafa slíkir veist að mér á börum og skemmtistöðum og hvíslað með slefblautar varir rétt við eyrað á mér: „Ég er svo óskaplega listræn/n og skapandi.“ Sumir eiga skúffur fullar af fögrum ljóðum eða sögum sem útgefendur eru of þröngsýnir og lélegir til að sjá snilldina í en aðrir bílskúrinn fullan af málverkum sem ættu heima við hlið Monu Lisu í Louvre en aldrei komist lengra en að bílskúrsdyrunum. Ég tek það fram að í fæstum tilfellum fékk ég að berja augum þessar einstöku listperlur en tók fyllilega orð skapara þeirra gild og sannfærðist um að misskildir listamenn væru fjölmenn stétt. Allt þar til ég las viðtal við Guðrúnu Evu Mínervudóttur sem sagði frá því að hún hefði í vinnu sinni sem barþjónn kynnst svipuðum persónum og ég er að lýsa og ákveðið að þetta ætlaði hún ekki að láta henda sig. Fyrst hana langaði að skrifa þá ákvað hún að skrifa og láta ráðast hvort öðrum fyndist hún hafa hæfileika. Við vitum öll hvernig til tókst. Og þá rann allt í einu upp fyrir mér munurinn á sönnuðum og ósönnuðum hæfileikum. Það er nefnilega svo gott að trúa að maður gæti þetta alveg ef maður bara reyndi en hitt er verra að láta rústa draumnum með því að láta á hann reyna.

... fyrst af öllu feitarpottinn og eitt kíló ...

Hvað ætli feitarpottur sé?


mbl.is Eldur í potti á Seltjarnarnesi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Konur í sókn

Eva Halldóra útskrifaðist stúdent á laugardaginn. Það var ekki laust við að mér súrnaði í augum, eins og Skarphéðni í brennunni forðum, þegar ég horfði á dóttur mína ganga yfir sviðið með stúdentsskírteinið sitt í höndunum. Það hitti mig einnig í hjartastað að sjá allar þessar stúlkur sitja á sviðinu. Að undanförnu hef ég verið að vinna að 19. júní og talað við tvær konur vegna þess. Önnur er 96 ára gömul og stóð á Austurvelli árið 1915 með móður sinni og fagnaði kosningarétti íslenskra kvenna. Hin er 88 ára og man eftir að hafa séð Ólafíu Jóhannsdóttur á götu í Reykjavík en sú var önnur tveggja kvenna sem fyrsta fengu að stunda nám við Menntaskólann í Reykjavík. Ólafía lauk reyndar ekki stúdentsprófi en það gerði hin. Báðar þessar fullorðnu konur lögðu áherslu á að menntun væri lykillinn að jafnrétti og báðar þráðu að læra meira en þær gátu leyft sér. Auk þess að vera í meirihluta stúdentsefna voru konur einnig í meirihluta afburðanemenda. Af tíu efstu nemendum við þessa útskrift Verzlunarskólans voru átta stúlkur og tveir drengir. Þetta er stórkostleg breyting sem vonandi veit á gott hvað jafnréttisbaráttuna varðar.

Enn af Lalla Johns

Umræðan um auglýsinguna með Lalla Johns er að mínu mati að verða hið versta rugl. Hver frelsispostulinn á eftir öðrum rýkur upp til varnar því að Lalli vesalingurinn eigi nú að fá að vinna sér inn aur fyrst hann býðst eða að varla sé verra að Lalli tali frá sínu faglega sjónarhorni en Eiður Smári frá sínu og að Lalli sé frjáls að því að gera nákvæmlega það sem hann vill. Þessar röksemdir eru það sem á mínu heimili hefði verið kallað hundalógík. Auðvitað er Lalli frjáls að því að gera það sem hann vill og mikið er fínt að Öryggismiðstöðin var tilbúin að rétta honum 300.000 kr. Það hefði meira að segja mátt vera meira. Það er líka fínt að Lalli upplýsi almenning um viðhorf innbrotsþjófa. Auglýsingarnar eru hins vegar siðlausar fyrir allt aðrar sakir eða þær að verið er að ýta undir ótta samborgaranna við ógæfumenn og hreinlega gera út á fordóma. Ræður Lalla um óvarin hús og þankagang innbrotsþjófa breikka þá gjá sem er milli hans og þeirra sem standa innangarðs í samfélaginu. Við þurfum meira á því að halda að auka skilning á aðstæðum ógæfufólks en að undirstrika þá ímynd að það sé ógn við öryggi okkar og heimilisfrið.

Algjörir nördar

Við hjónin verðum nördalegri með hverju árinu sem líður. Við erum farin að hafa gaman af fuglaskoðun og höfum orðið kíki með í för þegar við göngum með hundinn og stoppum af og til og kíkjum á fugla. Ég er nokkuð viss um að ýmsir sem mæta okkur fitja upp á nefið og hugsa með sér: Þvílíkir sauðir. En það er allt í lagi Það er hreint ótrúlega gaman að fylgjast með fuglunum og svo kemur upp í manni ákveðin keppni þ.e. maður fer að keppast við að koma auga á sem flestar fuglategundir og jafnvel merkja við hjá sér þær sem manni hefur þegar tekist að koma auga á. Í vor höfum við séð rauðhöfðaönd, gargönd, skúfönd, toppönd og hávellu. Við höfum líka séð margæsir, heiðargæsir, grágæsir og helsingja auk margra mófugla. Við vorum fórum einmitt í fuglaskoðunartúr út á Álftanes um daginn og skemmtum okkur konunglega. Freyja var ekki eins ánægð, enda varð hún að sitja á strák sínum meðan við horfðum nægju okkar. Hún sér engan tilgang með fuglum annan en þann að reka þá upp hvar sem þeir safnast í hópa.

Hvers vegna nauðga karlmenn?

Ársskýrsla Stígamóta er nýkomin út og þar er að finna ýmsar sláandi tölur. Í ljósi þeirrar aukningar sem orðið hefur á nauðgunum hljóta menn að spyrja sig hvers vegna karlmenn nauðga? Ég held að ein ástæðan sé sú að karlmenn hlutgera konur og líta þar af leiðandi ekki á þær sem manneskjur með tilfinningar heldur fremur eins og mark í kappleik eða viðskiptasamning sem verði að berja saman hvað sem það kostar. Í 1. tbl. 2007 h-tímarit skrifaði ég grein um karlmenn sem skorið hafa upp herör gegn kynferðisofbeldi. Hér á eftir fer brot úr þessari grein.

Ofbeldi gegn konum er mjög algengt meðal íþróttamanna í Bandaríkjunum. Tvennt virðist koma til, bæði er samkeppnin svo mikil innan leikvangs og utan að menn eru hreinlega hvattir til að rækta með sér árásargirni og einnig eru umræður í búningsklefunum fullar af kvenfyrirlitningu; konur eru hlutgerðar. Don McPherson, fyrrum hafnaboltaleikari, áttaði sig á því hversu hættulegur slíkur hugsunarháttur gat verið þegar hann kynntist konu sem hafði verið nauðgað af fjórum mönnum. Þau sár sem atburðurinn hafði skilið eftir sig á sál hennar urðu til þess að hann ákvað að fara inn í búningsklefana og tala við íþróttamennina og reyna að leiða þeim fyrir sjónir hvað gæti leitt af tali þeirra.

Don viðurkennir hreinskilnislega að hann hafi notfært sér frægð sína og virðingu hinna fyrir hæfni sinni sem íþróttamanns til að ná til þeirra. Meðal þess sem hann bendir mönnum á er að karlmenn njóta ákveðinnar yfirburðastöðu í samfélagslegum skilningi og að öldum saman hafi ofbeldi gegn konum verið viðurkennt af samfélagi okkar.

„Þetta er líkt og rasismi," segir Don. „Ef rasismi væri eingöngu mál sem snerti svarta værum við ekki hér. Það var ekki fyrr en hvítt fólk tókst á við hvítt fólk bak við luktar dyr sem málin tóku að breytast. Karlmenn þurfa að takast á við aðra karlmenn bak við luktar dyr svo hægt sé að koma í veg fyrir kynferðislegt ofbeldi."

Á bak við lokaðar dyr búningsklefanna bendir Don sínum mönnum á hvernig kvenfyrirlitning þeirra og hatur í garð kvenna endurspeglist í tungumálinu sem þeir nota. Eftir góðan leik hittist menn á barnum og einn þeirra renni hýru auga til konu. Daginn eftir hópist hinir um hann í klefanum og spyrji: Did you hit it? Did you flip it? Did you slap it? Did you knock the boot? Did you kill it? Sambærilegt á íslensku væri hugsanlega: Negldirðu hana? Skoraðirðu? Gerðir þú hitt? Fórstu alla leið? Don bendir á að með tali sem þessu séu konur hlutgerðar og ofbeldið sem felist í orðunum hvetji karlmenn til að líta á kynlíf sem kappleik þar sem allt snúist um að skora fremur en að taka tillit til hinna leikmannanna.


Gamli fartur

Nú á dögum talar fólk gjarnan um að vera á fartinni. „Ég er alltaf á fartinni,“ segir það. Þetta vekur alltaf svolítið óþægileg viðbrögð hjá mér. Ég fæ alltaf sterka þörf fyrir að flissa og ég vildi óska að fólk talaði frekar um að vera á ferðinni. Ástæðan fyrir þessari óviðeigandi kátínu er sú að þegar ég var barn töluðum við um að farta og áttum við að prumpa. Sá sem prumpaði mikið var fartur og um tíma heilsuðumst við systur gjarnan með kveðjunni: „Sæll gamli fartur.“ Í hvert sinn sem einhver segist alltaf vera á fartinni sé ég fyrir mér viðkomandi manneskju á hlaupum síprumpandi eins og gamla bikkju. Ég er ekki þroskaðri en svo að við þetta setur að mér hlátur.

Ógæfumenn og peningavaldið

Við hjónin vorum í Smáralindinni áðan og þar stóðu fulltrúar Öryggismiðstöðvarinnar við hlið stórrar myndar af Lalla Johns og buðu fólki reykskynjara og innbrotavarnir. Einn þessara starfsmanna vék sér að mér og bauð mér bækling með mynd af Lalla. Ég sagði viðkomandi að þótt ég vissi að hann væri ekki ábyrgur fyrir þessum ósköpum þá myndi ég ekki kaupa húsdýraáburð af fyrirtæki sem auglýsti á svo siðlausan hátt hvað þá öryggi fyrir heimili mitt. Hann maldaði í móinn og talaði um forvarnargildi. Ég nennti ekki að munnhöggvast svo ég hélt áfram en hvar liggur forvarnargildið í birtingu flennistórrar myndar af ógæfumanni sem er eins og plakötin úr vestrunum MOST WANTED? Ég skil það ekki. Á það að verða til þess að ungir fíkniefnaneytendur horfi á myndina og leggi þar með kúbeinið á hilluna? Það tel ég ólíklegt. Eina forvarnargildið sem felst í þessu er að kenna fólki eins og mér að óttast menn eins og Lalla Johns og reyna að víggirða heimili mitt gegn þeim. Ég ber ekki á móti því að meiri ástæða er til að verja heimili sitt í dag en var fyrir einhverjum áratugum en ég held samt sem áður að með því að setja andlit á varginn sé verið að skapa ákveðna fjarlægð og ala á ótta og fordómum. Myndin af Lalla og auglýsingarnar eru ekki til þess fallnar að vekja samúð.

Hundalíf

Hengilsvæði + barn 006Hengilsvæði + barn 007Hengilsvæði + barn 008

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband