Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Stúdent Eva Halldóra

S4300002 Hér sést fröken Eva Halldóra Guðmundsdóttir sem lauk síðasta prófinu síðastliðinn mánudag og útskrifast stúdent um næstu helgi.

Dýrin vita sínu viti

Þegar ég vann á Vikunni skrifaði ég eitt sinn grein um dýraathvarf sem hugsjónamaðurinn Michael Mountain hafði komið upp. Greinin birtist aldrei því þáverandi ritstjóra fannst hún ekki nægilega áhugaverð. Ég birti hér brot úr greininni sem mér fannst frábær.

Sérvitringar og vinnuþjarkar

Mörg dýrin sem koma til Michaels og vinanna eiga sorglega sögu að baki. Þeim hefur verið misþyrmt þau hafa verið yfirgefin og sum pyntuð. Stundum koma dýrin í athvarfið í hræðilegu ástandi en eftir örskamman tíma eru þau farin að þrífast vel og fljótlega er hægt að koma þeim fyrir hjá góðu fólki. Nokkur þeirra fara aldrei og margar ástæður geta legið þar að baki. Sum þeirra eru einfaldlega of skrýtin og sérvitur til að hægt sé að setja þau í fóstur en önnur eru of gömul, of veik eða of fötluð til að hægt sé að sinna þeim inni á venjulegum heimilum. Þessi dýr eru ákaflega merkileg og þau hafa lag á að finna sér hlutverk og stað í athvarfinu.

Meðal slíkra sérvitringa er síamskötturinn Squeaky Pop (ískrandi hvellur) sem aðeins má strjúka upp á eldhúsbekk en hvergi annars staðar snerta hann. Annar einstakur persónuleiki var Ginger, retriever tík sem bjargað var úr þrældómi í myllu. Hún leit á það sem köllun sína að fara eftirlitsferð um landareignina á hverjum morgni og safnaði saman öllum tennisboltum sem hún fann og koma þeim fyrir undir tré. Upp frá því gekk tréð undir heitinu The Federal Reserve (alríkissjóðurinn).

Benton var klumbufættur flækingsköttur sem hafði marga fjöruna sopið á götunni áður en hann kom í athvarfið. Benton var mikill harðstjóri og vildi hafa reglu á öllu í kattanýlendunni. Hann hegðaði sér eins og borgarstjóri þar og tók ævinlega fyrstur á móti gestum sem þangað komu. Honum til heiðurs var nýtt heimili handa köttum með sérþarfir í athvarfinu nefnt Benton House.

Tommy og Tyson var bjargað af götum LA þegar þeir voru kettlingar en þeir ferðuðust um allt með rófurnar kræktar saman. Tyson gat þannig leiðbeint bróður sínum en Tommy var blindur. Haninn Wooster var samtíða þeim bræðrum en hann vildi hvergi sofa nema ofan á kattahrúgu og var engu líkara en hann liti á samanvafða kettina sem hreiðurstæði sitt.

Vitskertur af lyfjatilraunum

Amra var alaskasleðahundur sem tók að sér lögreglustjóraembættið í hundaþorpinu. Kærasta hans hét Rhonda, pínulítill terríer sem ævinlega svaf milli risastórra loppnanna á Amra. Starfsmenn athvarfsins eru þó sérstaklega hreyknir af sögu hundsins Rexy en hann var árum saman notaður til að rannsaka virkni svefnlyfja. Svo miklu magni lyfja var dælt í hann áður en honum var bjargað að hann hafði gersamlega tapað áttum. Hann vaknaði spangólandi, pissaði þar sem hann stóð og réðst á allt sem tönn á festi og reif það í sundur. Hann þurfti að læra upp á nýtt að umgangast aðra hunda en eftir margra mánaða vinnu tókst starfsmönnunum að hjálpa honum til þess að geta lifað nokkuð eðlilegu lífi. Í dag býr Rexy hjá fullorðnum hjónum í Salt Lake City sem elska hann út af lífinu þótt hann hafi ekki náð sér að fullu.

Árangur eins og sá sem náðist með Rexy er það sem gefur starfsfólkinu, sem flest vinnur í sjálfboðavinnu, hvatningu til að halda áfram. Sjálfboðaliðar koma alls staðar að úr Bandaríkjunum og þetta er fólk úr öllum stéttum. Sumir koma aftur og aftur. Margt af þessu fólki er í erfiðum störfum þar sem stressið er mikið. Það segir að ekkert frí gefi þeim jafnmikla hvíld og endurnæringu og starf í dýraathvarfinu. Þegar dýrin horfi á það þessum þakklátu augum skipti ekkert annað máli.

Dýrin eiga öll sína sögu. Sum hafa fundist yfirgefin í eyðimörkinni og í öðrum hefur verið kveikt. Mörg þeirra eru svo eftir sig eftir misþyrmingar að það eina sem hægt er að gera fyrir þau er að halda á þeim í fanginu og reyna að hugga þau með nærveru sinni. Sjálfboðaliðarnir segjast stundum eyða heilu dögunum í það eitt að halda á og strjúka dýrum sem eiga bágt.


Hrifnæmi

Ég hef alltaf verið viðkvæm, hrifnæm og fljót að sveiflast milli hláturs og gráturs. Það verður að segjast eins og er að oftast nær hef ég fremur talið þetta löst en kost. Mér var einnig kennt frá unga aldri að yfirvegun væri það sem skilaði okkur mannfólkinu mestu og þolinmæðin dyggð. Sá sem sveiflast á orskotstund frá gleði yfir í dýpstu sorg eins og ég veit hins vegar að ekkert er verra en að bíða og bestu útrásina færðu þegar og ef þú bregst við tilfinningum þínum strax.

Mamma las fyrir okkur á kvöldin þegar ég var barn og ég var alltaf fyrst til að skæla ef illa var komið fyrir söguhetjunni og eins var ég fljót að brosa þegar lánið lék við hana að nýju. Við systurnar fórum líka í Tjarnarbíó með mömmu að sjá Síðasta bæinn í dalnum. Þegar tröllið í myndinni velti þeim systkinum ofan í kistu sem flaug síðan með þau um geyminn var mér allri lokið. „Nú, getur ekkert bjargað þeim,"skrækti ég óhuggandi og fór síðan að hágráta. Allt fór auðvitað vel að lokum og ég tók gleði mína um það leyti sem endirinn nálgaðist og tröllið fékk makleg málagjöld.

Fimmtán ára gömul sá ég Fantasíu Disney's og grét þegar flóðhestarnir stigu lipran ballett undir tónum Blómavalsins eftir Tjsakovskí. Mér fannst tónlistin svo óendanlega falleg og eitthvað svo dásamlegt að sjá þessi stóru þungu dýr tipla um og dansa meira af vilja en mætti. Mér fannst það segja eitthvað stórkostlegt um sigur andans yfir efninu. Að sjálfsögðu var það hin versta skömm að láta það sjást að manni hefði vöknað um augu og það undir teiknimynd svo ég gerði mitt besta til að fela andlitið í úlpuhettunni á leiðinni út. Og þetta var í fyrsta en ekki síðasta skipti sem ég laumaðist þannig út úr bíóhúsum. Gumma fannst nóg um þegar hann gekk með okkur Andra, bæði útgrátin, út úr Laugarásbíó eftir að fjölskyldan fór og sá ET.

Eftir því sem ég eldist hef ég reynt að hemja þessa hlið skapgerðar minnar en af og til berast bækur inn á borð hjá mér eða bíómyndir sem opna allar flóðgáttir. Þar á meðal má nefna A Million Little Pieces sem lesin var í bókaklúbbi Opruh Winfrey og fékk reyndar mikla gagnrýni fyrir að segja ekki sannleikann allan. Barn að eilífu er önnur bók sem hafði djúp áhrif á mig sömuleiðis Myndin af pabba. Ég losaði mig við þónokkra lítra af saltvatni við lestur þessara bóka og sat lengi eftir með tilfinningar sem erfitt var að fá útrás fyrir. Það er því sama hvernig ég reyni að hemja viðkvæmnina á sínum bás hún brýst alltaf út að lokum. Já, viðkvæmnin er vandkind.

Nýlega komst ég að þeirri niðurstöðu að kannski væri bara best að lofa viðkvæmniskindinni að hlaupa óbeislaðri og óhaminni um allar jarðir. Þetta er einfaldlega hluti af mér og hví ekki að bera höfuðið hátt og vera hreykin af því að það er minnsta kosti hægt að hræra mann til meðaumkunar. Hér eftir hef ég ákveðið að bera höfuðið stolt og reyna ekkert að leyna merkjum um tárin í hvert skipti sem þetta meyra nær yfirhöndinni innra með mér. Hinn kosturinn er harkan og tilfinningaleysið og þannig vil ég ekki vera.


Bolabítur

Og fyrst maður er byrjaður að birta vísur þá er hér ein inspíreruð.

 

Finnst þér ekki Benni bolabítur

vera berlegur bokkaskítur?

Hann er brúnn

eins og bjarnarhúnn,

búttaður, boginn og hrýtur.


Kristnifræði fyrir fullorðna

Ég rakst á þessa vísu í skjölum hjá mér áðan en hana lærði ég af ömmu vinkonu minnar Áslaugu Thorlacius. Ég kann vel við þessa kristnifræði.

Þá sagði Jósep: „Þetta er svindl hjá þér.

Þú hefur haldið framhjá mér."

„Uss!" Sagði Maja, „ekki þetta suð.

Engan hef ég haldið við nema drottinn minn guð."


Hvernig sumir eru við suma

Í nýjasta tölublaði h-tímarits er viðtal við fjölskylduráðgjafann Jóhönnu Guðrúnu Jónsdóttur um væntingar okkar og hvernig þær flækjast stundum fyrir í hjónaböndum. Jóhanna Guðrún er einstaklega skemmtileg kona og talar tæpitungulaust um hlutina. Hún er líka ein af þessum manneskjum sem maður skynjar ósjálfrátt að ber virðingu og umhyggju fyrir öðrum. Ég kunni afskaplega vel við hana og eftir að hafa skrifað viðtalið datt mér í hug saga af hjónum sem ekki voru sérlega samlynd. Karlinn var hinn versti durtur og hefði sennilega ekki þekkt rómantík þótt hún settist í fangið á honum. Konan hans kvartaði reglulega undan þessu og þá einkum því hversu langt að baki manni vinkonu hennar hann stóð að þessu leyti. Einhverju sinni fékk karl nóg leit á hana og sagði: „Ef sumir væru ekki við suma, eins og sumir eru við suma, væru sumir við suma eins og sumir eru við suma.“ Mikil speki leynist í þessu.

Svipur risessunnar

Um daginn heyrði ég á tal tveggja kvenna í verslun hér í bæ. Þær voru að ræða heimsókn risessunnar og önnur þeirra sagði: „Hún minnir mig á einhvern en ég get ekki fyrir mitt litla líf gruflað upp hver það er.“ Hún hafði varla lokið setningunni þegar því laust niður í mig að risessan minnir óneitanlega á Björk frá ákveðnum sjónarhóli að minnsta kosti. Þær hafa báðar þetta dulúðuga austræna útlit. Annars var reglulega gaman að heimsókn risessunnar og föður hennar hingað og þau lífguðu upp á borgina meðan þau stöldruðu við. Nafnið á fyrirbærinu virðist ekki hafa verið alveg skýrt hjá sumum því ég heyrði fréttamann á Stöð 2 kalla hana rísessuna í fyrstu frétt sem hann flutti af komu hennar. Kvöldið eftir hafði viðkomandi svo fundið rétta taktin og nafnið á hinni stórvöxnu dömu rétt.

Kúrt á kosninganótt

Kosninganóttin var æsispennandi en ég verð að viðurkenna að ég entist ekki nema til klukkan rétt rúmlega tvö. Gummi sat lengur. Mér finnst það óþolandi hvað ég er að verða kvöldsvæf. Hér á árum áður var ég alltaf hressust á kvöldin en nú dotta ég iðulega yfir sjónvarpinu hálft kvöldið og skríð svo í rúmið um ellefu. Eitt hefur þó ekki breyst. Mér þykir alltaf jafngott að kúra frameftir á morgnana.


Loðdýr og hárlitlir menn

Hér hefur margoft komið fram að ég á þrjú loðdýr sem ég elska umfram margt annað. Síðan á ég tvo loðna pelsa sem ég kann afskaplega vel við en að sjálfsögðu heilla maðurinn minn og börnin mín mig umfram allt annað en stundum verður þó vart afbrýðisemi milli þessara hópa. Til að mynda get ég nefnt að einu sinni vorum við með tvo fressketti sem báðir höfðu verið geltir. Maðurinn minn kvartaði mikið undan því að ég reyndist köttunum mun betri en honum. Ég svaraði „Kettirnir eru kafloðnir og steingeltir ef þú ert tilbúinn að gangast undir sama skal ég koma eins fram við þig.“ Eftir þetta heyrðist ekki minnst á það að ég væri köttunum best þótt ég ynni manni mínum mest. Eftir að við fengum hundinn hefur komið í ljós að „there is something between a man and his dog“. Gummi bannaði mér nefnilega lengi að taka hund á þeim forsendum að ég myndi láta alltof mikið eftir honum. Eftir að Freyja kom á heimilið sáu allir að þótt ég væri eftirlát við tíkina og mjög góð við hana var það ekkert í samanburði við Guðmund sem lætur gersamlega stjórnast af tíkinni. Börnin mín kvarta stundum undan þessu, einkum Eva, en þeim er sagt að hundurinn sé eins og lítill óviti sem þau þurfi að taka tillit til. Misjafnt er hvernig þau taka því en sterastríðið þegar tíkin stal sterakreminu hennar Evu hefur leitt í ljós að aldrei verður fyllilega hægt að sætta alla. En ég verð að viðurkenna ef einhver horfir á mig saklausum brúnum augum eins og tíkin eða sýnir mér blíðu með að nudda hausnum upp við mig eins og kettirnir þá er ég fallin og ekki ábyrg gerða minna eftir það.

Fallegur karl

Hér sést kötturinn Matti sem lifað hefur mjög ævintýraríku lífi. Því miður gengur ekki að virkja linkinn eða koma myndinni af Matta hér inn. Mér tókst að koma honum fyrir í albúmi þannig að hann birtist hér til hliðar á síðunni. Mattinn minn á sannarlega níu líf eins og flestir aðrir kettir. Tvö þeirra er hann þegar búinn að nota. Það fyrsta þegar hann var bara kettlingur og var borinn út ásamt móður sinni og systkinum. Þau fundust á víðavangi og var komið upp á Dýraspítala. Þar kom í ljós að móðirin var of langt leidd til að hægt væri að bjarga henni og hún var svæfð. Dýralæknarnir héldu svo lífi í Matta og systkinum hans með því að gefa þeim mjólk úr dropateljara. Ung stúlka sem átti leið upp á spítalann með sinn eigin kött tók systkinin að sér og ætlaði að finna handa þeim heimili þegar starfsmenn Dýraspítalans voru búnir að gefast upp á því og voru að því komnir að svæfa þau. Hún átti leið um ritstjórnarskrifstofur Vikunnar þegar hún var á leið upp á Dýraspítala með Matta til að láta svæfa hann því hann var sá eini sem henni hafði ekki tekist að koma fyrir. Ég tók hann að sjálfsögðu að mér en við vorum þá nýbúin að fá lítinn kettling sem hét Míró. Tveimur árum seinna var keyrt á Matta og hann lærbrotnaði. Ég hjúkraði honum til heilsu þrátt fyrir ýmsar uppákomur meðal annars það að naglinn í brotinu stakkst í taug og dýrið fékk kvalaköst af og til. Þetta varð til þess að sambandið milli okkar Matta varð óvenjulega náið og ég get eiginlega farið með hann hvernig sem mér sýnist.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband