Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007

Hvernig meta á meyju?

Ég er nýkomin af ráðstefnu Kvenréttindafélagsins um Vændi, virðingu og jafnrétti í nútímasamfélagi. Það voru sannarlega áhugaverð sjónarmið sem þarna komu fram og vissulega margt sem er umhugsunarvert. Svanhildur systir steig í pontu og talaði um að konur gætu hugsanlega keypt sig inn á þann þankagang sem ríkir í klámiðnaðinum og vændisheiminum vegna þess að þær eru svo vanar því að samfélagið horfi á þær með augum karla. Vegi þær og meti eftir því hvort þær teljist fallegar, ljótar eða kynþokkfullar og allar viljum við vera fallegar og kynþokkafullar. Þegar ég hlustaði á hana rifjaðist upp fyrir mér atvik sem gerðist þegar ég var í unglingadeild grunnskóla. Tvær vinkvenna minna voru að tala um skólasystur okkar og önnur þeirra sagði: „Ooo! Hún er svooo falleg.“ Og hin tók undir. Ég var þessu ekki sammála svo ég sagði: „Finnst ykkur hún falleg. Mér finnst það ekki.“ Ég vissi ekki hvert þær ætluðu svo hneykslaðar voru þær á viðhorfi mínu og að lokum sagði önnur: „Þú ert nú bara eitthvað rugluð, Steinka. Það eru þrír strákar vitlausir á eftir henni svo víst er hún falleg.“ Ég man enn í dag hvað ég varð reið. Mín dómgreind og smekkur mátti sín sem sagt einskis gegn þremur strákum sem eltust við einhverja stelpu. Ég var líka öskuþreifandi ill yfir því valdi sem mér fannst þær með þessu framselja í hendur karlmanna. Þeirra var að meta okkur og annað hvort leggja blessun yfir útlitið eða dæma það afleitt.

Um þetta leyti var ég líka oft spurð að því hvort ég vildi ekki reyna að komast í Módelsamtökin sem þá störfuðu aðallega við að sýna föt. Ástæðan var sú að ég var óheyrilega löng og mjó. Ég svaraði þessu venjulega á þann veg að ég hefði engan áhuga á að gerast herðatré en að mínu mati var það hlutverk sýningarstúlkna. Fólk leit venjulega á mig með vorkunnarsvip þegar ég sagði þetta og auðséð var að enginn trúði mér. Menn töldu frekar að ég væri of uppburðarlaus til að þora að reyna að komast inn í samtökin vegna þess að hvaða konu með fullu viti gat dottið í hug að neita þeim gæðastimpli sem fólst í því að vera starfandi sýningarstúlka. Löngu seinna gafst mér tækifæri til reyna þetta þegar ég var beðin að fara í fyrir og eftir þátt hjá Vikunni. Þá komst ég að því að það er ekkert gaman að vera herðatré og mikið skelfing var ég guði þakklát eftir tíu tíma í hárgreiðslu, förðun, mátun og myndatöku að hann hafði gefið mér aðra hæfileika sem nýttust í lífsbaráttunni en þann að geta setið fyrir.


Hvernig höndlar þú erfiðleikana?

Á föstudaginn var fórum við hjónin í matarboð til vinkonu minnar. Maðurinn hennar hefur mætt miklum erfiðleikum í lífinu og undir borðum barst talið að því sem Bretar og Bandaríkjamenn kalla „survival mechanism“. Hann sagðist ævinlega hafa hugsað með sér að almættið myndi ekki senda honum meira en hann gæti borið með góðu móti og sú hugsun færði honum styrk til að halda áfram. Meðan hann var að tala gerði ég mér grein fyrir að sjálf nota ég aðferð sem kölluð er „count your blessings“. Í hvert skipti sem vandræði mæta mér eða leiðindi banka upp á tel ég upp í huganum allt það góða sem er til staðar í lífi mínu og allt það sem ég er þakklát fyrir. Þetta gefur mér kraft til að mæta hverju sem er. Ég man líka alltaf eftir sögunni af gömlu konunni trúuðu sem var spurð þegar hvert reiðarslagið eftir annað reið yfir fjölskyldu hennar hvort hún bæði ekki guð að forða dætrunum frá meiri hörmungum. Sú gamla svaraði: „Nei en ég bið hann að veita þeim styrk til að takast á við erfiðleikana.“ Kannski erum við alltof hrædd við erfiðleikana og vantreystum okkur sjálfum. Líf mitt hefur alltaf verið auðvelt og mun meira af góðum hlutum sem ég get verið þakklát fyrir en vondum. Kannski er ég svona veik að guð hafi þess vegna ákveðið að hlífa mér.

Heteróhringir til sællar minningar

Fyrir tæpum tveimur árum var sonur minn að stúdera heteróhringi sem eru eitthvað efnafræðilegt fyrirbæri. Hann benti mér á þennan frábæra kveðskap minn sem hann hafði varðveitt af gamla blogginu mínu. Ég ákvað að deila snilldinni með ykkur.

Haldið þið ekki að sonur minn elskulegur hafi fengið 9,5 á heteróhringhringjaprófinu. Það er ekki spurning að mín einstaka innsýn í heteróhringina hjálpaði óskaplega mikið. Ef drengurinn hefði ekki getað skrifað þennan ódauðlega kveðskap á prófblaðið hefði hann aldrei náð hærra en 5,0. Já, það er ekki ónýtt að hafa tvo sérfræðinga í heteróhringjum í fjölskyldunni.

Ef heteróhring þú slysast til að bera
skaltu sem allra minnst segja og gera.
Best er þó
að vera með kló
og líkt og Kobbi með henni skera.

Eiginlega er ómögulegt að láta þessa heteróhringi detta dauða niður. Í þeim er alltof mikill vindur til þess. Ætli þetta sé ekki ágætis byrjun.

There was a young student of heterorings
who said they are beautiful things
to hang from your nose
and while the wind blows
You'll sound like cow who sings.

Að hugsa um heterohringi
er eins og að hlaða í bingi
hinum versta skít
og hvert sem ég lít
minnir allt mest á Alþingi.


Glæstur ferill á leiksviðinu

Oft er sagt um fólk og því lagt það út á versta veg að það eigi að baki skrautlegan feril. Ég var að hugsa um þetta orðatiltæki um daginn, sérstaklega í ljósi þess að dóttir mín ætlar að reyna sig við leiklistina og hyggst taka inntökupróf í leiklistardeild Listaháskólans. Það rann upp fyrir mér við þessar vangaveltur að ég á að baki mjög skrautlegan feril á leiksviði. Á menntaskóla árunum vildi ég verða leikkona og lagði hart að mér til að svo mætti verða. Ég lék nefnilega í tveimur leiksýningum og í annarri lék ég asna en hinni hóru. Eiginlega má segja að ég hafi átt jafn skrautlegan leikferil og maðurinn sem hafði einu sinni stigið á svið og lék þá lík. Sjálfur sagði hann að haft hefði verið á orði í sveitinni að aldrei hefði sést dauðara lík í nokkru leikverki. Já, svona er okkur misjafnlega skammtað flotið að þessu leytinu líka. Eva hefur reyndar leikið ansi fjölbreytt hlutverk eða fullan prest, viðbjóðslega stjórnsama ömmu, hóru (ætli þetta sé einhver ættarsvipur sem leikstjórar falla fyrir), leynilögreglumann og heilalausa leiðindapíu.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband