Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Nú er komið hrímkalt haust

Rokið og rigningin undanfarið hefur lítið pirrað mig. Á þessum fjórum árum sem liðin eru síðan ég fór í hundana hef ég lært eftirfarandi: 1. Veðrið er aldrei eins slæmt og það lítur út fyrir að vera út um gluggann. 2. Ef gengið er í skóginum í Heiðmörkinni er alltaf logn. 3. Rigningin er besta húðhreinsun sem um getur. 4. Veðurblíða er stórlega ofmetin.

Undanfarið höfum við Freyja gengið tvisvar sinnum í Búrfellsgjánni. Í fyrra skiptið var sól og blíða þannig að ég fór í flíspeysunni og gekk á stuttermabol. Við nutum þess að skoða dumbrautt bláberjalyngið þar sem það kallaðist á við heiðgulan víðirinn og rústrautt krækiberjalyng. Freyja hefur reyndar lítinn áhuga á litadýrðinni en elskar að hoppa í kjarrinu og þefa af mosanum. Í seinna skiptið fór Gummi með okkur og þá þaut rokið fyrir ofan okkur en logn var í gjánni sjálfri. Þetta er hreinlega yndislegt.


Tískulöggur í sálfræðileik

Fyrir tilviljun rak ég augun í sjónvarpið á laugardaginn þegar þáttur með tískulöggunum Trinny og Susannah stóð sem hæst. Ég hef aldrei nennt að fylgjast með þessum þáttum því fatnaðurinn sem þær stöllur velja er að mínu mati ekkert sérlega smekklegur þótt þær vissulega bæti ögn útlit skjólstæðinga sinna. Annað væri eiginlega ómögulegt því viðfangsefni þeirra eru í flestum tilfellum nær örugglega sjónlaus eða það allra versta úr fataskáp þeirra valið fyrir myndavélarnar. Það sem gerði það að verkum að ég fór að fylgjast með var sú staðreynd að þær eru ekki lengur í hlutverki stílista heldur voru þær staðráðnar í að bæta hjónaband viðfangsefnisins og líkamsímynd hennar eftir brjóstnám. Og mér blöskraði. Hvernig í andsk. dettur tveimur manneskjum með áhuga á fötum og tísku það í hug að þær geti tekið að sér hlutverk sálfræðings og hjónabandsráðgjafa? Þær létu sér sem sé ekki nægja að klæða fólkið í ný föt heldur var það látið hátta bak við gegnsætt skilrúm og dást að líkömum hvors annars. Sérlega ógeðfellt! Er þetta enn eitt dæmið um að raunveruleikaþættir þurfa alltaf að stíga skrefinu lengra til að halda vinsældum?


Samskipti móður og sonar

Ég hringdi í son minn í gærkvöldi en fékk ekkert svar. Skömmu seinna hringdi ræfillinn og spurði hvert erindið hefði verið. „Ég fékk allt í einu óviðráðanlega löngun til að segja við þig Dolli litli dropi hættu þessu ropi," sagðí ég eins og satt var. Það helltist allt í einu yfir mig að sonur minn myndi hafa óstjórnlega gott af að heyra þessi orð. „Þú ert asni." svaraði sonurinn með stóískri ró þess sem margt hefur reynt. 

Hvernig lýsa má klósettsetu?

Ég kenni tvo tíma í frásagnartækni í Leiðsöguskólanum í ár og var að ræða um hversu misauðvelt það væri að segja frá hlutunum. Í því sambandi rifjaði ég það upp að ég fékk eitt sinn það verkefni hjá Vikunni að skrifa auglýsingatexta um klósettsetu. Þetta einstaklega, eftirsóknarverða verk féll mér í skaut því ég sá um þátt sem hét og heitir Flott og gott og er auglýsingatengd síða. Einhverjir snillingar voru á þessum tíma að flytja inn klósettsetur sem voru margfaldar í roðinu eða þannig að ef sett var niður ein seta dugði hún fyrir fullorðna rassa en ef önnur var látin falla ofan á hana passaði hún fullkomlega fyrir barnsrassa.

Nú má enginn misskilja mig. Mér þykir það hið besta mál að litlir rassar geti lært að gera þarfir sínar í klósettið án þess að pompa ofan í en það að einhverjum skyldi detta í hug að hægt væri að skrifa um fyrirbærið áhugaverðan og aðlaðandi texta kom mér á óvart. Svo verð ég eiginlega að segja ykkur í trúnaði að myndirnar sem fylgdu þessum uppbyggilega texta mínum voru sválega viðbjóðslegar eða nákvæmlega eins aðlaðandi og nærmyndir af klósettsetum geta orðið.

Meðan ég vann að textanum datt mér hins vegar stöðugt í hug saga sem ég heyrði þegar ég var í enskudeildinni. Í Bretlandi varð hið versta hneyksli þegar síðar, blúndunærbuxur Viktoríu drottningar voru seldar á uppboði. Menn máttu ekki til þess hugsa að undirfatnaður, næturgagn eða önnur þarfaþing sem Elísabet hefði nýtt sér kæmust í skítugar hendur almennings því var stofnað nýtt embætti. Það var staða Hins konunglega klósettsetuberara (Bearer of the Royal Toilett Seat). Þessi mikilvægi embættismaður fylgir, eftir því sem ég best veit, Betu enn á ferðum sínum um heiminn og skiptir samviskusamlega um klósettsetu í hvert skipti sem gamla konan þarf að bregða sér á salernið. Þessa sögu sagði mér breskur kennari minn í enskudeildinni og ég trúði henni eins og nýju neti og sel ykkur hana á afsláttarprís.


Svona er ég þá inn við beinið

Æ, mér tekst ekki að koma hér inn kódanum sem á að láta mynd af bókinni birtast. En ég er sem sagt Anna í Grænuhlíð samkvæmt þessu persónuleikaprófi. Þeir sem vilja vita hvaða bók þeir eru fari á www.bluepyramid.org/ia/bquiz.htm.  


Leið getur lyktin orðið

Freyja gerir það ekki endasleppt fremur venju. Á göngu í Kópavogsdalnum í gær velti hún sér upp úr einhverjum viðbjóði og ég hafði svo sem orðið vör við lyktina áður en ég fór í vinnuna. Þegar ég kom heim í gærkvöldi, nota bene, kl. 19.00 nennti ég ekki að baða hana og gerði mér vonir um að sleppa því mitt ólyktnæma nef greindi ekki lykt af kvikindinu þegar ég stóð í u.þ.b. 5 m fjarlægð frá henni. Mér fannst þetta bara ágætislausn þ.e. halda mér bara í þessari tilteknu fjarlægð frá þefdýrinu. Þá kom Eva heim og fýldi grön. Fjarlægðin hjá henni varð nefnilega að vera um það bil hálfur kílómetri til að hún skynjaði ekki lyktina. Ég neyddist til að baða hundinn til að barnið fengist til að borða og sofa í húsinu.


Hvenær verður nauðgun glæpur?

Það fyrsta sem blasti við mér þegar ég kom á fætur í morgun var frétt þess efnis að hæstiréttur hefði mildað dóm yfir nauðgara. Manni sem fór svo illa með konu að ekki var hægt að skoða hana venjulegri kvensjúkdómaskoðun því kynfæri hennar voru svo illa farin, eins og stóð í fréttinni. Ég verð alltaf jafndöpur og niðurdregin þegar ég les svona fréttir. Ég spyr mig: Hvenær verður nauðgun að glæp? Nauðgun telst ekki glæpur þegar konur þora ekki að segja nei, ekki þegar þeim er misþyrmt og þær kvaldar á svívirðilegan hátt og ekki þegar nauðgararnir drepa fórnarlömb sín því þá eru þeir ákærðir fyrir morð en ekki nauðgun. Mér finnst hver einasti svona dómur vera niðurlæging fyrir allar konur því þeir lýsa viðhorfi samfélagsins til kvenna. Við getum einfaldlega sjálfum okkur um kennt fyrst við erum svo vitlausar að verða á vegi karlmanna. Þeir eiga rétt á fá útrás fyrir fýsnir sínar jafnvel þótt þær felist í því að pynda aðra manneskju.

Staðgenglar statista

Í Fréttablaðinu í dag er hreint unaðslegt vísdómsbrot á bls. 40 undir yfirskriftinni: Vissir þú ... Þar er fullyrt að í kvikmyndinni um Gandhi hafi verið flestir staðgenglar í kvikmyndasögunni eða um 300.000. Einhver hefur nú leikarafjöldinn verið fyrst staðgenglar voru svo margir því venjan er yfirleitt sú að hafa aðeins staðgengla fyrir aðalleikarana. Síðan eru taldar upp þær kvikmyndir þar sem staðgenglar voru heldur færri eða eitthvað á annað hundrað þúsund manns. Já, mikið eru nú staðreyndirnar oft furðulegar.

Alveg hreint frábær dagur

Dagurinn í dag hefur verið sérstakur lukkudagur og á skilið að vera skráður í annála sem slíkur. Þetta byrjaði klukkan tíu í morgun þegar hringt var frá LaserSjón og mér boðið að taka tíma sem hafði losnað. Sjálf átti ég tíma þar 18. október svo ég sló til og fór. Eftir að augun á mér höfðu verið skoðuð og mynduð í bak og fyrir var mér tilkynnt að ég væri mjög góður kandídat í sjónlagsaðgerð á augum einkum og sérílagi vegna þess að ég er með svo mikla sjónskekkju að Tryggingastofnun tekur þátt í kostnaðum við aðgerðina og ég þarf að borga skít á priki. Sparnaðurinn nemur meira að segja Mallorca-ferð fyrir tvo eins og læknirinn minn sagði. „Nú ætlar þú að koma með mér?“ spurði ég. Aumingja blessuðum manninum brá og hann þorði ekkert að segja. Þetta var myndarmaður svo mér hefði ekkert þótt að því að hann þæði boðið jafnvel þó það væri bara að nafninu til. En sumir menn kunna enga mannasiði eða þekkja ekki sinn vitjunartíma. Þetta var sem sagt fyrsta happið. Á sunnudag hlustaði ég á upplestur í Iðnó eins og komið hefur fram hér áður og keypti mér eftir að honum lauk nýjustu bók J.M. Coetzee A Diary of a Bad Year. Mér fannst hins vegar svo frekt og ókurteist að vinda mér að manninum og biðja hann að árita bókina að ég fór bara heim. Í gær las ég það svo á bloggsíðu hér að sumir höfðu ekki verið svo hógværir og hann hafði áritað bækur þeirra. Ég ákvað því að fara á fyrirlesturinn hans í dag og freista gæfunnar að honum loknum. Fullt var út úr dyrum og ég varð að standa frammi á gangi. Þegar fyrirlesturinn var byrjaður kom dökkklæddur maður hlaupandi upp stigann og stillti sér upp við hliðina á mér. Ég leit til hliðar og sá að þetta var hið bráðfallega ítalska ljóðskáld sem einnig er minnst á í færslunni hér á undan. Ég fékk svo að njóta þeirrar ánægju að standa við hliðina á honum allan fyrirlesturinn og þegar honum lauk að þakka honum fyrir upplesturinn sem ég sagði honum að ég hefði haft mikla gleði af. Coetzee var næstur og maðurinn sá tók mér með mestu hlýju og sagði það sjálfsagt að árita bókina. Ég á því bók áritaða af Nóbelsverðlaunahafa. Í kvöld kenndi ég svo fyrri tímann minn í Leiðsöguskólanum á þessu ári og gekk bara nokkuð vel þrátt fyrir taugatitring og spennu í maganum. Já, þvílíkur happadagur.

Ljóðskáldið frábæra

Hér er hann ljóðskáldið frábæra Claudio Pozzani. Látið það eftir ykkur að horfa hann. Þetta er æðislegt. Hljómfallið í ítölskunni er alveg meiriháttar og svo er maðurinn einstaklega fallegur.
mbl.is Finndu í hjartanu (Bæn fyrir rödd, brjóstkassa og einveru)
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband