Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Kettir og klór

Á heimili minu stendur nú yfir stríð enn hatrammara en sterakremstríðið við tíkina forðum. Þannig er mál með vexti að læðan mín hefur bitið það í sig að nærfataskúffa húsbóndans, eiginmanns míns, (come on, að minnsta kosti að nafninu til) sé ákjósanlegt rúm og meira en það, allra besta svefnplássið í húsinu. Hún kemur sér notalega fyrir í miðri nærbuxnahrúgunni og þjappar niður holu sem passar akkúrat utan um hana. Gallinn á þessari hreiðurgerð er sá að hárin sem hún óhjákvæmilega lætur af sér í holu sína fara óskaplega í taugarnar á Gumma. Hann hefur því krafist þess að skápurinn sé hafður harðlokaður og ef ganga þarf um hann sé vandlega lokað á eftir sér. Þetta var gert og lengi gekk allt vel eða þar til læðan komst upp á lag með að krafsa upp skáphurðina. Hún stillir sér upp fyrir framan hana og klórar í kantinn þar til hurðin opnast. Þegar ég verð vör við hana í skápnum reyni ég að toga hana út úr skúffunni en hún festir klærnar í fötunum og gerir sig eins stóra og hægt er þannig að erfiðlega gengur að draga hana fram. Oftast endar þetta með því að skúffan er dregin nánast alveg út og kötturinn tekinn beint upp og þá heyrist hátt mótmælamjálm. Ég tjáði manninum mínum í tölvupósti í gær að stríðið væri tapað vegna þess að undanfarna daga hefur læðan laumast í skápinn þegar ég fer í vinnuna og liggur þar ævinlega þegar ég kem heim. Hann sendi svar þar sem hann kvað það óheppilegt því kattarhárin yllu kláða á viðkvæmu svæðinu sem nærbuxurnar hylja og þau fara ekki úr í þvotti. Hann yrði mér því sennilega til skammar þegar heim kæmi vegna klórs á ósiðlegum stöðum. Ég minnist þess að hafa iðulega séð karlmenn laumast til að klóra sér hraustlega á þessu svæði og hef hingað til flokkað það undir ruddaskap en kannski voru þetta bara óheppnir kattareigendur.

Snorkstelpan og ég

Ég tók persónuleikapróf á Netinu eftir að hafa rekist á niðurstöður Nönnu Rögnvaldar úr sama prófi. Ég komst að því að af íbúum Múmíndalsins líkist ég Snorkstelpunni mest. Ég sem hafði ávallt talið að við Mía litla værum andlega skyldar. Því miður get ég ekki seivað niður myndina og niðurstöðuna en af einhverjum ástæðum virkar það aldrei hér á Moggablogginu þegar ég reyni það. Hér er hins vegar slóðin fyrir þá sem vilja kynnast sjálfum sér betur.

http://www.start.no/img/quiz/share_


Skínandi skart

Skart eftir SivvuS4300016

Þessir fallegu skartgripir eru eru eftir Sivvu vinkonu mína. Hún hannar þá og býr þá til. Þetta er gert úr handunnum glerperlum, ferskvatnsperlum og hraunperlum. Sumir eru líka með náttúrusteinum og ýmsu fleiru fallegu. Allar festingar eru úr hreinu silfri þannig að ekki er hætta á ofnæmi. Ég er alveg heilluð af þessari vinnu hennar. Þetta er vandað og fallegt og ekki skemmir að gripirnir eru ekki dýrir. Þeir sem hafa áhuga á að kaupa svona fallega gripi til fermingagjafa eða annars geta haft samband við Sivvu á netfanginu sivva@visir.is. 


Blásið og hvásið

Við Freyja fórum í bíltúr með suðurströnd Reykjaness í dag ásamt Sivvu vinkonu minni og Bjarna í dag. Það var yndislegt vorveður og náttúran ótrúlega falleg. Kleifarvatnið var frosið þótt við þyrðum ekki að treysta á ísinn að minnsta kosti ekki nægilega til að ganga út á vatnið. Freyja fékk að hlaupa um í sandfjöru í vík við vatnið og næst stoppuðum við í Selvogi. Sólin merlaði á sjónum sem var kyrr úti fyrir en við ströndina brotnuðu stórar brimöldur á skerjum. Fullt af fólki hafði sótt messu í Strandakirkju og sumir voru að leik í fjörunni en aðrir sátu á hafnargarðinum og horfðu út á sjó. Ég vonaðist til að sjá seli en í stað þeirra syntu um hvalir og blésu af og til fyrir jafnt þá kristilegu og hina ókristilegu. Ég hljóp niður í bíl til að sækja kíkinn og Freyja trylltist hjá Sivvu um leið og hún sá mig fara af stað. Hún ýlfraði og gjammaði og rykkti svo í tauminn að litlu mátti muna að Sivva dytti framfyrir sig. Við veitingastaðinn Hafið bláa fengum við okkur kaffi sem Sivva hafði hellt upp á brúsa fyrir okkur og þar lék selur listir fyrir okkur rétt utan við ströndina. Hann hélt sig innan við brimgarðinn og kíkti forvitinn á göngufólk í fjörunni. Ferðina enduðum við í humarsúpu Við fjöruborðið. Þetta var virkilega skemmtilegt.

Heimilisofbeldi og réttarkerfið

Í morgun las ég frétt af þingfestingu máls gegn manni sem ákærður er fyrir fjórar alvarlegar líkamsárásir á fyrrverandi eiginkonu sína. Dómur er ekki fallinn í þessu máli en sennilega verður hann vægur ef dómari heldur sig við dómvenju í slíkum málum hér á landi. Mér finnst ekkert undarlegt að illa gangi að uppræta heimilisofbeldi því menn virðast ekki skilja eðli þess og kerfið þar afleiðandi ekki í stakk búið til að takast á við það. Ofbeldi af þessu tagi stigmagnast og endar iðulega með því að þessir menn drepa eiginkonur sínar. Ég man eftir tveimur þekktum dæmum um slíkt hér á landi en eflaust eru til fleiri þótt ég viti ekki um þau. Í Bretlandi hafa félagsmálayfirvöld komið sér upp áætlun þar sem þau flytja konur verstu ofbeldismannanna milli staða og fara í raun með þær eins og þá sem njóta vitnaverndar. Þetta kemur til af illri nauðsyn svo margar konur hafa fallið í valinn þar að Bretar eru farnir að átta sig á að engin rök eða venjuleg úrræði duga. Mál Mariu Ericson sem Liza Marklund skrifaði um í Hulduslóð og Friðlandi sýnir svart á hvítu hvað vestræn yfirvöld eru gersamlega skilningsvana og afllaus þegar menn eru nægilega staðráðnir í að beita ofbeldi og brjóta af sér. Ég myndi vilja að nálgunarbann væri gert að áhrifaríkari og ákveðnari leið til að setja þessum mönnum mörk og því væri oftar beitt. Það á líka að sækja þess menn til saka burtséð frá því hvort fórnarlömbin kæra eða ekki. Þeir eru stórhættulegir. Vonandi kemur að því að íslensk yfirvöld opna augun og átta sig á að við ofbeldi er bara eitt svar, boð og bönn sem framfylgt er af ákveðni og hörku.

Vor í lofti og á legi

Vorið er komið. Á því er enginn vafi. Við Freyja gengum meðfram sjónum áðan, byrjuðum í Nauthólsvík, gengum Ægissíðuna á enda og snerum svo við. Æðarfuglinn er byrjaður að para sig en var ekki í betra skapi en svo að hann úaði á mig með reglulegu millibili sennilega til að minna mig á að vera nú ekki of ánægð með sjálfa mig. Tjaldar og sandlóur þutu um í fjöruborðinu og tíndu upp í sig prótínríkt sælgæti á borð við marflær og þráðorma. Alveg síðan Svava systir gróf upp eitt stykki þráðorm fyrir mig í fjörunni út við Reykjanesvita hefur svartur og sakleysislegur sandurinn fengið svipaða stöðu í huga mér og hryllingsmynd sem ég hef ekki séð. Ég veit að ógeðið er þarna en jafnframt að ég get forðast að sjá það ef ég bara vil. Svava taldi að þar sem ég er ákaflega elsk að náttúrunni svona yfirliett þá myndi ég fagna þeirri reynslu að sjá langt svart kvikindi iða með ótal þráðlíkum löppum. Henni skjátlaðist því ást mín á náttúrunni miðast við blóm, mjúkan feld eða fjaðrir fremur en iðandi fálmara og verur sem hafa óeðlilega snöggar hreyfingar og geta skriðið upp buxnaskálmarnar hjá manni. En hvað um það, Enginn þráðormur var sýnilegur í blíðunni í dag og hafa sjálfsagt flestir lent beint í fuglsmaga. Virðulegur toppskarfur sat á steini og snyrti fjaðrirnar. Þeir eru svo sætir. Þeir minna alltaf einna helst á embættismenn í gömlum en vönduðum jakkafötum þar sem þeir sitja ábúðarfullir á þangþöktum skerjum. Mig langar oft til að stoppa og bíða bara til að sjá hvort þeir hefji ekki upp raust sína og sendi einhvern merkan boðskap frá þessari hentugu staðsetningu. Já, hvergi sést vorið betur og fyrr en niðri við sjóinn.

Af handlagni og miskunnsemi

Þórhildur Elínardóttir skrifar um það í góðum Bakþankapistli í Fréttablaðinu í dag að hún hafi einu sinni fengið 1 í handvinnu aðallega fyrir miskunsemi og gæsku kennarans. Við lesturinn rifjaðist upp fyrir mér ferill minn í handvinnu í skóla og sá var ekki glæstur. Í það sem þá var kallað annar bekkur í gaggó en er núna níundi fékk ég 5 í handvinnu. Verkefni vetrarins voru að prjóna skó með sauðskinnskólagi og rósaleppa inn í þá, sauma buxur á sjálfa sig og sauma út í dúk. Eftir veturinn skilaði ég skóm, annar mældist sennilega nr. 38 en hinn 48 ef haft hefði verið fyrir að slá venjulegu skómáli á sköpunina. Rósalepparnir voru teygðir og togaðir, mynstrið fremur óhrjálegt. Buxurnar voru með útvíðri skálm öðru megin og þröngar niður hinum megin. Ísetan var skökk og ekki nokkur leið að koma streng á óskapnaðinn. Mér tókst aldrei að byrja á dúknum þannig að ég skilaði bara þessu tvennu. Handavinnukennarinn minn var vel roskin óskaplega blíð kona. Hún horfði um stund á vetrarvinnuna mína og sagði: Steingerður mín, þú ert góð stúlka. Ég skal gefa þér fimm. Ertu ánægð með það? Ég var auðvitað himinsæl, enda verður að segjast eins og er að sjaldan hef nokkur einkunn sem ég hef fengið verið jafnóverðskulduð og þessi.

Marktækar og ómarktækar konur?

Tvær þekktar íslenskar konur hafa lengi farið í taugarnar á mér vegna þess að oft leika þær „enfant terrible“ þegar þær koma fram í fjölmiðlum. Þær setja krúttlegan stút á munninn, sjúga jafnvel ofurlítið loft milli tannanna og skáskjóta augunum upp á spyrilinn eins og kotrosknir smákrakkar. Þessar konur eru báðar mjög klárar og hæfar hvor á sinu sviði en af einhverjum ástæðum leika þær þetta hlutverk af og til. (Ég hef séð báðar láta alveg af þessari hegðun og það gefur þeirri trú minni að þetta sé tilgerð byr undir báða vængi.) Ég ergi mig óendanlega yfir þessu aðallega vegna þess að mér finnst þetta smækka konurnar. Rétt eins og mér finnst það lítillækkandi fyrir alla viðstadda þegar kona, sem fram af því hefur verið fullkomlega eðlileg í kvennahópi, breytir um persónu við það eitt að karlmaður gengur inn í herbergið. Hún hlær þá hærra, fer að vefja hárlokk um fingur sér og horfir gapandi í andakt á karlinn, hallar undir flatt og hlustar af ákafa á öll þau gullkorn sem hrjóta honum af vörum. Konur þurfa hvorki að leika börn né fábjána til að vera gildandi í þessu samfélagi og síst konur sem þegar hafa sannað sig á sínu sviði. En að lokum er við hæfi að vitna í ekki minni manneskju en Himnaríkis-Gurrí og segja: Nöldur dagsins var í boði Steingerðar.

Kóróna sköpunarverksins

Sumir álíta manninn kórónu sköpunarverksins en ég er því algerlega ósammála. Ég tel að mannfólkið sé hluti af lífríki þessarar jarðar og hafi ekki tilverurétt umfram aðrar verur. Við þurfum að komast af og líkt og önnur rándýr drepum við okkur til lífsviðurværis. Það er eðli rándýra og einnig partur af lífkeðjunni. Hvert eitt dýr gerir það sem það telur sig þurfa til að komast af. Þegar þetta hættir hins vegar að vera spurning um að éta eða svelta, drepa eða verða drepinn þ.e.a.s. að deila plássi með dýrum sé ég ekki að menn geti krafist þess að dýr séu drepin bara til að þeirra pláss verði eins og þeir vilja. Nýlega frétti ég af konu sem þurfti að láta svæfa ellefu ára gamlan kött vegna þess að í blokkina hennar flutti fólk sem þoldi ekki ketti. Þeim var sagt áður en þau keyptu að köttur væri í húsinu og enginn í fjölskyldunni var með ofnæmi. Fólkið taldi hins vegar að gæludýr ættu ekki heima í blokkum og því varð dýrið að fara. Mér finnst þetta forkastanleg frekja og skil ekki undarlega grimmd þessa fólks. Í mínum huga er það ekkert betra en minkurinn sem heldur áfram að drepa þar til allar hænurnar í hænsnahúsinu eru dauðar þótt hann hafi fyrir löngu étið fylli sína. Það er undarlegt að Íslendingar virðast aldrei geta beygt sig undir nein lög eða reglur. Erlendis eru dýr leyfð í sumum fjöleignahúsum og öðrum ekki og fólk fer eftir því. Gæludýraeigendur kaupa í gæludýrablokkum og hinir sem ekki vilja dýr nálægt sér í öðrum. Íslendingurinn kaupir þar sem honum dettur í hug og ákveður að bola dýrunum burtu eftir að hann er fluttur inn eða fær sér gæludýr í trássi við bann eins og gert er í Áslandshverfi í Hafnarfirði. Þar er fuglaverndunarsvæði og mjög líklegt að flórgoðinn hætti að verpa þar. Síðasti varpstaður hans á Suðurlandi er þá fyrir bí vegna þess að heill hópur fólks gat ekki skilið að ef það keypti hús í þessu hverfi yrði það að neita sér um að taka gæludýr. Er þetta eðlilegt?

Stór, stærri, útblásinn

Í Fréttablaðinu í morgun er moli undir Fréttir af fólki þess efnis að Birtingsmenn fljúgi út til Svíþjóðar í dag til að halda árshátíð. Starfsfólk væri fullt tilhlökkunar en þegar það rann upp fyrir mönnum að færist flugvélin þurrkaðist íslensk tímaritaútgáfa út í einu vetvangi var brugðið á það ráð að fljúga helmingnum á vit Svíaveldis á morgun. Það er langt frá því að ég óski Birtingsmönnum svo ills að einhver þeirra komi ekki aftur. Þar innan um að saman við eru fyrrum starfsfélagar mínir og vinir. En það er langt í frá að íslensk tímaritaútgáfa sé í stórhættu. Nefna má tímarit á borð við Uppeldi, Matur & Vín, hann/hún, Sumarhúsið og garðurinn, Eiðfaxi, Útivist og margt fleira sem ég man ekki í svipinn. Einhverju sinni heyrði ég það sagt um mann sem var nokkuð ánægður með sig að hann hefði útblásnar hugmyndir um sjálfan sig. Kannski á það við í þessu tilfelli og kannski er þetta bara dæmi um að maður talar vel um vini sína og reynir stundum að gera meira úr þeim en efni standa til.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband