Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Ekki er flas til fagnaðar

Þessa sögu skrifaði ég einu sinni eftir vinkonu minni og hún fékk að launum merktan penna frá Vikunni. Sagan er sönn. 

Ég er ein af þessum b-manneskjum eða þeim sem alltaf vilja sofa frameftir á morgnana en er syngjandi kát á kvöldin og langt fram eftir nóttu. Oft hef ég reynt að breyta þessu en það er eins og engu skipti hversu snemma ég geng til náða á kvöldin ég á alltaf jafnerfitt með að koma mér á fætur á morgnana. Auðvitað verður þetta til þess að ég er alltaf á síðasta snúningi og hleyp venjulega um húsið í leit að lyklum, handtösku eða yfirhöfn rétt um það leyti sem ég ætti að vera komin af stað í vinnuna.

Þennan morgun hafði ég dormað í rúminu þótt langt væri síðan vekjaraklukkan hringdi og tilkynnti þar með að kominn væri tími til að drífa sig á fætur. Börnin voru farin að reka á eftir mér og eiginmaðurinn búinn að kalla nokkrum sinnum. Alltaf umlaði ég að nú væri ég alveg að koma en sofnaði síðan strax aftur.  Ég hrökk upp með andfælum og sá að klukkuna vantaði tíu mínútur í níu og hentist upp úr rúminu.

Andlitið sem mætti mér í baðherbergisspeglinum var tíu árum eldra en það sem ég hafði litið augum í sama spegli í kvöldinu áður. Hárið stóð út í allar átti og ég reyndi eftir bestu getu að bleyta það og greiða niður verstu lýjurnar. Næst hljóp ég eins og fætur toguðu inn í svefnherbergi og tætti föt upp úr skúffum og út úr skápum í örvæntingarfullri leit að einhverju til að fara í. Ég fór tvisvar í ósamstæða sokka áður en ég náði að para saman réttu einstaklingana úr sokkaskúffunni og víst er að sjaldan hef ég verið jafnósmekklega til fara og einmitt þennan dag.

Jæja, ég var komin niður í forstofu, auðvitað var ekkert um það að ræða að fá sér morgunverð eða kaffibolla. Ég smurði varalit til málamynda á varirnar á mér og vonaði að það dygði til að laga aðeins útlitið. Handtaskan mín var á sínum stað, ég fann frakkann minn án mikillar fyrirhafnar og lyklarnir lágu á hillu við útidyrnar. Nú var mér ekkert að vanbúnaði svo ég opnaði útidyrnar og hentist út. Á tröppunum stóð maðurinn minn, hafði augljóslega gleymt einhverju svo ég kyssti hann rembingskoss á munninn og hrópaði: Bless elskan. En þá greip mig ónotatilfinning og ég leit við til að skoða örlítið manninn sem ég hafði kvatt svo innilega. Þarna stóð þá maðurinn í næsta húsi með bolla í höndunum og stamaði vandræðalegur: Fyrirgefðu ekki geturðu lánað mér svolitla mjólk í kaffið. Ég laumaðist hálfaumingjaleg inn aftur, hellti fyrir hann mjólk í bollann og óskaði þess að maðurinn flytti úr hverfinu sem allra fyrst.

Þetta atvik varð til þess að næstu vikur vaknaði ég á skikkanlegum tíma og passaði mig á að vera komin út úr húsi áður en nágrannar mínir fóru á stjá.


Ekki alveg kórrétt messa

Svava systir leiðréttir mig vegna síðastu bloggfærslu og það er víst rétt hjá henni. Einelti er notað á sama hátt og ofbeldi og því er hægt að flýja það. Ég var einhvern veginn föst í þéirri hugsun að einelti gæti ekki verið gerandi og því ekki hægt að flýja það. Orðin eru legókubbar tungumálsins og það sem er skemmtilegast við þau er hversu fjölbreytilega er hægt að beita þeim og það er líka ástæðan fyrir því að manni getur nú skjöplast.

Á flótta undan hugtökum

Ég las það áðan á visir.is að móðir stúlku sem varð það á að slasa kennarann sinn segði að dóttir sín hefði verið á flótta undan einelti þegar slysið varð. Ég skil ekki alveg hvernig fólk getur lagt á flótta undan hugtökum eins og einelti. Ég myndi sennilega hlaupa frá krökkum sem legðu mig í einelti en hvernig eineltinu geta vaxið fætur sem færir eru um að elta einhvern uppi eða reka hann á flótta með öðrum útlimum er mér óskiljanlegt. Getið þið lagt á flótta undan hugtökum?

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband