Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Fjórir mánuðir fyrir ítrekuð brot

Jæja, þá er komið að því. Karlinn sem braust fjórum sinnum inn á heimili fyrrverandi eiginkonu sinnar og barði hana sundur og saman fær fjögurra mánaða fangelsi. Reyndar var þetta átta mánaða dómur en fjórir voru skilorðsbundnir. Mér verður hreinlega óglatt þegar ég les um svona dóma. Hvað er að hér á landi? Ætla þeir að bíða eftir að hann drepi hana til að geta dæmt almennilega?

Er þögnin er gull?

Silence is Golden sungu Herman Hermits eða einhver önnur álíka hljómsveit í útvarpinu þegar ég var barn. Mér datt þessi laglína í hug um daginn þegar ég frétti af ofbeldismáli í fjölskyldu. Þolandinn sagði loks frá og fékk hjálp frá yfirvöldum en þótt allir trúi orðum hans og hafi samúð með honum eru sumir fjölskyldumeðlimir að reyna að halda þessu leyndu. Þeir segja aðeins hálfa söguna þegar þeir hitta fólk eins og mig. Vona sennilega að ég viti ekki sannleikann allan. Þetta fólk sem um ræðir er sjálft alsaklaust. Ég skil þetta ekki. Hvers vegna bregðumst við ávallt þannig við að reyna að þegja í hel einhver hneykslismál í fjölskyldum okkar? Við hvað erum við hrædd? Að okkar alkóhólisti sé eitthvað verri en aðrir? Að ofbeldismaðurinn sem leikur lausum hala í fjölskyldu okkar muni á einhvern hátt gjaldfella okkur í augum vina, samstarfsmanna og almennings? Staðreyndin er sú að í skjóli leyndarinnar þrífast ofbeldismennnirnir og alkóhólisminn heldur áfram að þróast. Treystum öðru fólki til að skilja að við berum ekki ábyrgð á öðrum jafnvel þótt þeir séu í ætt við okkur og berum höfuðið hátt þótt fjölskyldur okkar séu ekki fullkomnar. Það er leiðin til að uppræta ofbeldi.


Hvað felst í nafni?

Ég mætti hress í vinnuna í morgun eftir að hafa gengið með tíkina í ríflega hálftíma. Raggi umbrotssnillingurinn minn kom stuttu síðar og sagði glaðhlakkalega: „Það er bara komið vor.“ „Já,“ svaraði ég, „enda var Eva glöð í morgun.“ „Já, var það,“ sagði Raggi. „Og hvernig lýsti það sér.“ „Nú, bara hún þefaði af öllum blómbeðum og nuddaði sér utan í runna,“ sagði ég. „Ha! Þú veist að þú sagðir Eva!“ sagði Raggi.  Úps, maður getur nú ruglast á Eva og Freyja.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband