Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Hvað ertu að gera?

Ég hef oft velt fyrir mér hvaða erindi ýmsir eigi á vissa staði og fékk tilefni til þess enn og aftur á föstudaginn var. En hverja sögu verður að byrja á byrjuninni og þessi byrjar í Öskjuhlíð. Meðan ég var þrisvar í viku í Kraftgöngu í hlíðinni gengu við reglulega fram á bíla sem lagt var hér og þar í skóginum. Í þessum bílum voru menn en sjaldnar konur einir og án nokkurs félaga. Sumir reyktu, aðrir sátu bara í bílum sínum með ljósin slökkt. Þetta var okkur göngfélögum uppspretta vangaveltna um hvað menn væru að gera þarna og skýringarnar voru allt frá því að verið væri að hugleiða í kyrrð skógarins upp í eiturlyfjasölu og framhjáhald svona eftir því á hvaða stigi siðferðisþroski hins getspaka var. Þegar ég eignaðist hund og hætti að geta gengið með siðuðu fólki fór ég að ganga út í Kópavogshöfn. Ég undraðist ævinlega þann mikla straum bíla sem var inn í höfnina eldsnemma á morgnana jafnt um helgar sem á virkum dögum. Ökumenn voru jafnan karlmenn einir í sínum bíl nema á sunnudagsmorgnum sást glitta í barnsandlit með geigvænlegan þjáningarsvip í aftursætinu. Á föstudaginn þurfti ég svo að aka út í Örfirisey og bíða þess að skipið mannsins míns legðist að olíubryggjunni. Hann hafði gleymt gleraugunum sínum og ég fór af stað til móts við hann með þau þarfaþing. Meðan ég sat þarna (Nota bene klukkan tíu að kvöldi og öll fyrirtæki lokuð) keyrðu áttatíu og sjö bílar inn á stæðið sem ég beið á. 0kumenn voru oftast einir í bílunum en stundum par. Hvað í ósköpunum er fólk að gera út í Örfirisey að olíutönkunum klukkan tíu á föstudagskvöldi? Mætti ég þá frekar biðja um Gróttu eða Heiðmörk. Hvað er svona aðlaðandi við hafnir og iðnaðarhverfi? Mér er gersamlega fyrirmunað að skilja þetta rétt eins og ég skil ekki hvað menn gera einir í bílum sínum í klukkutíma í Öskuhlíðinni um kvöldmatarleytið.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband