Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Mikilvægi undirfata

Um daginn var ég að taka til í nærfataskúffunni minni. Nauðsynjaverk svona í byrjun nýs árs. Þá rifjaðist upp fyrir mér að þegar ég var barn fékk ég eitt sinn ráðleggingu sem hefur vafist mjög fyrir mér síðan, enda af heimspekilegum toga. Ég var að leika við nokkuð eldri stelpu sem bjó í sömu blokk og varð fyrir því að hella niður á peysuna mína kakómalti úr flösku. Við skutumst því heim til mín svo ég gæti skipt um föt og þegar ég fór úr sá hún að nærbolurinn minn var rifinn við handholið. Þá kvað hún: „Bolurinn þinn er rifinn. Maður á aldrei að vera í rifnum eða skítugum nærfötum maður veit aldrei hvað getur skeð.“ Ég sagði ekkert en velti þessu alvarlega fyrir mér. Ég bar nefnilega ómælda virðingu fyrir þessari stelpu fyrst og fremst vegna þess að hún hafði gífurlegt sjálfstraust og taldi sig alla jafna hafa rétt fyrir sér. Á þessum árum trúði ég nefnilega að menn hefðu ekki svona bólgið sjálfstraust nema innistæða væri fyrir því en síðan þá hefur reynslan kennt mér að yfirleitt er  hlutfallið milli sjálfsálits og hæfileika öfugt. Þegar ég hafði hugsað um orð hennar litla stund sagði ég: „Af hverju á maður að passa upp á nærfötin?“ „Nú ef þú lendir í slysi eða deyrð eða eitthvað þá viltu ekki vera í ógeðslegum nærfötum.“ „Varla er maður á nærfötunum þegar maður kemur á fund skaparans,“ stundi ég alveg græn og gáttuð. „Nei, en hugsaðu um læknana asninn þinn. Ef þú lendir í slysi eða svoleiðis heldur það sé ekki nóg fyrir þá að koma að slíkum hörmungaratburði þótt þeir þurfi svo ekki að horfa upp á fólk í viðbjóðslegum nærfötum.“ Við þessum rökum átti ég auðvitað ekkert andsvar því að sjálfsögðu er ekki á áfall læknanna bætandi þegar þeir þurfa að sinna dauðsföllum. Ég er svo ekki frá því að fleira af nærfötunum í skúffunni hafi ratað í ruslapokann eftir þessa upprifjun en endilega var ætlunin þegar skúffan var opnuð.

Heilarandi og annað gott

Ég hef ekki bloggað ansi lengi og spyr bara eins og kerlingin forðum: Ætli ég hafi nú loksins lært að þegja? Nei, ég held varla. Hins vegar hrundi tölvan mín og enn er ekki útséð um hvort borgar sig að gera við hana eður ei. Ég hef því lítið getað farið á Netið nema hér í vinnunni og ekki gengur alltaf vel að stela stundum til að skrifa blogg meðan blaðið krefst þess að einhver skrifi það. Ég vil byrja á að óska öllum bloggvinum mínum gleðilegs árs og þakka þeim fyrir allar kveðjurnar sem sannarlega voru kærkomnar. Um daginn var ég svo að rifja upp þann forna sið að skilja eftir heilaranda í rólunni eða sætinu þegar maður stóð upp sem maður tíðkaði mjög hér á árum áður. Ég stóð sem sagt í þeirri meiningu að heilarandi væri einhver hluti heilans sem hefði þá náttúru að  hann gæti stokkið úr höfði manns og litið eftir svo lítilvægum hlutum sem sætinu ef maður þyrfti að skreppa frá. Magga systir hélt að þetta væri heilarönd en það var ekki fyrr en við systur vorum orðnar ansi stórar og fullorðnar að við uppgötvuðum að það var heilagur andi sem beðinn var fyrir sætið en ekki hinn árvökuli heilarandi eða hin síkvika heilarönd. Ég vona hins vegar að heilarandar og heilarendur landsmanna megi virka vel á komandi ári ekki veitir af.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband