Að eiga sig sjálfa

downloadÞegar sjónvarpsþættirnir um þernuna, June Osborne eða Offred voru fyrst sýndir árið 2017 datt fáum í hug að þeir myndu slá í gegn en það gerðist. Þáttaraðirnar eru orðnar fimm og  höfundur bókarinnar sem byggt er á, Margaret Atwood sendi frá sér árið 2019 nýja bók, The Testaments sem gerist fimmtán árum eftir að fyrri bókinni lauk og örlög þernunnar eru rakin frekar.

Árið 1986 barst íslensk þýðing Sögu þernunnar í hendurnar á mér. Ég heillaðist af sögunni en lokaði bókinni með feginsandvarpi og hugsaði, til allrar lukku gæti þetta aldrei gerst, heimurinn væri kominn of langt í jafnréttisátt til þess að það yrði. Kvennalistinn hafði boðið fram á Íslandi og þrefaldað fjölda kvenna í borgarstjórn Reykjavíkur og á þingi. Kvennahreyfingar voru sterkar á Vesturlöndum og allt virtist þokast í sömu átt í öðrum heimshlutum. Ég horði hins vegar með allt öðrum augum á fyrstu þættina í The Handmaid s Tale og skyndilega varð Gilead ekki bara ímyndað framtíðarland heldur mögulegur, ógnvekjandi raunveruleiki.

Klerkastjórnin í Íran og Talíbanar í Afganistan hafa sýnt fram á að á einni nóttu er hægt að svipta konur öllum borgarlegum réttindum, banna menntuðum læknum, lögfræðingum, hjúkrunarfræðingum og kennurum að vinna við fag sitt, hárgreiðslukonum og snyrtifræðingum að eiga og reka fyrirtæki sín og líkt og allir vita tóku stjórnvöld í Íran sér það vald að setja klæðaburði kvenna skorður. Klerkastjórnin kom einnig á fót siðgæðislögreglu til að sjá um að konur beygðu sig undir þær reglur og klæddu sig eftir forskriftinni. Undanfarið hafa borgarar í Íran gert uppreisn gegn þessu og mótmælt og það hefur kostað suma lífið. Nú er útlit fyrir að siðgæðislögreglan verði lögð niður en reglunum um búrkur og slæður verður ekki breytt. Allt það versta úr sögu Margaret Atwood hefur ekki bara gerst heldur einngi haldist við um langt árabil.  

Konur neyddar til að eiga börn

Margaret byrjaði að hugsa um og setja saman hugmyndina að bókinni árið 1981. Hún hefur sagt frá því viðtölum að kommúnistastjórn Nicolasar CeauÈ™escu í Rúmeníu hafi meðal annars verið kveikjan að bókinni. Þar í landi voru konur neyddar til að eignast börn vegna þess að samfélagið þarfnaðist fleiri þegna til að verða ríkara, eins CeauÈ™escu orðaði það í lögunum sem hann setti um þetta efni. Hverri konu var ætlað að eignast að minnsta kosti fjögur börn. Í hverjum mánuði urðu konur að taka þungunarpróf og ef það var neikvætt var þeim gert að skýra hvers vegna svo væri. Þessi stefna hans varð meðal annars til þess að munaðarleysingjahæli í Rúmeníu fylltust af börnum sem fátækt fólk hafði ekki möguleika á að sjá fyrir. Eftir fall stjórnar CeauÈ™escu árið 1989 vakti hræðilegur aðbúnaður þessar barna viðbjóð um allan heim. Á sama tíma bönnuðu stjórnvöld í Kína hjónum að eignast fleiri en eitt barn.

downloadÁ ritunartíma bókarinnar voru einnig fluttar sláandi fréttir af ástandinu í Íran undir Ayatollah Khomeini. Fangelsin voru full af pólitískum föngum, pyntingar algengar og konur voru verst settar. Það má líka minna á Lebensborn-hreyfinguna í Þýskalandi. Eftir að nasistaflokkurinn komst til valda var SS-mönnum gefið leyfi til að taka sér fleiri en eina konu til að geta fleiri lítil ofurmenni. Þau áttu að vera ljóshærð, bláeyg, hávaxin, heiðarleg og umfram allt trú flokknum.

Á áttunda áratug síðustu aldar unnu bandarískar kvenréttindakonur einnig að því að fá samþykktan viðauka við stjórnarskránna sem kvað sérstaklega á um að konur og karlar skyldu njóta jafnréttis á allan hátt. Upp risu heimavinnandi húsmæður og kristnar konur og hófu  hatramma baráttu gegn viðaukanum. Meðal þess sem þær héldu fram í málflutningi sínum var að kvenréttindahreyfingin væri á móti barneignum og ætlaði sér að gera lítið úr móðurhlutverkinu. Á sama tíma spruttu upp ýmsir kristnir sértrúarsöfnuðir, m.a. People of Hope en þar voru konur beinlínis skilgreindar sem óæðri körlum og að þeirra hlutverk væri að þjónusta þá. Sjónvarpsþættir um leiðtoga þessarar hreyfingar, Phyllis Schlafly, frá árinu 2020 vörpuðu athyglisverðu ljósi á þau átök. Þættirnir heita Mrs. America og eru frábærlega vel unnir. 

Gefnar, boðnar, fórnað

Upphaflegur titil skáldsögunnar var Offred. Það er nafnið sem Jane fær eftir að hún verður þerna en þetta er orðaleikur. Enska sögnin to offer sem í þátíð er offered getur þýtt bæði boðið og fórnað. Þernurnar eru í senn fórnarlömb og eitthvað sem boðið er hinum valdameiri, þeim gefið til að þeir geti gert við þær það sem þeir vilja. Þegar hún var næstum búin að skrifa söguna ákvað Margret að breyta titlinum í Handmaid‘s Tale vegna þess að henni fannst hitt of augljóst.

Hún hafði á þessum tíma nýlega lesið bók eftir Doru Forster frá árinu 1905. Hún heitir Sex Radicalism: As Seen by an Emancipated Woman of the New Time, eða Kynlíf róttækni: Eins og frelsuð kona nýrra tíma sér það. Dora talar meðal annars um að samfélagið þurfi að virða móðurhlutverkið á sama hátt og hermennsku. Að það þurfi að ríkja skilningur á hvað konur leggja á sig fyrir börn sín til að eignast þau, aðeins þá verði það þess virði fyrir þær að sjá samfélaginu fyrir nægilega mörgum börnum, eins og Dora orðar það. Um svipað leyti rakst Margret á skrif  Charles J. Lumsdens og Edwards O. Wilsons um samband líffræði og menningar. Þeir benda á að í mörgum frumstæðum samfélögum sé hversu mörg börn menn eigi ákveðinn mælikvarði á karlmennsku þeirra. Fjölkvæni sé eðlilegt meðal þeirra af þessum sökum.

Mormónar hafa alltaf verið hallir undir fjölkvæni og í trú þeirra er meira að segja sagt að konur komist eingöngu til himna fyrir tilstilli karla. Þrátt fyrir að fjölkvæni sé ólöglegt í Bandaríkjunum hefur ýmsum mormónahópum tekist að fara í kringum lögin og enn þekkist að þar séu mjög ungar stúlkur giftar gömlum körlum. Þó nokkrir sjónvarpsþættir um fjölskyldur sem lifa saman á þennan hátt hafa notið mikilla vinsælda víða um heim, nefna má, Big Love, Sister Wives, My Five Wives og Seeking Sister Wive. Í raunveruleikanum er ekki alltaf gott samkomulag í þessum fjölskyldum og margar konur verið neyddar í slík hjónabönd, heimildamyndin Escaping Polygamy segir sögu nokkurra þeirra. 

Stjórnvöld ráða meiru en konur grunar

Í öllum samfélögum hefur alla tíð verið mikilvægt og samfélagslega verðmætt að hafa stjórn á barneignum kvenna og líkömum. Þeim hefur ekki verið treyst til að meta þetta sjálfar og ýmist verið hvattar eða lattar til að verða ófrískar. Ástarvika var einhverju sinni haldin á Bolungavík í því skyni að fjölga þar íbúum og eftir fyrri og seinni heimstyrjaldirnar voru konur hvattar til að fjölga sér sem mest til að bæta upp mannfallið á vígvöllunum. Eftir að getnaðarvarnarpillan kom til hefur fjöldi barna sem hver kona eignast um ævina í vestrænum samfélögum minnkað mjög. Af og til hafa stigið fram valdamenn og reynt að snúa þessari þróun við. Meðal annars Dave Nickerson í kanadíska þinginu einmitt þegar Margaret var að fullvinna og safna að sér áhrifum við úrvinnslu bókarinnar. Hann bar fyrir sig slagorðið: Make a Baby for Christmas eða búið til barn fyrir jól.

Víða um Vesturlönd eru getnaðarvarnir niðurgreiddar en víða ekki, til dæmis hér á Íslandi. Óhjákvæmilega leiðir þetta til þess að fátækar konur eru líklegri til að eignast fleiri börn en hinar sem hafa efni á skipuleggja hvort og hvenær þær verða þungaðar. Víða úti í heimi eru leikskólar svo einkareknir og það gerir konum erfiðara fyrir að fara út á vinnumarkaðinn eftir að barn fæðist. Í þessu felst ákveðin stjórnun á þátttöku kvenna á vinnumarkaði og afkomu fjölskyldna.

Þetta á einnig við um þungunarrof. Páfinn fordæmdi lengi getnaðarvarnir og þungunarrof sem leiddi til margvíslegra vandamála tengd ótímabærum þungunum í löndum þar sem þegnar voru í meirihluta kaþólskrar trúar. Glæpir framdir gegn konum og börnum í nunnuklaustrum á Írlandi hafa enn ekki verið fullrannsakaðir en ógiftar mæður voru neyddar til að þræla í þvottahúsum reknum af klaustrunum og börn þeirra tekin af þeim og seld. Ólöglegar fóstureyðingar kostuðu einnig margar konur lífið. Enn er í gangi öflug og óvægin barátta gegn fóstureyðingum víða í Bandaríkjunum og í Evrópu og viðsnúningur á dómi hæstaréttar frá árinu 1973 í máli Roe gegn Wade, sem snerist einmitt um rétta kvenna til að binda enda á meðgöngu, hafa mörg ríki Bandaríkjanna bannað fóstureyðingar að nýju. Full ástæða er til að huga að rétti kvenna til að ráða líkama sínum og lífi hér á landi líka því ekki er mjög langt síðan hatrömm umræða um nýtt þungunarofsfrumvarp fór fram á Alþingi og margir töldu að konur myndu nýta sér rýmri löggjöf til að losa sig við börn sín eiginlega fyrir duttlunga eða af léttvægum ástæðum. Þingmaður var meira að segja svo smekklegur að tala um morð í þessu samhengi þar sem sá hinn sami stóð og tárfelldi í ræðustól.

Konur ófrjóar, karlar ekki

Það þarf heldur ekki að líta langt aftur í tímann til að sjá að langt fram eftir þessari öld var ófrjósemi almennt talin kvennavandamál. Karlar gátu ekki verið ófrjóir, enda framleiddu þeir sæði. Ef hjónum gekk illa að geta af sér erfingja var ævinlega litið til konunnar. Nú vita menn betur og vitað er að ýmiss konar mengun í andrúmslofti og umhverfi okkar dregur úr frjósemi bæði karla og kvenna. Það varð meðal annars til þess að Margaret Atwood fór að velta fyrir sér hvers konar samfélag yrði til ef ófrjósemi væri algeng meðal kvenna og aðeins fáar færar um að geta og ganga með börn.

En það var fleira sem vakti ótta og tortryggni hjá rithöfundinum á þessum árum. Debit- og kreditkort voru að ryðja sér til rúms og hún sá í þeim ákveðna hættu. Vegna þess að þessum kortum er stjórnað stafrænt er bæði auðvelt að nota þau til að fylgjast með ferðum fólks, neyslu og einnig að loka fyrir þau ef yfirvöldum sýnist svo. Og þetta er einmitt það sem gerist í Gilead. Konur hætta skyndilega að geta sótt sér peninga í hraðbanka og greiða með kortum sínum. Í dag höfum við auðvitað enn fjölbreyttari leiðir til að fylgjast með fólki, tölvur, síma og GPS-tæki. Enginn efast lengur um að þessi tæki séu notuð einmitt í þeim tilgangi. Allir þekkja að hafa slegið inn eitthvert tiltekið orð í google-leit og örskömmu síðar taka að poppa upp auglýsingar á ýmsum varningi tengdri þessari leit á facebook-síðu þinni, Twitter og Instagram.

download-1Það er ekki spurning að Saga þernunnar er tímamótaverk og boðskapur þess umfram allt, ekki fljóta sofandi að feigðarósi. Allt sem gerist annars staðar getur gerst hér líka. Nasisminn náði völdum í Þýskalandi, kommúnisminn í Austur-Evrópu og Kína, trúarofstækið í Afganistan og Íran. Í Hvíta-Rússlandi stóð hugrakkt fólk á götum úti og leitast við að fá ógiltar ólöglegar kosningar og í Úkraínu berjast menn við að halda í sjálfstæði sitt og fullveldi. Þegar foræðishyggja verður áberandi er mjög stutt í kúgun. „Við vitum betur. Okkur ber að hafa vit fyrir þér vegna þess að þú hefur ekki nægilega góða dómgreind eða sterkt siðferði til að sjá fyrir þínum málum sjálf.“ Hvað ef sá hugsunarháttur fer að teygja sig lengra og lengra inn í daglegt líf okkar? Hvar eru mörkin milli eðlilegrar stjórnunar og kúgunar? Allir hafa einhverjar skoðanir á því hvað sé heillavænlegast fyrir heildina en það þýðir ekki að svo sé. Rithöfundar á borð við Margaret Atwood gegna mikilvægu hlutverki að opna huga lesenda og skapa aukna víðsýni og skilning. Ný íslensk skáldsaga, Þetta rauða, það er ástin, eftir Rögnu Sigurðardóttur vakti með mér svipaðar tilfinningar og hugrenningatengsl og Saga þernunnar. Hún minnti mig á hversu stutt er síðan konur fengu rétt til að stjórna sjálfar hvenær þær gengu með börn. Hún sýnir einnig skýrt hvernig aðstæður voru meðan þungunarrof voru framkvæmd í skúmaskotum af misjafnlega hæfu fólki. Og síðast en ekki síst minnti hún á að konur þurftu að velja milli drauma sinna, langana og stundum köllunar og móðurhlutverksins. Sumar þurfa þess enn í dag. Einhver sagði einhvern tíma að það þyrfti alltaf einhverju að fórna til að draumur yrði að veruleika. Kannski er það rétt og vissulega getur enginn öðlast allt sem hann vill í lífinu. En í sumum tilfellum er fórnin bara of ósanngjörn, of stór. En það er alltaf ómetanlegt að geta sett sig í spor annarra og fengið nýja sýn á heiminn í gegnum góðar bækur. 


Malbik, kettir og smáfuglar

Allt frá því ég las Hægara pælt en kýlt og download hef ég dáðst að hæfni Magneu J. Matthíasdóttur til að tefla saman tveimur fyrirbærum, sem alla jafna teldust andstæð, og vinna þannig með þau að þau skapa heildstæða og lifandi mynd af aðstæðum. Þessi hæfileiki nýtur sín einstaklega vel í nýju ljóðabókinni hennar, Þar sem malbikið endar.  Ríkuleg kímnigáfan er þar líka í burðarhlutverki og Magnea er eins og Þórarinn Eldjárn meistari „útslagsetningarinnar“ eða „the punchline.“ Ljóð sem hafa á sér alvarleikablæ missa hann skyndilega þegar sérlega meinfyndin og snjöll setning kemur lesandanum gersamlega á óvart í endann, nánast slær hann út og eina rétta viðbragðið er hlátur. Svona eins og þegar maður fylgist með sérlega virðulegum manni með hatt koma inn á sjónarsviðið en skella svo á rassinn á eina hálkublettinum við húsið. En þarna er líka boðskapur um fegurð í mannlífi borga, malbiki, gráum húsum og gluggum sem opnast út í bakgarða. Kettir og smáfuglar birtast og hverfa og í húsunum er líf, samvera, tengsl, söknuður, einmanakennd og svo ótalmargar aðrar tilfinningar. Mér fannst malbikið alls ekki þurfa að taka enda þegar ég var komin að síðasta ljóðinu en minnti sjálfa mig á þá staðreynd að ljóð er hægt að lesa aftur og aftur. Þau eru eins og góð kjötsúpa, batna við hverja upphitun eða í þessu tilfelli upprifjun.


Ekkert jafnast á við bók

henry-be-lc7xcWebECc-unsplashÉg er alin upp við að bækur séu dýrmætar, ekki bara vegna þess að innihaldið sé stórkostlegt heldur einnig af þeirri ástæðu að þær eru lyklar að nýjum heimi þekkingar, skemmtunar og valds. Orð hafa áhrif og mennt er máttur. Á mínu æskuheimili voru þetta viðtekin sannindi og ekkert síður á sveitabænum þar sem mamma ólst upp. Þar var til stórt bókasafn sem ég lá í öll sumur æsku minnar og hlustaði auk þess á skyldfólk mitt tala um sögupersónur eins og þær væru sveitungar þeirra. Ófáar umræður um hvers vegna einhver sögupersóna sagði og gerði einmitt það sem stóð skrifað í bókinni áttu sér stað yfir matarborðinu eða kaffibollanum.

Það þótti líka sjálfsagt að vitna í ljóð eða spakmæli máli sínu til stuðnings og venjulega gerði það út um allar rökræður ef nægilega virt skáld hafði haft sömu skoðun og maður sjálfur.  Okkur var líka kennt að meðhöndla bækur af virðingu. Fara vel með þær og passa að þær færu úr höndum okkar óskemmdar. Ég man eftir að hafa grátið þegar mér varð það á að rífa blaðsíðu í einni af mínum uppáhaldsbókum. Ég hélt lengi framan af ævi að svona væri þetta alls staðar en með aldri og þroska komst ég að því að bókum er ekki alls staðar tyllt á sama stall og sumar bækur eiga alls ekki skilið að hljóta neinn virðingarsess. 

Tölvuskjár í stað leðurbands

Nú á dögum eru bækur neysluvara og ekki þykir þörf á að umgangast þær öðruvísi en kjöthakk eða snyrtivörur. Þær er keyptar, lesnar og jafnvel fleygt. Að safna bókum eða endurselja gamlar bækur er hugsanlega að verða úrelt iðja. Fyrir skömmu var ég á námskeiði með ungri konu sem naut þess að lesa bækur, þótti vænt um innihaldið en fannst engin nauðsyn að safna umbúðunum. Hún sótti flestar sínar bækur á bókasöfn og var að hugsa um að kaupa sér „kindil“, ég veit ekki hvort stafsetningin er rétt.

ed-robertson-eeSdJfLfx1A-unsplashSífellt fleira bókafólk í kunningjahópi mínum festir núna kaupa á þessum skemmtilegu rafrænu bókasöfnum. Bækur í hillu á heimili eru ekki lengur öruggt merki um að þar búi bókmennta- og menningarfólk. Hversu miklu magni af bókum hefur verið hlaðið inn í kindilinn á borðinu er betri vísbending. Hluti af mér fagnar því að með þessu léttir vonandi álagi af skógum heimsins en stærri partur finnur til saknaðar vegna þess að hvað er hlýlegra og fallegra en kilir bóka í hillum.

Ég man alltaf þá öryggiskennd sem fylgdi því að vita að ég átti enn nokkrar bækur ólesnar í bókaskápum heimilisins. Sumar var ég að treina mér. Ég vissi að þær voru skemmtilegar en hafði ákveðið að geyma það besta þar til síðast svona eins og þegar maður borðaði fyrst það sem manni þótti síðra á matardisknum til að geta notið þess að smjatta á hinu gómsætasta undir lok máltíðar. Einhvern veginn sé ég ekki að tölvuskjár geti fært mér sömu tilhlökkun jafnvel þó ég sæi litla íkona með forsíðum þeirra bóka sem ég á ólesnar í tækinu.

Bók er best vina

laura-kapfer-hmCMUZKLxa4-unsplashGömlu vínylplöturnar sem við strukum rykið svo varlega af heima í gamla daga til að verja þær rispum hafa þegar hlotið þau örlög að úreldast og koma aftur. Þótt einstaka safnarar hafi haldið í þeim lífinu á niðurlægingartímabilinu þótti það mesta sérviska. En svo eru þær aftur hafnar til vegs og virðingar í dag og margir hlusta helst ekki á tónlist öðruvísi en af vínyl. Geisladiskurinn er aftur á móti í bráðri útrýmingarhættu og ungmenni kaupa sína tónlist á Netinu, og hlaða henni beint í tölvur og önnur tæki. 

Mér hrýs hins vegar hugur við því að barnabörnin mín eigi hugsanlega eftir að telja bækur sniðugt en gamaldags dót. Bók er að mínu mati best vina. Sá vinur sem leita má til í veikindum, í leiðindum og í ráðaleysi og hingað til hefur hann aldrei brugðist mér. Tölvuskjár er bara ekki alveg eins hlýr og notalegur.

 


Kjaftatífur og önnur kvikindi

vitolda-klein-ybHstqVRuXY-unsplashEngum er vel við klöguskjóðu. Rætur vandlætingarinnar og andstyggðarinnar á þeim liggja djúpt í bernskunni. Þegar við gerðum hvert skammarstrikið á fætur öðru, stundum í algeru hugsunarleysi, þess á milli af þeirri einföldu ástæðu að við vorum sannfærð um að við kæmumst upp með það. Við völdum af fullkomnu samviskuleysi að brjóta reglurnar. Þegar ég var barn var yngri systir mín í hlutverki uppljóstrarans. Rétt í þann mund að ég taldi mig sloppna, fór hún til mömmu og sagði til mín. Bláeyg og heilög af innrætingu sunnudagsskólans horfði hún á mig og sagði: „Ég vildi bara vera heiðarleg.“

Mikið skelfing fannst mér hún ömurlega leiðinleg. En það versta var að hún var fullkomlega einlæg. Boðskapurinn um hreinskiptni og heiðarleika hafði einfaldlega náð til hennar. En frá mínum bæjardyrum séð var það ekki heppilegt. Ég þurfti að axla ábyrgð á gerðum sem voru skipulagðar með það í huga að enginn kæmist að því hver stæði að baki. Að auki þótti mér systir mín gróflega svíkja okkar systralag, enda hún gjarnan þátttakandi í afbrotunum. En sjaldnast náði ég samt að rækta reiðina gagnvart henni. Einkum vegna þess að ég vissi upp á mig skömmina þótt mér þætti óþolandi að henni var metið til refsilækkunar að hún hafði sagt sannleikann.

Syndir okkar systra voru vissulega ekki mjög alvarlegar og þó, stórfelldur jólakökustuldur sem ég átti upptökin að og náði að gera hana samseka með nokkrum ómótstæðilegum bóndakökum, talsverðu magni af leikföngum og fötum sópað undir rúm á tiltektardegi, stígvél leiðindaskjóðunnar í næsta húsi fyllt af drullu og vel falin vasaljós til að geta lesið frameftir á kvöldin þegar við áttum að vera sofnaðar. Ekki má gleyma deginum þegar ég efndi til keppni milli okkar frændsystkinananna í stökki yfir skítaskurðinn í sveitinni hjá afa og ömmu og ríflega þriðjungur lenti í honum miðjum. Vissulega hefði ég þegið að systir mín hefði kosið að halda kjafti yfir því hvaða snillingur taldi þennan viðburð tilvalinn til að efla andann í hópnum. En hvort sem brotið er stórt eða smátt er kjarni málsins ávallt sá sami, klöguskjóðan er ekki aðalatriðið heldur afbrotið og brotamaðurinn. Alveg sama þótt klöguskjóðan hafi líka gerst sek um sömu háttsemi.

Skjótum sendiboðann

sander-sammy-H0nmXTsrxE0-unsplashEinn angi af þessu skrýtna og tvöfalda siðferði er ríkir gagnvart þeim sem koma upp um aðra er að ráðast gegn þeim sem segja frá. Þetta er gert þegar menn ljóstra upp um spillingu, sem þeir vissulega hafa tekið þátt í sjálfir en séð að sér og einnig þegar þolendur ofbeldis segja frá upplifun sinni. Persóna þess sem talar er ævinlega dregin inn í málin og henni jafnvel kennt um það sem gerðist. Þetta er kallað þöggun á nútímamáli. Nýlega tóku nokkrir krakkar sig til og bjuggu til skessu og skírðu hana nafni sem vísar beint til konu sem hefur gefið þolendum ofbeldis og óréttlætis vettvang til að skýra frá sinni hlið. Það kann vel að vera að hugsunarleysi hafi ráðið för að einhverju leyti þegar þau útbjuggu ímyndina og skelltu á hana þessu heiti en það þýðir ekki að hrekkurinn hafi verið saklaus. Hann særði. Um það voru margir sammála, ekki bara viðkomandi kona heldur líka ótal aðrir sem deila með henni húðlit og skoðunum. Í kjölfarið reis þá upp hneykslunaralda þeirra er töldu ofurviðkvæmni og oftúlkun þessara aðila ráða för. Þarna var sem sé verið að taka niður klöguskjóðurnar. Liðið sem varð vitni að ljótum grikk og lýsti því sem það sá.

Vissulega fannst mér stundum freistandi í gamla daga að álykta sem svo að systir mín hafi sagt frá uppátækum mínum til að koma mér í vandræði, hefna sín á mér fyrir margskonar stríðni og kúgun í krafti þess að ég var eldri. En þegar upp er staðið skiptir það þá nokkru máli hver ástæðan að baki uppljóstrunarinnar var? Ég hafði gert nákvæmlega og akkúrat það sem upp á mig var borið. Þjófur er jú þjófur sama hvort og hvernig upp um hann kemst. Klöguskjóðan eða uppljóstrarinn kann að hafa sínar ástæður fyrir að gera upp málin og kannski er hún ekki alsaklaus heldur. En það breytir aldrei eðli þess atburðar er var kveikjan að frásögninni. Mergurinn málsins er alltaf sá að hver og einn er ábyrgur fyrir að halda sínu fjósi hreinu og takist honum það, er ekkert upp á hann að klaga. 


Tæknilegir örðugleikar

cookie-the-pom-gySMaocSdqs-unsplashSumir tala vélamál. Þetta fólk þarf ekki annað en líta á flóknar vélar til að skilja hvernig þær vinna og hvað þarf til að ná út úr þeim hámarksafköstum. Aðrir eru með þeim ósköpum gerðir að þeir mega ekki líta á nokkra maskínu öðruvísi en svo að kvikindið bili eða taki upp á einhverjum skelfilegum skammarstrikum. Ég er í síðari flokknum.

Fyrir nokkrum dögum komst ég að því að ég er ekki ein um þetta. Sennilega er þetta ættgengur andskoti þegar allt kemur til alls. Kona mér náskyld er mikill tungumálasnillingur. Hún talar sjö en eitt þeirra er alls ekki vélamál. Blessunin varð nefnilega fyrir því óláni að skyndilega tók tölvan hennar upp á að svara öllu gúgli á finnsku. Hið hljómmikla tungumál Tégners og Sibeliusar er ekki eitt af þeim sjö sem hún hefur á valdi sínu þannig að í hvert sinn sem hinn alvitri Google er spurður ráða situr konan og klórar sér í höfðinu yfir flóði upplýsinga sem hún sér enga leið til að notfæra sér.

Þetta skyldmenni mitt sver og sárt við leggur að enga skipun hafi það gefið eða fiktað í nokkrum takka sem valdið gæti þessu uppátæki tölvunnar. Ég trúi henni. Mín fyrsta tölva var illkvittið og andstyggilegt fyrirbæri. Reglulega át hún af viðurstyggilegri og miskunnarlausri græðgi heilu og hálfu skjölin. Ekki var nokkur leið að finna neitt af þessu aftur og ég horfði á eftir mínum fegurstu setningum og snilldarlegustu hugmyndum hverfa í iður vélarskrímslisins. Trúið þeim sem reynsluna hefur, svoleiðis er ekki hægt að fyrirgefa. 

Fædd á rangri öld 

Ég hef aldrei náð fullu valdi á neinu tæki. Gömlu símtækin voru frábær að mínu mati því þau gerðu ekki aðrar kröfur til manns en þær að festa ekki puttana í götunum þegar skífunni var snúið. Pínulitlu takkarnir á nútímasímum eru ávísun á vandræði og ég hef lent í að skella á mikilvægt fólk, heyra skyndilega rödd mína hrópa úr hátalara sem ég ætlaði sannarlega ekki að taka í gagnið og fá ýmis undarleg píp og bíbb inn í samtöl mín. 

Farsímarnir mínir hafa líka lifað af hremmingar sem slíkum tækjum er alla jafna ekki ætlað að ganga í gegnum. Meðal þeirra eru nokkurra klukkustunda vist í ísskápnum, bað, hálfsteiking á eldavélinni og óteljandi högg eftir að hafa fallið úr mismunandi mikilli hæð. Ég dáist reyndar að seiglu þeirra og aðlögunarhæfni en verð að viðurkenna að stundum pirra þeir mig ósegjanlega þegar ég ætla til dæmis að senda SMS-skilaboð og kvikindin kveikja hvað eftir annað á myndavél sem ég kæri mig alls ekkert um að nota.

tianyi-ma-WiONHd_zYI4-unsplashEitt sinn átti ég líka myndbandstæki sem hægt var að stilla á upptöku fram í tímann. Það fannst mér mikill kostur og ætlaði einu sinni að notfæra mér þennan hæfileika. Skemmst er frá því að segja að tækið bar aldrei sitt barr eftir þá tilraun og fór tvisvar í viðgerð. Ég missti auðvitað af þættinum góða. Þegar ég vann í banka á sínum tíma opnuðum við eitt sinn sérríflösku á föstudegi til að skála fyrir góðum árangri deildarinnar. Mér tókst að hella úr mínu staupi yfir reiknivélina mína sem umsvifalaust tók að æla upp pappírsborðanum sem sýndi einhver furðutákn sem hvergi var að finna á töluborðinu. Táknin líktust helst litlum köllum með kínverska hatta.

Ég lyfti upp reiknivélinni og horfði sorgmædd á sérríið leka úr henni niður á borðið. Það var ekki fyrr en tveimur vikum seinna að ég þorði að játa brot mitt og senda hana í viðgerð. Samstarfskonur mínar bentu reyndar á að skynsamlegra væri sennilega að koma henni á Vog.

Nei, ég hef líklega ekkert erindi á tækniöld. Ég þrái einföld tæki. Hugsið ykkur til dæmis ef til væri saumvél þar sem efninu væri troðið í annan endann, ýtt á takkann buxur og út um hinn kæmi þessi fína flík. Dásamlegt væri líka ef maður gæti talað við tölvuna sína í stað þess að þurfa stöðugt að passa sig á að ýta ekki á einhverja tvo eða þrjá takka samtímis sem gæti valdið því að margra daga vinna ónýttist eða sjálfur Google tæki upp á að tala óskiljanlegt mál. Já, veröldin væri áreiðanlega betri staður ef ekkert tæki hefði fleiri takka en tvo og gæti lesið hugsanir eigandans.


Leitin að Caleb

51peIsQwN7LNýlega rak á fjörur mínar bókin Searching for Caleb eftir Anne Tyler. Ég var satt að segja alveg búin að gleyma þessum frábæra höfundi en The Accidental Tourist, Dinner at the Homesick Restaurant og Breathing Lessons vöktu mikla hrifningu hjá mér á níunda áratug síðustu aldar. Ji minn eini hvað þetta hljómar rosalega langt aftur. En þessar bækur eldast vel.

Það er svolítið erfitt að flokka Anne Tyler því bækur hennar hafa svo sérstakt andrúmsloft. Í aðra röndina minnir hún mig á suður-amerísku höfundana, þessa sem gjarnan eru kenndir við töfraraunsæi. Persónur hennar eru nefnilega allar óvenjulegar, nánast sérvitringar, og svo hverfist sagan ævinlega um tengsl. Sambönd persónanna innbyrðis, um fjölskyldur og ættir og einmanaleika. En margt í persónulýsingum hennar og hvernig hún byggir upp karaktera er ekki ólíkt Charles Dickens. Stuttar grípandi lýsingar hér og þar sem byggja upp heildstæða og einstaklega lifandi mynd af persónu. Hann líkti fólkinu sínu gjarnan við dýr en var líka snillingur í að draga upp myndir af hreyfingum sem sögðu ótrúlega margt um karakterinn. Það gerir Anne Tyler líka. Hvað segir þetta til að mynda um Justine: „She was always late for everything, though she started out the earliest and the fastest and the most impatient. She was always leaving places in the same way, calling scraps og goodbyes and then running, flying bearing some shaking plant or parcel or covered dish ...“ Kvenpersónur Anne Tyler eru sterkar, mun sterkari en karlarnir í lífi þeirra en engu að síður gangast þær viljugar undir hið hefðbundna kvenhlutverk í flestum tilfellum.

Bækurnar hennar eru skemmtilega tímalausar. Oft finnst manni maður staddur á öðrum, þriðja eða fjórða áratug síðustu aldar en svo koma senur sem allt eins gætu átt við daginn í dag. Í Searching for Caleb skapar hún ákaflega sérstæða fjölskyldu. Elstur er Daniel Peck, afinn, hann virkar ótrúlega gamall á lesandann næstum forn en er samt ótrúlega ern og lifandi. Justine er spákona, lífleg og hlý og laðar að sér fólk hvar sem hún fer. Duncan, eiginmaður hennar, er drifinn áfram af eirðarleysi. Hann þarf stöðugt eitthvað nýtt að fást við og skiptir ört um vinnu með tilheyrandi flutningum og óþægindum fyrir fjölskylduna. Justine og Duncan eru frændsystkin (cousins) en Peck-fjölskyldan almennt er virðuleg, velefnuð og fastheldin. Þau eru ásamt Caleb einu uppreisnarseggirnir. Meg, dóttir þeirra, þráir ekkert heitar en að setjast að á einum stað, klára nám og lifa hefðbundnu lífi að því loknu. Hún er sannur Peck.

Að halda og sleppa 

Daniel lætur í ljós löngun til að finna bróður sinn, Caleb, sellóleikara sem hvarf þegar þeir voru ungir og ekkert hefur spurst til í sextíu ár. Hann og Justine halda af stað til að finna hann og áður en yfir lýkur finnur Justine fleira en þennan frænda sinn. Þemu þessarar bókar eru flókin og spennandi. Leitin að einhverju sem hefur verið týnt árum saman og finna að lokum sjálfan sig að nýju í gegnum það er svo sem ekki nýtt viðfangsefni en hér er þetta sett fram á frumlegan og skemmtilegan hátt. Hver og ein persóna svo spennandi og þessi skarpa mótsögn milli þröngsýnna sjálfumglaðra ættingja þeirra Duncans og Justine og persónuleika þeirra tveggja er einstaklega áhugaverð og vel útfærð. Sjálfstæðisþörf Duncans og í raun sjálfselska hans, honum er alveg sama hvaða áhrif þörf hans fyrir nýjar áskoranir, kemur við aðra og eilíft umburðarlyndi Justine eru gerólík viðhorfum annarra í fjölskyldunni. Þeirra eigin dóttir meðtalin.

Daniel er lýsandi fyrir fjölskylduna, fullkomlega ófrumlegur og virðulegur eldri maður. Hann eldist vel en virðist ekki hafa haft mikla ánægju af lífinu eða horfa til baka yfir farinn veg með vellíðan yfir unnum afrekum. Hann lýsir þessu best sjálfur: „In my childhood I was trained to hold things in, you see. But I thought I was holding them in until a certain time. I assumed that someday, somewhere, I would again be given the opportunity to spend all that save-up feeling. When will that be?“ Alla ævi hefur hann haldið fast í hlutina, engu sleppt og aldrei leyft sér að njóta ávaxtanna af neinu. Leitin að bróðurnum horfna verður skiljanleg í þessu ljósi.

Justine á hinn bóginn heldur engu. Hún leyfir öllu að flæða frá sér, fylgir fólki og elskar skilyrðislaust. Hún hefur líka einhvers staðar sleppt sjálfri sér. Umfram allt er sagan kannski um hið fíngerða jafnvægi milli þessa að halda of fast og sleppa öllu lausu. En hvernig sem menn upplifa þemað og boðskap sögunnar er hún listalega vel spunnin og skrifuð.

 


Tíminn endist öllum, líka þeim sem síðastur fer

fulvio-di-sciullo-HEna_6UIQ5M-unsplashAð vita hvað maður vill er þrautin þyngri. Oscar Wilde sagði einhverju sinni að þegar guðirnir bænheyrðu okkur refsuðu þeir okkur og flestir vita sennilega hvað hann átti við. Oft er það nefnilega svo að við erum varla fyrr búin að fá heitustu ósk okkar uppfyllta en það rennur upp fyrir okkur að eiginlega er þetta alls ekki eins og við vildum eða hreinlega ekkert líkt því sem við héldum að það yrði. Vonir og væntingar villa okkur sýn og stundum er okkur ýtt út á brautir og hliðarvegi sem við hefðum sjálf alls ekki valið ef okkur hefði verið gefið eitthvert val.

Þrýstingurinn er allur á að við ákveðum snemma hvert við viljum stefna og höldum þeim kúrs það sem eftir er ævinnar. Meðal fyrstu spurninga sem við spyrjum börnin okkar er: Hvað ætlarðu að verða þegar þú verður stór? Kannski er spurningin meira í gamni en alvöru til að byrja með en fljótlega færist meiri alvara og þungi í röddina sem spyr.

Við erum alin upp við að líta fyrst og fremst til loka hlutanna, einblína á endinn. Nám er varla hafið þegar við erum farin að huga að útskrift og hraðbrautir, flýtileiðir og sumarnámskeið feykivinsæl leið til ýta hlutunum áfram. Ástarsambandið rétt farið að verða notalega hlýtt þegar spurt er um brúðkaup og börn. Helst eigum við að klifra upp metorðastigann hvar svo sem við annars erum og aldrei að fatast flugið. Sá sem festist eða dettur milli rima og kemst ekki upp aftur er misheppnaður.

Enginn sæludraumur að verða fullorðin

Þegar við erum börn finnst okkur fullorðna fólkið vita allt. Það ræður líka öllu og drottinn minn, hvað mann hlakkar til að verða fullorðinn og ráða sér sjálfur. Þá skal sko verða borðaður ís í hvert mál, nammidagar alla daga nema laugardaga og vakað alla nóttina. En ekkert er eins og það sýnist. Að verða fullorðinn er enginn sæludraumur. Þá fyrst byrja kröfurnar og málamiðlanirnar og fyrsta krafan er alltaf sú að þú stillir kompásinn, veljir leiðina.   

Í fyrstu finnst manni allir vita hvert þeir ætla nema maður sjálfur. Að aðrir viti hvað þeir vilja og taki ákvarðanir í samræmi við það. Ég efast um að ég sé ein um það en sjaldnast hef ég vitað nákvæmlega hvað ég vil fyrr en eftir á þegar ákvarðanirnar mínar hafa reynst annað hvort réttar eða rangar. Sennilega hef ég alltaf verið seinþroska. Flestir virðast upplifa sig misheppnaða ef lífið gengur ekki eftir þessari ímynduðu línu sem ætlað er að halla upp á við og haldast ævonlega bein. 

En lífið kemur í köstum, ýmist gott eða vont, stundum fötufylli af hamingju og stundum djúp örvænting, oftast þó bara tilbreytingalítill hversdagsleiki. Línan er sem sagt skrykkjótt, krókótt, snúin og stundum lykkja og stundum hringur. Eitt sinn þótti eðlilegur gangur lífsins að ungt fólk réði sig í vinnu hjá fyrirtæki og kveddi það að fimmtíu árum liðnum með einhvers konar viðurkenningu upp á vasann. Slík tryggð er sjaldgæf í dag og ekki alltaf vegna þess að fólk kjósi annað. Allflestir segja upp störfum einu sinni eða oftar, ótalmargir eru reknir einu sinni eða oftar og þeir eru orðnir ófáir sem hafa unnið hjá fyrirtækjum sem tekin hafa verið til gjaldþrotaskipta og sumir hjá nokkrum slíkum.

Sveigjanleiki mikilvægastur 

john-forson-V8DUsA0Pxfs-unsplashEn ef hruninu var ætlað að kenna okkur lexíu er hún áreiðanlega sú að þörf sé á sveigjanleika og sköpun fremur en einstrengislegri rörsýn. Öryggið er stundum ofmetið og það getur verið þroskandi og gott að reyna sig á nýjum vettvangi þótt það skili kannski ekki öðru en að láta mann vita að mann langar annað. Það er líka jafnvitlaus bóla og hagkerfi frjálshyggjunnar að sá sem ekki hafi slegið í gegn þrítugur nái því aldrei. Ótalmargir hafa tekið U-beygju í lífinu upp úr miðjum aldri og náð meiri og betri árangri en nokkru sinni fyrr. Skapandi hugsun vex nefnilega oft með árunum sem og sjálfsöryggi. Ótal konur finna fyrir þessu og hafa þess vegna byrjað nám, farið  að skrifa eða tekið upp algerlega nýja stefnu í lífinu eftir fimmtugt. Ég hef átt mín bestu ár á vinnumarkaði eftir fimmtugt og er enn að læra nýja hluti og uppgötva nýja hæfileika hjá sjálfri mér. 

Fyrir allnokkru síðan var það slagorð heilsuræktarfyrirtækis að aldrei væri of seint að fara að hreyfa sig. Fauja Singh heitinn sannaði að þetta væri rétt en hann hljóp sitt besta maraþon í Toronto 2003 lauk hlaupi eftir 5 klst. og 40 mínútur þá 92 ára. Hann er ekki sá eini sem náð hefur að afreka maraþon um nírætt svo kannski er óþarfi að streitast við að klára markmiðalistann fyrir þrítugt. Ævin kann  nefnilega að endast þeim síðustu til að verða fyrstir. 


Bráðsnjall bókamaður

downloadFyrir fleiri árum en ég kæri mig um að muna rakst ég á stórskemmtilegar glæpasögur eftir John Dunning um bókamanninn Cliff Janeway. Þessi fyrrum lögga er gerðist fornbókasali flæktist alltaf reglulega í erfið morðmál sem oftar en ekki tengdust líka aðaláhugamáli hans gömlum bókum. Ég hef verið ansi fíkin í leynilögreglusögur allt frá því ég byrjaði að lesa Agöthu Christie en hinn frábæri snúningur á fléttunni í sögum John Dunning var gersamlega ómótstæðilegur að mínu mati og ég gleypti þessar bækur í mig.

John Dunning er bandarískur fæddur árið 1942. Hann hóf ferilinn sem blaðamaður á Denver Post en hætti til að helga sig ritstörfum. Eftir deilur við útgefendur sína tók hann sér hlé og opnaði fornbókasölu, The Old Algonquin Bookstore. Hann sérhæfði sig í að hafa upp á sjaldgæfum bókum og fyrstu útgáfu klassískra verka. Sá atvinnurekstur varð til þess að persóna Cliffs Janeways varð til en hann líkt og höfundurinn hafði gott auga fyrir gömlum bókum og var afburðasnjall í að hafa upp á góðum eintökum og fyrstu útgáfum. Hins vegar fylgdi sá böggull oft skammrifi þegar Cliff var við störf að morð voru framin og bókamaðurinn neyddur til að nýta athyglisgáfu og skarpskyggni lögreglumannsins til að leysa gátuna um hver morðinginn væri.

download-2Bækurnar um Cliff urðu fimm og titilinn vísaði ávallt á einhvern hátt til bóka. Booked to Die var sú fyrsta, The Bookman‘s Wake kom næst, þá The Bookman‘s Promise, fjórða The Sign of the Book og að lokum The Bookwoman‘s Last Fling. Þetta eru bráðskemmtilegar sakamálasögur og vel skrifaðar. Líklega hefur John talið að hætta bæri hverjum leik þá hæst hann stæði því hann lét þetta nægja um fornbókasalann snjalla. Hann skrifaði hins vegar fimm aðrar skáldsögur, tvær nóvellur og tvær sögulegar bækur um sögu útvarpsins í Bandaríkjunum. Ég hef hins vegar ekki lesið neitt annað en sakamálasögurnar og get því ekki dæmt um gæði þeirra. John Dunning rak einnig lengi fornbókasölu sína á netinu til að hafa meiri tíma til að skrifa.

 


Hvers virði er einstaklingurinn?

mika-baumeister-LaqL8nxiacc-unsplashÉg skipti um vinnu á liðnu ári. Það olli svo sem engum titringi að ráði neins staðar. Það var í senn spennandi og kvíðvænlegt, eins og alltaf þegar tekist er á við breytingar. En það viðmót og starfsandi sem mætti mér á nýjum stað einkenndist af hlýju og virðingu. Það varð til þess að ég fór að velta fyrir mér framkomu yfirmanna á vinnustöðum við starfsmenn sína á svolítið nýjan hátt. Ég er þeirrar skoðunar að hlutverk stjórnenda sé að veita undirmönnum sínum innblástur, vekja með þeim ástríðu, áhuga og metnað fyrir verkefnunum og takist það ekki þurfi viðkomandi stjórnandi að skoða aðferðir sínar og þær leiðir sem hann fer við að nálgast starf sitt. Hann þarf að leggja sig fram um að kynnast fólkinu sínu, þekkja styrkleika þess og veikleika og velja því hlutverk út frá því. Þegar vel tekst til skapast andi metnaðar og kappsemi á vinnustaðnum. Þar ríkir vinátta og samvinna sem ekki snýst um að troða skóinn af öðrum heldur ríkir skilningur á að allir eru mikilvægir í ferlinu.

Það þarf að gefa fólki tækifæri til að vaxa í starfi, leiðbeina því og styðja þegar það stígur út fyrir þægindarammann. Á nýjum vinnustað gerði ég nýlega upp árið á fundi með yfirmanni mínum. Þar fékk ég tækifæri til að líta yfir helstu sigra haustsins, mistök, verkferla sem þarfnast úrbóta og eigin stöðu innan heildarinnar. Til dæmis hvernig ég vil styðja samstarfsmenn og hvers ég þarfnast frá þeim. Ég setti mér líka markmið fyrir næsta ár og á fundinum fórum við yfir þau saman. Ég fékk leiðbeiningar, jákvæða uppörvun og innblástur til að halda áfram.

pablo-varela-hEw2qUhk-fw-unsplash (1)Ég hef aldrei skilið þá mannauðsstefnu að segja fólkinu sínu sífellt að enginn sé ómissandi, að maður komi í manns stað. Með því er í raun verið að segja að starf þitt sé einskis virði, þú sért lítils metinn. Á sama tíma og hamrað er á þessu skilja viðkomandi yfirmenn ekkert í því að þeir finni ekki fyrir metnaði og áhuga hjá starfsfólki, að það sýni fyrirtækinu ekki tryggð heldur forði sér eins fljótt og það getur. En langar einhvern að dvelja þar sem hann er bara skrúfa í tannhjólinu og útskiptanlegur fyrir aðra sambærilega hvenær sem er? Við vitum öll að vissulega er hægt að skipa mann í manns stað en það þýðir ekki að hann fylli skarðið. Ekkert er nýtt undir sólinni að því leyti að flest það sem menn taka sér fyrir hendur hefur verið gert áður í einhverri mynd og allar nýjungar byggja á gömlum grunni. Besti árangur sem við getum vonast til að ná, einkum og sér í lagi ef maður vinnur í skapandi geira, er að setja sitt persónulega mark á verkið. Skapa blæbrigði sem eru þín og enginn annar fær um að leika fyllilega eftir. Og einmitt vegna þess er svo mikilvægt að yfirmenn og mannauðsstjórar átti sig á hvílík verðmæti felast í einstaklingnum á vinnustaðnum. Þú getur sagt upp manneskju vegna þess að þér leiðist hún eða þér finnist hún ekki passa í teymið, að hún sé orðin of dýr, of stöðnuð í starfi eða hvað eina annað en þér leyfist aldrei að tala hana niður eða gera lítið úr hæfileikum hennar. Ef þér sem yfirmanni tókst ekki að blása henni í brjóst áhuga eða löngun til að laga sig að þínu fyrirtæki, verkefnum þess og markmiðum er eitthvað að þinni nálgun á þitt starf.


Draumar, fyrirboðar og fyrirheit

downloadÁramót marka lok hins gamla og nýtt upphaf í hugum flestra. Líklega er fleirum en mér þá þannig farið að þeir kjósi að taka vel eftir öllu sem gerist í kringum þá og leita að vísbendingum og fyrirboðum í ýmsum. Slík tákn geta svo styrkt mann og eflt í að gera þær breytingar sem þarf til að bæta lífið en líka hjálpað til við að urða það gamla. 

Nýársnótt er töfrum slungin og þá taka kýrnar til við að tala og álfar að flytja búferlum. Á sumum heimilum er það fastur liður að kíkja í bolla, leggja spil eða ráðgast við rúnir á gamlárskvöld. Margir leggja einnig mikið upp úr því að muna þá drauma sem þá dreymir á nýársnótt. Hvort sem menn trúa á æðri mátt, stokka og steina, forlög eða mátt sinn og megin er það skemmtilegur samkvæmisleikur að leita svara í spilastokk, bolla eða draumtáknum. Flestir laumast líka til að lesa stjörnuspá fyrir sitt merki og árspá Siggu Kling ábyggilega rosalega vinsæl.

0002946859Bókin Fyrirboðar, tákn og draumráðningar eftir Símon Jón Jóhannsson veitir mönnum færi á að skoða ýmislegt tengt áramótum og öðrum tímamótum. Lítum á nokkur atriði af þeim sem standa til boða á nýársnótt.

„Stillt og bjart veður á gamlársdag er fyrirboði þess að næsta ár verði gott.

Vont veður á nýársdag boðar storma á komandi ári.

Sé í manni ólund um áramót verður árið erfitt en líði manni vel verður árið farsælt.

Gæta verður þess að hafa peninga í vasanum þegar nýtt ár gengur í garð því annars verða menn blankir allt árið.

Það sem menn gera á nýársdag munu þeir gera oft á komandi ári. Þess vegna er gott fyrir menn að kyssa einhvern svo þeir verði kysstir oft næsta árið, eða klæðast nýjum fötum því þá eignast þeir margar nýjar flíkur á árinu.

Menn eiga að varast að gefa gjafir á nýársdag eða fara með eitthvað burtu af heimilinu. Þá tapa þeir einhverju á árinu.

Komi dökkhærður karlmaður fyrstur inn á heimilið eftir miðnætti á gamlárskvöld boðar hann gott en það er ills viti komi ljóshærður maður fyrstur inn á heimilið á nýhöfnu ári og hræðilegt sé viðkomandi rauðhærður. Það boðar einnig illt ef konur eða rangeygðir eru fyrstu gestir á nýársnótt.

Það er ólánsmerki að hengja upp dagatal fyrir næsta ár áður en klukkan slær tólf á gamlárskvöld.

Svo er að marka allt sem menn dreymir á nýársnótt.“

download-2Þarna er margt fróðlegt og gott að finna og um að gera að gæta þess að dökkhærður maður gangi fyrstur inn um dyrnar á heimilinu þessi áramótin. Nú og svo má prófa að hoppa inn í nýja árið eins og frændur okkar Danir gera en menn beðnir að fara varlega. Þeir hoppa nefnilega ofan af stól og ég hafði spurnir af konu sem fótbraut sig við að tryggja sér lukku með því móti.

Sumir vilja gera upp öll gömul mál á gamlárskvöld og greiða skuldir sínar. Aðrir strengja heit og þau algengustu snúast um að hætta einhverju:

  • Hætta að reykja
  • Hætta að drekka
  • Hætta að borða óhollan mat

Næstalgengast er svo að heita því að byrja á einhverju:

  • Byrja í ræktinni.
  • Byrja í nýrri vinnu.
  • Byrja að spara.
  • Byrja nýtt líf.

Sumir eru svo ekkert sérlega bjartsýnir á mátt áramótaheita en þeir telja samt sem áður gott að lofa sér einhverju. Þeirra heit eru oft almenns eðlis eins og að vera góð/ur við sína nánustu, gæta þess að særa ekki aðra, sýna umhyggjusemi og gefa af sér. Það er gott að setja sér markmið og vinna ötullega að þeim og áramótin eru vissulega góð tímamörk að miða við. En það er alltaf best að ætla sér ekki um of og muna að guð mun ráða hvar við dönsum næstu jól.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband