Hið magnaða Snæfellsnes

Áhöfnin á h-tímarit gisti á Hótel Búðum um helgina. Við keyrðum vestur á laugardaginn í vitlausu veðri og þegar við komum var leiðinlegt rok. Þegar líða tók á kvöldið og stórkostlegan fjögurra rétta kvöldverð fór að lægja. Ég hef aldrei fengið annan eins mat og fyrir okkur var borinn þarna. Fyrst voru svartfuglsbringur í malt og bláberjasósu hreint sælgæti og næst kom skötuselur og skelfiskur marínerað í kryddi og einstaklega ferskt og gott. Lambaskankar og lambarifjur sem höfðu fengið að liggja og meyrna í kryddjurtum voru í aðalrétt og við gátum hreinlega ekki talað meðan við nutum þess að borða því þetta var svo óskaplega gott. Að lokum var frönsk súkkulaðikaka með ávöxtum og rjóma. Hreinlega yndislegt. Eftir matinn settumst við niður í skála hótelsins og nutum útsýnis yfir sjóinn og öldurnar. Mikið skil ég Gurrí vel eftir þetta. Ég held ég yrði líka að gera mér ferð inn í stofu til að kveðja útsýnið áður en ég héldi til vinnu á morgnana eins og hún ef ég hefði aðra eins sýn á sjóinn. Við fengum líka að sjá sel leika listir sínar framan við bryggjuna á Búðum og um nóttina var stjörnubjart og vaxandi tungl. Ég hef aldrei séð jafnmargar stjörnur og svo skærar. Við Gummi hengum út um gluggann í herberginu okkar í hálftíma og tímdum ekki að fara að sofa. Um tíma vorum við jafnvel að hugsa um að klæða okkur upp og fara út í miðnæturgöngu en úr því varð ekki. Ég mun sennilega sjá eftir því til æviloka að hafa ekki farið út að skoða stjörnurnar á Búðum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband