Gamalt vín á nýjum belgjum

Maðurinn minn lá inni á gamla blogginu mínu í dag og komst að því að konan hans er snillingur. Hann ákvað að ýmsar gamlar færslur væri nauðsynlegt að birta hér líka og við byrjum á færslum mínum um súluna á Goldfinger.

Ég hef nefnt áður hér á þessari síðu að ég er oft með seinheppnari manneskjum. Það sannaðist enn og aftur á föstudaginn var. Ég var að skrifa grein um súludans sem líkamsrækt og fékk þá stórkostlegu hugmynd að best myndi vera að myndskreyta greinina með myndum af sjálfri mér á súlunni. Vel gekk að fá leyfi til myndatökunnar og ég mætti klukkan átta á föstudagskvöldið á Goldfinger. Þar tóku á móti mér tvær þaulvanar og liprar dansmeyjar tilbúnar að kenna mér. Jónatan ljósmyndari var líka á staðnum og við vildum hefjast handa sem allra fyrst. Þá kom babb í bátinn. Ég mátti ekki fara á súluna í buxum því þá væri hætta á að ég rynni til og dytti í gólfið. Eftir japl, jaml og fuður varð úr að ég lagði til atlögu við súluna í hlemmistórum Bridget Jones nærbuxum og gegnsærri bleikri druslu sem önnur dansmeyjan kallaði pils. Þetta var ekki nóg því varla hafði ég lagt hönd á súluna þegar inn á staðinn stormuðu tólf karlmenn í steggjapartíi. Þegar þarna var komið sögu var eiginlega ekki um annað að ræða en að halda áfram og ljúka þessu og það gerði ég. Gummi var með mér því til stóð að við færum í heimsókn til vinafólks okkar að myndatökunni lokinni. Hann stóð við barinn og beið eftir konunni sinni þegar einn úr steggjapartíinu vatt sér að honum og spurði: Vinnur þú hérna. Nei, svaraði Gummi. Ég er að bíða eftir konunni minni. Hún er þarna á súlunni. Hann bandaði hendinni lauslega í átt að súlunni um leið og hann sleppti orðinu og maðurinn horfði opinmyntur á hann. Þetta kvöld var það pínlegasta sem ég hef lifað hingað til þó að nokkur önnur mætti nefna sem komast nærri þessu t.d. kvöldið sem Steingerður lék draug og hræddi líftóruna úr systur sinni og kvöldið sem ég, Magga og Halla fórum á Southern Comfort fyllerí. Fleira þarf ekki að segja um það kvöld. En eftir miklar vangaveltur og sálarstríð ákvað ég að birta söguna af sveiflum mínum á súlunni á Goldfinger í Vikunni og myndir af því líka. Það kemur í ljós fljótlega hvað broddborgurum þessa lands mun finnast um það.

Við Gummi fórum upp á spítala til pabba áðan og komum við hjá mömmu áður en við fórum heim. Þegar ég var að fara út frá gömlu konunni fannst mér ég endilega hafa verið með rauða sjalið mitt um hálsinn þegar ég fór að heiman. Við renndum því upp á spítala aftur og Gummi hljóp upp til að sækja sjalið. Hann greip í tómt og ég varð að játa að líklega hefði mér skjátlast. Þá stundi Mundi: Já, það er illt að vera kvæntur kalkaðri súlumey. Og með þessu hefur maður þolað súrt og sætt í 24 ár.

Oft er sagt um fólk og því lagt það út á versta veg að það eigi að baki skrautlegan feril. Ég var að hugsa um þetta orðatiltæki um daginn og það rann upp fyrir mér að ég á að baki mjög skrautlegan feril á fleiri en einu sviði. Á menntaskóla árunum vildi ég verða leikkona og lagði hart að mér til að svo mætti verða. Ég lék nefnilega í tveimur leiksýningum og í annarri lék ég asna en hinni hóru. Eiginlega má segja að ég hafi átt jafn skrautlegan leikferil og maðurinn sem hafði einu sinni stigið á svið og lék þá lík. Sjálfur sagði hann að haft hefði verið á orði í sveitinni að aldrei hefði sést dauðara lík í nokkru leikverki. Ég sneri mér eitt sumar að hótelstörfum og var treyst fyrir því verki að hræra skyr ofan í 4o ferðamenn. Ég ákvað að sykra skyrið vel til að hlífa viðkvæmum bragðlaukum óvanra Þjóðverja við sýrubragðinu en þegar skyrið batnði ekki heldur versnaði við sykurinn kallaði ég á kokkinn. Þá kom í ljós að ég hafði saltað skyrið en ekki sykrað. Þessu var bjargað fyrir horn en ég hætti við að gerast hótelstýra á stóru glæsihóteli í miðborginni. Næst sneri ég mér að bankastörfum og þar tókst mér að fylla reiknivél með því að hella yfir hana sérrístaupi. Mér er sagt að reiknivélin hafi ekki borið sitt barr síðan. Sennilega hefði verið vitlegra að senda hana á Vog fremur en á viðgerðarverkstæði. Blaðamennskan tók við af bankanum og hana er ég viðloðandi enn. Maður veit þó ekki hve lengi ef haft er í huga að ég sýndi þónokkur tilþrif á súlunni um daginn og í hádeginu í gær spurði ég yfirmann minn hvort hann væri afi ungrar dóttur sinnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband