Hagyrðingar og þeir sem vildu gera betur

Ég sendi syni mínum oft skilaboð í bundnu máli og Gummi taldi að eftirfarandi væri lýsandi fyrir þau samskipti.

Ég var að bjóða syni mínum í mat og sendi honum eftirfarandi skilaboð:

Ég vildi þér bjóða í bita
en eitt þarftu áður að vita
að í matinn ert þú
og þín eðla frú
sem aðeins þarf upp að hita.

Ég býst við að fá svar seinna í dag.

Sonur minn þáði matarboðið sem kom mér mjög á óvart. Sennilega hefur hann talið sig geta varið sig og kærustuna, enda ýmsu vanur úr uppeldinu. Ég er hins vegar á því að mæður viti alltaf hvernig börnunum þeirra líður og stundum betur en þau sjálf. Þess vegna sendi ég honum þessa vísu núna áðan:

Í dag ertu lítill og smár
og óendanlega gugginn og grár.
Með svarta bauga
undir sitt hvoru auga
en á morgun líður þér skár.

Eins og fram hefur komið á þessari síðu áður þá sendi ég syni mínum einstaka sinnum snilldarlega ortar limrur. Pilturinn tekur þessum ofsóknum með stóiskri ró, enda þekktur fyrir yfirvegun (sem hann auðvitað hefur erft úr móðurætt). Hér er nýjasta afurðin sem honum var send með tölvupósti í morgun. Drengurinn getur ýmsa lífsspeki numið af þessum kveðskap.

Þinn goggur er langur og mjór
en ekkert sérlega stór.
Þetta er myndarlegt nef
sem fær sjaldan kvef
en skynjar fljótt lyktina af bjór.

Þennan volduga kveðskap sendi ég syni mínum áðan og ákvað að deila snilldinni með ykkur:

Mig dreymdi mergjaða marfló
sem í fjörunni að mér hló.
Hún vatt upp sinn hrygg
og borðaði bygg
en lagðist svo niður og dó.

Þessar vísur hafa beðið sonar míns þegar hann opnar tölvupóstinn sinn.

Þú ert mögnuð mörgæs
og feldurinn þinn er svo næs.
Þín tunga frís
þegar étur þú ís
og með vængstúfunum gerir lok, lok og læs.

Þú máttugi mörgæsasmiður,
verðir þú uppiskroppa með fiður,
skaltu fara ber
að næsta hver
og stökkva svo norður og niður.

Með mörgæsablóð í æðum
er Andri með sínum skræðum.
Hann gengur um
með stelpunum
og tekur doktorspróf í ýmsum fræðum.

Alveg er þetta magnaður kveðskapur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband