Afburða vel skrifuð og fræðandi bók

downloadÚtþráin grípur án efa alla eyjabúa einhvern tíma á ævinni. Kannski veldur þau óhjákvæmilegu takmörk sem það setur að vera afmarkaður af hafi á alla vegu fremur en nágrannaríkjum sem auðveldlega má líta til. Hvernig sem því er varið ferðast menn þó á mismunandi máta og uppskera hver á sinn hátt. Sigríður Víðis Jónsdóttir er besta tegund ferðalanga sem hugsast getur. Hún er greind, forvitin, greinandi, umburðarlynd og kærleiksrík Bókin hennar Vegabréf íslenskt ber öllu þessu vitni.

Ég er kominn upp á það

– allra þakka verðast –

að sitja kyrr í sama stað,

og samt að vera' að ferðast.

Þannig orti Jónas Hallgrímsson á sínum tíma og ef fólk kærir sig ekki um að standa upp úr hægindastólnum er bók Sigríðar ekki það næst besta heldur það allra besta. Bókin er afburða vel skrifuð og opnar mönnum sýn á fjarlæg lönd og heimsálfur ekki bara þannig að náttúrufegurðin og byggingar standi þeim ljóslifandi fyrir hugskotsjónum heldur finna þeir lyktina, heyra óminn af röddum fólksins, draga að sér andrúmsloftið og óska þess að þeir geti rétt út hönd og snert manneskjurnar í þeim aðstæðum sem Sigríður lýsir. Rétt fram hjálparhönd og breytt einhverju um þau afdrifaríku mistök sem þarna hafa verið gerð.

Sigríður var sjálfstætt starfandi blaðamaður og skrifaði greinar og sendi heim viðtöl við fólk, einkum frá svæðum í sárum eftir langvarandi átök. Hún er skarpur greinandi og leggur sig ævinlega fram við að heyra frá heimamönnum þeirra viðhorf og lýsingar á eigin aðstæðum. Þetta gefur henni einstæða innsýn inn í þau málefni sem hún fjallar um. Henni er lagið að sjá hlutina frá mannlegum sjónarhóli fremur en að einblína á yfirborðsmyndina. Að mínu mati verður allt skýrara þegar það er gert. Alþjóðastjórnmál og karpið um yfirráð, hvað má og hvað ekki og hvernig gera eigi hlutina verður svo lítilfjörlegt og merkingarlaust í samanburði við stórslösuð börn og varnarlausar konur að berjast við að halda matseldinni gangandi frá degi til dags, þvottinum hreinum og börnunum heilbrigðum.

Það er alltaf ánægjulegt að lesa bækur sem eru jafn vel skrifaðar og Vegabréf íslenskt.  Sigríður hefur afburðgóð tök á íslensku máli og er einstaklega lagið að draga upp skýrar myndir. Fyrri bók hennar, Ríkisfang: Ekkert, Flóttinn frá Írak til Akraness, bar þessi sömu höfundareinkenni en hún var annars eðlis, þar fjallar hún um upplifanir annarra en nú fáum við að kynnast hennar eigin. Hún hefur kosið að heimsækja lönd og staði utan alfaraleiða. Það þarf sérstaka manngerð til að gera slíkt og þá ekki bara að koma þar við heldur einnig að skrásetja og miðla því sem fyrir augu ber. Sigríður er ekki á ferð meðan átökin geysa en lýsir afleiðingum þeirra en einnig fylgifiskum fátæktar og úrræðaleysis sem spillt stjórnvöld skapa þegnum sínum víða um heim. Ef menn þrá að kynnast heiminum og setja sig inn í aðstæður fólks í framandi löndum án þess að standa upp úr sófanum heima er bókin, Vegabréf íslenskt, einstök leið til þess.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband