Einn í miðju úthafi

downloadSíðustu þrjú ár hefur Einar Kárason sótt innblástur í kunna voðaatburði sem setið hafa í þjóðinni. Opið haf byggir á sögu Guðlaugs Friðþórssonar, sjómanns sem synti í land 6 km leið í köldum sjó. Þetta einstaka afrek verður líklega seint endurtekið og hefur vakið aðdáun alla tíð síðan. Það sem ekki hvað síst hefur orðið mönnum undrunarefni er hvernig Guðlaugi tókst að halda ró sinni og skýrri hugsun þær níu klukkustundir sem þrekraun hans stóð yfir í. Ekki nóg með að hann synti í land, hann þurfti að kasta sér út aftur í öldurnar því hann kom ekki að landi á heppilegum stað fyrst og síðan tók við 3 km ganga yfir úfið hraun í frosti og kulda. Og það er einmitt þessi hugarró sem verður Einari að yrkisefni í sögu sinni. Hann lýsir vel hvernig maðurinn, einn í miðju úthafi, lætur hugann reika. Rifjar upp minningar, ímyndar sér viðbrögð fólksins síns, talar við múkkann og fær aukið þor á örvæntingarstundum. Takturinn er hægur meðan á sundinu stendur í samræmi við hvernig tíminn hefur silast áfram á sundinu en í lokin verður bókin spennandi og dramatísk. Einar er frábær höfundur og þessi bók sýnir vel hve flinkur hann er. Hún er falleg og að lestri loknum finnst manni að einmitt svona hljóti þetta að hafa verið. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já Steingerður hann var einn í reginhafi án þess að hafa nokkuð til að fleyta sér á og þótt hann ætti langt í land náði hann samt landi. Að kvöldi 11. mars 1984 sökk Hellisey VE 503 þrjár sjómílur í austur frá Stórhöfða. Með bátnum fórust fjórir ungir sjómenn. Einn skipverji, Guðlaugur Friðþórsson, þá 22 ára, vann það ótrúlega þrekvirki að synda um 6 kílómetra leið í ísköldum sjónum.

Fáeinum dögum eftir slysið þann 16. mars birtist í Morgunblaðinu viðtal sem Árni Johnsen tók við Guðlaug undir fyrirsögninni: KRAFTAVERKIÐ Guðlaugur Friðþórsson.

Guðlaugur sagði m.a. þetta í viðtalinu: Við sátum frammi á kili og var skipið þá mikið til komið í kaf að aftan. Mér verður þá að orði: Ef Guð er til ætti hann að hjálpa manni, nú þarf maður á því að halda. Undarlegt er þetta, og oft hefur maður efast um það að Guð væri til og jafnvel hæðst að því á ákveðnum aldri, eins og gengur. Hjörtur skipstjóri sagði þá að við skyldum fara með bænina Faðir vor og við gerðum það þrír saman og reyndum að hughreysta hver annan. Það undarlega var að ég var aldrei hræddur þessa nótt. Ég hafði á tilfinningunni að ég myndi deyja. Ég fór tvisvar með Faðir vor á leiðinni í land... Ég held að það hafi hjálpað mér mjög að ég var rólegur allan tímann, var ekki hræddur við að deyja, en hins vegar kveið ég því að drukkna ef dauðinn væri á annað borð á næsta leiti... Umfram allt vil ég þakka almættinu í auðmýkt þótt það sé nú ekki manns sterkasta hlið.

Guðmundur Örn Ragnarsson (IP-tala skráð) 21.11.2022 kl. 00:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband