Engin einföld svör

downloadTól eftir Kristínu Eiríksdóttur er margslungin saga sögð frá mörgum sjónarhornum. Hvað vitum við í raun um líf annarra? Getum við raunverulega sett okkur í spor annars? Getur einhver annar sagt okkar sögu? Þessar og ótal fleiri spurningar vakna við lestur þessarar bókar og sömuleiðis vangaveltur um listrænt hlutleysi, um tilgang þess að segja sögu annarra, um tilhneigingu okkar til að sjá aðeins það sem við viljum sjá og um eðli illskunnar. 

Villa Dúadóttir er kvikmyndagerðarmaður og hún ræðst í að gera heimildamynd um hvalveiðimanninn og fíkilinn Dimma. Þau eiga sér sögu, kynntust þegar þau voru unglingar en misstu svo sambandið. Þegar sagan hefst er myndin tilbúin og hefur nýlega verið sýnd á heimildakvikmyndahátíð í Svíþjóð. Villa situr fyrir svörum áhorfenda og kollega um gerð myndarinnar og efni.

Meðan á vinnslu hennar stóð fékk Villa sér til aðstoðar skólasystur sína úr Kvikmyndaskólanum, Ninju. Konu sem hefur yfir að búa meiri tækniþekkingu og fjarlægð frá viðfangsefninu. Hún reynir að stýra Villu, benda henni á annmarka og leiðbeina um hvernig megi gera betur. Er Villa blind á Dimma eða of meðvirk með honum? Villa segist vilja vera hlutlaus og leyfa áhorfendum að dæma en er hlutleysi möglegt? Er það hugsanlega skjöldur sem hún bregður fyrir sig til að forðast að taka afstöðu og ábyrgð á eigin tilfinningum? Villa er sjálf alkóhólisti í bata og hugsanlega stendur það sem þau Dimmi eiga sameiginlegt í vegi fyrir henni við vinnslu myndarinnar. 

En þetta er ekki bara saga kvikmyndagerðarkonu eða heimildamyndar um fíkil. Þetta er líka saga tveggja kvenna, þriggja barna og eins karlmanns. Villa á dreng, Haka, og Ninja tvö börn. Ninja er skilin og stendur í deilum um forsjá barnanna við fyrrverandi eiginkonu sína. Villa hefur aldrei gefið upp hver faðir drengsins hennar er. Þegar aðstæður breytast lendir Haki á hálfgerðum vergangi en fær aðstoð úr óvæntri átt, frá föður sínum, Jóni Loga. Villa, Dimmi og Jón Logi eru öll alkóhólistar. Neysla þeirra er engu að síður ólík, bakgrunnurinn sömuleiðis og sársauki. En þau eiga einnig margt sameiginlegt. Þessi þáttur sögunnar er ekki síður áhugaverður. Vanræksla og ofbeldi gegn börnum, hvaða áhrif hefur það? Er alkóhólismi í raun og veru sami sjúkdómurinn en sjúklingarnir mismunandi eða breytir neyslan fólkinu? Það vefst alltaf fyrir manni spurningin um hvort illskan sé meðfædd eða ekki. Verður manneskjan ill vegna þess að illa er farið með hana eða er einhver kjarni, eitthvað í gerð persónunnar sem gerir það að verkum að þessi níðist á öðrum meðan annar er verstur sjálfum sér. Sumir beita aldrei ofbeldi, reyna alltaf að hjálpa öðrum hversu illa sem komið er fyrir þeim sjálfum og enn aðrir láta allt yfir sig ganga. Kristín hefur hér opnað ormgryfju alls konar áhugaverðra vangaveltna og það er ekkert einfalt svar við neinu.

Kristín er einn áhugaverðasti rithöfundur landsins. Hún hefur einstakt vald á málinu og allar hennar frásagnir renna svo vel, eru spennandi því mann langar að vita af framhaldið. Tól er besta skáldsaga Kristínar að mínu mati, efnið einstaklega krefjandi og athyglsvert, textinn vel unninn og persónurnar eftirminnilegar. Mikið er ánægjulegt að vita að við megum búast við mörgum fleiri bókum frá þessum höfundi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband