Fædd á vitlausri öld

Já, elskurnar mínar. Þið kannist greinilega öll við pennavandamálið sem ergir mig svo mjög. En vegna þess að Ásgeir vinur minn nefndi að ég gæti tekið tæknina í þjónustu mína verð ég að játa að stundum held ég að ég sé fædd á vitlausri öld. Ég er einstaklega tækjafötluð og hef megna andstyggð á öllum tækjum sem eru flóknari en það að tveir takkar on og off blasi við og þrýstingur á þá nægi til að tækið geri allt sem gera þarf. Tæki hafa líka sérstæða andúð á mér og iðulega hef ég lent í að þau hreinlega bila við það eitt að ég horfi á þau. Oftar reynar vegna þess að ég geri eitthvað við þau.

Hér í gamla daga meðan enn voru notaðar ritvélar reyndi ég að skipta um borða með þeim einum árangri að ritvélin murraði illkvittnislega þegar ég ætlaði að byrja að vinna aftur. Það þurfti manneskju með svarta beltið í ritvélaviðgerðum til að koma henni í samt lag. Í Búnaðarbankanum í gamla daga tíðkaðist almennt ekki að drekka í vinnnunni en einn föstudaginn skáluðum við í sérríi til að halda upp á einhvern áfanga sem ég er löngu búin að gleyma. Mér tókst að sjálfsögðu að hella mínu glasi yfir reiknivélina mína og óhætt er að segja að hún hafi ekki borið sitt barr upp frá því. Í hvert skipti sem kveikt var á henni spýttist úr henni pappírinn skreyttur merkjum sem einna mest líktust litlum kínverskum hrísgrjónabændum með sína barðastóru hatta. Ég þorði ekki að senda hana í viðgerð og stal því reiknivél af næstu skrifstofu. Sennilega hefði þó verið réttara að senda reiknimaskínuna í meðferð en í viðgerð.

 Þegar ég bráðung og efnileg hóf blaðamennskuferilinn á Þjóðviljanum voru þar tölvur sem ég hafði aldrei séð áður. Á ýmsu gekk í samskiptum okkar og skjöl hurfu, birtust aftur og týndust á dularfullan máta. Þó tók steininn úr þegar ég hellti kaffibolla yfir lyklaborðið og tölvan æpti svo og hljóðaði að ritstjórinn kom hlaupandi til að gá hvað gengi á. Ég stóð eins og illa gerður hlutur meðan hann hellti kaffinu úr lyklaborðinu og bað mig vinsamlegast afsökunar á látunum í tölvunni. Ég stundi vandræðaleg að ég hefði sennilega hljóðað líka hefði einhver hellt yfir kaffi. Ég var ekki rekin fyrir pyntingar á tækjum og varð satt að segja bráðhissa á því.

 Ég hef átt og notað nokkra diktafóna um ævina en byrjaði ekki að nota slíkt fyrr en árið 2003. Þá hafði ég starfað við blaðamennsku frá 1989. Ég er þó enn alltaf með penna og blað og tek nótur því ég hef ekki tölu á þeim skiptum sem ég hef staðið í þeirri meiningu að ég væri að taka upp en ekkert komið inn á tækið. Ýmist vegna þess að það hafi verið batteríislaust, ekki kveikt á því eða það hreinlega bilað. Já, nóturnar mínar hafa bjargað orðspori mínu ansi oft og þess vegna nota ég enn penna sem í fúlskap sínum og illkvittni verða iðulega bleklausir.

 P.S. Ásgeir minn ég á svona diktafón eins og þú talar um en hef aldrei lagt í að reyna að finna út hvernig maður hleður hljóðskrá inn í tölvuna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Aðalheiður Magnúsdóttir

Það er nú bara þannig að sumir eru lagnir við tæki og tól en aðrir hafa eitthvað annað. Heima hjá mér er ég við stjórnvölin á tækinini þar til kemur að notkun fjarstýringa þær hertekur maðurinn minn Gett svo bara af hverju?

Svar: hann getur skipt um rás á sjónvarpinu og vídeóinu

Aðalheiður Magnúsdóttir, 5.7.2007 kl. 11:13

2 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Undirritaðri er líka margt betur gefið en tæknileg færni.  En það er líka það eina sem hún getur ekki.  Fullkomið eintak af konu ef ekki væri fyrir tæknilega þáttinn. Hm..

Jenný Anna Baldursdóttir, 6.7.2007 kl. 10:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband