Dómar úr fornöld

Ég er ekki sú eina sem fædd er á vitlausri öld. Nú hafa þrír dómarar við Héraðsdóm Reykjavíkur sýnt að þeir hafa ekki kynnt sér nýjustu rannsóknir, viðhorf eða lög. Ég læt mér þó nægja að leggja ekki lag mitt við nýjustu tækni og skaða því ekki einstaklinga. Dómarar þessi sýkna ungan mann af nauðgunarákæru vegna þess að fórnarlambið streittist ekki nægilega á móti og mótmælti ekki. Margar rannsóknir eru til sem sýna að margt fólk hreinlega lamast af skelfingu þegar ofbeldismenn ráðast á það og hvergi í heiminum er það talið til vansa nema þá hér á Íslandi. Dómararnir viðurkenna að samræðið var ekki með vilja konunnar í máli þessu en þar sem árásarmaðurinn beitti ekki nægu ofbeldi er hann sýknaður. Í hegningarlögum segir að hver sá sem með ofbeldi. þvingunum eða annarri nauðung neyði annan til samræðis sé sekur um nauðgun. Það að ýta konu inn í klósettklefa og læsa hana þar inni og fara þannig að henni að stórsér á henni er að mínu mati þvingun. Hvað þarf meira til? Ég er reið og hneyksluð.

Og að auki. Hvers konar lögmenn eru það sem ganga fram í fjölmiðlum og gera þar píslarvotta úr skjólstæðingum sínum á kostnað fórnarlamba þeirra? Lögmenn eiga að gæta hlutleysis og því eðlilegt að þeir láti ekki í sér heyra í fjölmiðlum á þann veg að þeir dragi svo augljóslega taum annars málsaðila. Takið eftir muninum á málflutningi Margrétar Gunnlaugsdóttur og Sveins Andra Sveinssonar. Sveinn Andri lýsir fjálglega píslum skjólstæðings síns og segir hann eiga rétt á skaðabótum. Margrét segist ekki vera sammála dómnum og rekur forsendur hans. Hún minnist hvergi á þjáningar skjólstæðings síns né er hún með upphrópanir um að við almenningur skuldum henni eitthvað. Réttlætiskennd flestra væri þó fremur tilbúin að samþykkja þá kröfu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Svo sammála.  Er svo reið núna að mig langar til að bregðast við.  Að fólkið bregðist við.  Þó ekki væri nema fyrir þær sem á eftir koma.  Arg... Tjáning Sveins Andra var dropinn sem fyllti mælirinn.

Jenný Anna Baldursdóttir, 6.7.2007 kl. 18:48

2 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Ég var ein af þeim sem varð kjaftstopp. Hafi ég einhvern tíma haft dapurt álit á lögfræðingum, náði sá dapurleiki dýpstu dölum við að upplifa viðbrögð SAS. Sveiattan.

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 6.7.2007 kl. 20:43

3 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Varð að kíkja við hjá þér aftur kæra bloggvinkona og þakka fyrir sögurnar sem þú skráðir í lífsreynslusögubókina ykkar Gurríar.  Mjög athyglisverð lesning á örlög fólks. Þið hljótið að vera reynslunni ríkari eftir að hafa kynnst öllu þessu ólíka fólki.  Sat við þar til ég lauk við allar 50 sögurnar og fékk í staðinn fallega bauga undir augun.

Smjúts.

Jenný Anna Baldursdóttir, 7.7.2007 kl. 11:57

4 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

Ég hef haft konu í meðferð við PTS (post traumatic stress) eftir nauðgun þar sem engu líkamlegu ofbeldi var beitt. Það eitt að hótunin um ofbeldi lá í loftinu var næg til þess að konan þorði ekki annað en að láta eftir. Konur sem hafa upplifað ofbeldi af völdum karlmanns þegar þær voru börn geta hreinlega lamast af skelfingu ef karlmaður signalerar að hann muni beita ofbeldi ef hún gerir ekki eins og hann vill. Auðvita er þetta ekkert annað en nauðgun.

Ásgeir Rúnar Helgason, 7.7.2007 kl. 15:24

5 Smámynd: Þorsteinn Valur Baldvinsson

Hef ekki lesið málsskjöl né rökstuðning fyrir dóminum, og get því lítið sagt.

En ef blaðafregnir eru réttar (sem væri nýtt), þá er eitthvað mikið að lagagrunninum og reglugerðunum um svona mál.

Þorsteinn Valur Baldvinsson, 7.7.2007 kl. 21:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband