Heimspeki og foreldraábyrgð

Eva, dóttir mín, var mikill heimspekingur þegar hún var barn. Hún var sú eina í minni annars óguðlegu fjölskyldu sem hugsaði um eðli og tilvist guðs. Einn morguninn þegar hún var fjögurra ára stóð ég í eldhúsinu tilbúinn að skenkja henni Cheerio's á disk þegar hún sagði: Ég vil fá hafragraut í morgunmat. Guð borðar hafragraut á morgnana. Hvað hefur þú fyrir þér í því, spurði ég hálfpirruð yfir að þurfa að drösla fram potti og sjóða hafragrjón. Jú, afi segir að hafragrautur sé besti morgunmaturinn og guð veit hvað manni er fyrir bestu, var svarið. Hún hafði farið með leiksskólanum sínum í heimsókn í Hallgrímskirkju skömmu áður og þetta var meðal þess sem presturinn hafði sagt þeim. Hún fékk sinn hafragraut en verra þótti aftur á móti þegar hún fékk að fara í Vindáshlíð með vinkonu sinni. Ég var rétt búin að sækja hana í rútuna og við skruppum í fataverslun hér í bænum (nokkuð dýra). Ég mátaði buxur og peysu sem klæddu mig sérlega vel en bar mig upp við afgreiðslukonuna yfir að þetta væri nú heldur mikil fjárfesting á einu bretti og klykkti út með að segja: En það er rosalega freistandi að kaupa bæði. Maður á að standast freistingar gall þá í dóttur minni og ég stundi: Þetta hefur maður upp úr því að senda börnin sín í kristilegar sumarbúðir.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heidi Strand

Þetta uppeldi hefur verið jafn hollt og hafragrauturinn.

Heidi Strand, 12.2.2008 kl. 13:51

2 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Hahahaha, góð hún Eva!  Það er mjög forvitnilegt að tala við krakka um guð, endimörk heimsins, geiminn, tilgang lífsins og aðra heimspeki-tengda hluti. Þau eru feykilega frjó og hika ekki við að setja fram tilgátur og fullyrðingar sem við (hið svokallaða) fullorðna fólkið höfum ekki hugmyndarflug/áræði til. Hvar og hvenær byrjaði þetta að detta úr okkur, hvar á vegferðinni urðum við steingeldir konformistar ?? Við förum víst einatt svolítið illa út úr því að "vitkast" og eldast.

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 12.2.2008 kl. 22:11

3 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Einmitt Guðný Anna..við komum nefninlega illa út úr því að vitkast og eldast...væri nær að við byrjuðum á hinum endanum. Eða...fæddumst gömul og vit laus og enduðum svo ung spræk og vitur..ha?

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 14.2.2008 kl. 10:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband