Kóróna sköpunarverksins

Sumir álíta manninn kórónu sköpunarverksins en ég er því algerlega ósammála. Ég tel að mannfólkið sé hluti af lífríki þessarar jarðar og hafi ekki tilverurétt umfram aðrar verur. Við þurfum að komast af og líkt og önnur rándýr drepum við okkur til lífsviðurværis. Það er eðli rándýra og einnig partur af lífkeðjunni. Hvert eitt dýr gerir það sem það telur sig þurfa til að komast af. Þegar þetta hættir hins vegar að vera spurning um að éta eða svelta, drepa eða verða drepinn þ.e.a.s. að deila plássi með dýrum sé ég ekki að menn geti krafist þess að dýr séu drepin bara til að þeirra pláss verði eins og þeir vilja. Nýlega frétti ég af konu sem þurfti að láta svæfa ellefu ára gamlan kött vegna þess að í blokkina hennar flutti fólk sem þoldi ekki ketti. Þeim var sagt áður en þau keyptu að köttur væri í húsinu og enginn í fjölskyldunni var með ofnæmi. Fólkið taldi hins vegar að gæludýr ættu ekki heima í blokkum og því varð dýrið að fara. Mér finnst þetta forkastanleg frekja og skil ekki undarlega grimmd þessa fólks. Í mínum huga er það ekkert betra en minkurinn sem heldur áfram að drepa þar til allar hænurnar í hænsnahúsinu eru dauðar þótt hann hafi fyrir löngu étið fylli sína. Það er undarlegt að Íslendingar virðast aldrei geta beygt sig undir nein lög eða reglur. Erlendis eru dýr leyfð í sumum fjöleignahúsum og öðrum ekki og fólk fer eftir því. Gæludýraeigendur kaupa í gæludýrablokkum og hinir sem ekki vilja dýr nálægt sér í öðrum. Íslendingurinn kaupir þar sem honum dettur í hug og ákveður að bola dýrunum burtu eftir að hann er fluttur inn eða fær sér gæludýr í trássi við bann eins og gert er í Áslandshverfi í Hafnarfirði. Þar er fuglaverndunarsvæði og mjög líklegt að flórgoðinn hætti að verpa þar. Síðasti varpstaður hans á Suðurlandi er þá fyrir bí vegna þess að heill hópur fólks gat ekki skilið að ef það keypti hús í þessu hverfi yrði það að neita sér um að taka gæludýr. Er þetta eðlilegt?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Valur Baldvinsson

Mikið til í þessu

Þorsteinn Valur Baldvinsson, 9.3.2008 kl. 16:53

2 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Íslendingar virðast ekki með nokkru móti getað farið eftir lögum og reglum. Þetta er einhver galli í þjóðarsálinni sem mér finnst verðugt rannsóknarverkefni fyrir sálfræðinga og geðlækna.

Hitt er svo annað mál að ég átti íslenska tík sem var nákvæmlega svona. Hún hlýddi því sem henni hentaði, þegar henni hentaði. Skyldi sálarlíf íslenska dýrastofnsins vera eins og þeirra mennsku...?

Lára Hanna Einarsdóttir, 9.3.2008 kl. 17:14

3 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Þetta er sannarlega harkaleg tilvera og sárt fyrir þann sem þarf að vera háður öðrum varðandi dýrin sín.  Manni þykir svo vænt um þessi kríli.

Hænurnar mínar 7 eru nú 4ra ára og svo lítur út fyrir að þær séu að mestu hættar að verpa. En það er bara allt í lagi. Þær hafa þjónað okkur vel og lengi og eiga skilið að eiga góða ellidaga. 

Kolbrún Baldursdóttir, 9.3.2008 kl. 21:12

4 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Verða hænur ekki eldri en þetta, Kolbrún? Að þær séu að komast á eftirlaun 4 og 7 ára...?

Lára Hanna Einarsdóttir, 9.3.2008 kl. 21:17

5 Smámynd: Heidi Strand

Góður pistill hjá þér, Steingerður.
Það eru svo mikið til af sjálfselsku fólki. Íslendingar eru eins og nágrannaþjóðirnar, nema bara verri í að fara eftir fjöleignarhúsareglum.

Heidi Strand, 10.3.2008 kl. 08:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband