Marktækar og ómarktækar konur?

Tvær þekktar íslenskar konur hafa lengi farið í taugarnar á mér vegna þess að oft leika þær „enfant terrible“ þegar þær koma fram í fjölmiðlum. Þær setja krúttlegan stút á munninn, sjúga jafnvel ofurlítið loft milli tannanna og skáskjóta augunum upp á spyrilinn eins og kotrosknir smákrakkar. Þessar konur eru báðar mjög klárar og hæfar hvor á sinu sviði en af einhverjum ástæðum leika þær þetta hlutverk af og til. (Ég hef séð báðar láta alveg af þessari hegðun og það gefur þeirri trú minni að þetta sé tilgerð byr undir báða vængi.) Ég ergi mig óendanlega yfir þessu aðallega vegna þess að mér finnst þetta smækka konurnar. Rétt eins og mér finnst það lítillækkandi fyrir alla viðstadda þegar kona, sem fram af því hefur verið fullkomlega eðlileg í kvennahópi, breytir um persónu við það eitt að karlmaður gengur inn í herbergið. Hún hlær þá hærra, fer að vefja hárlokk um fingur sér og horfir gapandi í andakt á karlinn, hallar undir flatt og hlustar af ákafa á öll þau gullkorn sem hrjóta honum af vörum. Konur þurfa hvorki að leika börn né fábjána til að vera gildandi í þessu samfélagi og síst konur sem þegar hafa sannað sig á sínu sviði. En að lokum er við hæfi að vitna í ekki minni manneskju en Himnaríkis-Gurrí og segja: Nöldur dagsins var í boði Steingerðar.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Valur Baldvinsson

Takk fyrir nöldur dagsins

Þorsteinn Valur Baldvinsson, 10.3.2008 kl. 10:38

2 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Flott nöldur og ég er þér sammála.

Jenný Anna Baldursdóttir, 10.3.2008 kl. 13:06

3 identicon

Hjartanlega sammála. Veit alveg hvað þú ert að tala um. Skil þetta ekki alveg því svo halda margar konur sem hegða sér svona því fram að þær séu mjög jafnréttissinnaðar og hneykslast jafnvel á þeim konum sem finnst þær ekki vera nokkurs virði nema þær hafi karlmann sér við hlið....

Margrét Steinarsdóttir (IP-tala skráð) 10.3.2008 kl. 17:07

4 Smámynd: Heidi Strand

Nauðsýnlegt nöldur.

Heidi Strand, 10.3.2008 kl. 20:18

5 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Þetta var fyrirtaks nöldur og ég tek heilshugar undir það með þér!

Lára Hanna Einarsdóttir, 10.3.2008 kl. 20:27

6 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Skil þig mæta vel. Svona er alveg tilvalið að nöldra yfir á góðum degi.

Kolbrún Baldursdóttir, 10.3.2008 kl. 20:39

7 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Sumt nöldur er leiðinlegt, - og reyndar flest allt - en sumt er skemmtilegt. Þitt er skemmtilegt. Og fyrir því er digur fótur. Takk, Steingerður.

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 10.3.2008 kl. 20:53

8 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Þarna ertu búin að segja það sem ég hugsa - svo oft.  Takk fyrir skemmtilegt nöldur enn einusinni

Marta B Helgadóttir, 11.3.2008 kl. 00:31

9 Smámynd: Þorsteinn Valur Baldvinsson

Þetta nöldur gæti líka vel verið um suma karlmenn, verða margir eins og stóðhestar í haga ef kona nálgast.

Kannski ráð að para þessa einstaklinga saman við fyrsta tækifæri.

Þorsteinn Valur Baldvinsson, 11.3.2008 kl. 10:20

10 identicon

Hæ Steinka

Rakst á þetta blogg þitt og hló mikið, man vel eftir einni sextán ára sem hvolfdi einmitt augunum svona í nærveru ungra manna og hló hrossahlátri um leið og hún teygði tyggjóið sitt metir til einn og hálfan og hringsneri því svo um þumalinn á sér þannig að við hin fengum þokkalegan andlits þvott.    Haha en sem betur fer þá þroskumst við öll en þó misjafnlega.....

Svala R J (IP-tala skráð) 11.3.2008 kl. 17:14

11 identicon

Sæl og blessuð Svala og gaman að þú skulir lesa bloggið mitt. Það gleður mig líka að vita að mér hafi tekist að skemmta þér. Hins vegar var ég ekki að skrifa um sextán ára unglinga sem iðulega skortir sjálfstraust og þekkja jafnvel ekki sjálfa sig. Mér hefur líka oft fundist að ómótaðir unglingar viti ekki alveg hvernig þeir eigi og vilji hegða sér gagnvart öðrum. Ég er að skrifa um velmenntaðar fullorðnar konur sem ég tel að beinlínis noti ákveðna framkomu til gera sig gildandi þótt þær viti betur. Og til allrar guðs lukku þroskast flestir við aukna lífsreynslu. Gangi þér svo allt í haginn gamla vinkona,

steingerður Steinarsdóttir (IP-tala skráð) 11.3.2008 kl. 22:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband