Kettir og klór

Á heimili minu stendur nú yfir stríð enn hatrammara en sterakremstríðið við tíkina forðum. Þannig er mál með vexti að læðan mín hefur bitið það í sig að nærfataskúffa húsbóndans, eiginmanns míns, (come on, að minnsta kosti að nafninu til) sé ákjósanlegt rúm og meira en það, allra besta svefnplássið í húsinu. Hún kemur sér notalega fyrir í miðri nærbuxnahrúgunni og þjappar niður holu sem passar akkúrat utan um hana. Gallinn á þessari hreiðurgerð er sá að hárin sem hún óhjákvæmilega lætur af sér í holu sína fara óskaplega í taugarnar á Gumma. Hann hefur því krafist þess að skápurinn sé hafður harðlokaður og ef ganga þarf um hann sé vandlega lokað á eftir sér. Þetta var gert og lengi gekk allt vel eða þar til læðan komst upp á lag með að krafsa upp skáphurðina. Hún stillir sér upp fyrir framan hana og klórar í kantinn þar til hurðin opnast. Þegar ég verð vör við hana í skápnum reyni ég að toga hana út úr skúffunni en hún festir klærnar í fötunum og gerir sig eins stóra og hægt er þannig að erfiðlega gengur að draga hana fram. Oftast endar þetta með því að skúffan er dregin nánast alveg út og kötturinn tekinn beint upp og þá heyrist hátt mótmælamjálm. Ég tjáði manninum mínum í tölvupósti í gær að stríðið væri tapað vegna þess að undanfarna daga hefur læðan laumast í skápinn þegar ég fer í vinnuna og liggur þar ævinlega þegar ég kem heim. Hann sendi svar þar sem hann kvað það óheppilegt því kattarhárin yllu kláða á viðkvæmu svæðinu sem nærbuxurnar hylja og þau fara ekki úr í þvotti. Hann yrði mér því sennilega til skammar þegar heim kæmi vegna klórs á ósiðlegum stöðum. Ég minnist þess að hafa iðulega séð karlmenn laumast til að klóra sér hraustlega á þessu svæði og hef hingað til flokkað það undir ruddaskap en kannski voru þetta bara óheppnir kattareigendur.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Hahaha, nú hló ég upphátt svona í blá morgunsárið.  Verður annaðhvort ekki að víkja, húsband eða köttur.  Hm.. mér segir svo hugur.

Knús.

Jenný Anna Baldursdóttir, 28.3.2008 kl. 10:15

2 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Hrönn Sigurðardóttir, 28.3.2008 kl. 10:22

3 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

   Setja hengilás á skápinn!

Lára Hanna Einarsdóttir, 28.3.2008 kl. 10:33

4 Smámynd: Brynja skordal

 kisur eru krútt gamla kisan okkar svaf alltaf á vinnugallanum hjá mínum manni honum til mikils ama hann skammaði hana og hún borgaði fyrir sig með því að spræna á gallann hafðu góða helgi

Brynja skordal, 28.3.2008 kl. 16:08

5 identicon

           Mikið ertu lagin við að bjarga deginum hjá mér, þetta var góð saga fyrir mig, enn ekki fyrir Gumma. hvernig  væri að  við færum sama í Ikea á næstunni , og fengjum okkur barnalæsingar á skápana hjá okkur, þú fyrir Gumma og ég fyrir barnabarnið

Sigurveig (IP-tala skráð) 28.3.2008 kl. 17:00

6 Smámynd: Marta B Helgadóttir

ahhh gott að hlæja svona

takk!  

Marta B Helgadóttir, 28.3.2008 kl. 17:56

7 Smámynd: Svava S. Steinars

Heheh, hef ekki orðið vör við að kattarlausir karlmenn klóri sér neitt minna en kattareigendur :D  Man eftir að hafa fengið hjartaáfall þegar ég var að passa villidýrin þín einu sinni og allt í einu opnast skáphurðin og köttur stökk út :)

Svava S. Steinars, 28.3.2008 kl. 18:16

8 Smámynd: Sigurlaug B. Gröndal

He, he, he, he  ég sé ykkur í anda. Þeir eru svo miklir sérvitringar þessir kettir og gera nákvæmlega það sem þeim finnst best. Vesalings Guðmundur, þetta getur ekki verið mjög þægilegt. Það mætti allavega halda að það væru ansi margir karlmenn í þessari stöðu miðað við þann fjölda sem iðulega eru að klóra og "hagræða" fjölskyldudjásninu eins og einhver kallaði það hér forðum!!!

Sigurlaug B. Gröndal, 28.3.2008 kl. 21:31

9 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Er læðan kettlingafull?  Ef ekki, kettlingafull,  er hún þá gömul?  Kettir hafa sérstakan vísdóm.  Það er spennandi að finna út afhverju köttur tekur skyndilega upp á a breyta daglegum venjum, nema að hún sé að breima, greyið. Er kannski búið að taka hana úr sambandi?.

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 29.3.2008 kl. 01:43

10 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Snillingur ertu alltaf með pennann ( - þetta er náttúrulega orðið fornt orðatiltæki ..... ) og lagin við sjónarhornin. Takk, kæra stalla.

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 29.3.2008 kl. 12:47

11 Smámynd: Gúnna

Híhíhí - alltaf jafn gaman að lesa bloggið þitt Steinka mín. Auuuummmmingja Gummi. En það eru nú ýmis góð ráð gefin hér að ofan - allt frá því að "ríareinsa" í skápnum í það að kaupa lás fyrir. Ég á reyndar hvíta kisu sem fer ótrúlega mikið úr hárum. Hvað er til ráða???????? (Ertu búin að spreyja svona Stay off á naríurnar hans Gumma?......Nei...... - sko þetta sem á að halda kisum í burtu!!)

Góða helgi

Gúnna, 29.3.2008 kl. 19:34

12 identicon

Æ þakka ykkur fyrir góð ráð elsku stelpurnar mínar. Ég held að úr verði að banna karlinum að ganga í nærfötum og eftirláta kettinum skúffuna. Það er búið að taka hana úr sambandi og ég veit ekki alveg hvort stay off er eitthvað sem Gummi vill fá í nærfötin sín. Ef ég færi til í skápnum þá klórar hann sér vissulega ekki þar sem er vissulega til bóta því það má þola að menn klóri flesta aðra líkamsparta.

Steingerður Steinarsdóttir (IP-tala skráð) 29.3.2008 kl. 23:33

13 identicon

Einmitt já.  Kannast við flest af þessu.  Ekki "ballscratchið" þó.  En það tekur mína fjarlægu fjarbýlisfrú að jafnaði 2 klst að losa fötin mín við kattahár í hvert sinn sem ég flýg til hennar hinumegin hálendisins.  Óbeðin.  Enda fer ég alltaf með límrúllu á fötin áður en ég pakka niður.  En ég er nú ryk- og kattahárablindur. Held ég.  Og sonurinn er að flytja í vikunni og tekur köttinn með sér.  Og þá flyt ég bara líka. 

Ólafur Vignir Sigurðsson (IP-tala skráð) 30.3.2008 kl. 19:39

14 identicon

HAHAHAHAHA  elsku Steingerður þú ert og hefur alltaf verið frábær í því að segja frá.  Ég var farin að sakna þín og gróf því upp bloggið þitt bestu kveðjur úr Borgarnesi

MaríaE (IP-tala skráð) 31.3.2008 kl. 19:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband