Skondin orðatiltæki

Mamma er mikill orðasjóður og tjáir sig oft með miklum tilþrifum. Ég rak mig iðulega á það þegar ég var að vinna á Vikunni að orðatiltæki sem voru notuð á mínu æskuheimili voru ekki eins alþekkt og ég hélt. Prófarkarlesararnir höfðu aldrei heyrt sumt af því. Þar á meðal dettur mér í hug orðtakið að snapa gams. Mamma talaði oft um græðgi samferðamanna sem allt vildu gleypa en hugsuðu ekki um aðra og þá sagði hún jafnan: „Já, þeir vilja gína yfir öllu en aðrir mega snapa gams.“ Einhvern tíma notaði ég þetta í grein og einn prófarkarlesaranna kom til mín og sagðist hafa þurft að fletta þessu upp en ákveðið að láta það standa því henni þótti það svo skemmtilegt. Við vissum báðar að ekki myndu allir lesendur skilja hvað átt var við. Annað sem mamma hafði jafnan að orði einkum þegar hún var að fara úr húsum þar sem hún þekkti vel til var þetta: „Fylgið mér til dyra svo ég fari ekki með vitið úr bænum. Ég á nóg en þið megið ekkert missa.“ Eitt sinn færði hún syni mínum verkfærasett úr tré að gjöf og sagði um leið með ofurlítið meinfýsilegum glampa í augum: „Gefðu litlu barni hamar og öll veröldin verður einn stór nagli.“

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Er alin upp hjá lifandi orða- og hugtakabókum, þ.e. langömmu minni og syni hennar.  Kann ýmislegt fyrir mér í málfari en nota samt ekki helminginn af því.  Þar sem kona er orðin amma, þá er kannski rétt að fara að draga heilu drápurnar úr pússi sínu.

Þekki þettað með vitið og naglann.  Hitt hef ég aldrei séð.

Jenný Anna Baldursdóttir, 11.4.2008 kl. 09:57

2 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Mamma mín notar helling af orðatiltækjum rétt og hefur aukið orðaforða minn jafnt og þétt alla ævi. Hins vegar skriplar hún líka stundum á skötunni og hana misminnir með bókatitla og þess háttar. Í fjölskyldunni er oft rifjað upp þegar hún kallaði bók Williams Heinesens, Fjandinn hleypur í Gamalíel, Fjandinn hirði Gabríel. Okkur leiðist það ekki.

Berglind Steinsdóttir, 11.4.2008 kl. 11:12

3 identicon

Þú veist að þetta er rebbíska, held að við öll afkomendur rebba notum orðatiltæki sem ekki eru á öðrum heimilum. Hef oft verið spurð hvað hitt og þetta þýði sem að ég segi og er komið frá mömmu og rebbunum

Hildur Þöll (IP-tala skráð) 11.4.2008 kl. 15:17

4 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Skemmtilegt, hef ekki hugmynd um hvað að "snapa gams" Þýðir?., en grunar samt hver meiningin er. Einusinni hringdi ein 3ja ára ömmustelpa til mín, og spurði: Hvað ert þú að sýsla núna?  Seinna sá ég hvaðan hún hafði þetta orðatiltæki þegar ég var að lesa fyrir hana úr Ævintýrum H.C Andersen. 

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 11.4.2008 kl. 16:31

5 identicon

Ef við öll ættum jafn yndislega mömmu eins og þú Steina mín, þá værum við í þessari veröld rík

Sigurveig (IP-tala skráð) 11.4.2008 kl. 19:41

6 Smámynd: Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir

Sæl, Steingerður. Ég var að fá inn í fjölskylduna sætan dreng sem er kærasti sonardóttur minnar. Ég spurði að gömlum og góðum sið hverra manna hann væri. Sá litli vissi ekkert hvað ég var að tala um. "manna hvað?" spurði hann líkt og kærasta hans sem ég ætlaði einu sinni að setja í stert. Þá vissi hún ekkert hvað stertur var. Svona er þetta. Málið er í sífelldri þróun.

Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir, 11.4.2008 kl. 20:18

7 Smámynd: Guðjón H Finnbogason

Sæl Steingerður.Það er gaman að rifja þessi orðatiltæki upp,það fyrra þekti ég ekki en seinna þekki ég og nota,orðatiltæki voru notuð á mínu æskuheimili.Eigðu góða helgi.

Guðjón H Finnbogason, 11.4.2008 kl. 21:00

8 Smámynd: Gúnna

Blessuð

Hvað þýðir að snapa gams??? Mikið íslenskufólk í kringum mig í uppvextinum og svo hafði ég alveg einstakan kennara öll barnaskólaárin (það hét sko ekki grunnskóli þá, hmm) sem var hann Axel í Melaskóla. Kenndi íslenskuna alveg frábærlega vel. Það væri gaman að safna saman öllum þessu gömlu orðatiltækjum og hreinlega gefa út. MJÖG leiðinlegt að málið okkar ylhýra sé að verða "sterílt".

Knús og hafðu það gott um helgina.

Gúnna, 11.4.2008 kl. 21:25

9 Smámynd: Linda Samsonar Gísladóttir

Sæl Steingerður.

Mér fannst gaman að lesa þennan pistil um mömmu þína og hlýnaði um hjartarætur.

Ég kannast nefnilega vel við svipað úr minni bernsku. Það var t.d. ekki óalgengt að foreldrar mínir héldu einhvers konar orðskýringakeppni yfir matarborðinu og lærði ég margt þá.

Það kom oftar en ekki fyrir að ég  kæmi svo galvösk með "nýju" orðin í skólann og olli kennaranum vandræðum er hann þekkti ekki til þeirra. 

Verst fyrir mig, hahahaha, því ég fékk á mig svoddan nördastimpil meðal skólasystkina minna.

Linda Samsonar Gísladóttir, 11.4.2008 kl. 21:40

10 Smámynd: Linda Samsonar Gísladóttir

Ég má til með að bæta við að ég vinn með afar skemmtilegri konu, sem segir oft að hún þurfi að "glanna" eitthvað, mér finnst þetta svo skemmtilega til orða tekið:)

Góða helgi! 

Linda Samsonar Gísladóttir, 11.4.2008 kl. 21:42

11 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Frábært. Á svona orðatiltæki í búnkum frá Austurlandinu fagra. Ef þú ferð að safna, láttu mig vita á gudnya@regis.is

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 11.4.2008 kl. 21:52

12 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Skemmtilegur pistill Steingerður. 

Ég fékk strangt íslenskuuppeldi og hef verið þakklát fyrir það. Sonur minn fékk gjörsvovel líka að skilja eftir götumálið og enskusletturnar á þröskuldinum þegar hann kom heim á daginn og það gerði hann, ekki síst til að hlífa sjálfum sér við athugasemdum sem hann nennti ekki að hlusta á.

Í hádeginu í dag fór ég á veitingastað og pantaði mér nautasteik af sérstöku tilefni. Ég spurði hvort kjötið væri ekki vel meyrt. Svarið sem ég fékk var:  "meyrt"? Hvað er það?  Gengilbeinan var ca tvítug gæti ég trúað!

Marta B Helgadóttir, 11.4.2008 kl. 23:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband