Skelfileg innrás

Við hjónin hrukkum upp við hávært suð og dynki klukkan hálfsjö í morgun. Þegar við opnuðum augun blasti við svart- og gulröndótt fluga á stærð við meðalspörfugl. Ég var minnug átakanna við geitungana í haust og þar sem maður lærir nú af reynslunni ákvað ég að vaða ekki á móti þessu ferlíki með sama gleiðgosahætti og að geitungunum forðum. Þeir launuðu mér með fimm sárum stungum þá viðteitni að ná þeim lifandi og koma þeim út. Ég breiddi því sængina yfir höfuð og ýldi ámátlega: Gummmmmmi! Hetjan mín hugumstóra reif sig fram úr (að vísu ekki með neinu gleðibragði), klæddi sig í náttsloppinn og gekk niður á neðri hæðina. Flugan tók þá til við að berja á svefnherbergisgluggann og það var meira en Matti þoldi. Hann stökk upp og sló hana í gólfið. Tíkina greip við það mikill vígamóður og hún gelti heiftarlega og hringsnerist um gólfið. Matti sá sitt óvænna hvæsti og yfirgaf bráð sína. Flugan skreið um gólfið svolitla stund en hóf sig svo á loft og réðst á gluggann aftur. Þá kom riddarinn sjónumhryggi vopnaður skordýraeitri og lét hana hafa það. Dauðastríðið tók örfáar sekúndur og mér tókst að dotta fljótlega aftur þrátt fyrir að samviskan kveldi mig. Eiginmanninum fannst nefnilega nauðsynlegt að segja mér að þetta muni hafa verið drottning sem er ekki með neinn brodd. Mér hefði því verið fullkomlega óhætt að koma henni varlega fyrir í glasi og henda henni út. Já, það eru fleiri en þeir sem hafa tandurhreina samvisku sem sofa vel. Kannski er ég bara svona forhert.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Ja hérna..þetta hefur nú aldeilis verið stór flugudrottning sem heimsótti þig í morgunsárið Steingerður mín. Ég man eftir svona flykkjum heima hjá mér og eitt ráð er að setja hunang á endann á kústskafti og láta þær setjast þar og setja þær svo út...en ég veit sossum ekkert hvort það virkar. Örugglega ekki eins vel og eitrið...en kannski betra fyrir samviskuna ef hún er að trufla þig.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 27.4.2008 kl. 18:52

2 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Með þessarri hetjudáð kom Guðmundur almáttugur í veg fyrir að fæddust mörg, mörg börn sem geta stungið. Hef sem betur fer ekkert svona kvikindi séð hér á Skaga. Í fjölskyldu minni ganga kvikindin undir nafninu býfuglar, sérstaklega drottningarnar. Knús í bæinn.

Guðríður Haraldsdóttir, 27.4.2008 kl. 18:53

3 Smámynd: Aðalheiður Magnúsdóttir

Verst að maður getur ekki sett miða á gluggana um að þessar elskur séu ekki velkomnar inn. En það er nóg til af þeim þó þessi hafi látið lífið

Aðalheiður Magnúsdóttir, 27.4.2008 kl. 19:22

4 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Gott ráð hjá Katrínu. Ég er skíthrædd við að drepa svona flugur, óttast mest að þær gangi aftur og ásæki mig síðar

Marta B Helgadóttir, 27.4.2008 kl. 19:44

5 Smámynd: Sigurlaug B. Gröndal

Æi, þessar elskur, drottninga-býflugurnar eru á sveimi núna. Þær hvorki stinga né gera neitt af sér. Þær eru hægfleigar "hlussur" sem þarf að koma út úr húsi með varfærni. Eins og þú nefndir Steinka mín, þetta með glasið, ég mæli með því. Nota glas og pappír og sleppa þeim út. Í garði þar sem er býflugnabú eru ekki geitungar, að mér skilst. Hvort vill fólk hafa í garðinum hjá sér?

Sigurlaug B. Gröndal, 1.5.2008 kl. 00:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband