Upp og niður, vestur og norður

Já, mikið skelfing getur það reynt á að vera í sumarfríi en nú er maður að komast í sitt daglega form aftur. Fyrri vikuna í fríinu var ég heima og sinnti alls konar störfum sem legið höfðu á hakanum. Á laugardegi lögðum við hjónin svo á stað vestur á firði. Fyrsta daginn keyrðum við sem leið lá um Barðaströnd og til Breiðavíkur. Þar var vel tekið á móti okkur og við fengum gistingu í notalegum gámi. Enginn Íslendingur getur sennilega ekið að þessum stað án þess að hugsa til Breiðavíkurdrengjanna og þjáninga þeirra. Leiðin liggur upp fjöll og niður brekkur og sennilega hefur barni sem hrifið var frá foreldrum sínum fundist það vera komið á heimsenda þegar Breiðavíkin blasti loksins við. Samt er þetta vinalegur staður. Opin,m breið vík með fallegri hvítri sandströnd. Sólin skein á hafflötin kvöldið sem við keyrðum þarna niður og tjaldstæðið fyrir framan hótelið iðaði af lífi. Við gistum í notalegum gámi en þegar ég gekk inn í húsið fannst mér erfitt að hrista af mér óhugnaðinn. Núverandi gestgjafar hjálpuðu þó sannarlega því þau eru glaðleg, vingjarnleg og þægileg. Um kvöldið fórum við út að Látrabjargi og þar náði ég næstum að snerta lunda. Lofthræðslan kom í veg fyrir að ég þyrði út á bjargbrúnina og prófasturinn var ekki nægilega hrifinn af mér til að vera tilbúinn að ganga til mín. Við gengum líka niður á ströndina í Breiðavík og það var merkilegt að sjá að gráir slípaðir fjörusteinarnir virtust skærbláir í hvítum sandinum þegar miðnætursólin baðaði þá ljósi. Daginn eftir heimsóttu við Minjasafnið að Hnjóti sem var ævintýralega skemmtilegt. Ég dáist að frumkvöðlum eins og Agli Ólafssyni og Þórði í Skógum sem voru nægilega framsýnir til að átta sig á að það gamla drasl sem Íslendingar voru mjög uppteknir af að henda á þeim tíma yrðu seinna menningarsögulegt verðmæti. Þarna eru ótal frábærir munir tengdir sjósókn en líka handavinna hagleikskvenna. Þær hafa verið vanmetnar hingað til að mínu mati en til allrar lukku hafa menn áttað sig á hversu miklir dýrgripir handvinnan er. Það var líka merkilegt að sjá hversu grannar konur hafa verið á árum áður. Það færu ekki margar nútímakonur í þessar flíkur. Eftir að hafa stoppað á Hnjóti ókum við vítt og breitt um Vestfirði, upp og niður fjallvegi meðal annars á eftir útlendingum sem keyrðu á 20 km hraða á klukkustund, frosnir af ótta og þorðu ekki fyrir sitt litla líf að hleypa Íslendingum fram úr. Við enduðum dag númer tvö norður á Ströndum og af því skal ég segja ykkur fleira síðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Voru þær ekki margar hverjar svo samanstrekktar í magabeltum að þær varla drógu andann? Sem er kannski skýringin á hversu hægt kvenréttindabarátta gengur fyrir sig....... Hugsaðu þér ef þær hefðu bara verið eins og við ;) hversu miklu lengra værum við þá komnar? Kannski ekki nema 35 ár í jafnrétti!

Velkomin heim aftur. 

Hrönn Sigurðardóttir, 2.7.2008 kl. 10:53

2 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Takk fyrir ferðasögu.

Nokkuð til í þessu hjá Hrönn.

Jenný Anna Baldursdóttir, 2.7.2008 kl. 11:17

3 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég fór þetta alltsaman í fyrrasumar á svipuðum tíma - lok júní/byrjun júlí. Byrjaði á Rauðasandi og endaði á Ströndum. Var stundum að tapa mér af lofthræðslu undir stýri og þurfti að stoppa oft til að anda djúpt og taka myndir. Vestfirðirnir eru dásamlegir.

Lára Hanna Einarsdóttir, 2.7.2008 kl. 12:50

4 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Ég hef komið til Ísafjarðar. Búið. Fæ svo sannarlega löngun til að skoða Vestfirðina eftir þennan lestur. Takk fyrir skemmtilega og myndræna frásögn.

Maður ætti kannski að fara að taka upp á að éta velling og súrt slátur til að minnka um nokkrar fatastærðir í anda íslenska kvenna fyrr á tímum.

Jóna Á. Gísladóttir, 2.7.2008 kl. 16:19

5 identicon

Æðisleg ferð, gaman að lesa.  Ég var að pissa á mig af hræðslu þegar ég fór á Rauðasand og í sveitina þar sem Sjöundaár morðin voru framin...þar í hlíðunum voru logandi hræddir útlendingar...ég var reyndar alveg logandi hrædd líka og vildi helst labba niður sumsstaðar....

En konurnar voru örugglega svona grannar vegna erfiðisvinnu og fiskneyslu.  Engin magabelti áttu íslenskar alþýðukonur held ég...áttu örugglega ekki fyrir því...

alva (IP-tala skráð) 2.7.2008 kl. 16:24

6 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Þakka fyrir magnaða ferðalýsingu. - Hér áður voru Íslensk alþýða mun lægri vexti og smærri um sig en við erum nú. - aðallega vegna mikillar vinnu og lélegs fæðis. -  Steingerður þú manst kannski töluna sem sagt er að Íslendingar hafa hækkað og stækkað  á síðustu öldum.

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 3.7.2008 kl. 00:45

7 Smámynd: Svava S. Steinars

Gott þú fórst ekki norður og í niðurfallið   Hef saknað þín og yellow dog !

Svava S. Steinars, 3.7.2008 kl. 15:23

8 Smámynd: Heidi Strand

Tusen takk for denne flotte beskrivelsen.Jeg skulle ha vært der, men har veldig høydeskrekk.
Tenke seg når vår tids klær kommer på museet, kjempestore dongrybukser og bitte små underbukser.

Heidi Strand, 3.7.2008 kl. 22:06

9 Smámynd: Brynja skordal

Hafðu ljúfa helgi elskuleg

Brynja skordal, 4.7.2008 kl. 12:26

10 Smámynd: Gúnna

Vá - maður verður bara öfundsjúkar að lesa þessa ferðasögu. Hef svo sem ferðast um alla Vestfirðina, land-, flug- og sjóleiðis Það eru bara komin svo mörg ár síðan. Alltaf verið að ræða það í minni fjölskyldu að nú svo kominn tími til að taka Vestfjarðatúr...kemur að því eitthvert sumarið...vonandi

Njóttu sumarsins

Gúnna, 8.7.2008 kl. 00:04

11 Smámynd: Linda Samsonar Gísladóttir

Ég hefði nú alveg verið til í að vera með þér í þessari ferð, þrátt fyrir lofthræðslu líka. Landslagið þarna er með ólíkindum stórfenglegt!

Sumarkveðja,

Linda Samsonar Gísladóttir, 8.7.2008 kl. 13:53

12 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Takk fyrir söguna.

Marta B Helgadóttir, 8.7.2008 kl. 15:34

13 Smámynd: Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir

Vestfirðir eru dásamlegir. Ég er á leiðinni þangað og get varla beðið fram á mánudag. Lofthræðsluna eigum við sameiginlega og hún er hreint ekkert grín!

Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir, 10.7.2008 kl. 12:28

14 Smámynd: Einar Bragi Bragason.

:)

Einar Bragi Bragason., 11.7.2008 kl. 13:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband