Heilsuvernd eða hvað?

Að undanförnu hef ég pirrað mig endalaust yfir íslenska heilbrigðiskerfinu. Meðal þess sem mér finnst með eindæmum ergilegt er að talað er um offitu sem faraldur og heilbrigðisstarfsfólk mætir í fjölmiðla og blæs sig út yfir því hversu miklu hættara þeim offeitu sé við ýmsum sjúkdómum. Heilbrigðiskerfið býður þessu fólki hins vegar engin úrræði til að takast á við vanda sinn önnur en þau að taka megrunarpillur sem eru rándýrar og með ótal aukaverkanir og svo skurðaðgerð. Biðlistar eftir að komast á íslenskum heilsuhælum eru mílulangir og þeir sem þangað fara eru aðframkomnir og fárveikir. Af hverju styður heilbrigðiskerfið ekki við fólk með því að koma því annað umhverfi í hálfan mánuð til þrjár vikur þar sem það getur komið sér upp heilbrigðari lífsvenjum og breytt um lífsstíl? Íslenskir læknar bölsótast yfir því sem Jónína Ben. er að gera í Póllandi en mæla sjálfir með skurðaðgerðum sem breyta varanlega allri starfsemi líkamans og þessar aðgerðir hafa verið gerðar tvítugum manneskjum. Óskiljanlegt eða hvað? Heilbrigðisyfirvöld eru líka tilbúin að dæla lyfjum í fólk í ofurskömmtum og endalaust. Fólk fer á einhver lyf og er sagt að það þurfi að taka þau til æviloka því það sé beinlínis hættulegt að taka þau ekki eftir það. Ég þekki konu sem taldi sig fá bót meina sinna með nálarstungum en Tryggingastofnun var ekki tilbúin að borga slíka meðferð. Konan gat hins vegar fengið lyf við sínum vanda sem hafði þær aukaverkanir að hún varð sljó, utan við sig og m.a. ófær um að keyra. Mér er líka minnistæð Anna Pálína Árnadóttir söngkona sem vildi fá TR til að taka þátt í kostnaði við að tattúera augnabrúnir á sig. Það var ekki við það komandi en hún mátti fá hárkollu sem henni fannst óþægilegt að ganga með. Hárkollan kostaði 70.000 kr. en tattúið 22.000 kr. Hvað er verið að hugsa? Af hverju er ekki fyrst og fremst hugsað um að koma fólki til heilsu sama hvaðan eða af hvaða toga sú meðferð er sem hjálpar? Er það nema von að öryrkjum fjölgi á Íslandi.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Íslenska heimbrigðiskerfið er það besta í heimi ... þangað til maður þarf að nota það.

Frábær pistill, óskiljanleg heimska í gangi allt of víða. 

Guðríður Haraldsdóttir, 30.9.2008 kl. 15:07

2 identicon

já, þetta er öfugsnúið stundum það má með sanni segja.  Takk fyrir þetta.

alva (IP-tala skráð) 30.9.2008 kl. 21:43

3 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Snilldarpistill Steingerður

Þessi asnaskapur á sér ótal hliðar en í afar stuttu máli: það er verið að vinna í boxi úr stáli  og heilbrigðiskerfið kemst ekki út úr rammanum. Kerfið er svo niðurneglt að allt sem heitir manneskjulegt viðhorf er löngu horfið.

Jóna Á. Gísladóttir, 30.9.2008 kl. 22:29

4 Smámynd: Aðalheiður Magnúsdóttir

Til hamingju með daginn skvís.

Vel skrifað að vanda. Ég skal líka bæta í fyrir þig. Kona milli 25 og 30 ára aldurs missir allt hár af líkamanum varanlega vegna sjúkdóms hún fær ekki hárkollu né annað frá TR af því að þetta er ekki krabbamein, karlmaður sem brenndist í andliti fær ekki bætur af því að hann er ekki kona. Brunaörið taldist ekki lýti fyrir karlmann. Þetta eru reyndar ekki ný dæmi en samt sönn.

Aðalheiður Magnúsdóttir, 1.10.2008 kl. 08:30

5 Smámynd: Sigurveig Eysteins

 Jú það vantar alla forsjá hjá þessum ráðamönnum, þeir hafa ekki uppgötvað þetta ennþá, til hamingju með afmælið, þó ég hafi verið búin að því í gær  knús

Sigurveig Eysteins, 2.10.2008 kl. 02:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband