Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Óréttlát Tryggingastofnun

Að undanförnu hafa þúsundir aldraðra og öryrkja fengið kröfur um háar endurgreiðslur til Tryggingastofnunar vegna ofreiknaðra bóta á síðasta ári. Dæmi eru um að fólk þurfi að greiða hátt í milljón á einu bretti en ekkert færi er gefið á að greiða í fleiri en einni greiðslu öðruvísi en að fullir vanskilavextir komi þar ofan á. Þetta fólk sem fyrir þessu verður ber enga ábyrgð á reikningsklúðri Tryggingastofnunar en þarf samt að greiða fullu verði handvömm starfsmanna hennar. Í Fréttablaðinu í dag er frásögn af öryrkja sem var svo ósvífinn að biðja um bensínstyrk vegna þess að hann ók langveiku barni sem tengt var honum fjölskylduböndum til og frá sjúkrastofnunum. Þessi styrkur verður nú til þess að öryrkinn þarf að greiða til baka háar fúlgur þótt hann hafi í raun verið að sinna þjónustu sem hið opinbera ætti að veita. Þetta er áreiðanlega ekki eina dæmið þar sem þessar fáránlegu endurgreiðslur eru bæði ranglátar og hreinlega meinlegar. Ég vil skora á Jóhönnu Sigurðar. að fella niður þegar í stað allar endurgreiðslukröfur á hendur öldruðum og öryrkjum. Íslenska ríkið fer ekki á hausinn við það.

Vond tilfinning verður verri

Þegar fréttist af endurútgáfu Tíu lítilla negrastráka óg umræðan um rasisma í tengslum við hana fór í gang fann ég vonda tilfinningu gagnvart þessari bók. Ég var ekki alveg viss um hvernig ég átti að taka henni og teikningarnar fannst mér niðurlægjandi skrípamyndir fremur en snilldarleg list. Þessi tilfinning hefur nú verið elfd til muna eftir að ég las pistil Gauta Eggertssonar um þann jarðveg sem bókin er sprottin úr. Vinkona mín sendi mér slóðina og að lestri loknum var ég hreinlega með óbragð í munninum. Ég mun aldrei lesa þessa bók fyrir börn mér tengd og hvet alla til að hunsa hana. Pistillinn er birtur í Fréttablaðinu í morgun en fyrir þá sem vilja skoða hann strax er slóðin á bloggsíðu hans er: www.blogcentral.is/gautieggertsson.

Hundar, sauðir og menn

„Því meira sem ég kynnist mannfólkinu, því vænna þykir mér um hundinn minn,“ sagði Friðrik mikli Prússakonungur. „Eftir að hafa kynnst Guðna lít ég sauðkindina öðrum augum,“ sagði Sigmundur Ernir Rúnarsson. Það er ekki annað hægt en velta fyrir sér þeirri speki sem felst í þessum orðum sem hugsanlega eru okkar ferfættu vinum til meira hróss en mannfólkinu.

Systir mín Snati

Í gærkvöldi var ég rifja upp fyrir vinkonu minni söguna af því þegar hinn virðulegi lögfræðingur systir mín sat á vinnustað sínum í hádeginu fyrir margt löngu og hlustaði á útvarpið. Verið var að leika angurvært ógurlega fallegt jólalag sem henni fannst mjög heillandi svo hún deildi þeirri skoðun með vinnufélögum sínum. Þá sagði einhver: „Já, Elvis Presley er alltaf góður.“ „Elvis,“ sagði lögfræðingurinn hneykslaður. „Hann syngur ekki svona. Ef þetta er Elvis er ég hundur og heiti Snati.“ Vart hafði þessi systir mín sleppt orðinu þegar þulurinn sagði: „Og þetta var Elvis Presley.“ Upp frá því var hún aldrei kölluð annað en Snati í vinnunni.

Í fjögurra stjörnu lúxus

Við í vinnunni minni skruppum austur á Hótel Rangá um helgina og gistum eina nótt. Þetta var hreint út sagt einstaklega notalegt kvöld í góðum félagsskap. Vinnufélagar mínir eru frábært fólk og makar þeirra ekki síðri. Það eru hjón sem eiga fyrirtækið og þau eru bæði einstaklega indæl og skemmtileg. Umbrotsmaðurinn á kærustu sem heitir Sól og sú er snilldarsöngkona, falleg eins og postulínsdúkka og mikill húmoristi. Það er ekki hægt að biðja um meira. Ragna sölufulltrúi er gift bráðhuggulegum manni sem er líka mjög indæll. Það var því mikið hlegið og margt sér til gamans gert. Hótel Rangá er æðislegt 4 stjörnu hótel. Ég var ein í herbergi með stóru hornbaði með nuddtúðum, risaflatskjá og rúmi sem ég gat legið endilöng í á alla vegu án þess að standa út úr því. Og það þarf þónokkra lengd til að það sé mögulegt. Á náttborðinu voru litlir súkkulaðimolar og baðsloppar inni í skáp. Ég fór í bað, setti baðolíu og baðsalt út í úr birgðum í lítilli körfu á baðbrúninni. Ég gerði nuddtúðurnar virkar og lá svo og naut hitans og vantshreyfinganna með kertaljós á barminum. Fyrir utan herbergin er reyndar heitur pottur en ég nennti ekki að fara í hann. Það er hægt að ganga beint úr herberginu út á pall og í gær var tunglsljós og stjörnubjart og meira að segja svolítil norðurljós. Útsýnið var því ekki ónotalegt, Hekla í allri sinni dýrð og fullt tungl uppi yfir snæviþakinni jörð. Maturinn var gourmet-ævintýri, fyrst var okkur borin villisveppasúpa með kryddaðri brauðstöng, svo kom lax sem var eins og hálfreyktur og alveg ofboðslega gómsætur. Með honum var einhvers konar smjör og frískandi límónukurl. Næst var grafinn lundi, gæsalifrarkæfa og kryddað hreindýr. Kjötið var hrátt en hanterað þannig að það var ofboðslega gott. Þá kom aðalrétturinn sem var gæsabringubiti og hreindýravöðvi með kartöflumús. Þetta var slíkt og þvílíkt sælgæti að mér lá við yfirliði. Eftirrétturinn var einhvers konar sítrónubúðingur sem ég var ekki hrifin af en skítt með það. Eftir matinn fengum við okkur kaffi uppi á barnum og síðan var mikið fjör og mikið gaman frameftir öllu. Ég fór í rúmið 1.20 og hafði þá vakað miklu lengur en ég ætlaði mér og skemmt mér konunglega. Þau hin fóru í pottinn og voru þar til fimm. Þjónar komu með drykki út til þeirra og kertaljós sem sett voru á pottbarminn. Ég vaknaði svo klukkan átta í morgun og byrjaði auðvitað á að fara í bað. Morgunmaturinn var æðislegur líka. Alls konar brauð og álegg, soðin egg, morgunkorn, jógúrt, skyr og vöfflur. Ég bakaði mér þrjár vöfflur og borðaði með hlynsírópi og ferskum ávöxtum. Þetta var ævintýralega gott. Svona eiga vinnuferðir að vera.

Nú er ég reið!

Nú er ég reið! Að vanda fór ég út með hundinn í morgun og við urðum auðvitað forarrennandi blautar. Ég ætla svo sem ekki að fara óskapast út í almættið fyrir veðrið en þegar ég var rétt að koma að húsinu heima gerði ökumaður sér lítið fyrir og keyrði í veg fyrir mig á gangbraut og jós í leiðinni yfir mig ísköldu og drullugu vatni úr polli. Þetta var á gatnamótum Digranesvegar og Vallartraðar klukkan rétt rúmlega átta í morgun. Þarna er hraðahindrun og mjög auðvelt að stoppa. Þetta ljúfmenn kaus að gera það ekki þótt ég væri komin út á miðja gagnbrautina og í þann veginn að ganga í veg fyrir hann. Hann ók samt hiklaust áfram og ofan í poll við hraðahindrunina og ég fékk gusuna yfir mig. Þetta var eins og atriði úr bíómynd en ekki datt kvikindinu í hug að stoppa og athuga hvort ég væri í lagi. Maðurinn var á stórum svörtum jeppa og aftan á honum við skottið voru silfurlitaðir listar. Því miður þekki ég ekki Volkswagen frá vörubíl en ef þessi tiltekni ökumaður rekst inn á þessa síðu þá vil ég benda honum á að hann er skúmpoki (scumbag).

Skýring á skrýtilegheitum

Síðan að ég kom úr laseraðgerðinni hefur sjáaldrið á hægra auga verið mun stærra en á því vinstra. Læknirinn minn var nokkuð hissa á þessu en sagði að best væri að bíða og sjá til hvort þetta lagaðist ekki. Svava systir var hins vegar fljót að finna skýringu á muninum. Hún telur nefnilega að þarna sé komin skýring á skrýtilegheitum mínum. Ég sé sem sagt í varanlegri kókaínvímu hægra megin en bláedrú og straight á vinstri hlið. Þetta er kenning.

Sé gegnum holt og hæðir

Jæja, ég fór í laseraðgerð á augunum í gær hjá LaserSjón og sé nú gegnum holt og hæðir. Á einum sólarhring hefur sjónin batnað ótrúlega. Í stað þess að nota gleraugu +3,5 nota ég +1 til að hvíla augun. Vinstra augað sem ég sá mjög óskýrt með er nú næstum jafngott og það hægra og augun munu enn batna. Mér var sagt að fara varlega í tvo sólarhringa því ákveðin sýkingarhætta er fyrir hendi. Ég á því að ganga með sólgleraugu til að verja augun og það gerði ég samviskusamlega í dag. Ég fór með Helen systur í Bónus og sennilega hefur fólk haldið að ég væri með stórmennskubrjálæði þar sem ég gekk um með sólgleraugu innandyra eins og Hollywood-stjarna sem ekki vill þekkjast. Að auki var rigning og grámygla fyrir utan þannig að ekki varð ég gáfulegri þegar ég kom út. Mér finnst það töfrum líkast að hægt sé að gera svona hluti. Ég fann nánast ekkert fyrir aðgerðinni sjálfri og í gærkvöldi fann ég svolítinn sviða í augunum í þrjá klukkutíma og þar með var það búið. Núna er eins ekkert hafi gerst. Þetta er frábært.

Dularfulli hnappurinn

Í morgun fór ég í fínar buxur sem væri svo sem ekki í frásögur færandi nema vegna þess að á leið út fann ég skyndilega að eitthvað hart stakkst í lærið á mér. Ég fór að þreifa niður eftir buxunum mínum og rakst á eitthvað hart. Ég tók til við að þreifa þetta með fingurgómunum og fann fljótt að þetta var einhvers konar hnappur. Ég var sein fyrir þannig að ég fór upp í vinnu og þegar þangað var komið lyfti ég upp buxnaskálminni og skoðaði aðskotahlutinn dularfulla. Þetta reyndist ermahnappur úr silfri með svörtum steini. Hann var fastur við sauminn á buxunum mínum. Þær voru nýkomnar úr hreinsun þannig að ég hringdi í hreinsunina og spurði konuna þar hvort einhver viðskiptavina hennar hefði saknað ermahnapps. Hún kvað nei við og varð eiginlega hálffúl og fullyrti að hnappurinn hefði ekki geta komist í buxurnar hjá þeim.  Ég sé hins vegar ekki alveg fyrir mér að ermahnappur ókunnugs karlmanns skríði af skyrtunni hans og upp lærið á mér svona óforvandis úti á götu og ég sagði henni það. Hún féllst með semingi á að taka niður símanúmerið mitt ef einhver ermahnappalaus hefði samband. En í alvöru kæru bloggvinir er það ekki fullmikil kvensemi að senda ermahnappana sína í könnunarleiðrangra upp fótleggi kvenna? Kannski þetta hafi verið einhver daðrari sem kann tilberagaldur. (Fyrir þá sem ekki muna var tilberi púki í sauðarlegg sem konur létu sjúga sig fasta við lærið á sér innanvert og sendu síðan í ránsleiðangra á næstu bæi. Þeir drukku gjarnan mjólk sem þeir svo ældu upp úr sér fyrir húsmæður sínar).

Traust og vantraust

Landsamband kvenna í frjálslynda flokknum lýsir yfir vantrausti á Margréti Sverrisdóttur. Ætli vantraust sé marktækt þegar það kemur frá jafnfámennum hópi? Er það ekki bara orðið traust þegar þessar tvær eða þrjár konur í frjálslynda flokknum lýsa yfir vantrausti því það er svo mikill meirihluti kvenna sem ekki tilheyrir þessu landsambandi?

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband