Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Hvatvísin lengi lifi

Nanna Rögnvaldar segir frá því á bloggsíðu sinni að hún hafi næstum því verið búin að senda út boð til fyrrum vinnufélaga sinna sem innihélt skilaboðin: Til í allt - með Villa. Á síðustu stundu tók hún í skottið á sjálfri sér og hætti við en ég hefði örugglega látið vaða. Hvatvísin hefur iðulega komið mér í koll eins og þegar ég átti von á símtali frá móður minni og svaraði því galvösk þegar hringt var: Líkhúsið niðursuðudeild! Bjarni Brynjólfsson þáverandi ritstjóri Mannlífs var á hinum endanum og til allrar guðs lukku var honum skemmt. Það átti hins vegar ekki við um skátaforingjann hennar Helenar systur sem hringdi einu sinni heim til okkar þegar ég var unglingur og ég svaraði: Náttúruleysingjafélagið góðan daginn, má bjóða þér stífelsi? Helen fannst þetta bara fyndið en fékk víst nokkrum sinnum hornauga á skátafundum frá þessum manni. Á tímabili fannst mér nefnilega, eins og sjá má af ofanskráðu, óskaplega fyndið að svara í símann með einhverri svona vitleysu. Meðal algengra tilkynninga hjá mér voru: Öfgasinnuð frelsissamtök Grímseyinga, Tjara og fiður góðan dag, og Landbúnaðarráðuneytið, lager. Eitt sinn datt þetta síðasttalda út úr mér þegar vinur sonar míns hringdi heim, tónlistarmaðurinn Benni HemmHemm. Sá var fljótur að hugsa því hann sagði umsvifalaust: Já, ég ætlaði panta hjá þér eina kú og eina belju.

Súr sigur

Vinstri menn eru teknir við borginni aftur. Margir fagna þessu og ég sem vinstri manneskja ætti að gera það líka en mér finnst eitthvert óbragð af aðdragandanum öllum. Kannski er það barnalegt en mér hefur alltaf fundist að vinstri menn ættu að vera hugsjónamenn sem vinna af heilindum að almannaheill og því yfir baktjaldamakk og valdagræðgi hafnir. Sigur Dags B. Eggertssonar er því súr í mínum munni en ekki sætur. Mér finnst líka að menn verði að velja sína meðreiðarsveina af kostgæfni og Björn Ingi ætti hvergi að vera í trússi þar sem heilindi eru höfð í hávegum. Ég sit því hér og velti fyrir mér hvort ekki hefði verið betra að hafa sjálfstæðismenn áfram við völd fremur en vinstri stjórn sem lituð er laumuspili og lygum manns sem tilkynnir veikindi á einum stað en mætir fílhraustur á annan til að svíkja fyrri samstarfsmenn.

Þrjú horn og draumleysi

Ég gekk á fjallið Þríhyrning um helgina. Fór að vísu ekki alveg upp á topp vegna hvassviðris en skemmti mér konunglega í góðum hópi Kraftgöngufólks. Eftir þessa hressandi göngu í (sumir lentu í sviptivindum og urðu að fleygja sér á bakið til að fjúka ekki út í buskann) fórum við í sumarbústað hjóna í hópnum og borðuðum ótrúlega gott grillkjöt frá Ká-Ess kjötvinnslu. Við hjónin vorum hvorugt í mjög góðu formi, Gummi enn að jafna sig eftir lungnabólguna sem hann fékk í sumar og ég hef mest gengið á jafnsléttu þannig að fjöllin eru erfið í augnablikinu. En ég hefði sannarlega ekki viljað missa af þessu og vonandi verða fleiri ferðir með Kraftgönguhópnum sem fyrst.

Þríhyrningur er reglulega fallegt fjall og þaðan er mjög víðsýnt, enda faldi Flosi á Svínafelli sig þar eftir að hann hafði brennt Njál og fjölskyldu hans inni á Bergþórshvoli. Þaðan gat hann fylgst með mannaferðum og fullvissað sig um að enginn kæmi á eftir þeim til að hefna illvirkisins. Fyrst þegar ég heyrði nafnið hélt ég að það væri til komið vegna þess að fjallið væri í laginu eins og þríhyrningur og það var ekki fyrr en ég sá það frá tilteknu sjónarhorni að ég áttaði mig á að á því eru þrjú horn. Auðvitað þekktu forfeður okkar ekki táknið þríhyrning sem flöt með þremur hornum þannig að sjálfsögðu hefðu þeir aldrei skýrt eitthvað þríhyrningslaga eftir því. Í þeirra huga táknaði þríhyrna eitthvað allt annað. Mig minnir það vera sólartákn eða eitthvað svoleiðis.

Í ferðinni var Njála rifjuð upp og að sjálfsögðu draumur Flosa þegar hann dreymdi að jötuninn kæmi með járnstaf í hendi úr Lómagnúp og kallaði upp nöfn brennumanna. Mér hefur alltaf þótt gaman af draumum og draumráðningum og sú var tíð að mig dreymdi mikið á hverri nóttu og mundi það allt þegar ég vaknaði. Nú man ég hins vegar sjaldnast stundinni lengur það sem mig dreymir og flesta morgna vakna ég og finnst að mig hafi ekki dreymt neitt. Þetta þurfti auðvitað að byrja eftir að ég uppgötvaði ágæta vefsíðu www.draumar.is þar sem hægt er að slá inn ýmsum orðum og fá að vita hvað þau þýða í draumi. (Að vísu fá á íslensku en þess fleiri á ensku). Já, það verður að fara að gera eitthvað í þessu draumleysi. Getur maður borðað eitthvað sérstakt til að ýta undir drauma? Kannski draumsóley?


Stöðumælar, verkfæri djöfulsins

Ég er á því að stöðumælar séu úrelt fyrirbæri sem ekki eigi að líða í nútímasamfélagi og hvet fólk til að motmæla þessum skelfilegu ógnarverkfærum. Það vill svo til að gjaldmiðill flestra nú á dögum er plastkort, ekki litlir gylltir peningar. Í morgun átti ég að mæta á ráðstefnu niðri í miðbæ og var komin tímalega til að finna ábyggilega stæði. Það gekk greiðlega og vel en við stæðið mitt stóð stöðumælir og krafðist þess að vera fylltur. Við geymum í bílnum smápeningasjóð til að nota í einmitt svona tilfellum en hann reyndist tómur að þessu sinni. Ég mátti því hlaupa af stað í grenjandi rigningu í leit að hraðbanka. Hann fannst á Lækjartorgi en síðan tóku við hlaup í þrjár sjoppur áður en ég fann starfsmann nægilega mannúðlegan til að skipta fyrir mig fimmhundruðkalli. Þá var hlaupið að bílnum aftur og stöðumælirinn fylltur. Ég mætti á ráðstefnuna svo forarrennandi blaut að það lak af mér. Ég fór úr jakkanum og hengdi hann á stól og eftir nokkrar mínútur höfðu myndast pollar undir honum. Hárið á mér var klesst við höfuðið og reglulega runnu dropar niður andlitið á mér og niður á borðið. Axlirnar voru rennandi eftir hárið og úr buxunum mínum dropaði á gólfið. Taskan mín var svo blaut að ég var beðin að færa hana af borðinu. Allt í kringum mig sátu kollegar frá Eystrasaltsríkjum og Norðurlöndum skraufaþurrir og rosalega penir. Þeir höfðu nefnilega verið keyrðir með rútum í bæinn. Stöðumælar eru verkfæri djöfulsins og ég skora á Vilhjálm að rífa þá upp með rótum og kasta þeim út fyrir borgarlandið.

Gamalmenni á ýmsum stigum

Jæja, þá er ég ári eldri en ég var í fyrradag. Þann 1. október þjóðhátíðardag Kínverja á ég afmæli og varð blíb ára gömul. Sonur minn sendi mér hjartnæma afmæliskveðju í SMS-i, nefnilega: Til hamingju með daginn gamla hræ og dóttirin gaf mér gullfallega eyrnalokka. Annars er þvílíkt afmælisfargan í fjölskyldunni þessa dagana að það hálfa væri nóg. Tengdamamma varð áttræð þann 26. sept. og við fórum með henni út að borða á laugardagskvöldið að því tilefni. Ég átti svo afmæli í gær, tengdadóttir mín í dag og sonur minn á fimmtudaginn. Maður bara tútnar út af öllum þessum afmælismat.

Mamma kom í gærkvöldi til að færa mér afmælisgjöf og sagði mér einstaklega fína sögu af upplifunum gamalmenna í þessu landi og kannski ekki seinna vænna að maður fari að venja sig við því sjálfsagt eru þetta örlög okkar allra. Hún hafði fengið andlitsbað í afmælisgjöf í vor og hugðist nýta sér það núna. Hún mátti sjálf velja snyrtistofuna og hún hringdi og pantaði tíma hjá einhverjum Kínverjum í Hamraborg. Það gekk greiðlega og gamla konan mætti á tilsettum tíma og var þá skipað að klæða sig úr öllu nema nærbuxunum. Henni leist nú ekki á að fara í andlitsbað nánast nakin þannig að hún reyndi með bendingum að gera konunni sem talaði nánast enga íslensku skiljanlegt að hún væri að koma í andlitsbað. En það var sama hvað hún benti og pataði úr skyldi hún og til að lenda ekki í enn verri hremmingum hlýddi mamma. Henni var svo vísað inn í hálfrokkið herbergi þar sem hún sá varla neitt en tókst samt að paufast að einhverjum bekk og koma sér notalega fyrir.

Þá birtist sterklegur Kínverji og skipaði henni með bendingum að snúa sér við, ekki bara á magann heldur átti höfuðið að vera þar sem lappirnar voru. Gamla konan hlýddi hálfskelkuð og kom sér fyrir með andlitið í þar til gerðri holu. Hún reyndi að stynja því upp að hún hefði ætlað að fá andlitsbað en Kínverjinn skildi ekki orð og svarði með einhverjum tjíáng syngjanda sem mamma skildi ekki bofs í. Hún kaus því þann kostinn að gera eins og henni var sagt. Þá upphófst baknudd með miklum tilfæringum og handaskellum. Með reglulegu millibili barði hann hana með handarjarkanum og endaði með að renna fótunum eftir völdum stöðum á líkamanum. Þegar þarna var komið gerði mamma sér ljóst að gersamlega vonlaust væri að reyna að skýra fyrir þessu fólki að hún væri þarna komin í andlitsbað svo hún sætti sig einfaldlega við örlög sín. Henni var svo snúið og hún nudduð, barin og fótum troðin jafnvandlega að framan sem að aftan. Meðferðinni lauk svo á því að konan sem talaði örfá orð í íslensku kom og nuddaði á henni andlitið og setti á hana einhvern ferskan maska með agúrkulykt.

Þetta var ekki alveg andlitsbaðið sem mamma hafði reiknað með en hún er víst svo lipur og fín í skrokknum að hún hefur ákveðið að panta annan tíma. Mórallinn í þessari sögu er sem sagt: Þó þú fáir ekki alveg það sem þú reiknaðir með þarf það ekki að vera slæmt og gamalmenni hafa gott af því að vera barin af og til.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband