Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

Sögur sem verður að segja

Eftirfarandi umfjöllun um bókina Breiðavíkurdrengur birtist í desemberblaði hann/hún.

Breiðavíkurdrengur eftir þá Pál Rúnar Elísson og Bárð Ragnar Jónsson er áhrifamikil bók um vist Páls í Breiðavík. Bárður var honum samtíða á staðnum og aðstoðar hann við skrifin. Ógnirnar sem drengirnir upplifðu á þessu ríkisrekna vistheimili eru skelfilegar og öllu venjulegu fólki hnykkir við. Það er erfitt að lesa frásagnir af þessu tagi en samfélagið verður að horfast í augu við og reyna að útrýma slíkum smánarblettum.

Margir upplifa reiði, vantrú og sektarkennd þegar fólk sem brotið hefur verið jafnalvarlega gegn og Breiðavíkurdrengjunum stígur fram og segir sögu sína. Skemmst er að minnast þess þegar Thelma Ásdísardóttir dró upp mynd af föður sínum ásamt Gerði Kristnýju og ýmsir stigu fram í fjölmiðlum til að bera af sér alla vitneskju um mál sem var á allra vitorði. Meira að segja börnin í Hafnarfirði vissu hvað fór fram á heimili þeirra systra en hinir fullorðnu vissu að eigin sögn mun minna. Þá er ekki hægt annað en að spyrja hverju sætir það?

Hið sama á við um Breiðavíkurdrengina. Páll segir frá því í bókinni að þeir félagar struku í tvígang og í bæði skiptin segja þeir fullorðnu fólki (í annað skiptið hreppstjóra sveitarinnar) að þeir séu beittir ofbeldi af hendi forstöðumannsins. Þeir eru sendir til baka og ekkert frekar er aðhafst í þeirra málum. Er það nema von að þessum börnum hafi fundist þau standa ein í óvinveittum heimi? Hugsanlega má finna því fólki sem þar átti hlut að máli einhverjar málsbætur. Tíðarandinn var annar og fordómar í garð hinna svokölluðu vandræðabarna miklir. En það afsakar ekkert af því sem þarna viðgekkst. Mannúð og gæska eru tímalaus fyrirbæri og hafa fylgt manninum jafnlengi og illskan.

Það undarlega er þó að það atvik sem hefur einna dýpst áhrif á lesandann tengist ekki því hræðilega líkamlega ofbeldi sem Páll varð fyrir heldur illkvittnislegum hrekk húsfreyjunnar á bænum þegar hún segir drengnum að hann verði sendur heim daginn eftir og vekur með honum von og tilhlökkun. Hlátur hennar daginn eftir þegar Páli og bróður hans verður ljóst að hún hafði verið að ljúga sker heilbrigt fólk inn að hjartarótum.

Sögur af þessu tagi verður að segja. Samfélagið allt er ábyrgt fyrir vanlíðan þessara drengja jafnvel við sem vorum börn eða ekki fædd þegar þessir atburðir áttu sér stað. Það verður að koma í veg fyrir að saga sem þessi endurtaki sig. Engum datt í hug að Breiðavík væri slíkur voðastaður. Hugsanlega á eftir að koma á daginn að fleiri ríkisrekin barna- og unglingaheimili hafi verið jafnspillt. „Allt vald spillir og algert vald spillir algerlega," sagði Acton lávarður og þetta virðist sannarlega eiga við um þá sem hafa yfir börnum að segja. Það er vont að lesa svona sögur en verra er að sitja eftir með þá tilfinningu að eftir nokkra áratugi muni einhver stíga fram og segja svipaða sögu af skelfingum sem hann upplifði undir augliti okkar sem erum fullorðin og ábyrg núna.


Sviptir allri skynsemi

Hvað er það sem gerir það að verkum að skynsömustu og velgerðustu menn missa alla dómgreind og rökhugsun þegar kvenréttindi ber á góma? Ég hef iðulega lent í umræðum við greinda, velmenntaða menn sem geta krufið alþjóðastjórnmál og hagkerfið til mergjar og fært ótal rök fyrir því að hlutirnir eigi að vera svona en ekki hinssegin en um leið og minnst er á að jafna þurfi hlut kvenna í valdastöðum tapa þeir sér. Einu rökin sem þá eru tiltæk eru að konur séu ekki að biðja um jafnrétti heldur forréttindi og í sumum tilfellum, því miður, þau að það eina sem kvenréttindakerlingar þurfi sé góður dráttur eða smáskammtur af nauðgun. Mér er algjörlega fyrirmunað að skilja þetta. Gott dæmi um það sem ég er að tala um er færsla á bloggi ofurbloggarans Jens Guð. Hann hafði lesið frétt af þremur drengjum í Bandaríkjunum á aldrinum 9-11 ára sem dregið höfðu stallsystur sína 11 ára inn í skóg og með því að hóta henni að keyra grjóthnullung í höfuð hennar fengið hana til að afklæðast og einn drengjanna hafði nauðgað henni. Í stað þess að undrast að svo ung börn tækju upp á því að beita svo grófu ofbeldi hneyksluðust karlmenn sem kommenteruðu á því að talað væri um nauðgun í þessu sambandi drengirnir hefðu ekki hvolpavit. Einn gekk meira að segja svo langt að fullyrða að nauðgun væri sambland af ofbeldi og kynferðisathöfn. Nauðgun er ofbeldi, punktur og basta og hefur ekkert með kynferðisathafnir manna að gera. Þetta er ekki mín skoðun heldur hefur verið sýnt fram á þetta með ótal rannsóknum á sálfræði nauðgara. Það er ekki kynlífslöngun sem rekur þá áfram heldur þörf fyrirl að meiða, misþyrma og niðurlægja. Reiði er ríkjandi tilfinning í sál þeirra en ekki losti. Þess vegna velti ég fyrir mér hvaða tilfinning hafi rekið Gilzenegger áfram þegar hann mælti með því á blogginu sínu að femínistar yrðu beittir kynferðislegu ofbeldi.

Með kúkabrúnar hendur

Hafi ég einhvern tíma fullyrt að ég væri snillingur tek ég hér með aftur allar fyrri yfirlýsingar um snilligáfu mína. Ég verð einfaldlega að játa að sú snilld sem mér var gefin í vöggugjöf er fremur takmörkuð. Atvik sem henti mig í gærkvöldi vitnar um þetta, dæmið bara sjálf. Ég var að vinna á tölvuna í allt gærkvöld og þegar ég stóð upp fann ég að húðin á höndunum á mér var óvenjulega þurr og stöm. Ég fór því inn á baðherbergi til að leita að góðum handáburði. Ég fann ekkert slíkt en greip þarna kremtúpu sem ég sá í hálfgerðri þokumóðu (ég var gleraugnalaus)að á stóð einhver skrift og innihaldslýsing og moisterizer neðst. Þetta nægði mér og ég smurði þessu vandlega á hendurnar á mér. Í morgun áttaði ég mig svo á því að ég hafði borið andlitsbrúnkukrem dóttur minnar á hendurnar og þær eru núna viðbjóðslega kúkabrúnar en restin af líkama mínum jafnkrítarhvítur og venjulega.

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband