Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007

Væntingarnar og veruleikinn

Ég hlýddi á fyrirlestur í Jóhönnu Guðrúnar Jóhannsdóttur fjölskylduráðgjafa í gærkvöldi. (Ég held að hún sé Jóhannsdóttir man það þó ekki alveg). Hún talaði mjög skemmtilega um væntingar okkar til lífsins og vonbrigðin sem verða þegar þær standast ekki. Einkum og sér í lagi varð henni tíðrætt um ástina og hvernig sætustu draumaprinsar geta breyst í froska þegar minnst vonum varir. Hún talaði líka um að festast í reiðinni og nefndi sem dæmi konu sem í átján ár hafði núið bónda sínum því um nasir að hann drakk fullmikið í brúðkaupsveislunni og hraut því alla brúðkaupsnóttina. Þau hjón leituðu loks til Jóhönnu Guðrúnar og þá spurði hún konuna: „Og hvað færðu út úr þessu?“ Það kom víst á kerlu og hún varð að hugsa sig um. Fyrir mína parta finnst mér átján ára nöldur lágmarksdómur fyrir að sofna á brúðkaupsnóttina og sennilega hefðum við fengið eitthvað út úr því að hittast og ræða þetta, ég og þessi kona.

Fréttir sem aldrei birtust

Ég gekk á Úlfarsfellið með Freyju í gærkvöldi og líkt og venjulega þegar við tvær ferðumst um fjöll saman horfði ég með öfund á tíkina sem skondraði upp og niður brekkurnar skælbrosandi. Ég skreiddist á eftir másandi og blásandi eins og strandaður hvalur þess fullviss að mín síðasta stund myndi þá og þegar renna upp. Freyja lét svo lítið að kíkja á mig af og til og svipurinn á henni sagði: Ætlar þessi aumingi að verða til hér í brekkunni eða mun honum takast að dröslast upp? Aumingjanum tókst að klöngrast upp á topp og mikil var sigurvíman þegar ég loksins gat notið útsýnisins meðan hjartslátturinn og andardrátturinn jafnaði sig. Ég veit raunar ekki hvaða sjálfspyndingarhvöt rekur mig af stað upp á fjöll á vorin en þetta er árviss atburður og alltaf er það tilhugsunin um hinar ýmsu fréttafyrirsagnir sem kemur mér á toppinn nefni hér aðeins nokkur dæmi: Miðaldra kona borin niður af Úlfarsfelli í andnauð! Sprungin í miðjum hlíðum! Miðaldurskreppa í miðju fjalli!

Ét ofan í mig, ekki hattinn minn þó

Steinunn Valdís Óskarsdóttir skrifaði mér áðan svar við athugasemdum mínum við orð hennar í Silfri Egils. Hún sagðist hafa verið að tala um fréttamiðla en vita vel af okkur sem ritstýrum tímaritum og benti mér á að Steinunn Stefáns. er aðstoðarritstjóri en Þorsteinn Pálsson og Jón Kaldal aðalritstjórar. Því er það alveg rétt hjá Steinunni Valdísi að Sigríður Dögg er eina konan sem ritstýrir fréttamiðli. Ég ét því ofan í mig orð mín hér í fyrri færslu hvað borgarstjórann fyrrverandi varðar en stend við stóru orðin um almenna fordóma gegn tímaritum. Ég held að tími sé kominn til að menn átti sig á því að þar eru á ferð fjölmiðlar sem hafa mikið gildi og vægi þeirra er síst minna en annarra miðla þótt þau séu í flestum tilfellum skrifuð af konum fyrir konur.

Mismunandi viðhorf

Við Svava fórum með Freyju að labba úti við Gróttu í gær. Þar var svo mikið rok að við systur hrökkluðumst fljótt í bílinn aftur. Tíkin var reyndar á því að ekkert væri að veðri en við vorum henni ekki sammála. Á leið í bílinn sungum við: Kaldar systur skrönglast hér, sælan löngu liðin er ekki er hér yl að fá, ekki þarf að því að gá. Freyja söng aftur hástöfum: Hér er mikið og mátulegt fjör, vindur rífur fólk úr hverri spjör, feldur minn er feiknahlýr, enda er ég heimskautadýr.

Eru tímarit ekki fjölmiðlar?

Ég horfði á Silfur Egils í gær og varð satt að segja undrandi þegar ég heyrði Steinunni Valdísi Óskarsdóttur fullyrða og hafa eftir Sigríði Dögg Auðunsdóttur að hún væri eini kvenritstjórinn á Íslandi. Mér hnykkti vægast sagt við og ekki var nóg með að Steinunn Valdís endurtæki þetta tvisvar heldur mótmælti henni enginn af þeim sem sátu við borðið og að auki tók Egill undir með henni. Ég veit ekki betur en að Elín Arnar ritstýri Vikunni, Heiðdís Lilja Magnúsdóttir Nýju Lífi, Steinunn Stefánsdóttir Fréttablaðinu og ég h-tímariti. Reyndar er sú tilhneiging ríkjandi að telja fréttamiðla á einhvern hátt æðri en tímaritin þannig að hugsanlega höfum við gleymst af þeim sökum en Steinunn hefði þá alla vega átt að fá sinn sess hjá Silfurfólkinu. Mér er svo sem sama þótt ég hafi gleymst en það fer óneitanlega í taugarnar á mér þessir leiðinlegu fordómar gegn tímaritum. Ég og aðrir sem vinnum á slíkum ritstjórnum vitum að þar er vandað til verka og íslensk tímarit hafa oft vakið fyrst máls og merkilegum málefnum og skapað umræðu sem þörf var á. Ég get til dæmis nefnt að þegar ég var á Vikunni skrifaði ég grein um tengsl hormónainntöku kvenna á breytingaskeiði og krabbamein. Sú umræða var hálfum mánuði seinna tekin upp í Kastljósi hið sama gildir um umræðuna um geðlyf og aðgerðarleysi í málefnum þeirra sem þurfa á því að halda. Ári áður en Kastljósið tók þetta upp hafði ég skrifað grein í Vikuna og tekið viðtal við unga konu sem fékk stöðugt uppáskrifuð lyf frá lækni sínum en engar ábendingar um aðra meðferð. Það var ekki fyrr en hún keypti sér sjálf námskeið hjá Bergþóru Reynisdóttur hjúkrunarfræðing að það rann upp fyrir henni að hún þyrfti ekki endilega að taka lyf. Margt fleira gæti ég nefnt en mér finnst það síst sitja á borgarstjóranum fyrrverandi og núverandi borgarfulltrúa að gera lítið úr miðlum sem fyrst og fremst eru ætlaðir konum og skrifaðir af konum.

Af hattaáti og annarri áráttu

Jæja ég losna við að éta hattinn minn því Forest Whitaker fékk óskarinn. Ég hafði lofað því hér á þessari síðu að snæða þetta þarfaþing mitt ef Forest fengi ekki styttu með sér heim. Svava systir var búin að lofa að sitja yfir mér þar til hver einasta ullararða úr hattinum væri snædd en segja má að þarna hafi skollið hurð nærri hælum og ég get staðið upp og haldið óskarþakkarræðu líka og þakkað akademíunni fyrir að velja rétta manninn. Ég er nokkuð gjörn á að lofa svona upp í ermina á mér líkt og herra Wilkins Micawber í David Copperfield. Wilkins hafði sjaldnast rétt fyrir sér og hefði því, ef alls réttlætis hefði verið gætt, átt að éta þónokkuð marga hatta. Hann slapp vegna þess að hans nánustu kusu að sleppa honum við að standa við stóru orðin. Ég veit hins vegar að Svava hefði ekki sýnt mér nokkra miskunn.

Sterastríðið í Neðstutröðinni

Dóttir mín hefur í vetur þjáðst af þurrkexemi í andliti og frostið í janúar jók mjög á þjáningar hennar. Við fengum þær upplýsingar hjá lækni að auðvelt væri að eiga við þetta með tiltölulega mildu sterakremi sem fæst lyfseðilslaust í apótekum. Við keyptum auðvitað umsvifalaust túpu en urðum fremur undrandi þegar í ljós kom að tíkin Freyja sótti stíft í sterana og ef túpan lá einhvers staðar á glámbekk greip hún hana umsvifalaust og nagaði í sundur. Ótótlegar leifar af áltúpunni fundust svo einhvers staðar í íbúðinni og við forsjármenn tíkurinnar urðum að hlaupa í næsta apótek eftir nýrri túpu handa arfareiðri ungri stúlku. Þegar túpunum, sem fóru forgörðum á þennan hátt, fór fjölgandi hófst mikið stríð við að halda tík og túpu sem lengst frá hvor annarri. Túpunni var komið fyrir hátt uppi í hillu inni í herbergi og herberginu harðlokað væri þar enginn íbúi. En allt kom fyrir ekki. Stundum gleymdist að henda túpunni í hæstu hæðir og iðulega var herbergið skilið eftir opið meðan skotist var í sturtu og þá var gula hættan ekki sein á sér að skjótast inn og ná sér í eitthvað að narta í. Hún skreið síðan undir hjónarúm með ránsfenginn og næst þegar sópað var í svefnherberginu birtust tætingslegar túpur, tappar og önnur sönnunargögn. Ég hélt hins vegar að með hækkandi sól og ögn hlýrra veðri færi að draga úr þessari óværu hér á bæ en öðru er nær. Í morgun birtist dóttir mín á þröskuldinum hjá mér og sagði með hyldjúpri ásökun í augunum: Hefur þú fundið einhverjar ónýtar sterakremstúpur nýlega. Ég finn nefnilega ekki sterakremið mitt og ég þarf á því að halda. Nú þori ég ekki að sópa svefnherbergisgólfið. P.S. Fyrir Svövu systur og aðra dýraverndunarsinna. Það er enga breytingu að sjá á tíkinni þrátt fyrir að hafa innbyrt ómælt magn af sterakremi. Hún hefur ekki þykknað, skapstyggð er ekki til í henni og hvergi vottar fyrir aukahárvexti. Rödd hennar hefur heldur ekki breyst.

Að hefja sig upp fyrir meðalmennskuna

Umræðan um ofbeldi og áhrif þess á barnssálina hefur verið mikil í þjóðfélaginu í kjölfar Breiðavíkur og Byrgismála. Margir stíga fram og nefna til sögunnar að svo og svo margir hafi nú orðið fyrir öðru eins en staðið sig ágætlega í lífinu og orðið nýtir þjóðfélagsþegnar. Það er alveg rétt og það verða alltaf til einstaklingar sem tekst að hefja sig yfir alla erfiðleika og sigrast á þeim en rannsóknir sýna hins vegar að þar eru sjaldnast á ferð meðalmenn. Það einkennir alla jafna þetta fólk að það er annað hvort afburðagreint eða hæfileikaríkt á einhverju sviði. Sumum gefst einnig tækifæri til að vinna úr hinni vondu reynslu einhvern tíma á ævinni og þá venjulega með hjálp einhvers einstaklings eða einstaklinga. Oft finnast líka í fortíð þessara afburðamanna einhverjir sem hafa sýnt þeim umhyggju og ástúð og reynt að verja þá eftir bestu getu. Hvort þeirra naut við lengur eða skemur ræður svo úrslitum um hversu mikið áhrifa þeirra gætir. Það er nefnilega staðreynd að kennarar og kerfisstarfsmenn eru mannlegir og laðast fremur að þeim sem hafa óvenjulega margt til síns ágætis og leggja sig í líma við að hjálpa þeim meðan þeir ógeðfelldari sem hugsanlega eru í uppreisn gegn umhverfinu eru útskúfaðir. Í raun er mjög óréttlátt að taka síðan venjulega einstaklinga sem ekki hafa sömu úrræði eða þá hæfni sem hinir hafa til að bera og krefjast þess að þeir sýni samskonar árangur. Venjulegt fólk þarf stuðning og það eru innan við 10% mannkyns sem geta hafið sig upp yfir meðalmennskuna ef svo má segja algerlega upp á eigin spýtur. Við hin fáum einhvers staðar á leiðinni hjálp hvar sem við annars stöndum og hvort sem bernska okkar var sælutíð eða beiskur biti.

Sniðklipping að hætti Britney Spears

Á Mbl.is er nú að finna frétt um að Justin Timberlake sé bara reglulega hrifinn af sniðklippingu Britney Spears. Mér finnst sniðklipping hljóma vel þannig að ég ætla biðja hárgreiðslukonuna sem ég fer til í fyrramálið að sniðklippa mig að hætti Britney.

Forest Whitaker fær óskarinn

Ég sá myndina The Last King of Scotland í gær og var bókstaflega eins og kýld ofan í sætið á eftir. Myndin er mögnuð og Forest leikur þetta frábærlega. Ef hann fær ekki óskarinn fyrir þessa mynd skal ég éta hattinn minn. Ég var líka heilluð af James McAvoy sem lék Nick Garrigan. Persónan var það áhugaverð að ég fletti upp á Netinu í dag og komst að því að hún var ekki til í raunveruleikanum en var búin til af rithöfundinum Giles Foden sem hefur skrifað mikið um Afríku.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband