Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Gömul gen og fúafen

Í morgun las ég viðtal við Pétur Marteinsson og konu hans, Unni Valdimarsdóttur í Fréttablaðinu. Þau segja þar frá þeirri ánægju sem er því samfara að fá barn frá Kína. Þau hjón ákváðu að ættleiða frekar en að reyna til þrautar að eignast eigið barn. Sjálf er ég fylgjandi því að sem flest börn í heiminum njóti umhyggju og ástúðar og það gildir einu að mínu mati hvort menn ákveða að ættleiða, fóstra eða fæða eigin börn. Allar þjóðir hafa auk þess gott af því að blandast og fá nýtt blóð inn í hópinn sem fyrir er. Það sló mig engu að síður illa þegar læknirinn, eiginkona Péturs, segir að þeim finnist þau heppin að fá barn sem ekki sé með þeirra gömlu og þreyttu norrænu gen. Hvað er læknirinn að hugsa? Hefur hún einhver rök fyrir því að gen hennar og eiginmannsins séu eldri og þreyttari en gengur og gerist? Það eru hreinlega engin rök fyrir því að gen norrrænna manna séu þreyttari og eldri en annarra. Ég verð að benda á að Kína og Austurlönd almennt hafa mun lengri og sumir segja merkilegri sögu en við Norðurlandabúar þannig ef eitthvað er þá eru þeirra gen eldri. Hvort því fylgir aukin þreyta ætla ég ekki að tjá mig um. Ef blessaður læknirinn átti einfaldlega við að okkur hér á Norðurslóð væri hollt að fá nýtt blóð til blöndunar þá orðaði hún það ansi klaufalega.

Svaðilfarir og Bjarmalandsferðir

Ég er lærður leiðsögumaður og kannski eins gott að þeir útlendingar sem ég leiðsegi um landið fái aldrei veður af þessu.

Ég var að koma heim úr sumarbústaðnum og tel að þetta hljóti að flokkast með styttri slíkum ferðum því hún varði í nákvæmlega fimm og hálfa klukkustund. Ástæðan fyrir þessari fljótaskrift var sú að þegar komið var að afleggjaranum upp að bústað Blaðamannafélagsins reyndist hann ótrúlega sundurgrafinn og illfær. Ég bað Guðmund að leggja ekki í afleggjarann og kvaðst ætla að labba upp að bústaðnum og kanna aðstæður. Hann hélt nú Santa Fe hefði sig yfir smáræði eins og fáeina skipaskurði og gryfjur á stærð við Miklagljúfur. Ég hleypti tíkinni samt sem áður út og ákvað að ganga af stað. Ég var komin nær upp að bústaðnum þegar ég uppgötvaði að ekkert bólaði á Guðmundi á sínum fjallabíl. Ég sneri því við og kom að honum þar sem hann sat fastur tveimur og hálfum metra frá beygjunni inn á afleggjarann og minn var kolfastur. Eftir klukkutíma puð með skóflu, plönkum og handafli okkar hjóna gáfumst við upp og hringdum eftir hjálp. Hálftíma síðar kom vingjarnlegur bóndi á sönnum fjallatrukk og dró okkur hjónin upp á veg. Tíkin skemmti sér konunglega í snjónum á meðan og gerði meira að segja tilraun til að bera plankana að bílnum. Ég býst við að þar með hafi vinnuhundurinn komið upp í henni. Við lögðum sem sé af stað úr bænum klukkan tólf og klukkan hálf sex renndum við Santa Fe inn í heimkeyrsluna heima. Þetta er næstum alveg jafnskemmtileg ferð og bíltúrinn með Möggu gömlu frænku til sællar minningar. Þá stóð til að renna með gömlu konuna austur á Þingvelli en bíllinn hans pabba bilaði við bílskúrana í Bólstaðarhlíð. Fyrir þá sem ekki þekkja til er þessi vegalengd um 300 m. Ég gekk aftur heim í kotið þeirra pabba og mömmu við hlið Möggu frænku. Gamla konan sneri sér að mér á leiðinni og sagði brosmild: Þetta var reglulega skemmtileg ferð. Stutt en skemmtileg.

Í gær vildi þannig til að Gummi þurfti að keyra Evu á leikæfingu klukkan fimm. Því lá fyrir að hann yrði seinn til að sækja mig upp á Höfða. Veður var hið besta í höfuðborginni og ég afréð að ganga af stað heim og hitta manninn minn einhvers staðar á leiðinni. Ég arkaði sem leið lá upp að Árbæjarsafni. Þegar þangað kom minntist ég þess að hafa einhvern tíma tekið þátt í göngu gegnum safnið niður í Elliðaárdal að skoða draugaslóðir. Ég vatt mér því inn fyrir hliðið og gekk rösklega í átt að árniðnum. Neðst í brekkunni varð ljóst að safnið er vandlega afgirt með ríflega mannhæðarhárri girðingu sem hvergi virtist nokkurt gat á. Ég gaf mig þó ekki og gekk meðfram girðingunní, óð mýrarfláka upp að hnjám og sökk þess á milli í drullusvað blautra göngustíga. Eftir ríflega tveggja kílómetra göngu sá ég hlið og stökk þangað. Auðvitað reyndist það læst en þegar þarna var komið sögu var ég orðin rennandi blaut í fæturna og ergileg. Meðfædd glæpahneigð mín kom mér til hjálpar og ég klifraði upp á hliðið og stökk niður hinum megin. Ég var ekki lítið ánægð með sjálfa mig allt þar til ég uppgötvaði að um Elliðaárdalinn var gersamlega ófært sökum hálku. Ég rann niður síðustu brekkuna, fetaði mig á hraða snigilsins eftir glerhálum göngustígum út í hólmann og yfir á hinn bakkann þar sem Guðmundur beið í bílnum. Ljóst er eftir þetta ævintýri að skórnir mínir munu líklega aldrei fá hrós fyrir útlitsfegurð framar, fætur mínir munu þurfa dálaglegt skrúbb til að ná af þeim svarta litnum sem þeir tóku úr skónum og næstu vikur mun ég lifa í ótta um að fá heimsókn frá lögreglunni vegna þess að lipurlegt klifur mitt á girðingunni við Árbæjarsafn kann að hafa verið tekið upp af öryggismyndavél.

Ég veit ekki af hverju það hefur loðað við mig frá barnæsku að koma mér alltaf og ævinlega í einhverjar ógöngur þar sem aðrir sjá ekki annað en greiðfærar leiðir og beina braut. Ég brá mér líkt og vani minn er í gönguferð með tíkina eftir vinnu í gær. Við vorum á gangi í Heiðmörkinni fyrir neðan Vífilsstaðahlíð þegar mér datt í hug að kjörið væri að auka áreynsluna með því að klifra upp hlíðina. Ég fór út af göngustígnum þar sem lyngivaxnar brekkur lágu óslitið upp á topp og uppgangan reyndist greiðfær. Þegar upp var komið ákvað ég að ganga spölkorn eftir hlíðinni og fara niður nokkuð utar þar sem mig minnti að væri göngustígur. Ég gekk og gekk en hvergi bólaði á stígnum og fljótlega fór ég að örvænta. Ef ég færi ekki að koma mér niður yrði ég sennilega enn á gangi um miðnættið svo ég beygði snarlega niður í brekkuna og æddi beint af augum niður á við. Ég var ekki komin langt þegar ég var komin í verstu sjálfheldu í miðjum kjarrgróðri og komst eiginlega hvorki aftur á bak né áfram. Það var alveg sama í hvaða átt ég leit allt var jafntorfært svo ég hélt bara áfram sömu leið. Í dag er ég blóðrisa frá klyftum og niður á ökkla og buxurnar mínar og skórnir hafa lifað sitt fegursta. Tíkin var hins vegar ósködduð og fullkomlega hamingjusöm. En af hverju ég lendi endilega í svona aðstæðum veit ég ekki. Ég hef til dæmis grun um að Magga systir hefði aldrei endað á einni þúfu í miðri brekku þar sem eina færa leiðin var raunverulega upp.


Hagyrðingar og þeir sem vildu gera betur

Ég sendi syni mínum oft skilaboð í bundnu máli og Gummi taldi að eftirfarandi væri lýsandi fyrir þau samskipti.

Ég var að bjóða syni mínum í mat og sendi honum eftirfarandi skilaboð:

Ég vildi þér bjóða í bita
en eitt þarftu áður að vita
að í matinn ert þú
og þín eðla frú
sem aðeins þarf upp að hita.

Ég býst við að fá svar seinna í dag.

Sonur minn þáði matarboðið sem kom mér mjög á óvart. Sennilega hefur hann talið sig geta varið sig og kærustuna, enda ýmsu vanur úr uppeldinu. Ég er hins vegar á því að mæður viti alltaf hvernig börnunum þeirra líður og stundum betur en þau sjálf. Þess vegna sendi ég honum þessa vísu núna áðan:

Í dag ertu lítill og smár
og óendanlega gugginn og grár.
Með svarta bauga
undir sitt hvoru auga
en á morgun líður þér skár.

Eins og fram hefur komið á þessari síðu áður þá sendi ég syni mínum einstaka sinnum snilldarlega ortar limrur. Pilturinn tekur þessum ofsóknum með stóiskri ró, enda þekktur fyrir yfirvegun (sem hann auðvitað hefur erft úr móðurætt). Hér er nýjasta afurðin sem honum var send með tölvupósti í morgun. Drengurinn getur ýmsa lífsspeki numið af þessum kveðskap.

Þinn goggur er langur og mjór
en ekkert sérlega stór.
Þetta er myndarlegt nef
sem fær sjaldan kvef
en skynjar fljótt lyktina af bjór.

Þennan volduga kveðskap sendi ég syni mínum áðan og ákvað að deila snilldinni með ykkur:

Mig dreymdi mergjaða marfló
sem í fjörunni að mér hló.
Hún vatt upp sinn hrygg
og borðaði bygg
en lagðist svo niður og dó.

Þessar vísur hafa beðið sonar míns þegar hann opnar tölvupóstinn sinn.

Þú ert mögnuð mörgæs
og feldurinn þinn er svo næs.
Þín tunga frís
þegar étur þú ís
og með vængstúfunum gerir lok, lok og læs.

Þú máttugi mörgæsasmiður,
verðir þú uppiskroppa með fiður,
skaltu fara ber
að næsta hver
og stökkva svo norður og niður.

Með mörgæsablóð í æðum
er Andri með sínum skræðum.
Hann gengur um
með stelpunum
og tekur doktorspróf í ýmsum fræðum.

Alveg er þetta magnaður kveðskapur.


Gamalt vín á nýjum belgjum

Maðurinn minn lá inni á gamla blogginu mínu í dag og komst að því að konan hans er snillingur. Hann ákvað að ýmsar gamlar færslur væri nauðsynlegt að birta hér líka og við byrjum á færslum mínum um súluna á Goldfinger.

Ég hef nefnt áður hér á þessari síðu að ég er oft með seinheppnari manneskjum. Það sannaðist enn og aftur á föstudaginn var. Ég var að skrifa grein um súludans sem líkamsrækt og fékk þá stórkostlegu hugmynd að best myndi vera að myndskreyta greinina með myndum af sjálfri mér á súlunni. Vel gekk að fá leyfi til myndatökunnar og ég mætti klukkan átta á föstudagskvöldið á Goldfinger. Þar tóku á móti mér tvær þaulvanar og liprar dansmeyjar tilbúnar að kenna mér. Jónatan ljósmyndari var líka á staðnum og við vildum hefjast handa sem allra fyrst. Þá kom babb í bátinn. Ég mátti ekki fara á súluna í buxum því þá væri hætta á að ég rynni til og dytti í gólfið. Eftir japl, jaml og fuður varð úr að ég lagði til atlögu við súluna í hlemmistórum Bridget Jones nærbuxum og gegnsærri bleikri druslu sem önnur dansmeyjan kallaði pils. Þetta var ekki nóg því varla hafði ég lagt hönd á súluna þegar inn á staðinn stormuðu tólf karlmenn í steggjapartíi. Þegar þarna var komið sögu var eiginlega ekki um annað að ræða en að halda áfram og ljúka þessu og það gerði ég. Gummi var með mér því til stóð að við færum í heimsókn til vinafólks okkar að myndatökunni lokinni. Hann stóð við barinn og beið eftir konunni sinni þegar einn úr steggjapartíinu vatt sér að honum og spurði: Vinnur þú hérna. Nei, svaraði Gummi. Ég er að bíða eftir konunni minni. Hún er þarna á súlunni. Hann bandaði hendinni lauslega í átt að súlunni um leið og hann sleppti orðinu og maðurinn horfði opinmyntur á hann. Þetta kvöld var það pínlegasta sem ég hef lifað hingað til þó að nokkur önnur mætti nefna sem komast nærri þessu t.d. kvöldið sem Steingerður lék draug og hræddi líftóruna úr systur sinni og kvöldið sem ég, Magga og Halla fórum á Southern Comfort fyllerí. Fleira þarf ekki að segja um það kvöld. En eftir miklar vangaveltur og sálarstríð ákvað ég að birta söguna af sveiflum mínum á súlunni á Goldfinger í Vikunni og myndir af því líka. Það kemur í ljós fljótlega hvað broddborgurum þessa lands mun finnast um það.

Við Gummi fórum upp á spítala til pabba áðan og komum við hjá mömmu áður en við fórum heim. Þegar ég var að fara út frá gömlu konunni fannst mér ég endilega hafa verið með rauða sjalið mitt um hálsinn þegar ég fór að heiman. Við renndum því upp á spítala aftur og Gummi hljóp upp til að sækja sjalið. Hann greip í tómt og ég varð að játa að líklega hefði mér skjátlast. Þá stundi Mundi: Já, það er illt að vera kvæntur kalkaðri súlumey. Og með þessu hefur maður þolað súrt og sætt í 24 ár.

Oft er sagt um fólk og því lagt það út á versta veg að það eigi að baki skrautlegan feril. Ég var að hugsa um þetta orðatiltæki um daginn og það rann upp fyrir mér að ég á að baki mjög skrautlegan feril á fleiri en einu sviði. Á menntaskóla árunum vildi ég verða leikkona og lagði hart að mér til að svo mætti verða. Ég lék nefnilega í tveimur leiksýningum og í annarri lék ég asna en hinni hóru. Eiginlega má segja að ég hafi átt jafn skrautlegan leikferil og maðurinn sem hafði einu sinni stigið á svið og lék þá lík. Sjálfur sagði hann að haft hefði verið á orði í sveitinni að aldrei hefði sést dauðara lík í nokkru leikverki. Ég sneri mér eitt sumar að hótelstörfum og var treyst fyrir því verki að hræra skyr ofan í 4o ferðamenn. Ég ákvað að sykra skyrið vel til að hlífa viðkvæmum bragðlaukum óvanra Þjóðverja við sýrubragðinu en þegar skyrið batnði ekki heldur versnaði við sykurinn kallaði ég á kokkinn. Þá kom í ljós að ég hafði saltað skyrið en ekki sykrað. Þessu var bjargað fyrir horn en ég hætti við að gerast hótelstýra á stóru glæsihóteli í miðborginni. Næst sneri ég mér að bankastörfum og þar tókst mér að fylla reiknivél með því að hella yfir hana sérrístaupi. Mér er sagt að reiknivélin hafi ekki borið sitt barr síðan. Sennilega hefði verið vitlegra að senda hana á Vog fremur en á viðgerðarverkstæði. Blaðamennskan tók við af bankanum og hana er ég viðloðandi enn. Maður veit þó ekki hve lengi ef haft er í huga að ég sýndi þónokkur tilþrif á súlunni um daginn og í hádeginu í gær spurði ég yfirmann minn hvort hann væri afi ungrar dóttur sinnar.


Ágætt nýyrði

Var að lesa mbl.is og rakst á þessa skemmtilegu fyrirsögn Evrópusamningur gegn kynferðislegu ofbelgi gagnvart börnum. Nú velti ég fyrir mér hvort þetta sé nýyrði til komið vegna þess að offita barna eykst mjög hratt í heiminum.

 

 

Því miður er ég slíkur erkiklaufi að ég get ekki tengt fréttina hér inn á bloggið mitt en þið verðið bara að taka mín orð fyrir því að svona var fyrirsögnin.


Kirtlaveiki

Það hefur áður komið fram hér að ég elska meinlegar prentvillur og þýðingarvillur. Fyrir skömmu rakst ég á í kommenti á blogginu eina slíka sem mörgum hefur reynst hált á. Nefnilega að skrifa kirtill þegar átt er við kyrtil. Það er jafnan Kristur hinn krossfesti sem verður fyrir þessu því ég veit um tvö tilfelli þar sem hann og kyrtill hans eru til umræðu en í stað klæðnaðar frelsarans fer ritari óvart að tala um innyfli hans. Í flennistórri fyrirsögn í Tímanum hér í eina tíð var verið að fjalla um deilur innan kirkjunnar og sagt að aur og óhróður slettist á kirtil Krists vegna þess að prestar og prelátar gætu ekki setið á sátts höfði. Hvaða innkirtill varð fyrir slettunum fylgdi ekki sögunni. Kommentið snerist hins vegar um það að Kristur hefði verið svo örlátur að ef hann hefði átt tvo kirtla hefði hann gefið annan. Varla er þá um annað en nýrun að ræða því fæstir geta lifað án brisisins, heiladingulsins, lifrarinnar og svo framvegis. Sjálf hef ég ekki farið varhluta af svona villum því á tímabili var ég gjörn á að sleppa ð í maður þegar ég skrifaði. Gulla prófarkarlesari á Fróða var fljót að taka eftir þessu og við komumst að því að þetta væri eitthvað freudískt því ef þú sleppir ð verður orðið maður að maur.

Hundalíf

Stressið í umferðinni hér á landi er yfirgengilegt. Ég hef fundið fyrir þessu sem ökumaður en aldrei jafnáþreifanlega og eftir að ég eignaðist hundinn. Það er eins og fólki sé sama þótt það keyri á dýr. Ég hef ekki tölu á þeim skiptum sem við Gummi höfum átt fótum fjör að launa á leið með tíkina yfir götu. Dýrið er lagt af stað út á gangbrautina en bílarnir hægja ekki á sér og stoppa ekki. Þeir keyra viðstöðulaust að dýrinu og það eina sem við getum gert er að kippa því hastarlega til baka eða hlaupa yfir götuna til að forða slysi. Eitt sinni lenti ég í því að ung hjón keyrðu á bandið á milli mín og tíkurinnar. Ég sleppti ólinni umsvifalaust og hljóp æpandi upp Neðstutröðina því ólin var föst í bílnum. Til allrar lukku var þetta band sem gengur út úr trissu þannig að ég náði að stöðva bílinn áður en bandið þraut og ökumaðurinn fór að draga tíkina á eftir sér. Núna um daginn lenti ég svo í því að sjálfur bæjarstjórinn í Kópavogi keyrði nánast á Freyju. Hún var lögð af stað út á götuna en hann beygði viðstöðulaust inn í Neðstutröð og tíkin hrökk til baka þegar bílinn þaut framhjá henni. Það var snjór og illa skafið af rúðum bæjarstjórans en mikið var ég reið. Þessi maður fær ekki atkvæði frá mér svo lengi sem ég lifi.

Hið magnaða Snæfellsnes

Áhöfnin á h-tímarit gisti á Hótel Búðum um helgina. Við keyrðum vestur á laugardaginn í vitlausu veðri og þegar við komum var leiðinlegt rok. Þegar líða tók á kvöldið og stórkostlegan fjögurra rétta kvöldverð fór að lægja. Ég hef aldrei fengið annan eins mat og fyrir okkur var borinn þarna. Fyrst voru svartfuglsbringur í malt og bláberjasósu hreint sælgæti og næst kom skötuselur og skelfiskur marínerað í kryddi og einstaklega ferskt og gott. Lambaskankar og lambarifjur sem höfðu fengið að liggja og meyrna í kryddjurtum voru í aðalrétt og við gátum hreinlega ekki talað meðan við nutum þess að borða því þetta var svo óskaplega gott. Að lokum var frönsk súkkulaðikaka með ávöxtum og rjóma. Hreinlega yndislegt. Eftir matinn settumst við niður í skála hótelsins og nutum útsýnis yfir sjóinn og öldurnar. Mikið skil ég Gurrí vel eftir þetta. Ég held ég yrði líka að gera mér ferð inn í stofu til að kveðja útsýnið áður en ég héldi til vinnu á morgnana eins og hún ef ég hefði aðra eins sýn á sjóinn. Við fengum líka að sjá sel leika listir sínar framan við bryggjuna á Búðum og um nóttina var stjörnubjart og vaxandi tungl. Ég hef aldrei séð jafnmargar stjörnur og svo skærar. Við Gummi hengum út um gluggann í herberginu okkar í hálftíma og tímdum ekki að fara að sofa. Um tíma vorum við jafnvel að hugsa um að klæða okkur upp og fara út í miðnæturgöngu en úr því varð ekki. Ég mun sennilega sjá eftir því til æviloka að hafa ekki farið út að skoða stjörnurnar á Búðum.


Fylgt hvert fótmál

Ég er hægt og hægt að jafna mig eftir fríið. „Margt er skrýtið í henni versu,“ sagði kerlingin og ég verð að taka undir það að víst er það furðulegt að skella sér út fyrir landsteinana í hvíldarferð í sólina og koma dauðþreyttur til baka. Ég get ekki einu sinni afsakað mig með þrásetum á börunum. En svona er þetta. Freyja fagnaði okkur ákaflega þegar við komum heim og ætlaði aldrei að hætta að sýna gleði sína. Fyrstu tvo dagana fylgdi hún okkur líka hvert fótmál og þegar Gummi keyrði mig í vinnuna vildi hún fara með. Það er ákaflega óvenjulegt því blessuð tíkin vill yfirleitt ekki fara í bílinn. Í þetta sinn ákvað hún að gera undantekningu fremur en að missa liðið úr augsýn og þar með kannski úr landi.

Perlur fyrir svín eða hvað?

Ef það hefur farið framhjá einhverjum þá var ég að koma frá Tenerife á fimmtudaginn var. Við Guðmundur lentum í dýraævintýri eins og venjulega þegar við ferðumst en við lentum líka í annars konar ævintýri. Við heimsóttum síðasta daginn perlumiðstöð þeirra Tenerife-búa og fengum þar að sjá ostruperlur, ferskvatnsperlur og gerviperlur og lærðum að greina þarna á milli. Slíkt er auðvitað alveg nauðsynlegt fyrir eðalslekti eins og okkur. Hvur veit nema einhver Kolaportsfrekjan reyni ljúga inn á mann glerperlum fyrir fúlgur fjár og maður gleypti við því saklaus og eins og frumbyggi. En þetta var nú útúrdúr því ég ætlaði að segja ykkur frá ostrubrunninum góða. Hann var sem sé inn á verkstæði perlumiðstöðvarinnar þar sem starfsfólk var önnum kafið við að þræða perlur og dýra steina upp á band. Við brunninn lá töng og fyrir 20 evrur eða rétt innan við 2000 kr. máttum við veiða okkur ostru og fá perluna inni í henni metna. Mögulegt var að veiða perlu að verðmæti um 60 evrur mest þannig að þessum krónum var ekki illa varið í þessa tómstundaiðju. Ég greip töngina og heimtaði að fá að veiða og Guðmundur borgaði þegjandi eins og hann er vanur. Konan opnaði ostruna mína og tók til við að káfa á skelfisknum og viti menn allt í einu birtist lítil og óskaplega falleg hvít perla. Ég fékk að koma við hana fyrst allra og óska mér um leið en meðan ég var að skola hana í þar til gerðri skál sagði ostrukonan: Hér er önnur. Þetta er mjög sjaldgæft. Og viti menn, önnur alveg eins perla gægðist út úr ostrukjötinu og ég fékk að óska mér aftur og skola aðra perlu. Alma og Jóel, skipstjórinn hans Gumma og konan hans, voru þarna með okkur og við ákváðum strax að þetta væri til marks um að fyrstu barnabörnin mín yrðu tvíburar. Tvíburaperlurnar mínar lét ég svo setja í silfureyrnalokka og get trúað ykkur fyrir því að það allt annað að bera skartgripi sem maður hefur sjálfur veitt efnið í en aðra gripi. Alma veiddi líka og fékk eina stóra og fallega perlu sem hún lét setja í hálsmen. Guðmundur varð líka að reyna veiðinef sitt og veiddi sæta 7 mm perlu sem hann tók með sér heim.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband