Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007

Kristilegu kærleiksblómin spretta

Mikið var ég fegin að séra Hirti Magna var veitt aflausn af siðanefnd presta. Ég sá nefnilega ekkert ósiðlegt eða ljótt við orð hans. Ég er því reyndar hjartanlega sammála að sá sem telur sig hafa höndlað hinn eina rétta sannleika er hættulegur. Það er nefnilega stutt í að menn taki að sveifla sveipanda sverði og brenna óæskilegt fólk ef þeir eru of vissir í sinni sök. Kristur boðaði auðmýkt, umburðarlyndi og kærleika og stundum finnst mér trúlaust fólk eiga meira af slíku í sínum sálarkirnum en hinir kristnu. Þegar ég rekst á þannig tilvik tel ég sannast hið fornkveðna að kristilegu kærleiksblómin spretta kringum hitt og þetta. En víkjum að annarri siðanefnd og það er nefnd kollega minna sem dæmdu Kastljós og Helga Seljan sek um grófa móðgun í aðdraganda kosninga. Öðruvísi mér áður brá er það eina sem ég hef um þá niðurstöðu að segja.

Annir og meiri annir

Ég hef verið ákaflega önnum kafin að undanförnu og varla mátt líta upp úr verkefnum. Freyja er að verða búin að fá nóg af þessu og er tekin upp á því að rukka mig um göngutúra. Hún stillir sér upp fyrir framan mig og geltir þar til ég gefst upp, sæki ólina hennar og fer með hana út. Alveg er það merkilegt hvernig allt safnast ævinlega á örfáa daga. Stundum líða margar vikur án þess að nokkuð gerist en ef einhver slysast til að bjóða þér í afmæli hrúgast skyndilega inn tilboð um þetta og hitt sama dag eða dagana í kring. Á endanum er maður nánast kæfður í alls konar uppákomum.

Velst um með Gretti sterka

Ég veit að það er að æra óstöðugan nú á dögum að kvarta undan málfari. En mikið skelfing finnst mér alltaf hallærislegt þegar menn rugla saman tveimur orðatiltækjum. Mér finnst svo sem alveg hægt að virða unglingum það til vorkunnar nú til dags þótt þeir skilji ekki myndmál sem á rætur að rekja til atvinnuhátta fyrir alda en mér finnst erfitt að fyrirgefa kollegum mínum í blaðamannastétt, sérstaklega þeim sem eru jafnvel eldri en ég að kunna ekki með orðtök að fara. Ég rakst á grein eftir Pál Baldvin Baldvinsson á Netinu núna áðan sem hann hafði skrifað 19. júní. Þar sagði í fyrirsögn að íslenskar konur hefðu velt Grettistaki. Hingað til hafa menn nú lyft Grettistaki en velt þungu hlassi, enda var Grettir sterki ekki í vandræðum með að hefja steina á loft. Hann þurfti ekki að velta þeim til að færa þá úr stað.

Aftur bara í einu starfi

19. júní er kominn út og ég bara í einu starfi í augnablikinu. Ég flutti erindi í kaffisamsæti Kvenréttindafélagsins í gær og læt það fylgja hér.

Þegar ég samþykkti að taka að mér ritstjórn 19. júní bjóst ég við að þar fengi ég gott og þarft verkefni í hendurnar en satt að segja datt mér ekki í hug að um yrði að ræða eitt áhugaverðasta og skemmtilegasta verk sem ég hef unnið á átján ára ferli í blaðamennsku.

Í ár eru liðin hundrað ár frá stofnun Kvenréttindafélags Íslands og okkur í ritnefndinni fannst því við hæfi að velta upp þeirri spurningu hvort konur hefðu gengið til góðs þessi hundrað ár. Þeir formenn félagsins sem enn voru lifandi voru því teknir tali og þeir spurðir um helstu baráttumál félagsins í sinni formannstíð og hvort þeim þætti eitthvað hafa áunnist. Það kom mér verulega á óvart að þótt mörg mál væru enn á dagskrá og óleyst hversu margt hafði þó áunnnist og má nefna skattamálin, fóstureyðingafrumvarpið með langa nafninu og fleiri mál.

Líkt og margar aðrar konur hefur mér stundum fundist jafnréttisbaráttan vera eins og martröð þar sem maður reynir að hlaupa en er fastur í sömu sporum og ófreskjan fyrir aftan mann vex og eflist. Þótt vissulega hafi ekki tekist að ná þeim punkti að Kvenréttindafélagið verði óþarft. Kannski er það líka jafngott því sumar kvennanna töluðu um að Kvenréttindafélagið væri skemmtilegasta félag sem þær hefðu komið í. Það gæti því verið ágætt að stefna að því að félagið fengi annað hlutverk þegar fullu jafnrétti er náð.

Á forsíðunni er svo Guðrún Eva Mínervudóttir þessi glæsilega og áhugaverða skáldkona sem sýnir okkur svo ekki verður um villst að víst höfum við tekið risaskref fram á við því ekki er langt síðan að það var talin ljóður á ráði kvenna að þær væru að bögglast við að skrifa og þær sem það gerðu fóru með það eins og mannsmorð. Flestar skrifuðu fyrir skúffuna og datt ekki einu sinni í hug að reyna að gefa sitt efni út. Erlendis skrifuðu þær undir dulnefnum og nægir að nefna Bronté systur, George Eliot (Mary Ann Evans) og George Sand (Armantine Dupin) í því sambandi.

Ein af þeim alhæfingum sem alla jafna heyrist um konur er að þær séu sjúkar í föt og þurfi á mun fleiri flíkum að halda en karlmenn. Ritnefndin ákvað því að skoða þau áhrif sem klæðnaður hefur haft á líf kvenna fyrr og síðar og athuga hvort við höfum gengið til góðs í þeim efnum líka. Í ljós kom að þótt ekki lengur þyki goðgá og jafnvel ólöglegt að konur gangi í buxum eru ákveðnar samfélagslegar kröfur gerðar til klæðnaðar þeirra sem beinlínis óþægilegt getur verið að uppfylla. Við búum við það frelsi að geta valið að vera púkó en vonandi kemur einnig að þeim degi að konur geti valið sér þann klæðnað sem þægilegastur er við tilteknar aðstæður án þess að vera dæmdar á einn eða annan hátt.

Við skoðuðum viðhorf kennara í grunnskóla og veltum fyrir okkur hvort ekki væri nauðsynlegt að hyggja að jafnréttismálum í kennslustofunum. Í þeirri grein eru nefnd sláandi dæmi um hvernig kennarar geta haft viðhorfsmótandi áhrif og sú undarlega staðreynd tíunduð að sárafáir kennaranemar kjósa að fara í kynjafræðikúrs sem boðinn er í vali í KHSÍ og þeir fáu sem hann völdu í fyrra gerðu það flestir fyrir mistök.

Klámið og líf þeirra kvenna sem starfa í klámiðnaði var einnig til skoðunar, ennfremur samburður á jafnrétti í Evrópu og Bandaríkjunum og byggt á grein í Newsweek svo og bókinni Það er staður í helvíti fyrir konur sem hjálpa ekki hver annarri. Þar er komið inn á hversu nauðsynlegt það er fyrir konur að mynda og viðhalda eigin tengslanetum fremur en að reyna að fá hlutdeild í karlanetinu.

Allt þetta var gaman að skoða og vinna að en þegar upp er staðið höfðu viðmælendur mest áhrif á mig. Ég talaði við Sigurveigu Guðmundsdóttur barnakennara úr Hafnarfirði sem var formaður Kvenréttindafélagsins á árunum 1969-1971. Sigurveig er leiftrandi gáfuð kona, ákaflega skemmtileg og hafði frá mörgu að segja. Mér þótti merkilegt að heyra að hún hafði reynt að sameina hópinn sem hér barðist fyrir auknum réttindum kvenna og vildi bjóða Rauðsokkum inngöngu í Kvenréttindafélagið. Það gekk ekki eftir, enda voru skilin milli vinstri og hægri í stjórnmálum þá skarpari en nú og konur ekki tilbúnar að brjóta Berlínarmúrinn upp eigin spýtur á þeim árum.

Sigríður Lillý Baldursdóttir segir í viðtali við hana í blaðinu að hún vilji gefa atkvæði sitt þeim þögla meirihluta sem standi að baki forkólfanna og sýni með samstöðu sinni hvers íslenskar konur er megnugar. Ég talaði við konu úr þeim hópi. Sveinbjörg Hermannsdóttir hefur í tæplega hálfa öld starfað í Kvenréttindafélaginu og reynt að leggja því lið eftir megni. Hún er komin hátt á tíræðisaldur og lifði það að standa á Austurvelli með móður sinni árið 1915 og fagna kosningarétti og kjörgengi íslenskra kvenna. Sveinbjörg hefur auk þess einstakt viðhorf til lífsins, er ern og bráðgáfuð og skilur eftir sig spor í hjarta allra sem henni kynnast. Að fá tækifæri til að hitta þessar tvær konur var dýrmæt reynsla og nokkuð sem ég er ákaflega þakklát fyrir.

Í blaðinu er fleira skemmtilegt efni m.a. grein um hina gömlu mýtu sem trúað hefur verið á frá aldaöðli og getur um í bæði Eiríks sögu og Lýsisströtu eða þá að konur refsi körlum sínum með því að neita þeim um kynlíf. Því er velt upp hvort þetta geti hugsanlega staðið í einhverju samhengi við það konu langi lítið til að eiga kynlíf með karli sem hefur sært hana. Einnig er líka fjallað um forkólfinn og eldsálina Þorbjörgu Sveinsdóttur sem er ein þeirra merku kvenna sem þarft verk væri að skrifa bók um.

Ég get ekki sagt skilið við blaðið okkar án þess að nefna ritnefndina sem vann ómetanlegt starf. Við vorum þrjár í nefndinni: Hrund Hauksdóttir, Svanhildur Steinarsdóttir og ég. Hrund er eðalblaðamaður sem ég þekkti af öðrum vettvangi og vissi vel hvers var að vænta af henni. Svanhildi systur mína þekkti ég af góðu einu en komst ekki að því fyrr en nú hversu ritfær hún er. Sú venja er rík í mínum systrahópi að leita innan hópsins þegar á þarf að halda, enda erum við fimm og því margskonar hæfileika og getu að finna hjá hverri og einni. Ég hafði lesið eina blaðagrein eftir Hildu og bað hana því að taka að sér það verkefni að skrifa um konur og klæðnað. Það er skemmst frá að segja að hún gerði það með prýði sem varð til þess að ég bætti á hana verkefnum og hún efldist við hverja raun.

Bæði Hrund og Hilda unnu frábært starf og ég er þakklát fyrir að hafa haft á að skipa slíku einvalaliði. Bára Kristinsdóttir ljósmyndari skilaði einnig stórkoslega fallegum myndum og vann starf sitt af elju og sjálfstæði. Hún er draumastarfsmaður því hægt er að treysta henni fullkomlega og allt sem hún segir stendur eins og stafur á bók. En nú er þetta verkefni búið og ég leyfi mér að fullyrða að það verður eitt þeirra eftirminnilegustu sem ég hef unnið og ég er stolt af blaðinu okkar.


Ævintýri á gönguför

Við Svava systir brugðum okkur í gönguferð um Elliðaárdalinn í gærkvöldi. Svava var með sína glæsilegu dóttur, Hildu, og ég með kjörbarnið mitt unga, Freyju. Veðrið var yndislegt og vinalegur árniðurinn barst okkur til eyrna gegnum gróðurinn. Við gengum meðfram mýrarfláka og við systur komum auga á þétta þúfu af því sem okkur sýndist vera reyrgresi. Að sjálfsögðu vildum við sannreyna hvort svo væri svo við lögðum af stað niður í mýrina. Okkur hafði hins vegar láðst að gera ráð fyrir smekk kjörbarns míns og fyrr en varði hafði gulur og hvítur hundur stungið sér ofan í illa lyktandi mýrarrauðann. Mýrin var ótrúlega blaut og við forðuðum okkur eins fljótt og við gátum með óhrjálegan moldarbrúnan og tætingslegan hund okkur við hlið. Auðvitað taldi tíkin sér skylt að flaðra upp um okkur til að gefa okkur hlutdeild í þessum fyrirtaks skít sem hún hafði orðið sér út um en mér hætti að finnast þetta fyndið þegar hún hóf að velta sér upp úr úldnu heyi í skógarbotninum. Hilda og Svava hlógu sig máttlausar en mér var ekki skemmt. Út úr skóginum birtist drullugt og illa lyktandi kvikindi með heyviska standandi út úr feldinum hér og þar. Já, gott fólk leið getur lyktin orðið. Þegar við komum í bílinn aftur reyndum við að koma óhreinindaburstanum fyrir í skottinu en tíkin veit hvað hún vill. Hún streittist á móti af öllum kröftum allt þar til við leyfðum henni að stökkva upp í fangið á Hildu Margréti í aftursætinu. Hilda af einstakri ást sinni á dýrum þoldi bílferðina með þetta í fanginu og gerði sitt besta til að hylja sig með teppi svo blautur, skítugur feldurinn kæmi hvergi við hana. Jamm, þetta var sannkallað ævintýri á gönguför.

Tækniraunir

Ég er sérlega lagin við að koma vélum í slíkt uppnám að þær funkera ekki rétt. Að því tilefni verð ég að segja ykkur raunasögu helgarinnar. Þar sem ég hef ritstýrt og skrifað í tvö blöð núna í maímánuði og fram í júní verður að játa að heimilið var orðið ágætiskandídat í þáttinn How Clean is Your Home? En því miður eru kjarnakonurnar bresku fjarri góðu gamni hér á landi þannig að ég varð að druslast til að taka til sjálf. Á föstudagskvöld var hafist handa við að skrúbba, bóna og þrífa ryk af húsgögnum. Á laugardagsmorgun var ryksugan svo tekin fram og byrjað að ryksjúga kofann. Eftir skamma stund gaf sig eitthvað í röri þessi hentuga tækis sem gerð það að verkum að ég datt fram fyrir mig og næstum niður í gólf. Engin leið var að laga þetta þannig að ég og vélin fórum eins og ryksjúgandi fornaldardýr um húsið ýmist uppréttar í fullri lengd eða samanherptar eins og Quasimodo í kirkjuturninum. Hreyfingarnar voru skrykkjóttar með afbrigðum og hvert meðalskrímsli hefði verið hreykið af slíkum tilþrifum. Þessi ósköp drógu svona frekar úr athafnagleði minni en ég varð að slá garðinn. Þar var um að litast eins og í þéttum regnskógi og meira að segja hundurinn átti orðið í basli með að ferðast þar um. Ég hófst handa með miklum látum og sló eins og herforingi eða allt þar til vélin steytti á steini sem lá vandlega falinn í frumskógarbotninum. Eftir það bar hún ekki sitt bar og murraði ískyggilega þegar ég setti hana í gang aftur. Skemmst er frá því að segja að hún dó frá hálfslegnum garði og ég stóð eftir slegin og hissa. Andri kom til bjargar í morgun og sló restina af garðinum með lánsvél en hér með er auglýst eftir taugasterkri sláttuvél á góðu verði.

Eitruð andagift

  Gift er eitur á dönsku og andagift getur sannarlega verið eitruð. Þessa vísu sendi ég syni mínum áðan til að tryggja að hann hefði það nú ekki of gott úti á Ítalíu þar sem hann spókar sig nú með sinni eðlafrú.

Að vera aðþrengd eiginkona
alltaf er svona og svona
sagði sú eðla frú
sem Bush er trú.
Eða það verðum við að vona.

Úr kotungi í konung

Ég heyrði um daginn að þeir sem eru óánægðir með nafnið sitt eða vilja bæta við sig svona eins og einu stykki í viðbót geta nú keypt af Ríkinu millinafn fyrir 4.400. Ég hef alltaf verið svolítið óánægð með nafnið mitt og þegar ég var krakki hélt ég því blákalt fram að Steingerður þýddi klósett á kínversku. Systur mínar eru mjög ánægðar með að kunna þetta eina orð í kínversku og hafa oft nefnt hversu hagnýtt það sé að kunna skil á einmitt þessu orði þurfi maður að ferðast um Kína. Ég ætla ekki að tjá mig um það en var að hugsa um að bæta við mig eins og einu til tveimur nöfnum. Í þessu sambandi er vert að benda á að konungborið fólk heitir alltaf a.m.k. þremur nöfnum þannig að maður getur breyst úr kotungi í konung í einu vetfangi með hjálp þessa nýja og ódýra úrræðis. Þegar ég var barn vildi ég heita Rósalind, Sóley eða Ástrós. Núna líst mér betur á gömul ensk drottningarnöfn eins og Godíva, Guinevievre eða Eleanore. Þessi nöfn yrðu sennilega ekki samþykkt svo ég ætla að láta mér nægja að heita Steingerður Margrét Þórhildur Ingileif Kóngódía Steinarsdóttir. Herlegheitin kosta ekki nema 17.600 kr. Svo ætla ég að velja handa öllum systrum mínum millinafn og gefa þeim í afmælisgjöf. Mér finnst til dæmis að Svövu Svanborgu hæfði ágætlega að heita Appólónía, Helen Sjöfn Geirþrúður er líka hljómfagurt og Margrét Marsibil einstaklega stuðlað og fínt og að lokum er hrein snilld að heita Svanhildur Evangelína.

Afmælisbros

okt05 060 Þessi yndislega mynd var tekin af Freyju þegar hún varð árs gömul. Mamma og Svava komu í afmælisveisluna og Svava tók þessa snilldarlegu mynd.

Þrjár kynslóðir

des04 123 Þarna er Eva að gera hárið á mér jólalegt og á bak við okkur má sjá mömmu. Þarna eru því þrjár kynslóðir kvenna.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband