Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007

Fyrirsætan Freyja

Ég var að fletta Fréttablaðinu í morgun þegar ég sá mynd af reffilegum gulum hundi á blaðsíðu átta sem mér fannst ég aldeilis kannast við. Þetta var alveg eins og Freyjan mín svo ég hringdi niður á blað og viti menn. Þessi mynd var tekin á Þingvöllum árið 2005 þegar haldið var upp á 90 ára afmæli kosningaréttar og kjörgengis íslenskra kvenna. Og mikið rétt ég var þar með Freyju svo það er staðfest Freyja er fín fyrirsæta.

Kippt inn í raunveruleikann

Undanfarna daga hef ég gengið um í einhvers konar ljóðrænni leiðslu. Allt sem ég sé vekur með mér hvöt til að reyna að lýsa því á hátíðlegan hátt með orðum. Sennilega er þetta haustið og haustlitirnir. Mér finnst dulúð alls staðar og eitthvað liggja í loftinu. Mér var hins vegar kippt allillilega inn í raunveruleikann í gönguferðinni í morgun þegar Freyja nýtti sér draumlyndi mitt og æddi á eftir ketti inn í runna. Ég var þessu ekki viðbúin þannig að ég hentist á eftir tíkinni og skall framfyrir mig. Til allrar hamingju var runninn nægilega sterkur til að bera mig þannig að ég lenti ekki með andlitið beint í moldina. En þetta nægði til þess að kenna mér að betra er að fylgjast með en að vera einhvers staðar í öðrum heimi.

Haustlitir

Hvert sem litið er minnir haustið á sig. Haustlitirnir birtast í gluggum tískuverslana og á laufinu á trjánum. Súldin og rigningin eru líka óhjákvæmilegur fylgifiskur haustsins. Mér finnst þetta dásamlegur tími. Tískan mun fallegri og skemmtilegri en sumartískan. Það er eitthvað svo varanlegt og traust við klassísk sniðin, brúna, gráa og fjólubláa litina. Það er líka fátt skemmtilegra en að tína njóla, beitilyng og óæt ber til að bera inn í húsið og skreyta með. Reyniber, rósaber og sortuber eru tilvalin. Hálfsölnuð grös, lauf og aðrar haustlegar jurtir eru líka frábært skraut. Reyndar hrynur svolítið af þessu en skítt með það. Ég hef að vísu ekki tínt hvönn síðan eldhúsveggurinn lifnaði við hjá mér forðum en allt annað tíni ég enn. Hvannarskrattarnir eru nefnilega hættulegar að því leyti að alls konar skorkvikindi gera sér heimili í stönglunumm þegar líða tekur á sumarið. Ég vissi þetta ekki og tíndi risavönd af glæsilegri ætihvönn í Elliðaárdalnum. Ég hengdi hann til þerris í eldhúsloftið og nokkru síðar leit ég upp úr eldamennskunni og sá hvar heil herdeild svartra bjalla stormaði niður eldhúsvegginn hjá mér í von um að finna vænlegri bústað en deyjandi hvannastóð. Ég æpti upp yfir mig, fleygði hvönninni í ruslið og sótthreinsaði eldhúsið.

Grátur og gnístran tanna

Við Eva fórum og heimsóttum Gurrí í dag og þótt allir hafi verið hálfskælandi þegar heimsókninni lauk var þetta samt hin indælasta dvöl í Himnaríki. Ástæðan fyrir táraflóðinu var sú að Gurrí leyfði okkur mæðgum að horfa á Bridge to Terabitia og ég háskældi í lokin. Eva segir núna með karlmannlegri kokhreysti að hvorki hún né Gurrí hafi verið skælandi en ég er sannfærð um að ég heyrði fleiri sjúga upp í nefið en mig. Jónatan Livingstone mávur kom í heimsókn og Kubbur og Tommi tóku okkur afskaplega vel. Capuccinóið var indælt sérstaklega bollinn með kattarhausnum. Þannig að þetta var indæl eftirmiðdagsstund.

Ellileg dóttir

Eva hóf störf sem skólaliði í Ísaksskóla núna í vikunni og gengur svona líka vel í vinnunni. Menn eru yfir sig hrifnir af henni og hún kemur ljómandi heim á hverju kvöldi því alltaf er verið að hrósa henni. Í gær vék sér að henni lítil fimm ára stelpa og sagði: „Hvað heitir þú?“ „Eva,“ var svarið. „Hvað ertu gömul?“ kom þá. „Hvað heldur þú?“ Spurði Eva. „Fjörutíu og fimm,“ sagði litla krílið glaðlega. Dóttir mín er greinilega ekkert sérlega ungleg.


Haustið er komið

Haustið er komið. Á því er engin vafi lengur. Í loftinu var einhver svalur tærleiki í morgun sem boðar komu haustsins en skýrari vísbending en umferðin er sjálfsagt vandfundin. Á leið í vinnuna í morgun var þyngri umferð en verið hefur í allt sumar. Hvert sem augað eygði mátti sjá bíla mjakast áfram og helstu umferðaræðar í Kópavogi voru stíflaðar eins og kransæðar rétt fyrir hjartaáfall. Ég var svo heppin að aka í öfuga átt við meginstrauminn og komst því nokkuð liðlega á leiðarenda. Gatnaframkvæmdir hér í bæ (Kópavogi) eru þó síst til þess fallnar að greiða mönnum leiðina nú. Dalvegurinn lokaður og hjáleið þar um planið hjá Bónus sem þegar er nokkuð upptekið vegna byggingaframkvæmda og Nýbýlavegurinn undirlagður. Kópavogur fer brátt að standa undir nafni aftur sem það sveitarfélag landsins sem auðveldast er að villast í. 


Með skammarroða í kinnum

Við Freyja gengum á Úlfarsfellið í gær. Ég hef aðeins gengið þrisvar á fjöll í sumar en í fyrra var ég einstaklega dugleg við þetta og fór á Úlfarsfellið einu sinni til tvisvar í mánuði. Núna hef ég aðeins farið eina ferð þarna upp og var því nokkuð annar bragur á mér en fyrir ári. Þá skokkaði ég þetta léttilega upp á tuttugu mínútum (þannig er það að minnsta kosti í minningunni) og hló hæðnislega þegar menn kölluðu þetta fjall. Sagði borubrött: „Úlfarsfellið er hóll.“ Í þetta sinn skreiddist ég sem sagt upp brekkurnar móð og másandi. Tíkin horfði á mig vorkunnaraugum og velti fyrir sér hvort það tæki því að bíða eftir þessum aumingja. Ég taldi upp allar þær afsakanir sem mér duttu í hug: Ég er illa fyrirkölluð, þreytt eftir daginnn og fleira. Allar féllu þær þó um sjálfar sig þegar kona á aldur við mömmu strunsaði fram úr mér og komst á toppinn langt á undan mér. Ég verð að gera eitthvað í mínum málum.

Lestrarhelgar

Um síðustu helgi fékk ég nýjustu Harry Potter-bókina í hendurnar og lá yfir henni til klukkan að verða fjögur aðfararnótt sunnudags og núna datt ég ofan í A Thousand Splendid Suns eftir Khaled Hosseini. Ég hreinlega gat ekki lagt hana frá mér og las og las og las. Sagan er ótrúlega falleg og grípandi og þessi er sannarlega ekki síðri en Flugdrekahlauparinn.

Fremur lítið berjablá

Ég elska að fara í berjamó. Alveg frá því ég var barn og fékk í fyrsta skipti að henda mér niður á þúfu sem var krökk af berjum hef ég dýrkað ber. Það höfðaði strax til hóglífisseggsins í mér að sjá þessa ofgnótt af sætukoppum og vita að ég gæti tínt og borðað eins mikið og ég mögulega kæmi niður. Þess vegna hef ég hlakkað til þess í allt sumar að komast í ber í haust. Ég var viss um að eftir þetta mikla hlýindasumar myndu bíða mín stór og safarík ber um alla móa í stórum hrúgum. Annað hefur komið á daginn eða að minnsta kosti hér í nágrenni Reykjvíkur. Ég ætlaði að veltast rymjandi um móana meðan tíkin hlypi laus og frjáls í kringum mig en í Heiðmörk, við Hvaleyrarvatn, í hrauninu á Álftanesi og við Hafnarfjörð er sáralítið af berjum. Vissulega má finna nokkur ber á sumum þúfum en þetta er ekkert miðað við það magn sem ég átti von á og berin eru lítil. Í gönguferðinni í gær rakst ég á nokkrar sæmilegar þúfur og át af þeim en þetta var ekkert til að rýta af ánægju yfir.

Í mínum villtustu draumum

Ef draumar endurspegla undirmeðvitund manns er ég ekki alveg viss um að mig langi til að kynnast þeirri persónu sem leynist undir yfirborðinu hjá mér. Draumar mínir eru nefnilega með eindæmum ruglaðir oft og tíðum. Til að mynda dreymdi mig í nótt að ég væri stödd á dansleik og maður að nafni Lalli elti mig út um allt til að reyna að kyssa mig. Ég kærði mig ekkert um kossa hans, enda var hann yfirmátakauðalegur langur og mjór með stórt nef. Hann minnti einna helst á lýsinguna á Guðmundi, syni Bárðar á Búrfelli úr Pilt og stúlku sem við öll munum sem lásum Lesbók nr. eitthvað í barnaskóla. Ég setti þó ekki útlit mannsins mest fyrir mig heldur fannst mér í draumnum það lýta hann einna mest að hann héti Lalli. Já og í ofanálag hefur bergmálað í hausnum á mér í allan dag ljóðlína eftir Steinunni Sigurðardóttur: „Sál mín var dvergur á dansleik í gær.“ Þetta getur ekki verið eðlilegt.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband