Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Annasöm helgi

Helgin var óvenjulega viðburðarík og ætli það sannist ekki enn og aftur að þegar ein báran rís er önnur stök. Við Freyja heimsóttum Sivvu vinkonu okkar á laugardaginn og þessi elska bauð mér í mat. Hundurinn var of blautur eftir göngutúrinn okkar til að vera húsum hæfur svo hann var sendur heim. Dóttir Sivvu var líka í heimsókn með mánaðargamlan son sinn. Barnið er svo sjúklega fallegt að við lá að ég tapaði glórunni. Maður gleymir alveg hvað þau eru lítil og ótrúlega fullkomin. Nú verð ég að drífa mig til að sjá barnabarnið hennar Helen áður en það nær fermingaraldri. Maturinn hjá Sivvu var líka þvílíkur draumur að ég get ekki hætt að hugsa um hann. Þau voru með lambakjöt, kjúklingabringur og svínalundir sem Sivva maríneraði á mjög einfaldan hátt. Kjötið var svo meyrt og gott að það hreinlega bráðnaði á tungu. Hún er snillingur í matseld þessi kona, eins og reyndar mörgu öðru. Í sumar var hún að læra tækni við grafíkmyndagerð úti í Cornwall og kom heim með ótrúlega flottar myndir. Það er líka alveg með ólíkindum hvað henni tókst að afkasta á einni viku.

Í gær gekk ég svo um Laugarnesið með Freyju í svölu veðri og hafgolu. Þessi skemmtilega perla hefur alveg farið framhjá mér hingað til og ég heillaðist alveg af sérstæðum móbergskletti sem stendur einn og sér á gulri skeljasandsströnd. Hann er bæði sérkennilegur í laginu og merkilegt að sjá hann þarna því allt í kring er venjulegt grágrýti. Við systur hittumst svo vestur í bæ og fluttum það sem eftir var að flytja fyrir Gullí frænku og fengum góða líkamsrækt við það. Í gærkvöldi fór ég svo á fyrsta upplestur höfunda á bókmenntahátið í Iðnó. Þetta var óskaplega gaman. Sjón opnaði kvöldið með því að lesa Zimbawíst ljóð en skáld í Pen-klúbbnum gerðu þetta í tuttugu löndum til að mótmæla ógnarstjórn Mugawbes. Guðrún Helgadóttir og Steinunn Sigurðardóttir voru fulltrúar Íslands en ítalska ljóðskáldið Claudio Pozzani heillaði mig alveg. Hann las upp verk sín með tilþrifum því hann söng, rappaði, sönglaði, sló taktinn og bjó til undarleg hljóð til að auka áhrif ljóðanna. Hann var stórkostlegur. Ástæða þess að ég dreif mig þarna niður eftir þrátt fyrir flutningsþreytuna var hins vegar J.M. Coetzee og hann brást ekki. Hann las úr nýjustu bók sinni Diary of a Bad Year sem ég hlakka til að lesa. Kvöldið í heild var svo frábært að ég er að hugsa um að fara á fleiri upplestra í Iðnó í þessari viku. Meðal gesta á þessari hátíð eru Roddy Doyle sem mér finnst einstaklega skemmtilegur höfundur, Jung Chang sem sannarleg vakti mann til umhugsunar um ástandið í Kína með bók sinni Villtir svanir, Tracy Chevalier sú sem skrifaði um stúlkuna með perlueyrnalokkinn sem Vermeer málaði og Yasmin Crowther en Saffran-eldhúsið kom út hjá JPV nýlega og er frábær bók. Ég verð svo að nefna Marinu Lewycka sem ég held óskaplega upp á en þeir sem ekki hafa lesið Stutt ágrip af sögu traktorsins í Úkraínu ættu að gera það strax.


Klóra sína lúsugu búka

Ég fékk hreint unaðslegan tölvupóst áðan. Kunningjakona mín sem er af þýskum uppruna sendi mér póst þar sem minnst var á Þjóðarbókhlöðu og Landsbókasafn en eitthvað brenglaðist pósturinn í meðförum milli minnar tölvu og hennar. Þannig varð Landsbókasafn Íslands að Landsbúkasafni Öslands og Þjóðarbókhlaðan að Þjóðarbúkhlöðunni. Þetta hefur skemmt mér ósegjanlega mikið síðastliðinn hálftíma. Af einhverjum ástæðum finnst vinnufélögum mínum þetta ekki alveg jafnfyndið svo þeir kíma aðeins lítillega á meðan ég veltist um í viðurstyggilegum hláturrokum og velti fyrir mér hvernig þjóðarbúkur Íslendinga líti út. Í póstinum var líka talað um skúlabúkaksafn. Hugsið ykkur alla aumingja Skúlana sem nú trítla búklausir um götur bæjarins vegna þess að búkar þeirra eru orðnir safngripir. Þetta minnir okkur auðvitað líka á vísuna góðu um Mýramenn sem í koppa sína kúka og klóra sína lúsugu búka. Já, ætli búkurinn sé ekki suður í Borgarfirði rétt eins og botninn.

Ekki fyrir alla þessi brúnkukrem

Þegar ég var að vinna á Vikunni kom eitt sinn til okkar ung fegurðardrottning í forsíðumyndatöku. Hún hafði með sér eitthvert sprei í brúsa sem átti að virka svona líka flott á fæturna á manni. Hún sýndi mér þetta og spreiaði létti yfir leggina og viti menn fínleg og falleg húð lagðist yfir fallega fætur hennar. Ég heillaðist af þessari lausn, enda alræmdur sokkabuxnamorðingi, eiginlega raðmorðingi því venjulega duga ekki tvær á kvöldi. Nú en víkjum aftur að fyrri sögu minni. Ég sem sé keypti þennan fína úða sem heitir Airbrush og er úðað á lappirnar. Þá á að setjast fín og jöfn húð yfir fótleggina sem hylur alla smávægilega galla og gefur fótunum brúnan og sumarlegan lit. Okkur Gumma var boðið á opnun málverkasýningar og ég leit svo á að varla væri betri tími til að láta á brúsann góða reyna en einmitt þá. Ég úðaði og úðaði, spreiaði og spreiaði en alltaf voru helgidagar og hvítir blettir á löppunum á mér. Í örvæntingu kallaði ég á eiginmanninn því hann er handlagnari og nú hófst lagfæringin. Ég stóð gleið og hélt upp um mig pilsinu meðan eiginmaðurinn úðaði upp og niður lappirnar á mér. Ég var eins og paródía af Marilyn Monroe yfir útblástursgrindinni forðum. Honum gekk lítið betur en mér og alltaf vantaði einhvers staðar smá í viðbót til að jafna litinn. Að lokum vorum við orðin svo sein að við urðum að æða út úr dyrunum og lappirnar á mér voru enn blautar og smituðu lit í pilsið mitt, á bílsætið og utan í einhvern mannaumingja sem var svo óheppinn að ganga fram hjá mér. Ekki skánuðu skallablettirnir við það. Ég sat prúð og stillt allt kvöldið með lappirnar kvenlega krosslagðar undir pilsið. Aldrei verið jafnpen á ævinni. Brúsinn á að duga í 6-8 skipti en eftir þetta eina skipti hjá mér er ekki meira en svo eftir en að duga á eina löpp á meðalflugu. Kannski óþarft að taka það fram en ég mæli ekki með þessu í stað sokkabuxna. Þótt það sé dýrt að eyðileggja einar sokkabuxur á kvöldi er enn dýrara að úða á sig 2400 kr. og vera skellótt ofan í kaupið.

Sælgætissúpa í góðum félagsskap

Í hádeginu fór ég á súpufund hjá Kvenréttindafélaginu og hlustaði á Maryam Namazie flytja erindi er nefnist: Women´s Rights, the Veil and Islamic Rule. Hún kom hingað til lands á vegum Siðmenntar og á vef þeirra, www.sidmennt.is er að finna grein eftir hana sem þýdd hefur verið á íslensku og þar sem hún segir svipaða hluti og hún gerði í erindinu í dag. Þetta var einstaklega áhugavert sérstaklega í ljósi þess að hún benti á að trúarbrögð og ríkisvald verður skilyrðislaust að aðskilja. Ef það er ekki gert fara trúarbrögðin að hafa óæskileg áhrif á lagasetningar og framkvæmd laga í samfélaginu. Eins og hún benti á þá eru trúarbrögðin ekki slæm en þegar þau eiga að ráða lífi þjóða er skrattinn laus, ef svo má að orði komast. Trú er einkamál hvers og eins og hver einstaklingur á að iðka sína trú á sinn hátt án þess að reyna að kúga henni upp á aðra. Og í ljósi þessi er ekki tími til kominn að við horfumst í augu við það að þjóðkirkja er tímaskekkja jafnvel þótt hún sé jafnafskiptalítil og sú íslenska.

Hér eru nokkrar frekari upplýsingar um Maryam. Hún fæddist í Íran en fluttist síðar með fjölskyldu sinni til Bretlands. Hún menntaðist í Bandaríkjunum þar sem hún bjó um nokkurt skeið. Hún er nú búsett á Bretlandi og hefur látið mjög að sér kveða í baráttunni fyrir auknum mannréttindum kvenna einkum íslamskra kvenna. Hún er harðorð í garð Íslamstrúar og hefur reynt að aðstoða flóttamenn frá Íran og þá sem búa þar enn og þjást undir stjórn klerkanna. Frekari upplýsingar um Namazie er að finna á heimasíðu hennar http://www.maryamnamazie.com/


Enn meiri orðhengilsháttur

Ég elska orð og hefur alltaf fundist yndislega gaman að skoða þá fjölmörgu og mismunandi vegu til að raða þeim saman. Orðin eru legókubbar sem við getum öll notað. Hins vegar finnst mér alltaf svolítið sorglegt að sumir virðast hengja alltof mikið á og við orðin. Líkt og ég kom að í fyrri færslu um fötlun þá hefur á undanförnum áratugum ríkt einhver pólitísk rétthugsun sem segir að við þurfum að ritskoða gömul og gild orð og breyta þeim til að þau móðgi nú engan. Til að mynda varð þroskaheftur að þroskahamlaður og ef ég man rétt þá eru fatlaðir nú orðin hreyfihamlaðir eða ferlihamlaðir. Um tíma máttu konur ekki vera menn þannig að blaðamaður varð blaðakona, ritstjóri ritstýra, forstjóri, forstýra og þannig mætti lengi telja. Sjálfri er mér alveg sama hvort ég er blaðamaður eða blaðakona, ritstjóri eða ritstýra. Hvoru tveggja er að mínu mati gott og gilt. Mér hefur heldur aldrei fundist hjúkrunarfræðingur eitthvað merkilegri en hjúkrunarkona en skilst á þeim sem til þekkja að þar skilji að himinn og haf. Hið sama gildir víst um blessaðar fóstrurnar sem urðu að leikskólakennurum vegna þess að enginn gat borið virðingu fyrir fóstru og strákar gátu ekki borið það starfsheiti. Um leið og nafnbreytingin varð skilst mér að launabaráttan hafi tekið stökk fram á við. En mikið sakna ég fóstrunnar. Hún var nefnilega sú sem tók á móti barninu mínu með hlýju og beið tilbúin að umvefja það umhyggju meðan leikskólakennarinn stendur strangur með kladdann og skammar litla hnoðra sem leyfa sér að mæta of seint í leikskólann. Mikið lifandis býsn er þetta óaðlaðandi orð og af hverju þurfa svona leiðindaorð alltaf að vera miklu lengri og óþjálli en hin sem þau koma í staðinn fyrir? Ég sé ekki að nokkur karlmaður þurfi að skammast sín fyrir að vera fóstri ekki frekar en flugþjónn. Undarlegt að flugfreyjurnar hafi ekki þurft að skipta um nafn og heita flugöryggisþjónar til að njóta virðingar samborgaranna. En þetta er orðhengilsháttur og ég verð að viðurkenna að hann á einstaklega vel við mig.  

Haustlægðarblús

Fyrsta almennilega haustlægðin gengur yfir landið og sumir hrista sig hraustlega og segjast aldrei láta veðrið hafa áhrif á sig. Ég er ekki svo stálheppin. Veðrið hefur mjög mikið að segja um hvernig mér líður. Stillt og bjart veður eykur mér orku og kraft og dimmviðri dregur úr mér. Haustlægðir eru fínar svo lengi sem ég get verið heima, kúrt mig undir sæng með góða bók og hlustað á regnið bylja á þekjunni. Ég þarf hins vegar að koma mér á fætur, dragnast út með hundinn og í vinnuna. Regnið og stormurinn missir einhvern veginn sjarmann þegar þannig er ástatt.

Niðrandi orð og skrauthvörf

Ég hef áður gert að umtalsefni hér á blogginu hvað það fer í taugarnar á mér þegar pólitísk rétthugsun fer að ná til orða og hreinsa þarf málið af einhverjum orðum vegna þess að þau eru ekki nægilega virðuleg. Ég hef þá trú að við eigum að kalla hlutina sínum réttu nöfnum og það er ekkert ljótt við raunveruleikann. Jóna Á. Gísladóttur fær komment á bloggið sitt vegna þess að hún kallar son sinn þann einhverfa. Drengurinn er einhverfur og hún er ekki á nokkurn hátt að gera lítið úr honum með því að þessu móti. Ef einhver mér nákominn væri blindur eða haltur þætti mér ekkert ljótt við að tala um þann halta eða þann blinda. Við systur kölluðum föður okkar stundum stafkarlinn eftir að hann fór að ganga við staf. Við kölluðum hann líka Pollýönnu því hann var bölsýnasti maður sem við höfðum kynnst. Hvorugt var meint á niðrandi hátt. Ég hef aldrei skilið þessa viðkvæmni fyrir fötlun. Fólk er svona eða hinssegin og fötlun er eitt af fjölmörgum litbrigðum lífsins hvort sem menn eru eineygðir, geðveikir, haltir eða í hjólastól. Við þurfum ekki að ganga á tánum í kringum þá sem þannig er ástatt um og hvísla hvert að öðru: Hann er blindur. Blinda er hluti af manninum rétt eins og nefið, eyrun eða hendurnar og jafnsjálfsagt að tala um hana og handastærðina. Mér finnst reyndar meira niðrandi að segja sá nefstóri eða maðurinn með tröllahendurnar en að segja sá blindi en það er önnur saga.

Bibba á Brávallagötunni hress og kát

Bibba á Brávallagötunni á það til að skjóta upp kollinum hjá besta fólki en sumir eru með þeim ósköpum gerðir að gerðir að allt kemur öfugt út úr þeim. Við sátum í afmæli litlu fallegu frændanna minna og rifjuðum upp nokkur dæmi um svona viðsnúning sem við höfðum heyrt. Hér koma nokkur þau bestu: Það var sama hvað ég reyndi mér tókst aldrei að koma vitinu undir hann. Við urðum að klóra í bakkafullan lækinn. Þegar ein báran rís er önnur stök. Ég fékk þetta ekki fyrr en eftir djúpan disk.

Þessi hér þarfnast engra skýringa en hins vegar verður að segja söguna af því þegar þekkt útvarpskona frétti af því að maður nokkur hafði tapað veskinu sínu niður í bæ og í því var kaupið hans allt. Hún vildi hjálpa manninum og biðja skilvísan finnanda að skila því. Þegar hún hafði lokið því ákalli sagði hún: „Hugsið ykkur bara að tapa ærunni svona rétt fyrir jólin.“


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband