Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Gargandi snilldarlaust í morgunsárið

Að venju brugðum við Freyja okkur niður í Kópvogsdal í morgun. Við vorum fremur árla á ferðinni og enginn annar sjáanlegur í dalnum. Ég hætti því á að losa tíkina og leyfa henni að hlaupa ögn um. Hún var frelsinu fegin og ég gekk af stað niðursokkin í hugsanir. Skyndilega heyrði ég skvamp og gæsahópur flaug upp með slíku og þvílíku gargi að aðeins mjög heyrnardaufir Kópavogsbúar og Garðbæingar hafa náð að ljúka morgunblundinum undir þessari tónlist. Ég kom böndum á kvikindið hið snarasta, setti hausinn undir mig og forðaði mér með friðarspillinn eins hratt og ég gat. Hver veit nema morgunfúlir hefðu gripið til vopna, menn hafa nú verið skotnir fyrir minna í Bandaríkjunum.


Hundum og hröfnum að leik

Í hverfinu mínu býr töluvert af eldri borgurum og það er auðfundið að þeim er vel við hrafninn. Raðhúsin sem ég geng framhjá með tíkina á hverjum morgni eru stundum þakin þessum svörtu tígullegu fuglum og ég hafði ákaflega gaman af þessu þangað til ég uppgötvaði að þarna var hængur á. Fólkið setur nefnilega út mat handa vinunum sínum svörtu og tíkin mín er ekki lengi að finna birgðirnar. Ég hef ekki tölu yfir þá morgna sem ég stend í versta basli við draga hana burtu frá eplum, brauðmolum og ýmsu sem henni finnst sér bera skylda til að smakka líklega af tómri illkvittni því hún leggur sér venjulega ekki slíkt ómeti til munns. Í morgun var hún hins vegar svo heppin að finna stórt bein með þónokkrum kjöttægjum á. Mér fannst það ekki kræsilegt en tíkin bar þetta hróðug í munninum heim. Nokkrum sinnum reyndi ég að ná því af henni en uppskar ekki annað en urr og flótta.

Meistarar í ambögusmíð

Ég hef ákaflega gaman af ambögum. Hér má sjá nokkrar óborganlegar:

Þessi peysa er mjög lauslát.
Þau eiga þvílíka myllu, lifa eins og greifingjar og leika á alls eggi. (Geri aðrir betur.)

Hann sló tvær flugur í sama höfuðið.

 ...þarna hefði ég sko viljað vera dauð fluga á vegg.
Ég sá svo sætan strák að ég fór alveg fram hjá mér.
Ég er svo þreyttur að ég henti mér undir rúm.

Hann sat bara eftir með súrt eplið.
Og, nú, góðir farþegar, er einmitt fengitími melóna.
Ég hreinlega vissi ekki í hvorn fótinn ég ætti að setjast.
Hann barasta kom eins og skrattinn úr heiðskíru lofti.
Þar stóð hundurinn í kúnni. (Þar lá hundurinn grafinn. Þar stóð nífurinn í kúnni.)

Maður fer í bæinn til að sjá sig og sýna aðra.

Svo handflettir maður rjúpurnar...
Já, fólk núorðið er svo loðið á milli lappanna.
Þetta er ekki upp í köttinn á Nesi.
Betur sjá eyru en auga
Ég er alveg stein vöknuð!(eftir að hafa verið stein sofandi)
Ég er eitthvað svo sunnan við mig (sagt á Akureyri)
Það er ég sem ríð rækjum hér(að ráða ríkjum)
Ég er búinn að vera andvana í alla nótt
Róm var ekki reist á hverjum degi!( Sagði maður á Akureyri)

Vinsamlegast beinhreinsið vínberin (í jólauppskrift)
Lærin lengjast sem lifa (maður lærir svo lengi sem maður lifir)

Svo lengist lærið sem lífið (frá Akureyri)


Hver á nú að leggja línurnar?

Það er sjónarsviptir að Birni Inga í pólitíkinni því leitun er að betur klæddum manni á flokkslistum allra flokka. Hver á nú að leggja línurnar í tískunni og skapa trendin? Já, maður bara spyr sig.
mbl.is Björn Ingi hættir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öll dýrin í skóginum eru vinir

Mikið er ég ánægð með borgarstjórnina okkar. Þarna ríkir jöfnuður og eining umfram allt það sem fyrr hefur sést í íslenskum stjórnmálum. Þessar elskur ætla að skipta um meirihluta og hrókera fram og til baka allt kjörtímabilið þangað til allir hafa fengið að prófa borgarstjórastólinn. Þetta er einmitt það sem við erum alltaf að reyna að kenna börnunum okkur, að leyfa öllum að vera með og prófa líka. Já, öll dýrin í skóginum eru vinir.

Nú er frost á Fróni

Í morgun fór ég með Freyju út að Gróttu. Við gengum út í eyju og skoðuðum okkur um í fjörunni og ég fann lítinn fallegan hörpudisk og fjóra gula kuðunga. Það var svo einstaklega gott veður. Snæfellsjökull út við sjóndeildarhring, snjór og sól. Reyndar var skítkalt en ég var vel búin svo það gerði ekkert til. Vetrarfegurð eins og hún gerist best. Við gengum úr fjörunni niður að fiskhjalli sem þarna er. Þar fyrir neðan er manngerður bolli í stein og í honum heitt vatn. Ég veit ekki hvort þetta er hugsað fyrir göngufólk til að hlýja kaldar hendur eða hvað en þetta er skemmtileg viðbót við annað þarna. Um það bil tuttugu endur voru á sundi á litlum polli þarna fyrir neðan og þeim brá illa við þegar friðarspillirinn Freyja birtist með glæfralegt glott á vör og skottið titrandi af veiðihug. Þær syntu gargandi út að ystu brún pollsins en þegar þær áttuðu sig á því að ógnvaldurinn var í bandi róuðust þær. Allt í kring var fólk á gangi með börn, hunda, á gönguskíðum eða í stórum hópum. Loftið var svo hreint og hressandi að við snerum heim endurnærðar og fullar orku.

Litbaugur á tungli

Í kvöld er litbaugur á tunglinu. Ég hélt fyrst að þetta væri rosabaugur en þegar ég fletti því upp kom í ljós að rosabaugarnir eru lengra frá tunglinu og litur þeirra er eingöngu hvítur. Engu að síður fannst mér þetta merkilegt og fallegt að sjá. Rosabaugar eiga samkvæmt hjátrúnni að vera fyrir einhverju, að ég held einhverjum ósköpum en ég veit ekki hvort litbaugarnir boða eitthvað. Kíkiði út um gluggann ef þið hafið ekki tekið eftir þessu nú þegar.

Munurinn á að ganga og sitja

Í Fréttablaðinu á mánudag var lítill fréttamoli fyrir neðan mynd af manni mjög svo uppteknum við að veiða sér fisk gegnum vök á Moskvuánni. Fyrir neðan myndina stóð: Þessi maður sat í hægðum sínum ... Ég veit ekki með ykkur en mér finnst þetta frekar ósmekklegt orðalag. Mér finnst fólk geta gengið í hægðum sínum milli staða en að sitja í þeim er ansi sóðalegt.

Hremmingar á sólbaðsstofu

Ég minntist lauslega á það hér í fyrri færslu að ég er fremur seinheppin. Mér flaug í hug annað dæmi um það núna í morgun og ákvað að deila því með ykkur. Ég var á þrítugsaldri þegar þetta var og sólbaðsstofur voru nýkomnar í tísku. Ég vildi reyna að fá hraustlegan brúnan lit eins og vinkonur mínar og keypti mér því ljósatíma og mætti samviskusamlega í bekkinn. Einhvern tíma sköpuðust umræður um þetta okkar í milli og ég sagðist ævinlega vera í nærfötunum þegar ég færi í bekkinn. Ein vinkonan átti ekki orð yfir þá goðgá og sagði að úr þeim skyldi ég til að fá jafnan brúnan lit um allan kroppinn. Í næsta skipti reyndi ég þetta og þá vildi ekki betur til en svo að rafmagnið fór af sólbaðsstofunni. Það næsta sem ég heyri er að einhver kallar: „Stína, hringdu í rafvirkjann, hann verður að koma strax og redda þessu.“ Og þarna lá ég allsnakin í bekknum og gat ekki lyft honum sökum rafmagnsleysis. Skelfingin hríslaðist um mig og ég hugsaði: Ég ætla ekki að láta helv. rafvirkjann koma að mér hérna allsberri. Ég tróð mér því út úr bekknum og sleit næstum af mér annað brjóstið í atganginum en út komst ég og í fötin. Nokkrum mínútum seinna lauk rafvirkinn við viðgerðina í rafmagnstöflunni langt fjarri sólbaðklefa mínum. Ég snautaði út og hef ekki sótt sólbaðsstofur síðan.

Það var og ...

Vog: Það býr til vandamál úr engu með því að spyrja of margra spurninga eða koma með of margar athugasemdir. Takmarkaðu þig við það sem nausynlega þarf að segja til að leysa málin, það er einfaldast og best.

Þetta er stjörnuspáin mín í dag. Gersamlega óskiljanleg. Hvaða Það er þetta sem býr til vandamál úr engu með því að spyrja of margra spurninga? Er ég í hvorukyni vegna þess að ég fæddist í vogarmerkinu? Er það málið? Og hvaða orðskrípi er nausynlega?


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband